Sunnudagur 18.10.2015 - 15:44 - FB ummæli ()

Landmælt klúður

Fyrir um tveimur árum tilkynnti fyrirtækið Loftmyndir að það hefði lokið við fyrstu útgáfu af nýjum háupplausnar-kortagrunni af öllu landinu. Ekki fór mikið fyrir áhuga fjölmiðla á þessum áfanga, hvað þá að greint væri hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir íslenskt samfélag.

Fyrir það fyrsta ber að nefna að grunnurinn er gerður alfarið án nokkurskonar aðkomu hins opinbera ef frá er talið að fyrirtækið hefur þurft að verja milljónum í lögfræðikostnað til að verjast samkeppni og samkeppnisbrotum Landmælinga Íslands. Háupplausnargrunnur Loftmynda er jafnframt fyrsti kortagrunnur af Íslandi sem gerður er af Íslendingum.

Í fyrstu grein laga um landmælingar og grunnkortagerð stendur: »Markmið laga þessara er að tryggja að ávallt séu til staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland.« Auðvitað hvarflaði aldrei að neinum á löggjafarþingi að framangreindu markmiði yrði náð án aðkomu hins opinbera (ekki frekar en dreifing á bréfpósti, heildsöludreifing á tóbaki, línulegar sjónvarps- og útvarpssendingar eða að landsmenn gæti tekið upp staðla án »Staðlaráðs« svo fáein dæmi séu tekin). Það sem er hinsvegar skrítnara er að engum sem farið hefur með fjárveitingavald skuli koma til hugar að skala niður rekstur stofnunar eins og Landmælinga Íslands sem nú er fullkomlega óþörf þar sem framangreindu meginmarkmiði laga er þegar náð. (Reyndar fær stofnunin aukafjárveitingu hjá ný-frjálshyggjustjórn þeirri sem nú situr sem hlýtur að jaðra við sturlun.)

Svo merkilega vill til að í þriðju grein í lögum um Landmælingar Íslands er sérkennilegt ákvæði um heimilisfesti þar sem segir að »Aðsetur Landmælinga Íslands er á Akranesi.« Telja má nokkuð öruggt að í reynd sé hér um að ræða mikilvægustu grein umræddra laga. Þó að öllum megi vera ljóst að landkostir Akraness hafi yfirburði þegar kemur að kortagerð hefur afraksturinn hinsvegar ekki verið til samræmis. Saga Landmælinga Íslands er ein sorgarsaga ef frá er talið hversu giftusamlega tókst til með flutninginn á skrifstofubúnaði upp á Akranes.

Nú hafa Loftmyndir boðið hinu opinbera í annað sinn ókeypis afnot af hinum nýja og »de-facto« kortagrunni af Íslandi gegn samningi um viðhald enda ljóst að ekki þarf lengur að verja hundruðum milljóna af almannafé í að viðhalda úreltum grunni þegar nýr er til staðar. Fyrra tilboð, sem segja má að sé sama eiginleika gætt og hið nýja, þ.e. að vera nánast of gott til að vera satt, þótti auðvitað ekki svaravert í fyrra skiptið. Nærtækasta skýringin á áhugaleysi stjórnvalda er að þau hafi talið að um lögbrot yrði að ræða þar sem grunnurinn væri ekki gerður á Akranesi.

Forsaga ófara hins opinbera nær til ársins 1998 þegar Landmælingar Íslands tilkynntu áform sín um að endurvinna gömul kort sem bandaríski herinn hafði unnið á hernámsárunum. Ekkert var til sparað í tilkostnaði eða yfirlýsingum. Hinn »nýi« stafræni grunnur ÍS50V væri »stærsta verkefni sem Landmælingar vinna að« og »bestu gæði« áttu að tryggja »sparnað fyrir samfélagið«. Sá »sparnaður« hefur nú kostað vel á annan milljarð.Allt á stafrænt form

,, …mun grunnurinn opna gífurlega marga möguleika  fyrir stofnanir og fyrirtæki og jafnvel einstaklinga….“,,Magnús segir að…eiginlega megi tala um byltingu…“,,Magnús segir um fimm ára vinnu við kortagrunninn liggja að baki hjá Landmælingum: ,,Tíminn hjá okkur sem hefur farið í þetta verkefni er orðinn um 30.000 vinnustundir og síðan höfum við keypt mikla vinnu af verktökum bæði hér heima og erlendis. Þetta er langstarsta verkefni af þessu taki sem hefur verið unnið hér á landi“

Fljótlega kom hinsvegar í ljós að tímamótaverkefni stofnunarinnar var ekki betra en svo að dæmi voru um að ár runnu upp fjöll, strandvegir voru margir hverjir neðansjávar, hús voru úti í tjörnum og stöðuvötnum, strandlína var rangt mæld o.s.frv.

Eðli málsins samkvæmt þökkuðu viðskiptavinir fyrir sig með fótunum. Viðbrögð Landmælinga Íslands voru samkvæmt hinu fornkveðna að »sælla er að gefa en selja«. Því var tilkynnt með lúðrablæstri að héðan í frá skyldi hinn ósöluhæfi ÍS50 grunnur ekki lengur verða seldur heldur gefinn. Ekki stóð á afleiðingunum, hin úreltu kort urðu þess valdandi að »nýsköpun« á Íslandi að verðmæti 100 milljónir kr. varð að veruleika!

Þrátt fyrir að hjá Landmælingum Íslands hafi ávallt verið »lögð áhersla á góða þjónustu með gildin nákvæmni, notagildi og nýsköpun að leiðarljósi« og stofnunin ítrekað valin »fyrirmyndarstofnun« hefur komið í ljós að ÍS50V grunnurinn »þjónar ekki þörfum samfélagsins sem best« eins og stendur orðrétt í frumvarpi sem umhverfisráðuneytið lagði fyrir Alþingi á síðasta ári! Efni frumvarpsins er að Landmælingum Íslands verði heimilað að búa til nýjan kortagrunn sem geti keppt við þann sem fyrir er hjá Loftmyndum.

Rekstur Landmælinga Íslands er dæmigerður fyrir íslenska stjórnsýslu þar sem umbúðir skipta meiru en innihald, reynt er að svara spurningum um hvað eigi að gera og umfram flest hvar á landinu en sjaldnast hvernig. Aldrei er spurt grundvallarspurningarinnar, af hverju.

Neðri myndin sýnir bæjarfélagið Hellu á suðurlandi í kortagrunni Loftmynda en sú wfri úr kortagrunni Landmælinga Íslands þar sem m.a. vantar einn flugvöll.

hella_loftm_tif hella_lmi_tif

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur