Einhverja næstu daga mun Símon Grimmi héraðsdómari fella sektardóm yfir bankastjóra og þeim undirmönnum sem ekki tókst að kaupa sér friðhelgi hjá saksóknara með því að bera vitni gegn sínum samstarfsmönnum. Engin þörf er á málsvörn hjá Símoni nema til undirbúnings fyrir hæstarétt.
Alls er um að ræða 20 milljarða lán sem starfsmenn einkafyrirtækis veittu til viðskiptavina með veðum sem eftir á að hyggja reyndust ótrygg, nánar tiltekið vegna hlutabréfa sem bankinn hafði áður keypt (án allra veða og hefðu þannig auðvitað hvort eð er endað verðlaus). Hið eiginlega tjón sem er tilkomið vegna kaupa bréfanna (en fyrir þau kaup er ekki ákært) lendir alfarið á kröfuhöfum bankans. Fyrir liggur að enginn hinna ákærðu hafði ávinning eða ásetning um lögbrot en áhöld eru uppi um vitni saksóknarans.
Á sama tíma berast fréttir af tvöfalt stærra máli, þ.e. af greiðslufalli Reykjanesbæjar sem skuldar 40 milljarða. Fyrir stjórnendum Reykjanesbæjar hefur aldrei vakað neitt annað en göfugur ásetningur og gildir þá einu hvort um er að ræða milljarða fjárfestingar í Víkingaþorpi, Hljómahöll, stóriðjuhöfn eða öðru. Á skuldasöfnunartímabilinu 2003-2014 stemdi sveitarfélagið lóðbeint á hausinn þar sem uppsafnaður halli af reglulegum rekstri nam 8,3 Milljörðum. Þannig máttu stjórnendur sveitarfélagsins jafnt og lánveitendur vita að lánin yrðu aldrei greidd, a.m.k. ekki af sveitarfélaginu. Í tilfelli Stíms hefðu lánin verið greidd svo fremi að bankinn færi ekki á hausinn.
Einu lögin sem takmarka fjártjón útsvarsgreiðenda hvers sveitarfélags er skuldaþak sem nemur 150% af tekjum. Allt umfram það lendir svo bara á ríkissjóði eins og í tilfelli Álftaness en þar fengu íbúar í nærliggjandi sveitarfélagi að kjósa um hvort skuldir umfram greiðslugetu, lentu ekki barasta á ríkissjóði. Það eru ýmsar leiðir til við að kljást við skuldir, þar með talið að kjósa þær einfaldlega yfir á aðra.