Sunnudagur 06.02.2011 - 19:11 - 2 ummæli

ER TÍKIN PÓLÍ, DAUÐ?

Almúgamaðurinn vaknar snemma morguns við vekjaraklukku. Klukkan getur verið af ýmsum stærðum og gerðum allt eftir smekk og efnahag almúgamannsins. Hann kaupir sér nýja þegar hún bilar og hreyfir þannig efnahagslífið áfram og hluti fjárins rennur til ríkisins. Kannski er vekjaraklukkan útvarp líka og hann heyrir fregnir af því sem er að gerast í heiminum á meðan hann er að vakna. Hann fær að heyra kost og löst á ýmsu, hann fær kannski holl ráð um eitthvað svo ekki sé nú talað um gagnrýni á ýmislegt sem er að gerast í samfélagi hans. Almúgamaðurinn á fjölskyldu er á miðjum aldri og á börn með almúgakonunni sinni. Þau eru öll komin á fætur, þeim líður vel þó að þau séu syfjuð því að þau hafa ekki fjárhagsáhyggjur þar sem það eru tvær fyrirvinnur og börnunum gengur vel í skólanum. Ríkið er heldur ekki að íþyngja þeim andlega eða líkamlega með kröfum, sköttum eða öðrum afskiptum enda hafa þau í raun allt til alls, hús og bíl og flesta fylgihluti. Við þetta er að bæta að þessari fjölskyldu finnst hún vera frjáls bæði að orðum sínum og æði.  Þau fá sér morgunmat sem keyptur var í verslun sem þau völdu sjálf og býður upp á ódýrar vörur vegna þess að það er samkeppni í smásöluverslun í landinu. Að loknum morgunverði fara hjónin til starfa sinna sem þau ákváðu tiltölulega ung að sinna og þurftu að mennta sig til en menntunin var að mestu á kostnað skattgreiðenda í landinu. Börnin eru á grunnskólaaldri og fara í skólann í hverfinu sem er vel rekinn og mannaður af góðum og áhugasömum kennurum sem einnig voru aðallega menntaðir á kostnað samfélagsins. Almúgamaðurinn býr greinilega í þjóðfélagi þar sem er blandað hagkerfi; þetta er réttlátt norrænt land. Almúgamaðurinn myndi jafnvel taka undir með kínversku konunni í sjónvarpinu sem sagði aðspurð um hvers hún óskaði þegar ár kanínunnar gekk í garð: „Ég vil að vinnan gangi vel og að allir í fjölskyldunni séu glaðir og ánægðir,“

Við viljum segja við kínversku konuna að hún ætti að óska sér að í landi hennar yrði leyfð pólitík. Hún veit ekki hvað pólitík er. Þurfum við sem búum í blönduðu norrænu hagkerfi, pólitík? Árin eftir aldamótin síðustu heyrði maður marga tala um að hægri og vinstri pólitík væri  dauð. Nú gætu allir unnið með öllum; þetta væri bara spurning um að halda þjóðfélaginu gangandi. Frá almúgasjónarhorni þá er þetta eðlilegt viðhorf því að það er enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem „virðist“ ætla sér að breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum; til hvers þá að vera með stjórnmálaflokka. Þá er ágætt að gleyma því ekki að það þurfti verkalýðs og stjórnmálabaráttu til að búa þetta þjóðfélag til og það þarf sömu baráttuna til að viðhalda því. Hrunið ætti að sanna fyrir almúgmanninum og almúgakonunni að það sé þörf fyrir stjórnmálabaráttu. Efnahagskerfið hrundi vegna þess að tiltekin stjórnmálastefna náði undirtökunum í samfélaginu og keyrði það í þrot. Það voru ungir menn í tilteknum flokki sem trúðu af hreinleika sálar sinnar að þjóðfélagið yrði betra ef þeirra hugmyndir fengju að ráða. Þeim tókst ætlunarverk sitt en það kom í ljós að þeir höfðu rangt fyrir sér. Nægilega stór hópur kjósenda kaus þennan stjórnmálaflokk nægilega oft til að hugmyndafræðin næði nægilegri fótfestu til þess að breyta þjóðfélaginu. Þjóðfélag almúgamannsins breyttist mikið og ef ég gæfi honum orðið þá gæti hann talið ýmislegt upp, en það er hins vegar ekki verkefnið.

Mengi hugmynda.  Ef við drægjum upp hringi og hver þeirra fæli í sér einn stjórnmálaflokk og hefðum þá í hnapp, þá væri hægt að draga hring yfir þá sem væri sjóndeildarhringur almúgamannsins. Hugmyndamengi þeirra sem vilja hafa þjóðfélagið nokkurn veginn eins og almúgamaðurinn vill hafa það.  Þetta er það sem truflar okkur í stjórnmálaumræðu dagsins í dag. Það eru margir ólíkir stjórnmálamenn og flokkar í þessu hugmyndamengi almúgamannsins og það er augljóst að það er margt sem sameinar stjórnmálaflokka á Íslandi. Það sem virðist sundra þeim við fyrstu sýn er fólk og sérhagsmunir, jafnvel persónuleikar. Af þessum ástæðum njóta stjórnmálamenn lítillar hylli. Ef þeir hefðu vit á, sérstaklega þeir sem ætla sér eitthvað í framtíðinni, að breyta orðræðu sinni þá myndu þeir ná hylli fyrir hugsjónir sínar. Í gær laugardag kom upp í hendurnar á mér alveg einstaklega gott dæmi. Ég reyni annars að forðast tilvitnanir í einstaklinga í pistlum mínum til að halda þeim innan kurteisrar umræðu um það sem skiptir máli. Ég vona að mér verði fyrirgefin tilvitnunin. Hér er að vísu tilvitnun í stjórnmálamann á útleið og það er kannski ágætt svo að ég sé ekki að taka dæmi af einhverjum í eldlínunni.

„Auðvitað má segja sem svo að það sé illt fyrir formann að sitja undir hrósi frá Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli, en í málinu verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari óhæfu ríkisstjórn sem situr í landinu.“ (Geir Haarde í viðtali í Ríkisútvarpinu 5. febrúar 2011.)

Það hefði mátt segja þessa sömu hugsun þannig að hún væri ekki um menn heldur málefni. Það er ekki óeðlilegt að stjórnmálamanni til hægri þyki ekki gott að stjórnmálamaður til vinstri hrósi honum eða samherjum hans. Það er rétt sjónarhorn í málefnalegri stjórnmálabaráttu, þar sem ólík viðhorf og sjónarmið takast á. Breytt yrði yfirlýsing Geirs Haarde svona:

Auðvitað má segja sem svo að það sé ekki gott fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að sitja undir hrósi frá formanni Vinstri grænna í þessu máli, en í því verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari ríkisstjórn sem nú situr og veldur ekki verkefni sínu.

Með þessum orðalagsbreytingum verður fullyrðing Geirs um málefni en ekki menn. Hvers vegna við föllum í þá freistni að ræða um menn en ekki málefni er ekki gott að segja. Sumir segja að það sé vegna þess að við sem þjóð kunnum ekki að rökræða en séum góð í að segja sögur. Kannski er það líka vegna þess að við erum of fá og þekkjumst öll!

Ég hef teiknaði upp mynd í huga mínum af litrófi stjórnmálanna og í því litrófi er hægri og vinstri einungis til vegna þess að ég teiknaði myndina þannig. Það er mín skoðun að víddir stjórnmálanna séu þrjár eða eigi heima í grófum dráttum í þremur brennipunktum. Þeir sem eru lengst til hægri, þeir vilja lítil afskipti ríkisstjórna. Hægri menn trúa því að menn eigi að stjórna eins litlu og hægt er í þjóðfélaginu það eigi bara að vera almennar umferðarreglur og viðskipti. Menn hugsi hvort sem er ævinlega um eigin hag í öllum samskiptum og því sé best að lögmál sem til verði í hvers konar viðskiptum stjórni þjóðfélaginu. Nú skulum við teikna upp fleyg í huganum sem er breiður hægra megin og  á breiða endanum eru þeir sem eru algjörlega sammála þessum hugmyndum sem ég hef lýst. Fleygurinn sem er litskiptur nær síðan talsvert yfir til vinstri og endar í oddi. Það má segja að tákn þeirra sem eru lengst til hægri geti verið kross. Með öðrum orðum þeir trúa á þessar skoðanir sínar eins og þær séu guðmagnaðar, eilífar og algildar. Stundum eru slíkir menn kallaðir bókstafstrúarmenn. Eftir því sem við förum lengra til vinstri þá breytist krossinn í spurningamerki sem er tákn þeirra sem eru tilbúnir að spyrja og leita svara. Eru tilbúnir til að ræða málin, finna málamiðlanir.

Nú skulum við fara lengst til vinstri á litrófinu en þar höfum við þá sem trúa því að menn geti stjórnað með viti sínu og skynsemi og þeir vilja að öllu sé stjórnað. Þeir sem eru lengst til vinstri vilja meira að segja að allar stofnanir og atvinnutæki séu í höndum einhverra viturra og góðra manna sem væru kosnir á grundvelli hæfileika sinna til að stjórna. Á sama hátt getum við táknað skoðun þeirra með krossi, því að viðhorf þeirra eru eins ákveðin og væru þau goðmögnuð, eilíf og óskeikul. Þess vegna er það svo að almúgamaðurinn sér viss samkenni með hægri hægrimönnum og vinstri vinstrimönnum og leyfir sér stundum að halda að þeir geti stjórnað landinu saman. Á sama hátt og áður þá er hægt að teikna marglitan fleyg sem er breiðastur vinstra megin og mjókkar síðan til hægri. Krossinn sem er tákn hinnar fullkomnu vissu breytist því smátt og smátt í spurningamerki eftir því sem við færum okkur til hægri eftir fleygnum. Fleygarnir sem ég hef nú lýst eru tákn fyrir hópinn eða einstaklingana sem tilheyra þessum tveimur hugmyndakerfum. Nú skulum við leggja þessa tvo fleyga saman í huganum og við skulum láta vinstri fleyginn liggja ofan á og hægri fleyginn vera undir. Ástæðan er sú að vinstri fleygurinn táknar mannvit og stjórnun en hægri fleygurinn táknar eigin hagsmuni, langanir og þrár og lögmál sem stjórna. Þar sem þessir tveir fleygar liggja saman og eru tiltölulega jafnþykkir, þar er jafnvægið á milli þessara hugmyndakerfa.  Þeir sem aðhyllast skoðanir á þessum slóðum litrófsins trúa því að mikilvægt sé að maðurinn hafi vald á samfélagi sínu með viti sínu en sé jafnframt tilbúinn til að láta einstaklingana njóta sín, séu frjálsir og að athafnir þeirra og ákafi drífi þjóðfélagið áfram. Þannig verða markaðslögmál eins og vel taminn reiðhestur á valdi knapa síns.

Þessar skoðanir eru allar gildar og það er mikilvægt að þær fái að blómstra en þær verða að fá að blómstra með málefnalegri umræðu en ekki orrahríð og skítkasti um einstaklinga. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hægt að draga mengjahring almúgamannsins yfir þessa tvo fleyga og ná mörgum stjórnmálamönnum inn, þannig að fáir standi útaf til hægri og vinstri. Það er ekki þar með sagt að pólitíkin sé dauð því að hún er ævinlega að verki og verður að vera það. Það er beinlínis mikilvægt að hinar áðurnefndu þrjár víddir í stjórnmálalitrófinu séu í stöðugum átökum til þess að tryggja gott þjóðfélag en um leið þurfa þegnarnir þá að vera vel meðvitaðir um hvert stefnir þegar tiltekinn stjórnmálaflokkur er valinn í kosningum. Ég er ekki viss um að Íslendingar sem kusu tiltekinn stjórnmálaflokk ítrekað  til valda hafi áttað sig eða vitað hvert ákvarðanir þeirra í kjörklefunum myndu leiða þjóðina.

Atburðarrásin fyrir hrun sýnir eins og áður segir að tiltekin pólitík leiddi til hrunsins og stjórnmálaátökin eftir hrunið eru hatrömm vegna þess að það er verið að teikna upp nýtt þjóðfélag. Þetta nýja þjóðfélag byggir á hugmyndafræðinni þar sem fleygarnir liggja saman og eru álíka þykkir, þar sem jafnvægi ríkir milli hinna tveggja ólíku og andstæðu viðhorfa í stjórnmálum. Það er verið að skapa þjóðfélag í anda norrænna fyrirmynda sem best hafa reynst á jörðinni.

Það er rökrétt og skiljanlegt að þeir sem eru til vinstri í öðrum stjórnarflokknum hlaupi útundan sér miðað við þá mynd sem ég hef teiknað upp. Á sama hátt er það alveg skiljanlegt og rökrétt að þeir sem eru lengst til hægri í stóra stjórnarandstöðuflokknum séu ósáttir og berjist nú um á hæl og hnakka, því að þeir vilja alls ekki það þjóðfélag sem verið er að byggja upp. Þeir eru þess vegna tilbúnir til að leggja stein í götu þeirra umbóta sem nú er verið að vinna að eins og „Icesave“ því að tilgangurinn helgar meðalið. Því miður þá eru þessi „eðlilegu“ hugmynda og málefnalegu átök í formi persónulegs skítkasts og með smjörklípusamræðu. Kannski átti Winston Churchill við þennan ágalla lýðræðisins að geta ekki hafið sig upp yfir persónuleg átök, þegar hann sagði:

„Lýðræði er versta tegund ríkisvalds þegar frá eru taldar allar þær tegundir sem þegar hafa verið reyndar á jörðinni.“

Hvað um það. Hafi tíkin Pólí verið dauð þá er alveg klárt að hún er að lifna við og hleypur nú um í miklum ákafa með lafandi tunguna. Það er mikilvægt að menn nái að hemja hana og glefsið verði okkur ekki banvænt.

Þeir sem geta tryggt að allt fari á besta veg eru almúgamennirnir og almúgakonurnar. Ég vona bara að þau viti að þeirra tími er kominn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Þetta var löng lesning er þó þess verði að eyða tíma í það. Ég er sammála þér að það erum við almúgafólkið, sem verðum taka hlutina í okkar hendur. Sennilega er landinu svo illa stjórnaða af því að þeir sem hafa stjórnað hér í langan tíma hafa algjörlega tapað sambandinu við fólkið í landinu.

    Ég á mér einnig þann draum að stjórnmálin verði aftur svolítið „bragðdaufari“ og líkari því sem gerist á hinum Norðurlöndunum og í Mið-Evrópu, þar sem pólitíkin snýst einmitt að stærstum hluta um að gera líf „almúgamannsins“ aðeins betra!

  • Bara skemmtileg pæling – – og „almúgaleg“ – þó framsetningin sé talsvert „heimspekileg“ . . . . .
    . . tímabært að taka skýra afstöðu með málefnalegri orðræðu – – og ýta persónulega illskeyttu orðfæri og innihaldsrýrum málflutningi frá hinu opinbera sviði.
    Sérstaklega er ömurleg hanaslagsuppstilling fjölmiðlanna þar sem „andstæðingar takast á . . . “ fyrir framan hljóðnema og myndavélar . . . en engin mál er krufin með rökum og sjónarmiðum . .

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur