Nýlega sagði Bloomberg frá því að síðustu kolanámunni í Bretlandi yrði lokað þrátt fyrir baráttu verkalýðsleiðtoga af vinstri væng stjórnmálanna í nútíð og fortíð.
Núverandi formaður VG endurómaði nýlega í blaðagrein í Fréttablaðinu einhverja kjánalegustu mýtu sem enn lifir um að Margareth Thatcher hafi rýrt lífsgkjör hinna vinnandi stétta í Bretlandi og þá sér í lagi í baráttunni við verkalýðsfélög kolanámumanna. Katrín Jakobsdóttir sem kennir sig við umhverfisvernd og baráttu fyrir hagsmunum verkafólks myndi semsagt enn berjast fyrir kolagreftri sem kostaði 164.000 mannslíf í Bretlandi auk þess sem hin fræga lundúnaþoka reyndist vera að meginuppistöðu kolareykur. Þó minning Thatcher lifi enn, reyna flestir að gleyma mótherjum hennar, eins og Arthur Scargill sem eins og fleiri vinstri menn var á launum hjá Muamar Gaddafi á sama tíma og sá hinn síðar skipulagði hryðjuverk á borð við Lockerbie.
Katrínu er jafnframt tíðrætt um að það sé ,,stjórnmálamannanna að tryggja að fólkið sjálft ráði framtíð sinni, ekki einvörðungu stórfyrirtæki og fjármagnsöfl“ Þessa baráttu VG þekkja flestir í reynd þegar flokkurinn barðist fyrir Icesave ánauðinni, tryggði kröfuhöfum Álftanes 400 milljóna meðgjöf frá almenningi (sem ella hefði þurft að afskrifa) og samþykkti milljarða jarðgöng fyrir vörubílaumferð frá hafnarsvæði Húsavíkur að Bakka vegna nýrrar mengandi stóriðju á virku misgengissvæði.
Íslendingum mun farnast vel svo fremi að vinstri mönnum farnist illa í kosningum.