Fimmtudagur 19.11.2015 - 17:07 - FB ummæli ()

Frammistaða einkarekinnar heilsugæslu í Svíþjóð

Oddný G. Harðardóttir segir frá því í bloggi sínu að núna sé að hefjast einkavæðing á heilsugæslunni  á höfðuborgarsvæðinu. Talsmenn þess telja einkarekið kerfi betra og benda m.a. á reynslu Svía. Ríkisendurskoðun Svía tók út kerfið og skilaði skýrslu fyrir ári síðan. Niðurstöðurnar eru einkarekstrinum ekki hagstæðar.

Það gengur betur að ná sambandi við heilsugæsluna í dag en áður en ekki eru tengsl við einkavæðinguna því þessi breyting var komin áður. Heilsugæslustöðvum hefur fjölgað en aðallega í þéttbýli þar sem betur stæðir, betur menntaðir íbúar búa og hafa oftast einfaldari vandamál. Á þessum stöðvum eru oftar færri sjúklingar á lækni og því auðveldara að manna stöðvarnar með fastráðnum læknum og þjónustan því vinsælli.

Aftur á móti hefur heilsugæslustöðvum fækkað á svæðum þar sem íbúarnir eru veikari fyrir, þörfin meiri og lengra á heilsugæslustöð. Í Svíþjóð var lögum breytt á þann veg að það er nánast hægt að opna heilsugæslu hvar sem er án tillits til þarfa þ.e. markaðurinn stýrir en ekki nauðsyn eða siðfræðin.

Komum lítið veikra hefur fjölgað en komum veikari sjúklinga hefur fækkað. Enn á ný eru markaðsöflin að verki því greitt er fyrir komur og því er hagstæðara að afgreiða marga létta sjúklinga. Í raun telur maður að þetta ætti ekki að geta gerst en þetta sýnir úttektin.

Þessi úttekt og fleiri rannsóknir hafa sýnt það að einkarekin heilsugæsla er hvorki ódýrari né með meiri framleiðni.

Að markaðsvæða heilsugæsluna kom af stað togstreitu. Ríkisendurskoðun Svía bendir sérstaklega á að siðfræðileg rök fyrir forgangsröðun fara halloka fyrir kröfum markaðarins. Segja beinlínis að erfiðara sé að fylgja siðfræðilegum grundvelli laga um heilbrigðismál.

Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar Svía er lesin fær maður á tilfinninguna að betur hefði verið heima setið en að fara í þessa einkavæðingarferð. Núna þarf að betrumbæta gallana sem kostar sjálfsagt sitt.

Meirihluti Íslendinga og Svía vilja hafa heilsugæsluna hjá hinu opinbera. Fátt bendir til að einkarekið sé betra þegar það er rannsakað. Þess vegna er nauðsynlegt að standa gegn tilgangslausum breytingum í stað þess að byggja upp núverandi heilsugæslu með myndarskap. Við í Dögun stjórnamálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði höfum markað okkur skýra stefnu og erum á móti hagnaðardrifnum rekstri innan heilbrigðiskerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur