Læknisfræði og raunvísindi njóta virðingar, sér í lagi í þjóðfélögum þar sem menntun og þekkingarstig er hátt. Vísindalegar sannanir marka muninn á getgátum og kukli og því sem er vísindalega sannað. Sem betur fer njótum við þess hér á landi að búa við þokkalegt fyrirkomulag stofnana á sviði heilbrigðismála og getum treyst á að álit séu alltaf skoðunarverð en fullyrðingar og tilmæli þess virði að fara eftir bókstaflega.
Undarlegar áherslur virðast stjórna starfsemi landlæknisembættisins. Embættið hefur tekið einarða afstöðu gegn viðskiptafrelsi með áfengi rétt eins og slíkt geti haft eitthvað með vandamál tengd ofneyslu að gera. Á sama tíma, sér embættið enga ástæðu til þess að grípa inn í eins og því er þó uppálagt lögum samkvæmt þegar veiklyndir læknar ávísa ávanabindandi lyfjum á lyfjafíkla í gríðarlegu magni. Gildir þá einu þó svo að sjúklingar/fýklar hafi látist af völdum of stórra skammta sem ávísuð eru af læknum sem tryggja eiga ,,skert aðgengi“ þeirra sem sannanlega þurfa á slíkri forsjá að halda.
Þegar tekist var á um það hvort heimila ætti verslunum að selja mjólk stóð ekki á embætti borgarlæknis að koma með álit þar sem kom fram að ,,hætt væri á að veruleg afturför ætti sér stað varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum“ Líklega eru allir sammála um að framangreint álit hafi ekki stuðst við nein vísindaleg rök og því embættinu til minnkunar að hafa látið slíkt frá sér fara.
Í umsögn um það hvort heimila ætti sölu á bjór stóð ekki á áliti embættis landlæknis; „vinnumenn og jafnvel börn gætu haft tilhneigingu til að misnota bjórinn“. Í besta falli kjánalegur málflutningur án nokkurs læknisfræðilegs rökstuðnings.
Nýlega sendi landlæknir frá sér undarlega grein vegna fyrirliggjandi frumvarps um afnám ríkiseinokunar í verslun með áfengi. Fyrir það fyrsta hlýtur að mega setja spurningamerki við það að embættið skuli yfir höfuð tjá sig um verslunarrekstur ef frá er talin sú tegund sem höndlar með lyf en merkilegt nokk þá telur embættið ekki þörf á ríkiseinokun í dreifingu lyfja sem þó geta verið lífshættuleg séu þau ranglega afgreidd.
Í stuttu máli stenst greinin engan vegin þær kröfur sem gerðar eru til vísindalegrar umfjöllunar. Vissulega mætti segja að undir venjulegum kringumstæðum sé ekki að þörf á að gera neinar sérstakar kröfur til læknisfræðinnar þegar kemur að áliti á verslunarrekstri frekar en að þörf sé á áliti verslunar á læknisfræði. Hinsvegar má færa með því rök að embættinu væri farsælast til að viðhalda trúverðugleika til lengri tíma, að starfsmenn haldi útgáfu á álitum innan ramma vísindalegra vinnubragða.
Grein Landlæknis er tvíþætt, þ.e. um skaðsemi áfengisneyslu og svo skaðsemi þess sem stofnunin kallar ,,aukið aðgengi“ að áfengi, þ.e. verslunarfyrirkomulaginu sjálfu sem seint verður flokkað til raunvísinda. Merkilegt nokk þá hefur stofnunin hinsvegar ekki sent frá sér alit á undanförnum árum þegar ÁTVR hefur blygðunarlaust stóraukið aðgengi að áfengi þvert á kenninguna um mikilvægi hóprefsingar í formi skerts aðgengis allra:
Raunvísindamennirnir Geir Gunnlaugsson landlæknir og Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir SÁÁ, sem tekið hefur í sama streng, gengisfella eigin embætti með því að taka harða afstöðu í máli þar sem ekki eru lagðar neinar vísindalegar sannanir til grundvallar.
Nú er bréfritari ekki með læknisfræðilegan bakgrunn en telur engu að síður að hægt sé að staðhæfa öfugt við fullyrðingar landlæknis sé ,,áfengisneysla“ sé ekki skaðleg þó að um óhóflega áfengisneyslu gegni öðru máli. Mikilvægt hlýtur að mega telja að gerður sé greinarmunur þarna á enda hljóti forvarnar og meðferðarstarf framangreindra stofnana að miðast við þann hóp neytenda sem fellur undir óhófsskilgreininguna. Í grein landlæknis segir m.a:
,,Tiltölulega fáir stórdrykkjumenn drekka mestan hluta þess áfengis sem neytt er í samfélaginu. Þegar neysla eykst í einhverju landi er oftast um að ræða neysluaukningu hjá stórdrykkjufólkinu. Drykkjuvenjur eru breytilegar milli landa hvað ölvun varðar”
Hér má staldra við orð eins og ,,tiltölulega“ ,,oftast“ og ,,fáir“ sem út af fyrir sig staðfestir að ekki er verið að fjalla um vísindalegar staðreyndir. Ef vísindamenn og sérfræðingar hafa ekki vísindi með sér, skiptir álit þeirra engu meira máli en hvers annars og ætti því að skoðast sem persónuleg skoðun en ekki faglegt álit viðkomandi stofnana. Hinsvegar hlýtur að mega spyrja hvort hóprefsing allra sé viðeigandi í formi einokunarverslunar og skerðingar á atvinnufrelsi ef vandamálið einangranst við ,,tiltölulega fáa”
Hugmyndir um ,,sölubann“ er eitthvað sem undirritaður hefði átt von á úr vígslumessu á nýrri mosku í Reykjavíkurumdæmi en augljóst er að landlæknir hefur ekki kynnt sér ,,vandamál“ tengd bannárum þar sem slíkt hefur verið reynt sbr:
,,Reynslan sýnir enn fremur að miklar takmarkanir á aðgengi að áfengi, t.d. sölubann á áfengi, geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi“
Staðreyndin er að í öllum þeim rannsóknarskýrslum sem gerðar hafa verið er ekki að finna eitt einasta dæmi um skaðsemi verslunarfrelsis í vestrænu þjóðfélagi þar sem einokunarverslun hefur verið afnumin. Á hinn bógin er ekkert sem bendir til þess að ofdrykkja og unglingadrykkja sé minna vandamál í löndum þar sem ríkisstarfsmenn einir taka við greiðslu fyrir áfengi.
Sömuleiðis er ekkert sem bendir til þess að s.k. ,,skert aðgengi“ valdi meiri áfengisvandamálum og má þar t.d. benda á að Grænlendinga búa líklega við skertasta aðgengi að áfengi sem hugsast getur en áfengisvandamál eru engu að síður mikil. Samanburður milli fylkja í Bandaríkjunum eða landa Evrópu þar sem landamæraverslun viðgengst innifelur í sér augljósa mælingaskekkju.
Atvinnufrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur. Verslunarfrelsi er forsenda hagsældar. Örökstuddar tilgátur oflátunga sem vilja afnema sjálfsákvörðunarrétt samborgara sinna eiga ekki að fá brautargengi.