Miðvikudagur 29.07.2015 - 10:07 - FB ummæli ()

Nútímalegi jafnaðarmaðurinn Oddný Harðardóttir skrifar:

Við viljum trausta, opinbera matardreifingu

Svo virðist sem hægristjórnin sé ófær um að leysa alvarlegan næringarvanda með hag almennings að leiðarljósi. Hugmyndum um gróða, markað, kostnað og gjöld er þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma lýðheilsu. Þeir sem vilja selja ríkinu matvælin eru að skilgreina þarfirnar og útfærsluna sjálfir.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins talar um markaðinn þar sem verslunarstéttin eigi að nota tækifærið til að nýta og segir: „Yfir þeim markaði gín ríkið nánast eitt.“ Markaðurinn er væntanlega samansafn svangra Íslendinga og hann vilja hægrimenn að matvælastéttir nýti sér til hagsbóta. En væri það til hagsbóta fyrir neytendur og matvæladreifingu sem á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag?

Heilbrigðisráðherra hefur sagt að einkarekstur geti ekki tekið við því hlutverki sem Ríkismatur ohf. sinnir, en vinnur að einkarekstri matvöruverslana. Ekkert kallar á aukinn einkarekstur grunnstoða velferðarsamfélagsins nema frjálshyggjustefna Sjálfstæðismanna. Því miður virðast þeir fá góðan frið fyrir Framsóknarmönnum í ríkisstjórn til að vinna að framgangi þeirrar stefnu.

Lausn vandans í matvæladreifingu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur mötuneyta og hráefnisframleiðenda, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum neytenda um land allt. Það á að vera forgangsverkefni. Mötuneyti og veitingastaðir tilheyra grunnstoðum velferðarkerfisins og að þeim þurfum við að gæta nú þegar hugmyndir um aukinn einkarekstur í matvælageiranum vaða uppi.

Gleymum því ekki grunnþjónustunni í umræðunni um alvarlegan vanda Ríkismats ohf. Hana má ekki einkavæða í skiptum fyrir að rekstur Ríkismats ohf verði opinber eins og heilbrigðisráðherra virðist vilja. Nú þegar hafa verið gerðir þjónustusamningar um einstök verk innan matvælaframleiðslunnar en einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera matardreifingu sem rekin er af myndarbrag. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir neytenda eða rekstraraðila veitingastaða vegi þyngra. Þess vegna vill þjóðin reka sína matardreifingu sjálf.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur