Margir klóra sér í höfðinu yfir því af hverju krónan styrktist á sama tíma og Seðlabankinn stundaði nánast tryllingsleg uppkaup á gjaldeyri.
Engin hefur útskýrt af hverju þjóðin þarf á gríðarlegum gjaldeyrisforða að halda þegar fljótandi gjaldmiðill á jú að brúa bilið milli framboðs og eftirspurnar eftir gjaldeyri hverju sinni. Reyndar hefur heldur engin spurt, allra síst fréttamenn.
Tvö dæmi um furðulegt gjaldeyrisforðasprikl voru þegar Oddný G. Harðardóttir og Steingrímur J. tóku hvort um sig 1 milljarð dollara að láni til þess eins að sýna umheiminum að ríkissjóður gæti jú tekið slíkt lán. Eftir að lánin voru greidd upp kom í ljós að kostnaðurinn við þá sýndarmensku var enn meiri heldur en framboðið til Öryggisráðsins (svo dæmi sé tekið af handahófi) eða um 35 milljarðar í hvort skipti. Engin hefur enn spurt Oddnýju eða Steingrím hvar eigi að skera niður í velferðarþjónustunni á móti.
Í svari Lánasýslu Ríkisins við fyrirspurn um hvers vegna Ríkissjóður Íslands gefi út skuldabréf erlendis þó engin sé þörfin, kemur fram að útgáfunni sé:
ætlað að auka vitund fjárfesta um ríkissjóð Íslands sem útgefanda
Enn fleiri klóra sér svo aftur í höfðinu núna yfir þeirri staðreynd að gjaldmiðillinn hefur verið í nánast frjálsu falli í sumar, þrátt fyrir met innstreymi vegna ferðamanna, aldrei hefur horft betur á Íslandi hvort heldur er horft til skemri eða lengri tíma og sú staðreynd að Seðlabankinn er hættur uppkaupum á gjaldeyri.
Fyrir og reyndar eftir bankahrun bentu margir sérfræðingar, sér í lagi af vinstri vængnum á að hefði Seðlabankinn getað selt alvöru gjaldeyrisforða á brunaútsölu, hefði mátt fresta falli bankanna um 2-3 vikur. Í sama anda telja menn nú að gott sé að hafa mikinn forða því kæmi til áfalla, væri hægt að selja gjaldeyri á brunaútsölu til að fresta nauðsynlegri veikingu krónunnar með svipuðum hætti.
Ein helsta skýring á markaðnum á veiku gengi krónunnar er að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar dæli út fjármagni í vaxtaparadísina sitt hvorum megin við Atlantshafið í stað þess að þrýsta upp innlendum hlutabréfamarkaði með v/h hlutfalli 13 og skuldabréfamarkaði með 2,5% raunvöxtum (eða 5% nafnvöxtum).
Ef horft er til Evrópu þarf reyndar í flestum tilfellum að borga fyrir að fá að geyma peninga hjá traustum aðilum, t.d. eins og Nestlé sem nýverið gaf út skuldabréf á neikvæðri kröfu.
Ef horft er til Bandaríkjanna, þá virðist allt ganga þar í haginn með tilkomu Trump í forsetastól rétt eins og vinstri menn spáðu, þrátt fyrir samdrátt á vinnumarkaði, lítinn sem engan hagvöxt og engan vöxt í launum, svo mjög að þar er v/h gildi hlutabréfa 30 – sömu gildi og voru á því herrans ári 1929.