Laugardagur 12.05.2018 - 11:43 - FB ummæli ()

RÚV fellur á eigin prófi

RÚV, RíkisÚtvarpVinstrimanna býður landsmönnum upp á kosningapróf í aðdraganda sveitastjórnarkosninga 2018. Prófið er athyglisvert fyrir nokkrar sakir, sumar augljósar og aðrar faldar. Sú staðreynd að margir frambjóðendur eru ekki sammála sjálfum sér gefur prófinu reyndar augljósa falleinkunn.

Eins og oft háttar til er pólitískur áróður stofnunarinnar lævís, ýmist í formi leiðandi spurninga eða þess sem ekki er spurt um eins og hvers vegna sveitarfélög fjölga ekki lóðum, hugsanlega í nýjum hverfum eða með þéttingu til að slá á hækkun húsnæðisverðs.

Nokkur dæmi um leiðandi spurningar:

Er nauðsynlegt að lækka skuldir jafnvel þó að slíkt þýði auknar álögur?

Hér er semsagt gefið að ekki sé hægt að greiða niður skuldir með því að draga saman óþörf útgjöld. Þó eru til fjöldi dæma um sveitarfélög sem einmitt hafa farið þá leið eins og t.d. Árborg sem meira að segja hefur uppskorið mælanlegar framfarir á borð við aukna ánægju íbúa með stjórnsýslu og árangur skólabarna í Pisa könnunum.

Sveitarfélagið ætti að reka öflugan tónlistarskóla

Hver ætli sé munurinn á ,,öflugum“ tónlistarskólum og hinum? Er tilgangur lýsingarorðsins að árétta að einungis hið opinbera geti stundað ,,öflugan“ rekstur? Nú er það svo að fjöldi tónlistarskóla eru reknir af einkaaðlum þó svo að þeir í mörgum tilfellum séu kostaðir með almannafé. Er RÚV að leggja til sveitarfélög taki yfir slíkan rekstur? fari í samkeppni? Svarið er reyndar augljóst, spyrjandinn vill ekki sjá annað en opinberan rekstur.

Sveitarfélagið ætti frekar að leggja áherslu á aukna þjónustu við íbúa heldur en að lækka álögur

Til grundvallar þessari spurningu er sú sannfæring spyrjanda að öllum sköttum sé varið í eiginlega þjónustu sem er auðvitað víðs fjarri. Sem dæmi mætti nefna Reykjavík þar sem útsvarsprósenta er í hæstu lögleyfðu hæðum og fasteignaskattar himinháir, en samt hefur þjónustan versnað svo í valdatíð Dags B. Eggertssonar, að hann þorir ekki lengur að taka þátt í þjónustukönnun sveitarfélaga hjá Gallup. Ennfremur er magnað að borgarbúar njóti í engu hagkvæmni stærðarinnar hjá þessu langstærsta sveitarfélagi landsins.
Kjósendur í Reykjavík geta líka spurt sig hvaða þjónustu þeir fái fyrir þá milljarða sem varið hefur verið í Risarækjueldi, Línframleiðslu eða með höfuðstöðvum OR sem nú á að rífa.
Notendur Ríkisútvarpsins telja vitaskuld að könnun af þessu tagi sé óvilhallur og nákvæmur mælikvarði á afstöðu framboða til sveitarstjórna, til samræmis við lögbundna hlutleysisskyldu ríkisfjölmiðilsins en eins og svo oft áður fær RÚV falleinkunn á því sviði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur