Laugardagur 12.03.2016 - 22:33 - FB ummæli ()

Einmana Stjórnarskrá og boltinn

Þegar íslensk valdastétt hafði skitið á sig haustið 2008 ákvað hluti hennar að sleppa stjórnarskránni út úr steinkassanum við Austurvöll. Almenningur tók henni vel og hófst handa við að betrumbæta hana. Mikið ferli fór í gang meðal almennings og mikil bjartsýni ríkti. Hinn hluti valdastéttarinnar vann hörðum höndum við að koma í veg fyrir allar breytingar á henni. Það tókst svo vel að stjórnarskrá Stjórnlagaráðs var lokuð inní steinkassanum við Austurvöll og á þann hátt tekin úr höndum almennings og þar er hún enn.

Það eitt að valdastéttin leggi á sig ómælda vinnu við að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá segir okkur að; það er eitthvað varið í nýja stjórnarskrá, að um mjög mikilvægt mál er að ræða, að við eigum að hafa mikinn áhuga á málinu, að ný stjórnarskrá gefur eitthvað mikið í aðra hönd fyrir almenning því valdastéttin rígheldur í gömlu stjórnarskrána.

Stjórnarskrá er ekki plagg sem sett er upp í hillu og rykfellur þar. Stjórnarskrá er lifandi plagg sem setur valdhöfum mörk og markar réttindi almennings gagnvart valdinu.

Valdastéttinni tókst að gera stóran hluta þjóðarinnar áhugalausan um nýja stjórnarskrá.

Hvers vegna blaðamenn landsins hafa ekki tekið málið upp á arma sína og veitt þjóðinni stuðning og leiðsögn veit ég ekki. Á meðan áhugi erlendra aðila hefur nánast verið óseðjandi þá hefur íslensk fjölmiðlastétt verið yfirdrifið hógvær. Kannski telja þeir það ekki hlutverk sitt að vera afgerandi í þessu máli. Aftur á móti er það ekki óþekkt að fjölmiðlar taka ýmis mál afgerandi upp á arma sína og fylgja þeim alla leið.

Meðvirkni blaðamanna gagnvart valdastéttinni gerði það að verkum að ný stjórnarskrá sem ætti að vera stórviðburður í lífi þjóðar hafnaði sem frétt á milli auglýsinga.

Þess vegna er boltinn hjá þjóðinni, það er eini aðilinn sem getur náð stjórnarskrárgerðinni út úr steinkassanum við Austurvöll. Til þess þarf órofa samstöðu almennings og mikla vinnu. Almenningur verður að gera sér grein fyrir því að með nýrri stjórnarskrá og auknum völdum almennings þá getur margt breyst í lífi Íslendinga til batnaðar.

 

  • Mikið aukið gagnsæi og auðveldara að fá upplýsingar úr kerfinu.
  • Náttúruvernd efld og hugtakið sjálfbærni sett inn.
  • Náttúran fær réttindi og okkur tryggð afnot af henni eins og vatninu.
  • Auðlindirnar tilheyra þjóðinni og við fáum fullt gjald við leigu.
  • Þjóðin fær möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum.
  • Jafnan rétt atkvæða.
  • Persónukjör í kosningum.
  • Alþingi mun geta skipað rannsóknarnefndir að eigin frumkvæði.
  • Skólaskylda án endurgjalds.
  • Og margt fleira.

 

Stjórnarskrá Stjórnlagaráðs er ekki fullkomin en er sú sem flestir Íslendingar segja að sé góð og dugi. Það kom glöggt fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Ef þú varst ósáttur við þá stjórnarskrá en mættir ekki á kjörstað í október 2012 get ég bara vottað þér samúð mína að þú nýttir þér ekki rétt þinn til að láta skoðun þina í ljós. Þess vegna er niðurstaðan sú að stór meirihluti vill þessa stjórnarskrá eða aðra byggða á henni og við það situr.

Á Íslandi á að vera lýðræði sem þýðir að valdið sé hjá þjóðinni. Þjóðin er búin að semja sína útgáfu af stjórnarskrá og samþykkja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir það er stjórnarskránni haldið í gíslingu í steinkassa við Austurvöll. Ef stjórnarskránni verður ekki sleppt út til almennings þá er ekki lýðræði á Íslandi. Forræðishyggja Alþingis er sjúklegt ástand. Því miður er það í boði þjóðarinnar sjálfrar sem skynjar ekki vitjunartíma sinn eða vonast eftir brauðmolum frá valdstéttinni. Þess vegna er boltinn hjá þjóðinni og hún verður að ákveða sig hvað hún ætlar að gera við hann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur