Miðvikudagur 23.01.2013 - 18:52 - FB ummæli ()

Skuldafjötrar eða Dögun

Það er þannig að þegar maður er ríkur og vel staðsettur í þjóðfélaginu þá þarf maður ekki að hrópa til að fá vilja sínum framgengt. Nokkur símtöl og málið er leyst. Gagnvart þessu afli stendur almenningur sem virðist ekki geta sameinast um nokkurn skapaðan hlut. Eina leiðin til að brjóta á bak aftur vald sérhagsmunahópanna í íslensku þjóðfélagi er að almenningur sameinist sem einn maður. Það virðist all nokkur spölur í að það takist.

Sundruð þjóð ætti þó að vita það á þessum tímapunkti að það er fullreynt að treysta fjórflokknum fyrir atkvæðum sínum. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar og loforð þá hefur flest allt verið svikið. Bönkum og fjármagnseigendum hefur verið bjargað á kostnað almennings og velferðakerfinu rústað. Hugsanlegt greiðsluþrot íslenska ríkisins blasir við á næstu árum. Þessum ”árangri” verður pakkað ínn í gjafaumbúðir og síðan seldur íslenskri alþýðu í krafti fjármagns.

Meðan skuldastaða Íslands var ekki jafn afleit skipti það minna máli hvernig kjósendur kusu. Í næstu Alþingiskosningum er mun meira í húfi. Ef illa tekst til með snjóhengju og gjadleyrishöft eða uppgjör við lánadrottna er hætta á því að Ísland lendi í skuldaánauð. Þá verðum við meðhöndlaðir eins og Grikkir, allt sem þjóðin á verður selt hæstbjóðenda. Þá verðum við þjóð án auðlinda.

Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem mun bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Liðsmenn Dögunnar eru vel meðvitaðir um stöðu þessara mála. Endursemja þarf um skuldir þjóðarinnar, setja bremsu á útstreymi fjármagns með sköttum og/eða taka upp nýkrónu. Forða verður þjóðinni frá því að lenda enn dýpra í skuldafeninu því hún mun missa sjálfstæði sitt ef lánadrottnar ráða hér öllu. Við í Dögun reynum að höfða til skynsemi þjóðarinnar og vonandi tekst það því við þurfum verulegt fylgi til að koma áhersluatriðum okkar áfram. Ef ekki þá verður Ísland enn ein endurtekningin í skuldasögu heimsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur