Mánudagur 29.04.2013 - 21:55 - FB ummæli ()

Bakþankar

Var að hugsa um að blogga eina sjálfhverfa besservissera bloggfærslu, svona eina óþolandi.

Þegar ég segi fjórflokkinn þá er Björt Framtíð inní því mengi því ég tel hana bara vera skúffu fyrir óánægða Samfylkingarmenn.

Kosningaúrslitin núna eru sigur fortíðarinnar og ósigur nýju smáflokkanna. Reyndar sluppu Píratar inn fyrir girðingu og var það vel. Píratar nutu þess að komast snemma yfir 5% þröskuldinn í skoðanakönnunum og fengu þess vegna meiri umfjöllun en aðrir nýir flokkar. Að sama skapi hurfu önnur ný framboð í flokkinn ”aðrir” og urðu því lítt áberandi. Skoðanakannanir eru mjög skoðanamyndandi og ætti að banna þær nokkrum vikum fyrir kjördag. Annað sem gerir skoðanakannanir ákaflega leiðinlegar er að blaðamenn ræða þær út í það óendanlega í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum og öll viti borin stjórnmálaumræða hverfur.

Sú hugmynd fæddist snemma í Búsáhaldarbyltingunni að stemma þyrfti stigu við valdi spillts fjórflokks. Til að framkvæma það án blóðsúthellinga og með lýðræðislegum aðferðum yrðu menn að komast til valda eftir núverandi kosningakerfi. Þar sem 5% þröskuldurinn hefur mikil áhrif í bland með skoðanamyndandi skoðanakönnunum þá væri best að allir sameinuðust, amk væri best að hafa bara eitt slíkt framboð til að safna atkvæðunum í einn pott. Síðan næði slíkt framboð völdum og afnæmi 5% regluna og þá gætu allir boðið fram í litlum framboðum næst. Borgarahreyfingin var m.a. stofnuð í þessum tilgangi á sínum tíma.

Viss biðstaða varð síðan í kjölfarið eftir myndun fyrstu hreinu vinstri stjórnar Íslands með góðan meirihluta á Alþingi auk búnka af kosningaloforðum. Liðlega ári eftir þá valdatöku varð það ljóst að vinstri stjórnin var akkúrat engin ógn við auðvaldið í landinu og henti borgurum landsins fyrir ljónin eins og ekkert væri. Þar með hófust á ný umræður um nýtt sameiginlegt framboð til höfuðs fjórflokknum.

Stofnaður var samráðshópur sem gekk undir vinnuheitinu Breiðfylkingin. Reynt var að bjóða öllum sem unnið höfðu í grasrótinni. Eftir nokkra mánaða vinnu fæddist Dögun í mars 2012. Því miður vildi Lilja Mósesdóttir ekki vera með og stofnaði Samstöðu. Sá flokkur bauð síðan aldrei til þings. Birgitta hætti með okkur í Dögun og tók þátt í stofnun á flokki Pírata. Lýður Árnason var lengi með okkur í Dögun en þegar einsýnt var að Þorvaldur Gylfason ætti ekki samleið með okkur  þá hætti Lýður og stofnaði Lýðræðisvaktina fyrir Þorvald. Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá vildi  Þorvaldur ekki afnema verðtrygginguna en það var hluti af kjarnastefnu Dögunar og því ekki nein verslunarvara af okkar hálfu.

Síðan kom Presturinn úr Holti sem vildi bjarga heimilunum. Þrátt fyrir að Dögun hafði það sem meginþema og þrír af oddvitum Dögunar hafa verið fyrrverandi stjórnarmeðlimir í Hagsmunasamtökum heimilanna þá sá hann ekki ástæðu til að vinna með okkur. Sturla Jónasson vildi einnig dreifa atkvæðunum með sínu framboði þrátt fyrir að vera ötull baráttumaður skuldugra heimila. Húmanistar og Regnboginn vildu líka vera sér.

Albaníu Valdi stofnaði síðan Alþýðufylkinguna. Þar sem hann rak hreinustu vinstri stefnuna í þessum kosningum hefði ég talið hann góðan kost fyrir sanntrúaða vinstri menn. Sérstaklega eftir að Samfylkingin og Vinstri grænir eru búnir að sanna það í eitt skipti fyrir öll að þeir eru vinir auðvaldsins.

Alveg fram í rauðan dauðann reyndi Dögun að sameina öll þessi atkvæði en allt kom fyrir ekki, menn vildu endilega bjóða fram klofið.

Hvað um það svona er þetta og svona fór þetta. Eftir stendur fjórflokkurinn óhaggaður og þessi atlaga mistókst. Það sem er mikilvægast er að gera sér grein fyrir að svona vildu kjósendur hafa þetta. Ef mikill vilji hefði verið meðal kjósenda að breyta þá hefðu þeir kosið á annan hátt. Ef eingöngu hefði verið einn flokkur í framboði gegn fjórflokknum og allir fyrrnefndir aðilar unnið saman er aldrei að vita hvað hefði getað gerst, kannski 10-20% flokkur, hver veit.

Það sem er aftur á móti ljóst er að kosningarnar núna eru enn ein staðfestingin á því sem gerst hefur margsinnis áður. Það verður ekki bylting meðan kjósendur eru saddir.

Eftir sem áður ber ég enga ábyrgð, því ég hef aldrei kosið ríkisstjórn á Íslandi og er þess vegna hér eftir sem áður stikkfrí, ykkar er völlurinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur