Varlega áætlað kostar 70.000 milljónir að reka bankakerfið á Íslandi.
Samfélagsbankarnir eru núna þrír og flokkast rekstur þeirra sem glórulaus, óháð viðmiði:
- Íbúðalánasjóður (er eins og sjálfsmorðssprengjubelti á skattgreiðendurm)
- LÍN (nýjustu hugmyndir eru að skattgreiðendur gefi lántakendum 214.000 milljónir)
- Byggðastofnun (sérhæfir sig í útlánum til fjárfestingaverkefna sem eru svo galin að engar líkur eru á endurgreiðslum)
Einhver fráleitasta hugmynd seinni tíma er að auka á ófarnaðinn með því að fjölga í hópnum og auka áhættu skattgreiðenda samhliða. Að venju bregðast vinstri menn ekki vondum málsstað og kallar Stefán Ólafsson hugmynd Frosta Sigurjónssonar í þessa veru ,,rödd skynseminnar“. Röksemdirnar eru að ekki sé rétti tíminn til að ná hámarks hagnaði með sölu og svo hin að best færi á að reksturinn miðaðist ekki við að ná hagnaði.
(Ranghugmyndir Frosta og Stefáns fara saman á fleiri sviðum, m.a. að viðskiptafrelsi hafi í för með sér minna úrval og hærra vöruverð en skiljast hinsvegar að í afstöðu um hvort miðstýrður áætlunarbúskapur í landbúnaði sé neytendastyrkur eða sóun).
Einn auðskiljanlegur mælikvarði á rekstur banka er arðsemi eigin fjár sem samkvæmt síðustu uppgjörum stóru bankanna er í kringum 6%.
Því myndi sama arðsemi felast í að leggja niður hefðbundna starfsemi bankanna og fjárfesta eigið fé þeirra í ríkisskuldabréfum.
Eftir stendur hin klassíska spurning hvort menn vilji eiga kökuna, borða hana eða hvorutveggja.