Sunnudagur 10.04.2011 - 14:21 - 14 ummæli

Píningsdómur hinn síðari

Diðrik Píning var hirðstjóri og aðmíráll Danakonungs, hann lagði til við Alþingi 1490 að það setti lög um samskipti Englendinga og Hansakaupmanna en langvinnur ófriður hafðiverið á milli þeirra í verslunarviðskiptum við Ísland.

Það er ekkert líkt með þeim píningsdómi sem þjóðin hefur nú yfir sig kallað og þeim sem ég vísa í nema nafnið þó þannig að annar er dreginn af sérnafni hinn af sagnorðinu að pína. Þjóðin hefur dæmt sig til píningar vegna efnahagslegs gjaldþrots þjóðarinnar haustið 2008. Ég held að við verðum að leggjast í greiningu á þessari niðurstöðu til að geta haldið áfram einhverju sem líkist eðlilegu lífi í þessu landi. Mig langar að gera tilraun.

Það er ekki gott að setja sér fyrir hugskotssjónir hvaða hvatir, skoðanir, viðhorf eða afstaða réð ferðinni hjá þeim sem sögðu nei og reyndar ólíklegt annað en að litróf margra möguleika hafi verið til staðar. Það er mikilvægt að vera sanngjarn eða reyna að vera sanngjarn.

 • Einhver hluti hópsins þekkti sjálft málið lítið og lét tilfinningu ráða.
 • Með nei-atkvæði var þá hægt að hefna sín á „þessu liði.“
 • Reiði í garð alþingismanna, yfirvalda og útrásarvíkinga og ástandsins.
 • Málefnaleg rök þar sem viðkomandi trúði því í raun og veru að hann þyrfti ekki ætti að borga.
 • Málefnaleg lagatæknileg rök um að þjóðin ætti ekki að ábyrgjast skuldbindingarnar.
 • Tilfinningarök þar sem viðkomandi vildi ekki „borga fyrir“ útrásarvíkinga.
 • Stjórnmálalegar hvatir þar sem viðkomandi telur í lagi að beita öllum brögðum til að klekkja á „vonlausri“ ríkisstjórn.
 • Berja á heimskapítalistunum sem ætla að láta skattborgarana bjarga sér.
 • Lögfræðileg afstaða sem er mjög ríkjandi í umræðu á Íslandi. „Að vera ekki sekur nema að viðkomandi hafi verið dæmdur.“
 • Það sem gegnsýrir afstöðu þjóðarinnar og margra forystumanna hennar er að það sem er löglegt sé í lagi þó að það sé siðlaust.

Rök um fjölmiðlun. Nei-hópurinn hafði greinilega sterkari bakhjarl í góðu auglýsingafólki. Herferðin var faglega unnin og markviss. Forystumenn nei-hópsins voru alltaf vel undirbúnir og komu yfirleitt betur út í fjölmiðlum. Ákafi þeirra var meiri en já-manna einhverra hluta vegna. Trúlega vegna þess að já-menn voru með óbragði munni af þessu óheillamáli. Ábyrgir forystumenn í ríkisstjórn, atvinnurekenda og launþegahreyfingar svo ekki sé talað um aðra áberandi og skoðanamyndandi einstaklinga, komu seint fram og fylktu sér ekki nægilega á bakvið já-ið. Nei-menn voru tilbúnir með „fjölmiðlabita“ sem allir skildu, hömruðu þá inn og þeir byrjuðu á undan já-mönnum að koma málstað sínum fram. Trúlega var það vegna þess að þeir voru undir í skoðanakönnunum í upphafi.

Ég held að þjóðin sé ennþá í hrunshamnum sem lætur hana hefna sín á „liðinu“ með því að kjósa „Besta flokkinn“ í Reykjavík svo dæmi sé tekið og nú að segja nei við Icesave. Hún er enn í sorgarferli og hefur ekki tekist á við hinn eiginlega vanda sem liggur djúpt í þjóðarsálinni. Ekki get ég verið ósáttur vegna slíkra tilfinninga og hvata enda hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar; sem gerðist vegna afskiptaleysis stjórnvalda, klappi og húrrahrópum almennings og fjölmiðla með forsetann í fylkingarbrjósti. Þetta hlýtur að hvíla á samvisku forsetans. Þjóðin lætur forseta Íslands síðan klappa sig áfram inn í sjálfspíningu vegna samviskubits hennar og forsetans. Hún hefur sem sagt dæmt sig til píningar vegna vanhæfni sinnar til að sjá í gegnum siðleysið og glóruleysið sem gegnsýrði hinn svokallaða uppgang. Ekki ætla ég að halda því fram að ég hafi verið vitrari en aðrir á hinum svokallaða uppgangstíma. Ég undraðist allt sem ég sá og heyrði, hafði orð á því en ekki vit til að sjá samhengið eða andæfa. Mig langar hins vegar ekki til að berja mig með gaddasvipu til að pína mig vegna þess. Maður á að geta lært án þess að ganga svipugöng. Meirihluti þjóðarinnar hefur hins vegar dæmt alla Íslendinga í þessa píningu. Hver er svo þessi píning?

 • Það pínir að þjóðin skuli standa að þeim siðlausa gerningi að neita að borga réttláta skuld. (Í þeirri merkingu að bera ábyrgð á skuldinni.) Hún er réttlát vegna þess að Landsbankinn hafði sömu lögsögu í Reykjavík, á Akureyri, í London og í Amsterdam. Þegar íslenska ríkisstjórnin ákvað að tryggja innstæður Landsbankans upp í topp þá gilti það um „Landsbankann allan“. Það var nauðsynlegur vinargreiði hjá Englendingum og Hollendingum að greiða þessa skuld fyrir okkur og vera síðan tilbúnir til að semja um sanngjarnar endurgreiðslur; að vísu var það með nokkrum atrennum en samt svo.
 • Það er píning að þjóðin skuli ekki sjá að með nei-afstöðu til þessa máls þá sýnir hún siðleysi í samskiptum þjóða og gagnvart þeim þúsundum einstaklinga sem lögðu peninga sína í íslenskan banka á erlendri grund í góðri trú.
 • Það pínir að þjóðin hefur gert rétt kjörin stjórnvöld allt frá hausti 2008 til dagsins í dag að ósannindamönnum vegna þess að þau geta ekki staðið við loforð og yfirlýsingar í alþjóðlegum samskiptum. Hvað segir það erlendum ríkisstjórnum og þjóðum um Íslendinga?
 • Það pínir að þjóðin skuli ekki vilja semja um réttláta niðurstöðu en í staðinn vilja láta dæma sig til að gera rétt.
 • Það pínir að þjóðin skuli setja kjarasamninga út af sporinu og auka þannig birgðar almennings með óvissu og líklega verulegri kjararýrnun.
 • Það pínir að opinberar aðilar og hálfopinberar stofnanir muni nú ekki fá fyrirgreiðslu vegna þessarar niðurstöðu til endurfjármögnunar og mögulega til nýrra fjárfestinga.
 • Það pínir að þjóðin skuli vera tilbúin til að framlengja kreppuna um nokkur ár.
 • Það pínir að þjóðin skuli lúta forystu forsetans sem klappaði okkur niður í þessa „helvítisgjá“ eins og læmingja. (Það mun reyndar vera þjóðsaga um læmingja að þeir fari í hópum og fremji sjálfsmorð, svo þeir njóti nú sannmælis.)

Þetta er píningsdómur hvernig svo sem allt veltur. Þjóðin hefur dæmt sig til píningar. Þegar menn pína sig þá gera þeir það til iðrunar og kannski til að læra og til að skilja sjálfa sig betur. Verði sú raunin þá mun þessi píningsdómur verða til góðs. Það er sjálfsagt bara táknrænt að veðurguðirnir skuli nú gráta með okkur og blása á húsin okkar svo hriktir í.

Ásgeir

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Unnur G. Kristjánsdóttir

  Það er nærri lækning fyrir mig sem á erfitt með að sætta mig við vanþekkingu og óráð ástkærra samborgara sem nú hafa ákveðið að auka erfiðleika okkar Íslendinga. Verst af öllu er að fjármagnsfyrirgreiðsla verður væntanlega mikið minni en ella sem þýðir áframhaldandi fjöldaatvinnuleysi. Í Sandgerði eru 25% atvinnubærra án vinnu! Takk fyrir greinina – ég mun dreifa henni eins og ég get!

 • Er ekki komið nóg af þessu svartagalls rausi og dómsdagstali ykkar Já-ara. Niðurstaðan er fengin, hún er afgerandi og allir Íslendingar eiga að fylkja sér bakvið hana og halda áfram.

 • Snorri Sturluson

  Helvíti er þetta vel skrifað.

 • Greining pistlahöfundar er með ólíkindum. Innantómur vaðall manns sem unir ekki niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er aldrei vænlegt að vaða fram á ritvöllinn í reiðikasti. Þá gerist það óhjákvæmilega að jafnvel dagfarsprúðir hæglætismenn missa út úr sér meiðandi ummæli sem þeir sjá svo eftir þegar móðurinn rennur af þeim.
  Staðreyndin er einfaldlega sú, að 60% þjóðarinnar hafnaði Icesave samningnum í lýðræðislegum kosningum. Það er lítilsvirðing við þennan hóp að setja fram einhverja fáránlega greiningu á innræti hans og gefa í skyn að illar hvatir hafi legið að baki. Maður sem fellir slíka dóma við þessar aðstæður lítilvirðir ekki aðeins landa sína heldur einnig lýðræðið.
  Og það eru fleiri en pistlahöfundur sem hafa í dag fallið í þessa gryfju. Kunnur starfsmaður Vegagerðarinnar fer hamförum og Þórólfur Matthíasson prófessor heldur áfram sínu svartagallsrausi. En örlög þess ágæta manns sem álitsgjafa réðust fyrir margt löngu. Hann hefur fyrirgert akademískum heiðri sínum og fæstir taka mark á yfirlýsingum hans.
  En flestir sæmilega þenkjandi menn taka úrslitunum með jafnaðargeði. Þjóðin hefur fellt sinn úrskurð og það ber að virða. Forsætisráðherra er ósáttur við þjóð sína og það kemur fram í málflutningi hans.
  Fjármálaráðherra hins vegar tók þessu með stóiskri ró og afstaða hans var hrein og klár. Þjóðin hefur talað. Samningaleiðin er útaf borðinu og nú verður að einhenda sér í að kynna málstað þjóðarinnar erlendis og undirbúa málsvarnir.
  Og frammistaða forsetans á blaðamannafundi í dag var glæsileg og hann dró fram kjarna málsins. Íslendingar munu greiða Bretum og Hollendingum það sem þeim ber. Dómstólar munu síðan skera úr um lagalega hlið málsins og hann færði rök fyrir sterkri stöðu Íslendinga og jafnframt að málstaður Íslendinga nyti vaxandi samúðar erlendis. Því væri nauðsynlegt að þjóðin og forystumenn hennar sneru bökum saman og leiddu sameinuð þetta mál til lykta.
  Í ljósi þessa mikilvæga verkefnis og nauðsyn á samstöðu er málflutningur eins og píningsdómur pistlahöfundar slæmt innlegg, niðurrifsskrif og andlýðræðisleg og það væri hollt fyrir hann hér eftir að nýta gamla góða húsráðið að telja upp að tíu áður en hann geysist fram á ritvöllinn.

 • Niels Hermannsson

  Góð grein og þörf. Því miður gleymir þú einni pínunni enn. Hallgrímur heitinn kvað: „Það sem höfðingjarnir hafast að, hinir telja sér leyfist það.“ Þeir sem nú eru víghreyfir yfir að halda að þeir hafi komist upp með óréttlæti gagnvart einhverjum helvítis útlendingum ætt að athuga að þeir hafa lýst því yfir að svona framkoma sé bara allt í lagi. En er hún þá ekki líka í lagi til heimabrúks? Í siðlausu samfélagi ræður væntanlega bara það sama, harkan sex. Hversu skemtileg tilhugsun er það fyrir þann hluta alþýðu manna sem í vaxandi mæli á allt sitt undir bönkum og stjórnvöldum? Ólafur bauð klofið, klofið siðferði, klofið land klofna þjóð.

 • Anna M. Ólafsdóttir

  Takk fyrir frábæran pistil 🙂

 • Takk sömuleiðis fyrir góðan pistil.

 • Sönn og skilmerkileg greining. Ekkert hefur breyst.

 • Gott og vel; – – það sem upp úr stendur er samt sem áður að forystumenn Samfylkingarinnar eru ekki að ná takti með þjóð sinni . . ekki að sannfæra þjóðina um að ganga hennar leið . . . . og ekki vottar fyrir því að „umbótanefnd Samfylkingarinnar“ sjái út fyrir það rör sem flokksforystan heldur úti . . .og ekki vottar fyrir viðurkenningu á því að ríkisstjórnin er ekki að skila árangri og ekki að ná að vinna traust og trú á framtíð . . . .
  „þjóðin er í áfalli . . . . “ . . .sem sagt mistök og sök liggur hjá almenningi en ekki þeirri forystu sem heldur á umboðinu . . . .
  Ásgeir, , , kommon . . . þú getur betur . .

 • Gagarýnir

  Snilldarpistill sem hittir í mark.
  Nú held ég að íslendingar haldi sig miðju heims en eru að verða bara varta, klægjandi og pirrandi.

 • Ásgeir, þetta er ágætur pistill og margir góðir punktar sem þú kemur inn á. Að vandlega yfirveguðu máli og með því að kynna mér rök og mótrök þá tók ég þá ákvörðun að segja NEI í þessu máli. Ég skrifaði blogg um mína afstöðu, sjá hérna: http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/1157061/

  Ég hugsa að það sem vóg veigamest hjá mér hefðir þú orðað „að berja á heimskapítalismanum“. Ég held ekki að ég hefi sagt NEI á sömu forsendum og margir hatrammir ultra hægri menn. Mitt NEI er fyrst og fremst byggt á minni greiningu á hvað er að gerast í samkrulli ríkja og alþjóðavædds fjármálaheims og skuldabólu sem er ennþá í vexti þar sem ríki safna svo miklum skuldum að það er útilokað að þau geti nokkurn tíma greitt þær. Og fjármálaheim sem býr til verðmæti úr engu, froðuverðmæti sem hjaðna niður í ekki neitt um leið og hætt er að hræra í.

  Í mínum huga voru báðir kostir vondir. Aðalatriðið er að taka á vandanum strax, skuldavanda þjóðar sem margir vilja leysa með að velta á undan sér vandanum með því að lengja sífellt í lánum og láta eins og vandinn sé ekki til ef næst að möndla með fjármál þannig að ríkið skuldsetji sig meira.

  Sú afstaða mín að segja NEI helgast af því að ég held að núverandi kerfi þar sem ríki eru ábyrgðaraðilar skulda og sjálfir meðal stærstu skuldara í fjármálakerfi sem byggir á því að búa til bólupeninga og bóluverðmæti með því að búa til skuldir, ég held að þetta kerfi sé að hruni komið og muni hrynja og það sé betra að taka á því fyrr en seinna og það verður ekki gert nema með að stokka upp og breyta reglum. Á þeim tíma sem líður þangað til það verður gert þá er örvæntingarráð ríkja sem ekki ráða við greiðslur að þrautpína og blóðmjólka einmitt þá valdalausustu og réttlausustu í sínu samfélagi og færa raunveruleg verðmæti (þ.e. auðlindir) yfir til þeirra sem greiða fyrir þær með bóluverðmætum. Svona eins og Indjánaþjóðflokkur sem selur jarðnæði sem hann hefur lifað af í margar aldir fyrir glerperlur og er svo ýtt út á verndarsvæði í hrjóstrugu fjalllendi þar sem ómögulegt er að komast af.

  Einnig það mínu NEI að ég tel áhættuna af því ekki mikla. Þar ræður það helst að ég tel ekki að bresk og hollensk yfirvöld geti sýnt fram á mikinn skaða amk ef heimtur verða eins góðar úr þrotabúum bankanna eins og okkur er sagt.

  NEI-ið mun alveg örugglega hafa áhrif bæði á flæði peninga hingað til lands, það sem kallað er „fjárfestingar til að láta hjól atvinnulífsins fara að snúast“ og á NEI-ið mun líklega hafa áhrif á samninga um ESB og gera stöðu Íslands erfiðari þar og hugsanlega seinka því að sú staða komi að Ísland gangi í ESB.

  Í báðum þessum tilvikum held ég að seinkun geti verið af hinu góða fyrir Ísland. Ég held ekki að áhugi fjárfesta á Íslandi í dag sé til að koma hér á stað bara á morgum einhverri iðju sem skapar hundruðum manna atvinnu. Við skulum muna að við erum inn í miðri heimskreppu og það er allt atvinnulíf lamað í hinum vestræna heimi og hugsanlega (líklega) er botni kreppunnar ekki náð. Sú „fjárfesting“ sem hingað leitar núna er fyrst og fremst fjárfesting spákaupmanna sem eru að tryggja sé aðstöðu þegar og ef mál þróast þannig að uppgangur verði aftur í hinum vestræna heimi. Þessi „fjárfesting“ er af sama meiði og spekúlantarnir sem keyptu vatnsréttindi (hér er gott dæmi svikamyllufyrirtækið sem keyptu upp Snæfellsjökulsvatnið) og þessir sem voru að tryggja sér olíuhreinsistöð í Arnarfirði og blekktu fákænt sveitafólk í þessum hreppum til að halda að mikill uppgangur væri í vændum. Málið er að þarna var fyrst og fremst verið að spá í heimsframtíðina, að vatn yrði verðmætt og að þegar siglingaleiðin um Norðurhöf yrði verðmætari og ef olíuvinnsla yrði mikil í sjó þar þá myndi það verða til þess að hafnaraðstaða og réttindi til að setja upp slíka aðstöðu yrði verðmæt. Það verða engin alvöru störf sköpuð á Íslandi á þennan hátt. En það er hverjum manni ljóst sem eitthvað hefur kynnt sé heimsmálið að það stefnir allt í mjög alvarlega orkukreppu og auðlindir Íslendinga sem eru orkuauðlindir og mikið ræktunarland og gjöful fiskimið verða sennilega miklu verðmætari eftir einn áratug eða svo.

  Það getur vel verið að það sé til langs tíma betra að herða sultarólina núna og þrauka og selja ekki frá sér yfirráð yfir öllum auðlindum til spekúlanta sem eru bara að fjárfesta og gambla fyrir framtíð sem þeir sjá í sinni kristalskúlu, spekúlanta sem engan áhuga hafa á atvinnulífi á Íslandi, nema að hér sé þægt og rólegt vinnufólk sem jánkar öllu og á ekkert og ræður engu.

  Það getur líka verið að til langs tíma litið þá sé betra að flýta sér hægt í ESB, því miður er auðlindastefna þar varðandi sjávarútvegsmál alls ekki til eftirbreytni og fiskimið Íslendinga verða fiskimið Evrópu ef Ísland gengi nú í ESB.

  Ég held líka að með fordæmi sínu þá geti íslenskur almenningur tendrað neista hjá almenningi í öðrum löndum þar sem reynt er að kremja alþýðu undir skuldabagga sem bóluhagkerfið bjó til.

  bestu kveðjur,
  Salvör Gissurardóttir

 • „Ég held líka að með fordæmi sínu þá geti íslenskur almenningur tendrað neista hjá almenningi í öðrum löndum þar sem reynt er að kremja alþýðu undir skuldabagga sem bóluhagkerfið bjó til.“

  Þetta er barnaleg óskhyggja í meira lagi. Ég velti því fyrir mér hvort að Salvör, Tryggvi, GSS og fleiri neikvæðir verði jafn kokhraust þegar Ísland er búið að tapa nokkrum dómsmálum og afleiðingar gerða þeirra verða orðin ljós.

  Framlenging kreppunnar er á ykkar ábyrgð, nei-fólk. Þið og aðeins þið kölluðuð þetta yfir þjóðina. Ég vona að þið munið hafa það í huga á næstu árum.

 • Mér þætti líka gaman að sjá Salvöru Gissurardóttur, Framsóknarkonu, standa fyrir framan þær þúsundir atvinnulausra sem eru á Íslandi, og endurtaka þar upphátt þessa skoðun sína um að við eigum að afþakka pent þá fjárfesta sem hingað vilja leita á komandi misserum.

  Talandi um veruleikafirringu!

 • Anna: Ef þú vilt vísvitandi misskilja það sem ég skrifa þrátt fyrir að ég reyni að útskýra það eins og mér er unnt og m.a. setja „fjárfestingar“ innan gæsalappa þá er það þitt val og ég reyni ekki að sannfæra þig frekar.

  Röksemda færsla mín er sú að þó að NEI muni vissulega þýða að það laðast minna af erlendu fé hingað til lands í fjárfestingar þá þurfi það ekki að vera slæmt ef „fjárfestingar“ eru bólupeningar spekúlanta sem eru að tryggja sér aðstöðu í heimi þar sem orkukreppa ríkir og í heimi þar sem mikil umsvif verða á Norðurslóðum. Þess konar „fjárfestar“ eru ekki að koma með fé hingað til að skapa hér störf heldur til að kaupa hér spekúlantaaðstöðu og greiða fyrir með bólupeningum sem hverfa inn í bólupeningahít bankabólunnar. Uppgangur í sumum greinum s.s. því sem þarf orku hér á Íslandi mun haldast í hendur við ástandið í heiminum. Það verða ekki byggð álver og bullandi stóriðjuuupgangur hér ef við erum í alþjóðlegum heimi þar sem allt er að dragast saman.

  Ross Beatty sem er í forsvari fyrir þá sem keyptu sig inn í íslensk orkufyrirtæki gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð er einn svona spekúlanta. Hans mottó er: „Stefndu ekki að 10 % gróða fyrir hluthafa, stefndu að 1000% gróða“. Þannig menn mergsjúga samfélög og skilja þau eftir sem rústir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur