Laugardagur 02.06.2012 - 22:35 - FB ummæli ()

Peningavaldið

Kreppan í dag snýst um skort á peningum. Það er nægjanlegt vinnuafl og meira að segja margir án atvinnu. Hráefni er yfirleitt ekki hindrun á framleiðslu. Tækni, kunnátta eða vélakostur er til staðar. Það sem skortir eru peningar. Það eina sem breytist í aðdraganda kreppu er minnkun á magni peninga. Árið 2008 var orðatiltækið að ”lánalínur þornuðu upp” einn algengasti frasinn og aðrir svipaðir sem lýsa vel þessum skorti á peningum.

Til að ríkisstjórnir geti framfleytt sér þurfa þær skatttekjur og síðan að auki lán frá bönkum eða öðrum lánadrottnum. Lánin kallast ríkisskuldabréf en eru bara venjuleg lán í sjálfu sér. Þessi lán og vaxtarbyrðin af þeim veldur því að ríkisstjórnir þurfa alltaf að taka meiri lán til að framfleyta sér.

Bankar búa til 97% af öllum peningum og bankar eru einkafyrirtæki. Allur peningur er búinn til sem skuld. Bönkum er í sjálfsvald sett hverjum þeir lána peninga(búa til peninga) og á hvaða kjörum. Þess vegna stjórna þeir ríkisstjórnum og okkur  vegna einkaleyfis síns á peningamyndun.

Eina leiðin fyrir okkur til að fá peninga er að taka þá að láni og þar með eykst skuldin því peningar eru búnir til sem skuld. Það ætti að vera nokkuð ljóst að það borgar sig ekki á neinn hátt fyrir almenning að eftirláta einkafyrirtækjum að framleiða peningana sem skuld, það er einfaldlega allt of dýrt fyrir okkur, við höfum ekki efni á því. Þar að auki skerðir það völd kjörinna fulltrúa okkar sem við kjósum til að stjórna. Þegar bankarnir krefjast hærri vaxta á ríkisskuldabréfum, t.d. til Grikkja þá setja þeir allt í uppnám og núna er röðin komin að Spánverjum. Ábyrgðin er einfaldlega of mikil til þess að við getum leyft duttlungum gróðahyggjunnar að framleiða peninga.

Hið opinbera getur ef það vill framleitt alla peninga án kostnaðar fyrir almenning. Það þarf bara að semja ný lög sem kveða svo á um. Þar sem bankarnir framleiða peninga sem skuld aukast skuldir okkar í sífellu. En ef við framleiddum þá án skuldsettningar myndi skuldabáknið minnka. Það heitir að fjármagnskostnaður færi nánast niður í núll. Þetta er raunhæf leið út úr bankakreppunni sem nú geysar. Auk þess myndi almenningur endurheimta valdið í samfélaginu því að sá sem fremleiðir peningana og stjórnar magni þeirra á hverjum tíma, hann stjórnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur