Mánudagur 01.06.2015 - 19:17 - FB ummæli ()

”ég tala ekki við stelpur”

Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli. Aðferð viðsemjanda í kjaraviðræðunum er ábyrgðarlaus því mikilvægara er að knésetja stéttina en að tryggja landsmönnum góða þjónustu. Fyrst er ein mikilvægasta starfsstétt landsins ”dissuð”. Við tölum ekki við ykkur fyrr en búið er að semja við launamenn á almenna markaðnum. Þetta er ekki bara rangt heldur glæpur gagnvart notendum heilbrigðisþjónustunnar þ.e. að láta þá bíða meðan eitthvað PR stríð er í gangi.

Þegar samið hafði verið við almenna markaðinn þá kemur ríkið með tilboð til hjúkrunarfræðinga sem þeir vissu að yrði hafnað og viðræðum var slitið, að sjálfsögðu. Sjálfsagt var það hluti af planinu.

Núna er hótað lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga.

Þegar ég var fimm ára svaraði ég nágrannastelpu sem vildi leika við mig að ég talaði ekki við stelpur. Það tók mig reyndar ekki nema nokkrar klukkustundur að skipta um skoðun. Síðan þá hef ég unnið með hjúkrunarfræðingum í áratugi sem eru flestar kvenkyns. Ég veit að stétt hjúkrunarfræðinga er ein af mikilvægustu stéttum landsins. Hægt væri að skrifa mikið um fórnfúst starf þeirra til að halda kerfinu gangandi og sértstaklega eftir hrunið 2008 sem núverandi ríkisstjórnaflokkar lögðu grunninn að á sínum tíma.

Sem fimm ára gutta tel ég að mér hafi verið vorkunn en að hið opinbera sé á sama stað og ég var fimm ára er ótækt.

Hið opinbera verður að taka sig taki. Menn verða að setjast niður og koma með tilboð sem leiðir til samnings. Flestir landsmenn vilja að hjúkrunarfræðingar fái góðan samning sem fyrst svo heilbrigðiskerfið fari að virka. Hjúkrunarfræðingar hafa flestir unnið á Norðurlöndum í einhvern tíma á starfsferli sínum og skortur er þar á hjúkrunarfræðingum og því hætta á að þeir flytji héðan. Það er óásættanleg hegðun hjá ríkinu að lengja verkfall hjúkrunarfræðinga að nauðsynjalausu og þar með stuðla að niðurbroti heilbrigðiskerfis sem nú þegar er illa farið eftir niðurskurð liðinna áratuga.

NursesMakeDifferences

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur