Miðvikudagur 18.04.2018 - 15:57 - FB ummæli ()

,,Klandrið“ að baki

Sérstaða kampavíns felst í að vera eina drykkjarvaran sem tengd er við einhverskonar hughrif. Þannig taldi Napóleon að kampavín væri verðskuldað í sigrum en nauðsyn í ósigrum. Árið 2008 lenti íslensk þjóð í banka- og gjaldmiðilsklandri sem sumir hafa viljað kalla hrun þó ekkert hafi reyndar hrunið. Segja má að þjóðin hafi þar reynt að afsanna kenningu Napóleons því eins og sjá má á kampavínsvísitölunni féll innflutningur á kampavíni nokkuð milli áranna 2007 og 2008.

Í öllu falli er ljóst að þjóðin hefur nú tekið gleði sína aftur þar sem innflutningur kampavíns jókst um 50% milli áranna 2016 og 2017. Til að bæta enn betur um er ljóst að minna sykruð kampavín frá handverkshúsum Champagne héraðs ,,Growers Champagne” hafa náð aukinni hlutdeild. Auk þess virðist sem koma Costco hafi valdið því að verð á kampavínum sem erlendis flokkast á lægri endanum hafi heldur lækkað í verði, hvort heldur er í hinni rangnefndu fríhöfn eða einokunarverslunum ríkisins.

Klandrið 2008 er nú orðið að kennsluefni í sagnfræði í skólum landsins sem vekur að sögn lítinn áhuga nemenda sem flestir voru að ljúka hvítvoðungsstiginu þegar einhver bað guð að blessa landið í stað þess að skála fyrir framtíðinni.

Nú er það svo að sama hvernig hlutirnir fara, þá eru alltaf einhverjir sem vissu það en bara komust ekki í tölvuna í tæka tíð. Því miður voru margir, sér í lagi af vinstri vængnum sem náðu ekki að kalla klandrið fyrr en of seint eins og t.d. Gunnar Smári Egilsson en ætla sér ekki að missa af næsta tækifæri og boða heimsendaspá. Meira að segja Þorvaldur Gylfason sem kallað hefur sjö af síðustu þreumur niðursveiflum var of seinn og svo mætti lengi telja. En á meðan hefur þjóðin aldrei haft það betra.

Skál fyrir því!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur