Miðvikudagur 04.11.2015 - 10:55 - FB ummæli ()

RUV Talar – línulega

Hjartnæmt var að lesa grein útvarpsstjóra ,,Samtal við eigendur“  sem er lýsing á ferðalagi ,,eigenda“ þ.e. útvarpsstjóra og starfsmanna hans við skattgreiðendur. Útvarpsstjóri segir að ,,Ríkisútvarpið þarf að þróast með þörfum eigenda sinna, íslensks almennings“ og á þar að sjálfsögðu við hina rúmlega 250 starfsmenn stofnunarinnar sem er jú ,,almenningur“

Sem hluti af svokallaðri ,,aðlögun“ verður haft samband við tækjaframleiðendur og þeim bent á að bæta við loftnetstengjum sem upp á vantar í sum tæki sem ranglega eru kennd við framtíðina. ,,Eigendur“ RUV stjórna auðvitað dagskránni og því þurfa notendur ekki að fjárfesta í búnaði til slíkrar útsendingar (sem þar að auki hefur ekki einu sinni loftnetstengi) Kjarni málsins er að línuleg dagskrá er allstaðar í rekstri svona rétt eins og telefaxtæki og þó að áhorf ungs fólks sé niður um 47% skiptir það bara engu máli.

Apple-TV-3

Hvar er örbylgjuloftnetstengið?

Frédéric Bastiat sagði eitt sinn að ríkið væri goðsögnin mikla um að allir gætu lifað á kostnað annara. Í anda þeirrar kenningar bendir RUV á að kosturinn við 4.000 milljóna loftnetsgreiðukerfi stofnunarinnar sé sá að hann lendir ekki á notendum bara einhverjum öðrum.

Til samræmis við ,,eigendastefnu“ RUV má benda á að stofnunin er eini fjölmiðill landsins sem ekki tekur við aðsendu efni frá neitendum sem vitaskuld er í samræmi við hina línulegu hugsun. Hinir eiginlegu eigendur stjórna ekki bara einu heldur öllu. Um inntak boðskaparins er engu við að bæta í nýlegum pistli á vefsíðunni Andríki. Ályktun eigendafélags RÚV um að það sé langþreytt á kröfum um ráðdeild í rekstri og gagnvirkni er auðvitað til samræmis við að stofnunin talar línulega til þjóðarinnar en ekki við hana.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur