Banvænasta stjórnarstefna veraldar er sósíalismi sem varlega áætlað hefur kostað 100milljónir manna lífið, allt í göfugum tilgangi auðvitað. Einhver eitraðasti kokteill sem fundinn hefur verið upp í seinni tíð er blanda af sósíalisma og lýðheilsufræði. Þannig lofsyngur Ögmundur Jónasson ríkiseinokunarverslanir hins opinbera í nýlegri grein í Fréttablaðinu sem gæti verið sjálfstæður viðauki við bók George Orwell 1984.
Ekki veit bréfritari hvort Ögmundur sé betri í að stjórna eigin áfengisneyslu en annara en almennt virðist svo vera að þeir sem síst skyldi, telja sig hæfasta til að hafa forsjá fyrir öðrum.
Það að banna fullveðja einstaklingum að eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur á borð við vín kallar Ögmundur ,,samfélagslega aðkomu” Sjónvarpsandlitið Páll Magnússon telur sig hinsvegar ekki vera forsjárhyggjusinna heldur ,,umhyggjusinna“ sem Ögmundur tekur auðvitað undir. Ögmundur tiltekur síðan það sem hann nefnir ,,málefnalegar spurningar og vangaveltur” ríkisrekstrinum til stuðnings:
a) betra utanumhald og minni ágang markaðsafla
Hér er Ögmundur að sjálfsögðu að vitna til þess hversu vel hefur til tekist í Leifsstöð að flétta saman snyrtivörum, áfengi, sælgæti og leikföngum og pakka svo öllu saman inn í áfengisauglýsingar ,,True Icelandic Experience“
b) er betri fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi okkur sem skattgreiðendur
Hér talar Ögmundur út um afturendann á George Orwell vitandi að rekstur sérverslana ÁTVR er niðurgreiddur með hagnaði af tóbaksgjaldi. Ef við gæfum okkur að ekki væri til ÁTVR í dag og stofna ætti til slíks óskapnaðar sem kosta myndi 2,5 milljarða á ári, myndi Ögmundur auðvitað réttilega spyrja hvar ætti að skera niður í velferðarþjónustunni fyrir því?
c) ,,færir okkur hagstæðara verðlag (hátt útsöluverð stjórnast af álagningu)“
George Orwell gæti ekki orðið stoltari, stríð er friður og frelsi er ánauð. Eina verslunarformið sem er betra en einokun er jú ríkisrekin einokun. Þess vegna rekum við jú einmitt Samkeppniseftirlit.
Hátt verðlag stýrist af álagningu, einokunarverslun er best
d) tryggir meira úrval
Já einmitt, svona rétt eins og mjólkurbúðirnar forðum færðu okkur meira úrval af mjólk auk þess sem framboð á hárvötnum og bökunardropum er ekki svipur hjá sjón eftir að ríkiseinokun lauk á þeim nauðsynjavörum.
e) dregur úr aðstöðumun þéttbýlis og dreifbýlis; ef þetta er svo, er þá ekki sjálfsagt að halda í það fyrirkomulag sem við búum við?
Flestar verslunarkeðjur auglýsa ,,sama vöruverð um land allt“ þar með talið Anton Berg vínflöskur. Eina undantekningin er Keflavíkurflugvöllur þar sem góðgætið kostar tvöfalt meira þó án gjalda og vsk.
Það fyrirkomulag ,,sem við búum við“ er einmitt byggt á þeirri hugmyndafræði að einstaklingurinn er grunneining samfélagsins. Viðskiptafrelsi er ekki einasta stærsta hagsmunamál hverrar þjóðar heldur varðar líka atvinnufrelsi sem jafnframt flokkast sem mannréttindi. Ef tveir einstaklingar vilja eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur og borga af því skatta og skyldur, skiptir skoðun ráðríkra engu máli allra síst þeirra sem styðjast við hugmyndafræði sem fyrir löngu ætti að vera búið að henda á ruslahauga sögunnar.