Kjördæmapotarar allra flokka á Eyjafjarðarsvæðinu hafa réttlætt hin gölnu Vaðlaheiðargöng með tvennum rökum. Fyrir það fyrsta að um sé að ræða þvílíkann farartálma á þungri umferðaræð að ekki verði við unað. Í annan stað muni umferð ferðamanna aukast verulega enda vilji slíkir skoða fjöllin að innan en ekki utan.
Af einhverjum ástæðum hefur kjördæmapoturum á suðurlandi ekki enn dottið í hug að berjast fyrir göngum í gegnum Hellisheiði með sömu rökum. Þó er meðalumferð um Hellisheiði margföld á við Vaðlaheiði og skv. tölum vegagerðarinnar hefur Hellisheiðin verið lokuð í um 116 klukkustundir í vetur en Víkurskarðið 113.
Reiknað hefur verið út að tap á Vaðlaheiðargöngum verði a.m.k. 4,3 milljarðar og var þá ekki reiknað með að framkvæmdin væri nú þegar orðin einu ári á eftir áætlun. Engum dettur í hug að skera þurfi niður í heilbrigðis og menntakerfi fyrir því tapi.