Allir vita sem er að Framsóknarmenn bera af öðrum þegar kemur að heilbrigði og þarf ekki annað en að skoða yfirlitsmynd af nýliðnu flokksráðsþingi til að átta sig á því.
Ástæðan er vitaskuld sú að Framsóknarmenn borða eingöngu samkvæmt flokksforskriftinni um ,,íslenska kúrinn“ og fara alltaf nestaðir til útlanda.
Með sama hætti versla Framsóknarmenn aldrei áfengi nema í ríkiseinokunarverslunum og byrgja sig því sömuleiðis upp í Okurhöfninni í Leifsstöð á útleið svo ekki þurfi að versla ósómann í einkareknum búðum erlendis.
Heilbrigðust allra er auðvitað stærðfræðingurinn Eygló Harðardóttir sem reyndar er þekktari fyrir ,,byltingarkenndar sparnaðarleiðir“ við húsbyggingar heldur en smásöluálagningu.
Eygló telur það ,,ruddaskap“ að innleiða viðskiptafrelsi með löglegar neysluvörur – að fólki verði sjálfrátt um með hvaða hætti það stundar verslun. Þó er það svo að umrætt frumvarp um lítilsháttar tilslakanir með verslun með áfengi gerir samt ráð fyrir að það helsi sem Eygló og aðrir aðdáendur einokuanarverslunar vilja, þ.e. tvöfalt kerfi heildsölu og smásölu verði áfram rekið jafnhliða. Þannig mun Eygló áfram getað notið lakara úrvals og hærra verðs að vild í einokunarverslunum hins opinbera. Hvers vegna Eygló er engu að síður ,,æf“ skal ósagt látið.