Föstudagur 15.06.2012 - 20:51 - FB ummæli ()

Evrópsk hugsjón og Grikkir

Grikkir ganga að kjörborðinu á sunnudaginn, 17. júní. Það er mikill kvíði tengdur niðurstöðum kosninganna. Þríeykið(ESB/AGS/SBE) óttast að ný ríkisstjórn í Grikklandi muni hafna þeirri leið sem þau hafa markað fyrir Grikki. Almenningur í Grikklandi er einnig kvíðinn því kjör hans hafa versnað mjög og eru líkleg til að versna. Ástæðan er sú að leið þríeykisins mun leiða til verri kjara. Ef almenningur kýs að hafna leið þríeykisins og tefla fram rétti sjálfstæðs þjóðríkis til að vernda þegna sína frekar en hagsmunum alþjóðafjármagnsins, þá liggur í loftinu að mjög hörð viðbrögð verða gegn slíkri stefnu. Þær stofnanir sem tala máli alþjóðafjármagnsins, ESB og AGS, hóta lítilli þjóð öllu illu ef ekki verður farið að vilja þeirra.

Það er ekki auðvelt fyrir kjósendur í Grikklandi að kjósa undir slíkum hótunum. Reyndar voru svipaðar hótanir settar fram í tenglsum við Icesave málið en munurinn er sá að við Íslendingar áttum þó til hnífs og skeiðar og gengum að heilbrigðis- og félagskefinu okkar nær ósködduðu. Það á ekki það sama við um Grikki því þar eru margir heimilslausir, svangir og eiga ekki tryggt skjól þegar heilsan brestur.

Vitandi að hluti skulda sem Grikkjum er ætlað að greiða eru ólöglegar, jafnvel til komnar með tilhlutan af mútufé þýskra fyrirtækja, skuldir sem komu til af spillingu, skuldir sem tengjast spákaupmennsku, skuldir sem hafa ekki nein bein tengsl við grískan efnahag eða uppbyggingu til hagsbótar fyrir grískan almenning, þá er það sérkennileg mannúð að telja sér trú um að ekkert sé sjálfsagðara en að grískur almenningur greiði þær þegjandi og hljóðalaust. Að réttlæta slíka skoðun með því að halda því fram að gríska þjóðin sé annars eða þriðja flokks þjóð og eigi ekkert betra skilið er ekkert annað en rasismi, kynþáttahyggja af verstu sort. Það er auk þess augljóst af umræðunni að klifað er á þessum frumstæðu hvötum og jákvæð svörun virðist ekki láta standa á sér hjá mörgum og jafnvel blaðamönnum/fréttastofum sem ættu að vera hafnir yfir slíkar vangaveltur. ”Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum” er setning sem vel á við í þessu samhengi.

Allir menn sem aðhyllast mannúð og réttlæti hljóta að velta því fyrir sér hvort að einhver óskilgreindur skuldapakki skuli greiða með öllum tiltækum ráðum án tillits til afleiðinga fyrir grískan almenning. Við Íslendingar höfnuðum þeirri röksemd í Icesave málinu. Sök Íslendinga var flatskjárkaup, sök Grikkja er af svipuðum toga en ekki er dregin fram sök lánadrottna sem er líka mikil.

Það er mikið í húfi á þjóðahátíðardegi okkar Íslendinga því ef Grikkir stöðva framgang kröfunnar um sjálfvirka greiðslu skattgreiðenda á skuldum banka þá er von fyrir þá Evrópu sem við þekkjum og teljum æskilega. Ef ekki mun Spánn-Ítalía-Frakkland og að lokum Þýskaland falla og Norðurlöndin með. Grikkir eru því ekki eingöngu að kjósa fyrir sig heldur allan almenning í Evrópu og að ”integration” geti orðið í Evrópu á forsendum almennings en ekki fjármagnsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur