Sunnudagur 02.01.2011 - 23:26 - Rita ummæli

Sjálfstæðisbaráttan

Gleðilegt ár

Nú er nýtt ár gengið í garð með vonum sínum og væntingum. Árið 2011 leggst vel í mig. Að hluta til er það vegna þess að þá verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar fánabera sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld.  Hann er mikilvæg táknmynd þeirrar  þróunar sem nú á sér stað. Við erum í raun að heyja nýja sjálfstæðisbaráttu og sem betur fer með orðin að vopni eins og fyrr þó að upphaf hennar megi rekja til harðra átaka á Austurvelli veturinn 2008 til 2009. Þá sýndi þjóðin að hún ætlaði ekki að láta óvitra stjórnmálamenn troða sér um tær. Þjóðin sýndi tennurnar og þó að hún hafi ekki öll verið á Austurvelli, þá var þetta þjóðin sem talaði. Ég tel mig bæði vera friðarsinna og lýðræðissinna og mætti á flesta fundi og sá þar venjulegt fólk; þverskurð þjóðarinnar. Ég mætti ekki á margar brennufórnir nema þegar ég  las, með titrandi röddu, niðurstöðu fundar Samfylkingarfélagsins í Reykjavík fyrir utan Þjóðleikhúskjallarann 21. janúar 2009. Þetta var þjóðin og hún talaði og það var hlustað. Þjóðin talaði aftur í haust og það var hlustað. Við verðum að finna leiðir til að tryggja almenningi meiri aðkomu að stjórnmálum því kosningar á fjögurra ára fresti duga ekki. Varla getum við búið við reglulegar uppreisnir með bálförum og grænmetiskasti þó að þær hafi dugað í þessum hremmingum.

Nú er að renna upp ný öld upplýsinga þar sem allur almenningur getur skyggnst inn í hugarfylgsni þeirra sem taka ákvarðanir, ákvarðanir sem áður voru teknar í reykfylltum bakherbergjum. Nú er jafnvel hægt að fylgjast með hugsunum í þróun ef maður er tilbúinn að leggja eitthvað á sig.

Því miður telja fjölmiðlarnir á Íslandi það vera verkefni sitt að stilla málsmetandi fólki upp í hanaati fyrir framan hljóðnema og myndavélar þar sem hanarnir tæta í sig upplýsingarnar sem liggja síðan sem slitur fyrir augum og vitund manna svo að enginn skilur neitt í neinu.  Þessi tegund fjölmiðlunar  á Íslandi virðist eiga rætur í misskildu hlutleysi sem Ríkisútvarpinu var gert að vera, meðan það var og hét.  Það eru til blaðamenn sem eru góðar undantekningar frá þessari hefð. Enginn þeirra nýtur þó þeirrar virðingar né fjölmiðlar að úrskurður þeirra um sannleika í einstökum málum skeki embættisstöðu eða hlutskipti nokkurs manns. Maður heyrir þó sögur af þessu frá útlöndum að svona sé þetta þar sem  vel unnar og ígrundaðar blaðagreinar og þættir hræða buxurnar af sumu fólki svo ég leyfi mér nú erlent líkingarmál. Vangeta íslenskra fjölmiðla að þessu leyti getur seinkað eða jafnvel eyðilagt möguleikana á því að vitundarvakningin og sjálfstæðisbaráttan sem nú stendur yfir heppnist.

Fjölmiðlarnir eru ekki aðeins mikilvægur, heldur nauðsynlegur hlekkur í sjálfstæðisbaráttu hins nýja Íslands, því að þeir bera ábyrgð gagnvart almenningi gagnvart venjulegu fólki í að flokka sannleikann í hverju máli frá vafaatriðunum og álitamálunum. Ekki er gott að allt sem sveimar um vitundarlíf þjóðarinnar séu vafaatriði og álitamál þá verður hún bara rugluð. Ég þar með talinn.

Bjartsýnn er ég samt og trúi á framtíðina því að sagan segir mér að þó að mannkyn og það kyn sem lifir og hrærist á þessu skeri eigi margt eftir ólært þá hefur margt lærst og sumt jafnvel utan að.

Þetta var mitt fyrsta orðaskak.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur