Mánudagur 27.10.2014 - 20:17 - FB ummæli ()

Heilagar kýr

Flestir Íslendingar flissa með hæfilegri vandlætingu þegar minnst er á að í sumum trúarbrögðum séu kýr tilbeðnar og álitnar heilagar.  Talið er að heilagleiki kúa eigi rætur sínar að rekja til þess tíma er kýr voru tekjuskapandi fyrir eiganda sinn, og enn eimir eftir af þeirri hugsun samanber orðatiltækið ,,cash cow”  Á Indlandi þar sem kúatrú er viðurkennd, lifa 280 milljónir kúa sem að meðaltali kosta eigendur sína sem jafnframt eru tilbeiðendur stórfé enda ekki étnar, ekki frekar en að íslenskir þjóðernissinar borði erlenda osta svo dæmi sé tekið af handahófi.  Augljóslega er hægt að hafa ákveðna samúð með útgjöldum Inverja ef menn uppskera ríkulega á andlega sviðinu sem verður jú vart metið til fjár.  Sérstaða Íslenska kúastofnsins er að þrátt fyrir að kýrnar séu ekki tilbeðnar heldur einfaldlega mjólkaðar og étnar, eru þær engu að síður heilagar. Gildir þá einu þó að hinn Norskættaði landnámsstofn sé úrkynjaður með þeim afleiðingum að meðalnyt mjólkur er einungis helmingur af norskum kynsystrum og fallþungi a.m.k. 30% minni þegar kemur að kjötframleiðslu.

Blóðmjólkun

Þótt Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra verði seint talinn rótæklingur þegar það kemur að landbúnaði, gerði hann þó tilraun til að heimila innflutning á norskum fósturvísum til að lagfæra hið augljósa óhagræði sem bændum er ,,áskapað” af íslenskum lögum..  Hagræðingarhugmyndum í landbúnaði hér á landi er hinsvegar ámóta vel tekið eins og góðri gúllasuppskrift á Indlandi af ástæðum sem halda mætti að væru af yfirnáttúrulegaum toga.  Árlega eru skattgreiðendur mjólkaðir um 50.000 krónur á hverja fjölskyldu eða kr. 200.000 fyrir hverja kú í landinu og það án þess að fá svo mikið sem eitt aflátsbréf í skiptum.  Þótt ótrúlegt megi virðast hafa stjórnmálamenn náð að telja skattgreiðendum í þessu landi trú um að einungis með þessu fyrirkomulagi sé matvælaöryggi tryggt og munu skattgreiðendur á kjörtímabilinu ,,fjárfesta” 25.000 milljónum í kúm.  Þrátt fyrir ítrekaða leit, hefur greinarhöfundi ekki tekist að uppgötva haldbetri skýringu en þá að básar á mörgum sveitabæjum einfaldlega rúmi ekki stærri kýr, þeir séu einfaldlega of stuttir og kostnaður vegna endurbóta á fjósum of mikill.

Neytendakvóti

Önnur bábilja er að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sé eitthvað í ætt við hið vel heppnaða kvótakerfi í sjávarútvegi.  Í sjávarútvegi er hráefnið (oft rangnefnt auðlind) hinsvegar takmarkað sem aftur kallar á sóknarstýringu sem aldrei á við í landbúnaði.  Af því leiðir að mjólkurkvótakerfi er í raun kvótakerfi á neytendur og hefur því hver bóndi kvóta sem nemur 180 heimilum í þessu landi sem vitaskuld er galið. Í anda Orwellskrar hugmyndafræði hafa stjórnmálamenn svo sannfært landsmenn um að einokun og fákeppni sem skipulagt er af þeim sjálfum sé af hinu góða hvort heldur er í dreifingu landbúnaðarvara, áfengis eða húsnæðislána.  Til að hvítþvo sig halda stjórnmálamenn svo úti heilögum kúm eins og samkeppniseftirlitinu til að landsmenn taki sína eigin ráðamenn ekki til fyrirmyndar sem segja má að sé kennslubókardæmi um hræsni.

Breyting í vændum?

Í fréttum RÚV í kvöld var viðtal við formann félags kúabænda sem telur það áleitna spurningu hvort gera eigi mjólkurbúskap samkeppnishæfann og þá með þeim sjálfsögðu umbótum að heimila þeim sem slíkt vilja að kynbæta sinn bústofn. Eins og alltaf fyrirfinnast eingstaklingar sem telja sig þess umkomna að skerða frelsi annara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur