Laugardagur 22.04.2017 - 17:53 - FB ummæli ()

Lög og óregla.

Ef marka má skoðanakannanir á Íslandi, getum við státað okkur af einhverri fullkomnustu áfengislöggjöf á byggðu bóli. Ísland er líka eina landið í heimi þar sem fleiri treysta þingmönnum til að reka smásöluverslanir með áfengi heldur en til almennrar lagasetningar sbr. skoðanakannanir á trausti til Alþingis.

Á Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð er einungis talið óhætt að ríkisstarfsmenn taki við greiðslu á kassa fyrir áfengi í smásölu eins og við öll vitum og flest erum sammála um.

Í öllum ofangreindum löndum er þó ríkisborgurum heimilt að versla vín af hvaða víninnflytjanda sem er (án milligöngu starfsmanna ríkiseinokunarverslana) svo fremi að vínsalinn eigi heima í útlöndum. Þannig má íslenskur víninnflytjandi selja norskum neytenda áfengi en ekki íslenskum og svo öfugt, allt í nafni lýðheilsu sko….

Á Íslandi hefur áfengisverslunum fjölgað úr 13 í 51 á 20 árum, undir formerkjum ,,torvelds aðgengis” (til samanburðar eru 30 Bónus búðir í landinu) Ein meginástæða þessarar fjölgunar er skýlaus krafa sveitarstjórna um allt land þess efnis að áfengi sé verslað í heimabyggð undir formerkjum byggðastefnu. Sveitarfélög keppast líka við að gefa út sem flest vínveitingaleyfi til veitingahúsa en hafna því alfarið að fá leyfi til að heimila sveitungum sínum að einkareka áfengisverslanir þar sem áfengi yrði aðgreint frá öðrum neysluvörum (nákvæmlega eins og háttar til með núverandi löggjöf með ríkisverslanirnar).

Ríkiseinokunarverslunin ÁTVR rekur einnig heildsölu með tóbak fyrir tóbaksheildsala. Engin veit af hverju en framlegðin af tóbaksheildsölunni niðurgreiðir hinsvegar smásölu með áfengi. Engin kostnaðargreining er í bókhaldi ÁTVR á tóbakshlutanum en allir vita út af hverju það er. Þannig niðurgreiðir í raun hið opinbera smásöluverslun með áfengi í nafni ,,torvelds aðgengis”

En lengi má gott bæta. Rétt eins og við tryggjum lýðheilsu með því að heimila okkur sjálfum að versla við erlenda vínsala, gætum við flutt inn nokkra reglugerðargullmola, fegurðin kemur jú að utan:

  • Í Utah fylki í USA er óheimilt að selja áfengi ef neyðarástand skapast, t.d. af náttúruhamförum.
  • Í Ohio er óheimilt að auglýsa áfengi með jólasveininum, myndrænt eða með tilvísun. Einnig er óheimilt að gefa fiskum áfengi. Hvorutveggja ætti vel heima í íslenskri löggjöf.
  • Í Texas er óheimilt að taka fleiri en þrjá sopa standandi á vínveitingastað.
  • Í Newton PA, er karlmönnum óheimilt að kaupa áfengi nema með skriflegri heimild eiginkonu.
  • Í Utah er óheimilt að blanda áfenga drykki að viðskiptavininum sjáandi. Skilrúm, oft úr möttu gleri ,,Gyðinga gardína” þarf að vera á milli.
  • Í Washington DC er vínbúðum óheimlt að selja minna en fimm eintök af ör-flöskum ,,miniatueres” að kröfu veitingastaða í fylkinu. ,,Hugsunin” að baki þessarar reglu er að viðskiptavinir á leið á vínveitingastað, gætu keypt 1-2 flöskur til að blanda sjálfir í gosglös inni á veitingastöðunum. Að þurfa að burðast með fimm slíkar flöskur gerði svindlið hinsvegar síður aðlaðandi.
  • Í Norður Dakóta er óheimilt að selja bjór og saltkringlur saman. Augljós lýðheilsurök hér á ferð enda saltkringlur afar óholl fæða.
  • Í New Hampshire er óheimilt að fara í lautarferð og neyta áfengis í kirkjugörðum, auðvitað nokkuð augljóst því hvaða samleið á vínandi með framliðnum?
  • Í Indiana er óheimlt að blanda saman mjólkurvörum og áfengi. Viðbúið að þetta myndi mæta harðri andstöðu frá félagi mjólkur- og lýðheilsufræðinga og þyrfti því að ræða betur á meðal lýðheilsufræðinga.
  • Í Iowa er óheimilt að skrifa áfengi á reikning neytanda, ósóminn skal staðgreiddur.
  • Í Omaha er óheimilt að selja bjór yfir 4% að styrkleika, kældan. Við munum auðvitað vel hvernig gamli góði Villi útrýmdi rónunum úr miðbænum með því að láta fjarlægja bjórkælinn úr ríkinu í Austurstræti.
  • Í Boliviu er giftum konum óheimilt að drekka meira en eitt áfengisglas á almannafæri til að fyrirbyggja daður. Af augljósum ástæðum á slíkt ekki við um menn enda vísindalega sannað að slíkur breiskleiki hrjáir ekki karlmenn undir áhrifum.
  • Í Tyrklandi er óheimilt að selja áfengi á kosningadegi. Einhverjar brotalamir hljóta að vera á eftirfylgni þessara laga enda útilokað að einhver ódrukkinn hafi kosið Erdogan.
  • Í Skotlandi er óheimilt að klæðast nærfötum undir Skotapilsi, sektin er sanngjörn, tveir bjórar.

En það er auðvitað ekki svo að við getum ekki lagt eitthvað til málanna sem útlenskir gætu tekið upp. Undir formerkjum ,,torvelds aðgengis” fá stórnotendur, þ.e. þeir sem kaupa fyrir meira en kr. 100.000 í einu, ósómann sendann heim frítt frá einokunarverslunum hins opinbera. Sama á við ef neytandi býr í meira en 35km frá næsta útibúi (sem brátt verður enginn ef fjölgun ústölustaða heldur áfram með sama hraða og verið hefur).

Einnig hefur íslensku einokunarversluninni verið afhent sérstakt reglugerðarvald sem m.a. birtist í að ÁTVR bannar sölu á stærri umbúðum en þriggja lítra. Stofnunin hefur nefnilega fundið það út að stærri einingar hafi í för með sér aukinn ,,freistnivanda” fyrir þá sem eru veikir fyrir sopanum. Þeir veiklyndu geta hinsvegar keypt eins margar 3ja lítra einingar og þurfa þykir til að tóra út daginn.

Samkvæmt lýðheilsufræðinni fylgir aukinn freistnivandi stærri umbúðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur