Sunnudagur 16.01.2011 - 20:36 - 1 ummæli

Hvað er að okkur?

Í morgun hófst hin eiginlega rannsókn á hruninu. Beitt er rannsóknaraðferðum Sókratesar og ekkert gefið eftir í greinandi spurningum. Viðmælandinn er knúinn svara og þegar hann svarar er spurt að nýju. Það verður forvitnilegt að heyra af niðurstöðunni því að hún skiptir okkur Íslendinga miklu máli ef við ætlum að komast upp úr þeirri forarvilpu sem við erum staddir í. Þarna gekk ég of langt í fullyrðingu minni. Látum forarvilpuna standa, því að hver veit nema að lýsingin eigi við. Það getur verið gott að hafa tilgátu til að ganga út frá þegar rannsókn stendur yfir.

Það er tvennt gott við þessa rannsókn. Í fyrsta lagi er hún opinn og gagnsæ (allir geta hlustað) og í öðru lagi er hún unnin af fagmennsku. Ævar Kjartansson hefur nú um nokkurra missera skeið haldið úti útvarpsþætti milli kl. 9 og 10 á sunnudagsmorgnum í samvinnu við þjóðþekkta spekinga og fengið til sín aðra þjóðþekkta spekinga. Nú heitir þátturinn „Landið sem rís“ og er undirtitillinn, samræður um framtíðina. Með Ævari er Jón Ormur Halldórsson sem lengi hefur getið sér gott orð fyrir spaklega og greinandi pistla um ýmiss málefni í gegnum árin. Báðir eru þeir Ævar og Jón með geðþekkar og seiðandi útvarpsraddir sem gefa stöðugt í skyn að eitthvað spennandi sé á næsta leiti. Þannig eru einmitt þættirnir og ætti enginn að láta þessa þáttaröð framhjá sér fara. Það sem gerði þáttinn spennandi í dag var að Jón Ormur var ekki með hugleiðingar í spurningum sínum heldur spurði eins og Sókrates og fylgdi spurningum einungis eftir með stuttum skýringum. Jón Ormur gerði betur en margir af lagsmönnum Ævars undanfarin misseri, sem flestir hafa brugðist við hugleiðingum gesta með eigin hugleiðingum, því hann lætur spurningarnar lifa sjálfstæðu lífi. Hann spurði og lét það á sér skiljast stundum, að hann spyrði vegna þessa að það væri mikilvægt að spyrja en ekki vegna þess að hann hefði þá skoðun sem spurningin fól í sér. Þetta er spennandi nálgun.

Viðmælandinn var Njörður P. Njarðvík og fór vel á því þar sem hann hefur ritað marga góða pistla um þjóðfélagsmál og er þar að auki mannvinur. Við rannsóknina í dag kom skýrt í ljós hvað Njörður á gott með að greina einkenni vandans,  þjóðareðlið eða óeðlið og margt setur hann í skýrt samhengi. Heldur var hann þó svartsýnn á framtíðina sem er merkilegt því að sjálfur er ég sannfærður um að hugleiðingar hans hafi þegar gert okkur Íslendingum gott, svo ekki sé talað um aðkomu Njarðar að einum merkilegast viðburði Íslandssögunnar frá árinu 1000 sem er stjórnlagaþingið. Jóni (Sókrates) tókst ekki að finna út í samræðu sinni við Njörð hvað væri að okkur Íslendingum þó að margar atlögur væru gerðar. Hlakka ég til að hlusta á næsta þátt að viku liðinni og heyra hver verður þá sókratesaður.

Eiginlega datt manni í hug eftir samræðuna að við Íslendingar værum samansafn skítseiða. Þeir félagar þrír komust næstum því að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu spillt eðli. Kannski er spilling samofin menningu okkar eins og einn ágætur blaðamaður sagði á fyrirlestri sem ég hlustaði á í byrjun desember. Ég saklaus maðurinn brást við með þeim hætti úr ræðustól hvort að þetta gæti nú virkilega verið satt. Blaðamaðurinn og þeir félagar í morgun sýndu fram á margvísleg einkenni sem ekki er hægt að neita. Hvað um það? Markmið samræðunnar er að reyna að finn orsök hrunsins í þjóðareðlinu svo að hægt sé að lækna það. Ég get því ekki annað en fagnað þessari rannsókn en vil leyfa mér að halda í þá kenningu að við séum frekar stödd í forarvilpu. Líkingin segir þá að með samstilltu átaki komumst við uppúr og getum þvegið af okkur skítinn en ekki að við séum svo sundurlynd og spillt að við komust hvergi.

Þetta var mitt annað orðaskak.

Ásgeir

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • stefán benediktsson

    Ég bendi bara, af umræðu um íslendingseðlið, á þau mörgu orð nóbelskáldsins um ófullkomleika íslendinga og svo þá staðreynd sem Jón Ormur sannaði að svörin skipta engu máli heldur spurningarnar. Börn eiga að læra að spyrja miklu frekar en að svara. Þannig verður til gagnrýnið og meðvitað fólk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur