Niðurgreiðslur til landbúnaðar er venjulega stefna ríkja sem eru nógu efnuð til að framfylgja þeim. Oft á tíðum er slík framkvæmd eyðileggjandi fyrir land, raskandi fyrir markaðinn og hefur, á tímum alþjóðavæðingar, skaðleg áhrif á afkomu bænda í löndum sem eru án slíkrar niðurgreiðslu. Þar sem að niðurgreiðslur stuðla að framleiðslu á landbúnaðarvöru umfram eftirspurn markaðarins, hvetja þær bændur til að stóla á þær, í stað þess að treysta á eftirspurn neytenda. Þetta traust á iðnaðarframleiðslu einsleitra uppskera hefur haft hræðilegar afleiðingar fyrir umhverfið á heimsvísu. Að auki hefur miðstýrður áætlunarbúskapur leitni til að draga úr öllum hvata til að auka gæði framleiðslunnar.
Stjórnvöld á Nýja Sjálandi áttuðu sig á þessu vandamáli og hættu niðurgreiðslum til landbúnaðar árið 1984. Ákvörðunin býður upp á klassískt dæmi um samband milli niðurgreiðslna, efnahags bænda og umhverfisins. Fyrir 1984 var mikil uppsveifla í Ný Sjálenskum landbúnaði, að stórum hluta vegna hárra niðurgreiðslna. Á þessu tímabili mátti sjá stöðuga þróun aukins styrks í landbúnaði Ný Sjálendinga. Beitarþungi jókst, sem og notkun áburðar og skordýraeiturs.[1]
Við brotthvarf ríkisstyrkja voru bændur hræddir og reiðir, og fjölmenntu í mótmælagöngur til höfuðborgarinnar. En þrátt fyrir spár um að 10% býla yrðu gjaldþrota í kjölfar aðgerða stjórnvalda, þá var niðurstaðan einungis 1%. Hjarðir voru samþættar og tegundir sem höfðuðu til eftirspurnar markaðarins – þær sem framleiddu t.d. fituminni mjólk – sköruðu fram úr. Og áhrifin á landið voru gríðarleg. Notkun skordýraeiturs dróst saman um 50%. Komið var í veg fyrir jarðvegsrof, landeyðingu og umframbirgðir minnkuðu einnig. Allur landbúnaðargeirinn var tilneyddur til að færa sig í átt að betri venjum sem juku hagkvæmni og afrakstur. Dregið var úr framleiðslustyrkjum, sem áður höfðu verið notaðir til að örva framleiðslu í gripabúskap og þannig fluttist hann frá eyddum landsvæðum til sjálfbærra beitilanda.
Í dag eru landbúnaðarvörur uppistaðan í útflutningi Ný Sjálendinga, þar sem fjölskyldubú eru áberandi og þau upplifa öfundsverðan vöxt. Mjólk og ull eru stærstu útflutningsafurðirnar og það eru fleiri gripir í landinu heldur en manneskjur. Þrátt fyrir vísbendingar um að nýtt vaxtarskeið sé í vændum – og þó svo að notagildi stefnu þeirra séu mögulega óviðkomandi stærri löndum sem reiða sig á ríkisstyrki, s.s. Bandaríkin. Þá sýnir dæmið frá Nýja Sjálandi að brotthvarf frá landbúnaðarstyrkjum þurfi ekki nauðsynlega að vera jafn erfitt til aðlögunar fyrir bændur og jafnan er haldið fram.[2]
Fullyrða má að aldrei hefur árað betur fyrir umbætur í íslenskum landbúnaði en einmitt nú. Eftirspurnarþrýstingur í mjólkuriðnaði hefur afhjúpað núverndi löggjöf sem refsar fyrir það sem kallað er ,,umfram-framleiðslu“ Stóraukin þjónusta við ferðamenn hefur gefið mörgum færi á að hverfa frá óhagkvæmum rekstri yfir í ferðamannaþjónustu. Dæmi eru um að eitt ferðaþjónusturými í útleigu yfir sumarmánuði, gefi af sér meiri tekjur en 100 kindur. Nautgripaeldi til kjötframleiðslu er fast í viðjum stjórnvalda sem meina bændum að kynbæta kynstofnin!. Óhagræði og framboðsskortur er lögfastur undir hinni lamandi hönd ríkisafskiptanna að því er virðist til þess eins að hygla úreltu milliliðakerfi, umbætur eru einfaldlega ekki liðnar.
[1] Macleod, C. and Moller, H. (2006) Intensification and diversification of New Zealand agriculture since 1960: an evaluation of current indicators of land use change. Agriculture, Ecosystems & Environment 115:201-208.
[2] Ibid