Orkuveita Reykjavíkur er eitthvert sorglegasta dæmi sögunnar um afleiðingar þess að afhenda stjórnmálamönnum völd og peninga, eiginlega á pari við að rétta ungling bíllykla og landabrúsa.
Mörgum ofbauð gengdarlaust bruðl og sóun í milljarða höfuðstöðvar, 30 manna PR deild, veislueldhús, línþurrkun, risarækjueldi, lína.net, raflína.net, Gagnaveitan og annað slíkt.
Þó var bara um smáaura að ræða í samanburði við hina glórulausu fjárfestingu veruleikafirtra stjórnenda fyrirtækisins í Hellisheiðarvirkjun. Heildarskuldir Orkuveitunnar nema nú hvorki meira né minna en 172 milljörðum sem að langstærstum hluta er tilkomið vegna raforkuframleiðslu fyrir álverið á Grundartanga. Álverið borgar líklega lægsta rafmagsverð allra álvera í heiminum eins og fram hefur komið á orkubloggi Ketils Sigurjónssonar (til samanburðar skuldaði OR 17 milljarða 2002)
Forsaga málsins er sú að þegar álverið var stækkað undirbauð Orkuveitan Landsvirkjun sem þá þegar hafði markað sér þá stefnu að hækka verð til stóriðju. Að opinber stofnun skuli undirbjóða aðra fyrir erlenda málmbræðslu hlýtur að vera einstakt. Niðurstaðan er að raforkusala Helga Hjörvars og Alfreðs Þorsteinssonar skilar arðsemi sem er 3% undir fjármagnskostnaði. Þar með er þó tjón kjósenda í Reykjavík ekki á enda því virkjunin er ekki sjálfbær og hefur orkan fallið frá fyrsta degi og fellur enn.
Svokallað umhverfismat vegna virkjunarinnar er auðvitað einn stór brandari. Útblástur á tugþúsundum tonna af brennisteinsvetni var afgreitt með einni setningu eitthvað á þá leið að brennisteinslykt gæti aukist tímabundið. Landvernd benti á að mikilvægt væri að merkja bílastæði.
Í dag er sorglegt um að líta á virkjunarsvæðinu sem flokka má sem eitt risavaxið umhverfisslys, rusl og drasl hvert sem litið er. Ótengdar leiðslur sem ryðga á víðavangi eru hinsvegar ágætur minnisvarði um stjórnmálamenn sem misst hafa tengingu við veruleikann og skilning á almannaþjónustu.