Nú vilja flestir neytendur fá keyptar allar matvörur sínar, þar með talda mjólk og mjólkurvörur, á einum stað, í hinum svokölluðu sjálfsafgreiðslubúðum. Þar er mikið vöruúrval að öllum jafnaði og allt annað en áður var í nýlenduvöruverslununum sem svo voru kallaðar.
…í umsögn borgarlæknis að hætt væri á að veruleg afturför ætti sér stað varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum
Kostulegt er að rifja upp rök þeirra sem hæst töluðu gegn lögleiðingu bjórs hér á landi, bjórinn var m.a. ekki einkamál eiginmanna því ,,bjórvömbin yrði líka vandamál eiginkvenna“ og unglingum yrði umsvifalaust drekkt í óreglu, þjóðin stóð á barmi hengiflugs. Álit „sérfræðinga“ skipti miklu máli þá sem nú og erfitt var að andmæla áliti landlæknis um að „vinnumenn og jafnvel börn gætu haft tilhneigingu til að misnota bjórinn“. Undir þessi sjónarmið tók verkalýðshreyfingin sem taldi að vinnuframlag myndi augljóslega skerðast. Dómsdagsspámenn skortir sjaldnast ímyndunarafl en eitt af því sem sameinar slíka er forsjárhyggjan sem gengur út á að fólki sé ekki stætt á eigin fótum og alla mannlega breyskleika megi leysa með boðum og bönnum, já og einokunarverslunum!
Rekstur einokunarverslana fyrir áfengi er engu minni tímaskekkja en rekstur mjólkurbúða var á sínum tíma. Líklega fer það á spjöld sögunnar sem eitthvert merkasta afrek í sögu orwellskrar áróðurstækni að sannfæra heila þjóð um að söluaðili vímuefnis, sem rekur 49 verslanir, netverslun og sendi stórnotendum vímuefnin frítt heim ef verslað er fyrir kr. 50.000 eða meira, vinni svo jafnframt gegn eigin sölu. Að setja ÁTVR í sama flokk og þá sem raunverulega vinna þakkarvert forvarna- og meðferðarstarf á borð við SÁÁ er einfaldlega móðgun. Þess má geta að rekstur SÁÁ kostar ámóta upphæð og rekstur hinna úreltu einokunarverslana.
En hver er þá hinn eiginlegi tilgangur ríkisforsjárhyggjumanna? Hér er það lögmálið um að léttustu tapparnir fljóta best, gildi einfaldra yfirlýsinga í hávegum, enda: getur einhver verið á móti því að unnið sé „á móti misnotkun á áfengi“ nú eða að mjólk súrni í verslunum? Villta vinstrið má svo augljóslega ekki til þess hugsa að einkaaðilar geti hagnast á sölu áfengis í vínbúðum eða matvöruverslunum enda gengur lífssýn vinstrimannsins út á að eins manns gróði sé alltaf annars manns tap. Engu skiptir þó öllum megi ljóst vera að rekstrarkostnaður 49 einokunarverslana ásamt yfirbyggingu upp á 770 milljónir á ári hljóti alltaf að vera kostnaður sem leggst á almenning í þessu landi með einum eða öðrum hætti.