Svokallaðir lýðheilsusérfræðingar og samfélagsverkfræðingar telja sig hafa stærðfræðijöfnur í höndunum en góða fólkið innan þeirra greina geta á hverjum tíma núið alla agnúa af mannlegu samfélagi með því að taka yfir stjórnun á lífi fólks á sem flestum sviðum.
Samfélagsverkfræðin skiptist í þrjú stig:
- Reglugerðir og eftirlit
- Skattlagning (svona ef 1 dugar ekki)
- Refsing (svona ef 2 dugar ekki)
Þannig hefur samfélagsverkfræðingum tekist í gegnum tíðina að berja fólk til hlýðni við hverjar þær snilldar hugmyndir sem góða fólkið hefur fundið til að bæta samfélagið. Grunnstefið er að lestir eru jú glæpir hvort heldur er galdrar, rangir guðir, afbrygðileg kynhegðun, verslun framhjá einokunarlögum eða samkeppni við ríkisvaldið hvort heldur er um vímugjafa eða annað.
Samfélagsverkfræðin hefur alltaf göfug markmið að leiðarljósi og beitir fyrir sig vísindalegum vinnubrögðum og staðreyndum. Í umræðu um viðskiptafrelsi á sviði landbúnaðarafurða hefur verið sannað að erlend matvæli eru margfalt óhollari en innlend, erlent rafmagn er mengað og áfengi sem afgreitt er af afgreiðslumanni sem ekki er í BSRB er hættulegt. Það síðastnefnda er byggt á þeirri jöfnu að aðgengi auki neyslu og aukin neysla þýði lakari lýðheilsa og verra samfélag.
Af einhverjum ástæðum hefur gengið illa að berja gögnin til hlýðni. Talnabrunnur Landlæknisembættisins sýnir að áfengisneysla hefur dregist saman þrátt fyrir stóraukið aðgengi með fjölgun útsölustaða og vínveitingahúsa, stútum undir stýri fækkar, unglingadrykkja minnkar osfrv.
Merkilegt nokk er ,,aðgengi“ hvað verst að öðrum vímugjöfum en áfengi en þar eykst neyslan. Samfélagsverkfræðin mun án efa finna skýringar á því.