Föstudagur 22.09.2017 - 23:06 - FB ummæli ()

Ný Stjórnarskrá eða hvað

Bjarni Ben hefur sett stjórnarskrámálið á dagskrá í upphafi kosningabaráttunar. Hann leggur til 12 ára áætlun. Flestir telja að það sé pólitískur leikur. Hann gefur í skyn áhuga á breytingum en ætlar í raun að drepa málið í nefnd eins og hingað til. Helsti drifkraftur hans eru hagsmunir kvótagreifanna sem vilja festa sjávarauðlindina sem sína eign en ekki þjóðarinnar.

Þá gerist það að sumir stjórnarandsöðuflokkarnir taka undir með Bjarna og meðal annars Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Þess vegna hefur verið rifjuð upp snautleg framganga þingsins á lokametrum stjórnarskrarinnar 2013. Þá gerðist það sem allir raunsæir einstaklingar höfðu reiknað með. Auðvaldið sagði hingað og ekki lengra og þingið hlýddi. Að þjóðin hefði möguleika á meiri afskiptum var bannað, nógu erfitt var að hafa stjórn á þessum 63 þingmönnum.

Aðalgagnsemi stjórnarsrársmálsins hingað til var að skilja hafrana frá sauðunum.

Síðan keppast talsmenn þeirra flokka sem taka undir tillögu Bjarna að tala niður stjórnarskrárbreytingar. Þeim finnst sennilega að þingræðið sé enn í fullu gildi. Ef þeirra flokkur nær góðri stöðu muni kjör þeirra verst settu batna. Við sem aðhyllumst nýja stjórnarskrá erum þreytt á kosningasvikum en þar er algengasta afsökunin ”samsteypustjórn”. Við teljum að þingræðinu sé lífsnauðsynlegt að fá beint lýðræði annars verða þingkosningar með 12 mánaða millibili.

Við almenningur bjóðumst til að taka af ykkur þingmönnum þennann kross við að innleiða það sem meirihluti þjóðarinnar vill hvort eð er og þið hafið lofað að gera marg oft en svikið jafn oft. Afnema fátækt, afnema verðtryggingu, afnema kvótakerfið, afnema lífeyrissjóðaruglið, afnema ægivald húseigenda/verktaka á leigumarkaðnum, afnema ægivald bankakerfisins á líi fólks og afnema óréttlát kosningalög. Í stuttu máli þá ætlum við að krefjast réttlætis og að auðnum og réttindum verði smurt jafnt yfir kökuna. Það ætlum við að gera með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Að kjósa síendurtekið sömu kosningaloforðin sem eru svo svikin segir okkur að sú leið er ófær. Þess vegna er öll töf á stjórnarskrá af hinu illa fyrir hagsmuni hins almenna borgara.

Sérhagsmunaöflin í þjóðfélagi okkar skilja þetta mæta vel og munu koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá með öllum ráðum. Þess vegna er það svo mikilvægt að stjórnmálamenn kljúfi sig frá sérhagsmunaöflunum og lýsi því yfir endurtekið að ný stjórnarskrá með auknum völdum almenning sé forgangsmál. Auk þess eiga Alþingismenn að sjá sóma sinn í því að skipta sér sem minnst af nýrri stjórnarskrá nema til þess að stuðla að framgangi málsins. Eiga lyfjaframleiðendur að semja lyfjalög?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur