Mánudagur 26.02.2018 - 09:24 - FB ummæli ()

Straumhvarfa-óráð.

Í myndinni Annie Hall segir Woody Allen að á árum sínum í opinberum skóla hafi verið sagt að þeir sem ekkert gætu væru kennarar, þeir sem ekki gætu kennt, kenndu leikfimi og þeir sem ekki gætu kennt leikfimi kenndu við skólann hans.

Á heimasíðu Viðskiptaráðs Íslands má finna undir kaflanum ,,Hlutverk og lög” að eitt meginhlutverk ráðsins sé að efla skilning á lágmörkun opinberra afskipta.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs skrifaði nýlega grein í viðskiptablað Morgunblaðsins undir fyrirsögninni ,,Nýtum góðærið til nýsköpunar” sem vissulega væri góð brýning ef henni væri beint til þeirra sem raunverulega skapa eitthvað í hagkerfinu. Í greininni er hinsvegar hvergi minnst á að þörf sé á að hið opinbera hefti ekki nýsköpun eða viðskipti, hvort heldur er með skattpíningu, útþenslu hins opinbera eða íþyngjandi regluverki. Þvert á móti hvetur Ásta til þess að hið opinbera skipi ,,straumhvarfaráð” til að stýra nýsköpun í landinu með enn meiri millifærslum en fyrir eru nú þegar.

Greinarhöfundur hefur alltaf átt erfitt með að skilja hvaða hugmyndafræði býr að baki þeirri hugmynd sumra að hið opinbera geti skapað störf. Fyrir það fyrsta hlýtur að mega færa rök fyrir því að þeir sem á annað borð velja sér hið opinbera sem starfsvettvang, séu að leita sér að öryggi frekar en sveiflukenndum einkarekstri og því sé enn fjarstæðara að stofna til sjálfstæðs reksturs. Hvaða líkur eru þá til þess að upp úr slíkum hæfileikapotti finnist embættismenn sem geti handvalið rannsókn, þróun og nýsköpun sem kostuð er með skattfé annara?

Bréfritari leggur til að eftirtalin grunngildi verði höfð að leiðarljósi þegar Viðskiptaráð skilar frá sér næsta álit.

  1. Lagasetning getur aldrei gert hina fátæku ríka með því að gera hina ríku fátæka. Sama á við um að ný-skapa störf með því að eyða áður sköpuðum störfum.
  2. Það sem einn uppsker án vinnuframlags, þarf annar að vinna fyrir. Hið opinbera getur aldrei gefið neitt nema taka fyrst frá öðrum. Einhverstaðar er vélvirki að gera við bíl og hjúkrunarkona að hjúkra til þess að skapa þá peninga (einnig nefndir skattar)  sem Ásta vill að útvöldum séu færðir í nafni háleitra markmiða.
  3. Auðlegð verður aldrei margfölduð með deilingu.

Í nýjustu bók sinni ,,Á eigin skinni” fjallar Nicholas Taleb um að ekki eigi að hlusta á ráð annara heldur gerðir. Í þeim anda væri hollast að horfa til þeirra sem raunverulega skapa eitthvað með því að leggja eigið fé og tíma að veði en slíkir biðja sjaldnast um samkeppni frá hinu opinbera hvort heldur er við nýsköpun eða annað. Er Viðskiptaráð starfsvettvangur þeirra sem vilja leggja eitthvað að mörkum og byggja upp eða þeirra sem standa með betlistaf við ráðuneyti og aðra opinbera sjóði í von um ölmusufé eða bitlinga og vegtyllur?

Upphaf endaloka samfélagsins er þegar helmingur þess trúir að eigin vinnuframlag sé óþarft vegna þess að hinn helmingurinn muni sjá þeim farborða. Skapandi helmingurinn sér því fram á tilgangsleysi eigin vinnuframlags þar sem aðrir uppskera afraksturinn.

Groucho Marx sagðist aldrei vilja tilheyra hópi sem vildi hafa einstakling eins og hann innan sinna raða. Er Viðskiptaráð félagsmönnum sínum samboðið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur