Sunnudagur 23.01.2011 - 12:22 - 1 ummæli

ÞJÓÐIN OG DORRITT

Líf hennar hófst af ótrúlegri dirfsku en jafnframt miklu hugrekki og hún átti og á afrek sem vakið hafa heimsathygli frá þessum tíma. Svo komu ár, áratugir og aldir sem hún var eiginlega í fangelsi eða innilokuð; ekki ósvipað og Dorritt.  Síðan kom ríkidæmið að utan með aðkomufólki heldur ekki ósvipað og var með Dorritt. Þá varð hún drambsöm, bara alveg nákvæmlega eins og Dorritt, já og varpaði af sér sögu sinni og vildi ekki þekkja þrengingartímana en lyfti sér upp á fornri frægð og nýfengnum auði.  Taldi sig samt hafa einhver fjölskyldugildi, eitthvað til að vera stolt af, eitthvað sameiginlegt sem var mikilvægt. Hr. Vilhjálmur Dorritt hann grætur meira að segja þegar Dorritt litla reynir að fá hann til að læra af fortíðinni þó ekki nema væri til að halda vinskap Arthurs Clennams. Ef saga Íslendinga er svona lík örlögum Dorritt fjölskyldunnar fer þá fyrir þeim eins og Íslendingum? Mun drambið fella fjölskylduna. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta fer allt saman. Má kannski líkja persónum og leikendum í sögu Dickens um hana Dorritt litlu við sögusvið íslensks samfélags. Eru persónurnar í kringum fjölskylduföðurinn, stjórnmálamenn og áhrifavaldar í samfélagi okkar?  Hver er til dæmis Rigaud sem er hinn sami og Blandois og Lagnier þessi þrjótur sem bregður sér í þessi gervi til að fela glæpi sína? Er þetta táknmynd hins undarlega og óskiljanlega kennitöluflakks í viðskipalífinu?  Hvað með Dorritt litlu er hún hin veikburða sál þessarar þjóðar sem nær ekki að blómstra og ráða ferðinni. Ég mun áfram fylgjast spenntur með. Mun drambið fella Hr. Vilhjálm Dorritt. Var það dramb sem felldi okkur spyr nú einhver. Var það ekki eitthvað annað? Sá sem bar þjóðina og kjarna hennar á borð fyrir útlendinga sagði og taldi upp tíu eiginleika sem hann sagði að hefðu mótað okkur Íslendinga. Við eru vinnusamir bændur og sjósóknarar. Við viljum árangur frekar en að velta okkur upp úr ferli ákvarðana. Við eigum auðvelt með að taka ákvarðanir, já og þorum þar sem aðrir hika. Við látum ekki skrifræði þvælast fyrir okkur. Við treystum hverju öðru og erum sérlega orðheldin. Við eigum auðvelt með að mynda samstarfshópa sem stefna að sama marki sem iðandi keðja bandamanna í ákvörðunum. Stjórnendur okkar eru stjórnendur eins og skipstjórar í brúnni sem deila örlögum og áhættu með áhöfnunum. Fornöldin, arfleifðin og afrek fornaldarinnar færir okkur fyrirmyndir um hvernig við eigum að haga okkur.  Tengsl við fornöldina er svo skýr og tær; við vitum að mannorð er dýrmætara en flest annað. Svo að lokum þessi virðing fyrir frumleikanum svipað eins og virðingin sem var fyrir skáldunum í öndvegi. „Orðið afhafnaskáld er lýsandi dæmi um hvernig þessi hugsun hefur fengið gildi í samtímanum.“ (Síðasta setningin er bein tilvitnun í ræðu Ó.R.G. í fyrirlestri hjá Sagnfræðingafélaginu 10. janúar 2006). Er ekki alveg magnað að eiginkona forsetans skuli heita Dorritt alveg eins og sögupersónur Dickens sem eru „kannski“ að teikna upp örlög okkar í söguþræði sínum.

Þetta var mitt þriðja orðaskak.

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Jakob Andersen

    Goður!

    En gaman er að pæla í Mrs. General. Konan sem Vilhjálmur tekur með til Ítalia og sem hefur sem hlutverki að „ala upp“ Little Dorritt. Dickens skrifar eftirfarandi um hana:

    „Mrs General had no opinions. Her way of forming a mind was to prevent it from forming opinions…Mrs. General was not to be told of anything shocking. Accidents, miseries, and offences were never to be mentioned before her…“
    Fjölmiðlar ano 2007?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur