Föstudagur 14.11.2014 - 22:22 - FB ummæli ()

Afrakstur auðlinda og skattaskjól

Starfsemi skattaskjóla hefur aukist mikið liðna áratugi. Skattaskjól hafa dreift úr sér um allan heim eins og hvert annað krabbamein. Þar fela einstaklingar og fyrirtæki ríkidæmi sitt og komast hjá því að greiða skatta. Þess vegna eykst skattbyrði þeirra sem eftir sitja og standa straum að rekstri samfélagsins. Að skjóta undan er glæpur gagnvart þeim sem borga.

Því hefur verið haldið fram að stórfyrirtæki sem starfa í Afríku sendi mest allan afraksturinn til skattaskjóla. Ef ríkisstjórnir í Afríku myndu eingöngu skattleggja þetta fjármagn með 30% skatti yrði heimsálfan Afríka skuldlaus og gæti seinna meir farið að senda peninga til að hjálpa fátækum Evrópubúum. Afríka er svo auðug af auðlindum að það hlýtur að vera heimsmet í heilaþvotti að allir trúa því að hún sé fátæk án þess að arðrán komi þar við sögu.

Er hugsanlegt að Ísland sé á pari við Afríku, erum við arðrænd? Eru íslenskir aðilar, fyrirtæki að senda skattskyldan pening til skattaskjóla? Þessu er hugsanlega hægt að fá svar við ef skattrannsóknarstjóri á Íslandi gæti keypt slíkar upplýsingar. Þessar upplýsingar eru til sölu hjá erlendum rannsóknarblaðamönnum. Þjóðverjar hafa keypt þessar upplýsingar og hagnast vel á því. Fjármálaráðherra okkar Bjarni Ben hefur ekki ennþá gefið grænt ljós á slíkt. Þess vegna vill Dögun leggja sitt af mörkum og nota hluta af því fjármagni sem það fær frá hinu opinbera til að styrkja hið opinbera, þ.e. skattrannsónarstjóra til að kaupa þessar upplýsingar.

 

Áramótaheit Dögunar

Áramótaheit Dögunar – Samþykkt landsfundar 8. nóvember 2014.

 

Skorað er á Alþingi að tryggja að fyrningarfrestir í málum sem snúa að skattaundanskotum til aflandsfélaga og skattaskjóla verði lengdir eins og þörf er, hluti mögulegra brota fyrnist um áramót 2014-2015 að óbreyttu.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, gefa hér með íslensku þjóðinni eftirfarandi áramótaheit:

 

Íslenska ríkinu/Alþingi er heimilt að veita  allt að 1/10 af framlagi ríkisins árið 2015, sem ætlað er að renni til starfsemi stjórnmálasamtakanna Dögunar, til embættis Skattrannsóknarstjóra, til kaupa á gögnum um fjármuni í erlendum skattaskjólum.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, skorar hér með á önnur stjórnmálasamtök eða flokka að taka þátt í þessu átaki og bjóða slíkt hið sama.

 

Formenn allra stjórnmálasamtaka og flokka sem fá framlag frá íslenska ríkinu fá senda þessa áskorun í ábyrgðarpósti. Dögun mun birta svörin jafnóðum og þau berast.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, býðst einnig til að halda utan um sjóð frjálsra fjárframlaga einstaklinga, lögaðila og fyrirtækja til að kaupa gögn um fjármuni í erlendum skattaskjólum. Þau framlög verða endurgreidd ef ekki reynist þörf fyrir þau eða gefin áfram samkvæmt beiðni gefanda.

 

Reikningurinn er hjá Sparisjóði strandamanna og er númer 1161-05-250244 á kennitölu Dögunar, 670209-1050.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur