Fimmtudagur 14.06.2012 - 19:46 - FB ummæli ()

Að berja höfðinu við ESB steininn – tímabundið…

Jóhanna forsætisráðherra hefur óbilandi trú á ESB og evrunni þrátt fyrir þau vandamál sem herja á lönd innan ESB. Bjartsýni er sjaldan löstur. Hún og trúsystkini hennar telja að ef íslenska krónan yrði fjarlægð og evran sett  í hennar stað þá myndi flest allt breytast til betri vegar.

Því miður þá er þetta merki um vanþekkingu á því sem er að gerast innan ESB. Það sem er að gerast er að ríkisstjórnir verða að fjármagna sig með lánum frá einkabönkum. Þær gera það með sölu ríkisskuldabréfa. Þar sem það verð, sem einkabankarnir krefjast fyrir að lána þjóðríkjum er orðið svo hátt, þá neyðast þau til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og systurfélaga hans, ESB og Seðlabanka Evrópu. Samkvæmt sáttmálum ESB þá má SBE ekki lána þjóðríkjum peninga. SBE má bara lána einkabönkum peninga. Þetta er meginvandmálið. Ef ríkin hefðu getað fjármagnað sig beint frá SBE með ódýrum lánum hefði verið hægur vandi að taka á vandamálunum með allt öðrum hætti og á betri veg fyrir allan almenning.

Það er augljóst að enginn vilji er innan ESB að breyta lánareglum SBE til hagsbótar fyrir almenning. Það sem stjórnendur ESB vilja er að leysa þennan tilbúna vanda með því að leggja miklar skuldir á herðar almennra skattgreiðenda. Skulda sem til er stofnað til að fjármagna einkabanka. Auk þess tala forystumenn innan ESB á þann hátt að það sé nánast holl lexía að fara í gegnum þær hörmungar sem almenningi er boðið upp á, s.s. atvinnuleysi, eignamissi og svæsinn niðurskurð á velferðakerfinu.

Annað sem einkennir kröfur forystumanna ESB er óskin um að almennir launamenn innan ESB verði samkeppnisfærir á markaði og er þá tekið mið af þeim sem minnst bera úr bítum. Krafan um launalækkanir og afnám réttinda er hávær og er ekkert annað en árás á kjör sem tók áratugi að byggja upp.

Forysta ESB er í vinnu hjá ríkasta 1%-inu og þess vegna er Evrópusambandinu beitt eins og hverju öðru verkfæri til að brjóta þann samfélagssáttmála sem er til staðar innan ESB. Ef fram heldur sem horfir, þegar Spánn, Ítalía, Frakkland og Þýskaland eru komin undir stjórn þríeykisins og allar sameiginlegar eigur þjóðríkjanna seldar á brunaútsölu  mun Norræna velferðamódelið verða minningar einar. Norður og vestur Evrópa er síðasta vígi þess samfélagssáttmála sem við höfum gengið að sem vísum en í dag er verið að leggja hann niður af fjármálaöflunum með aðstoð stofnana ESB

Að félagsmála-Jóhanna sé í krossferð með þríeykinu gegn almennningi í ESB er í raun stílbrot en lýsir því miður algjörri blindu á þann raunveruleika sem blasir við okkur. Ég vænti og bind vonir við að um tímabundið ástand sé að ræða hjá henni…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur