Sunnudagur 30.01.2011 - 11:52 - Rita ummæli

TOLLIR FRAMTÍÐIN OFAN Á SAMTÍMANUM

Hvern virkan dag stíg ég inn í framtíðina og þá gleðst ég, því efniviðurinn sem er fólkið í þessa framtíð er góður. Það er fólkið sem mótar samtíð sína og veldur hver á heldur hverju sinni. Samfélag okkar er fólkið, hvernig það hugsar og hvernig það breytir. Hvernig það tekst á við sjálft sig horfir í spegil sinn hvort sem hann nú er ímyndaður eða raunverulegur. Hver er ég og hvert vil ég fara og hvernig vil ég hafa mitt samfélag? Samfélag okkar er líka samskiptareglur okkar og hefðir sem eru bæði formlegar og óformlegar. Ef ég tek mið af því samfélagi sem ég geng inn í á hverjum degi og er efniviður í framtíðina þá hef ég ekki áhyggjur. Það er auðvitað verkefni á hverjum degi að viðhalda þessu samfélagi því að uppeldi og menntun gerir miklar kröfur til allra. Á meðan við höfum gott vald á þessu verkefni og þetta samfélag er jákvætt, hófstillt og fyrirgefandi þá er það á réttri leið. Þessi framtíð sem ég geng inn í hvern virkan dag er grunnskólinn sem ég starfa í ásamt um 460 öðrum nemendum og starfsfólki, þá tel ég ekki samstarfshópinn foreldrana, en þá erum við komin talsvert yfir 1000 manns. Ef við gefum okkur að yngstu börnin okkar séu farin að hafa áhrif á samfélag sitt eftir um 30 ár með athöfnum sínum og orðum, þá sjáum við fram í tímann; íslenskt þjóðfélag árið 2041. Önnur eldri börn koma fyrr inn og hafa áhrif. Ég segi stundum í útskriftarræðum mínum að ég óttist ekki að verða ellilífeyrisþegi í þjóðfélagi þeirra sem eru að útskrifast. Ég er því bjartsýnn á hverjum degi og get ekki annað því að framtíðin er björt með uppvaxandi kynslóð.

Ef ég lít hins vegar á samtíð mína þá hef ég áhyggjur af því að við þessir fullorðnu séum ekki að búa samfélagið í hendurnar á börnum okkar, þannig til dæmis að þau hafi úr einhverju að moða. Í því efni hef ég mestar áhyggjur af landinu þaðan sem við höfum næringu og lífsgleði, sjónum sem einnig gefur hvorutveggja og loftinu sem við öndum að okkur og er háð því hvernig samskipti okkar eru við náttúruna. Þetta eru auðlindir sem eru takmarkaðar og við þurfum að tryggja okkur öllum aðgang að og enginn má hrifsa þessar auðlindir til sín sem sína einkaeign. Það er sem sagt almannahagur sem á að ráða för í nýtingu allra okkar auðlinda og eina leiðin til þess er að auðlindir séu eigu ríkisins.

Nú standa yfir grímulaus átök um þessar auðlindir. Það eru stjórnmálaflokkar sem eru þeirrar skoðunar að auðlindir eigi að vera einkaeign svipað eins og var í Klondike í Norður Ameríku. Þá máttu menn stika sér land og graf upp auðæfin handa sjálfum sér. Sama á við um Texas þar sem menn keyptu sér land og boruðu eftir svarta gullinu. Það er til fólk sem áttar sig ekki á því að þessi tími er liðinn í mannkynssögunni. Auðlindirnar eru takmarkaðar og við verðum því að gæta sameiginlegra hagsmuna í nýtingu þeirra. Sem betur fer er umræðan að skerpast og stjórnmálamenn eru farnir að tala tæpitungulaust um hagsmuni sína. Línurnar eru að skýrast. Núna til að byrja með eru menn með skítkast og gífuryrði en þess þarf ekki því að línurnar eru klárar og um þær má alveg tala með yfirveguðum hætti. Pólitíkin er sem sagt að ná sér á strik og þess vegna þurfum við að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir tali um hugmyndafræði. Hugmyndafræði pólitíkurinnar er umræðan um skiptingu gæða en það hefur gleymst. Því miður sjáum við ennþá umræðu í áhrifamiklum fjölmiðlum á lágu plani þar sem ekki er leitað sannleikans heldur efnt til karps. Spyrillinn spyr til skiptis og dagskrá hans virðist rýr og lítið ígrunduð. Fólkið í landinu þarf að fá að heyra sannleikann til að geta tekið afstöðu.

Það hefur alltaf verið þannig í samfélagi manna að ákveðinn hópur telur sig vera réttborinn til valda og áhrifa. Þannig er það einnig hér og kannski er það eðlilegt að hinir réttbornu séu ekki tilbúnir til að sleppa hendinni af valdataumunum og „eignum“ sínum. Hinir réttbornu hafa alltaf verið tilbúnir til að leggja í talsverðan herskostnað til að halda sínu. Það sem hinir réttbornu hræðast mest er lýðræði þar sem hinir réttbornu eru á öllum tímum minnihlutahópur sem hefur sérhagsmuni sem meirihluti hins lýðræðislega þjóðfélags stendur aldrei með þegar til kastanna kemur og gríman er fallin. Nú er hafin baráttan um brauðið fyrir börnin okkar, baráttan fyrir því að það verði úr einhverju að moða í framtíðinni. Það sem eykur mér bjartsýni á að okkur muni takast að tryggja brauðið er að fólkið í landinu lætur ekki segja sér hvað sem er í dag. Í skoðanakönnun um daginn svaraði einungis um helmingur til um stjórnmálaskoðun sína. Það er orðin til nýr stjórnmálaflokkur sem ég kalla „þjóðina sem hugsar“ og við höfum séð mörg dæmi þess að sá flokkur sé orðinn stór og sterkur. Þessi þjóð sem hugsar vill lýðræði og það gefur von og eykur bjartsýni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur