Þriðjudagur 11.10.2011 - 15:51 - 17 ummæli

Hvers vegna eru drengir öðruvísi?

Hvers vegna gengur drengjum ekki eins vel og stúlkum í námi?

Það er vandamál hvaða viðhorf við höfum til drengja.

Málið er stærra en svo að skýringa sé að leita í „ónýtum grunnskólum“, eins og heyrst hefur. Þó að þeir eigi að vinna betur eins og síðustu svör barnanna hér fyrir neðan benda til.

Lítum á nokkrar niðurstöður úr skýrslunni  „Ungt fólk“ sem kom út í lok september.

Ungt fólk 2011

Rannsókn á hlutskipti og líðan nemenda í 5. til 7. bekk í grunnskólum á Íslandi.

Hvers oft færð þú hjálp frá pabba þínum og mömmu eða systkinum við heimanámið?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk.)

Stundum / oft

78% drengir

83% stúlkur

Hversu oft ert þú í íþróttum eða útivist með pabba þínum og mömmu?

(5. bekkur . Svipað í 6. bekk en betra í 7. bekk!)

Stundum/oft

57% drengir

66% stúlkur

Hversu oft ferð þú í leikhús, á sýningar eða tónleika með pabba þínum og mömmu?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

30% drengir

40% stúlkur

Hversu oft tala allir í fjölskyldunni þinni saman?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum / oft

73% drengir

81% stúlkur

Hversu oft ert þú með foreldrum þínum eftir skóla?

(5. bekkur á Íslandi. Svipað í 6. bekk en betra í 7. bekk)

Stundum/oft

63% drengir

68% stúlkur

Hversu oft ert þú með foreldrum þínum um helgar?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

92% drengir

95% stúlkur

Hversu auðvelt eða erfitt væri fyrir þig að fá umhyggju og hlýju hjá foreldrum þínum?

(5. bekkur. Svipað í 7. bekk en alveg jafnt í 6. bekk.)

Mjög/frekar auðvelt

91% drengir

94% stúlkur

Hversu auðvelt eða erfitt væri fyrir þig að fá ráðleggingar varðandi námið hjá foreldrum þínum?

(5. bekkur. Munur í 6. bekk en lítill munur í 7. bekk!)

Mjög/frekar auðvelt

88% drengir

93% stúlkur

Hversu oft ert þú ein(n) heima eftir skóla (ekki með fjölskyldu þinni)?

(5. bekkur. Svipað í 6. bekk en lítill munur í 7. bekk!)

Stundum/oft

45% drengir

40% stúlkur

Hvernig líður þér heima?

(Svar fyrir 5. bekk. Eins í 6. bekk en munur í 7. bekk!)

Frekar / mjög vel

96% drengir

96% stúlkur

Foreldrar mínir þekkja vini/vinkonur mína(r)

(5.bekkur. Svipaður munir í 6. og 7. bekk)

Á mjög/frekar vel við um mig.

91% drengir

95% stúlkur

Foreldrar mínir þekkja foreldra vina/vinkvenna minna.

(5. bekkur.  Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk.)

Á mjög/frekar vel við um mig.

79% drengir

86% stúlkur.

Námið er oft eða alltaf skemmtilegt

(5. bekkur. Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk)

26% drengir

42% stúlkur

Hversu oft hrósa kennararnir þér í skólanum?

(5. bekkur. Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

68% drengir

77% stúlkur

Við höfum ólík viðhorf til drengja og stúlkna. Við erum öll samsek. Gerum betur.

Með kveðju frá eldri dreng.

Ásgeir Beinteinsson

Skýrslan í heild.

http://www.menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/6223

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (17)

 • Drengir og stúlkur meta mögulega líka hluti á mismunandi hátt. Í einni rannsókn kom t.d. í ljós að þegar kennari skipti tíma sínum í kennslustund nákvæmlega í réttu hlutfalli milli drengja og stúlkna þá fannst drengjunum að kennarinn væri alltaf að sinna stúlkunum. Það er margt flókið.

 • Ragnheiður Kristjánsdóttir

  En það sem lítið hefur verið rætt um í fjölmiðlum er að í sömu könnun og þar sem lesskilningi drengja var mjög ábótavant kom í ljós að þrátt fyri betri námsárángur leið stúlkum almennt verr í skóla höfðu frekar kvíðaeinkenni lægra sjálfsálit. Þarf ekki líka að vinna í viðhorfi skólanas og samfélagsins til stúlkna? Eru ekki allir samsekir þar líka?

 • Rétt hjá drengjunum.

  Enda er kennarinn kvenkyns.

  Það er ekki hægt að mæla allt með skeiðklukku.

 • Til að ná og halda athygli drengja og stúlkna í einum og sama bekknum verður að fara ólíkar leiðir.

  Samkvæmt minni reynslu rata margir karlmenn meðal kennara báðar leiðirnar.

  En fáar konur.

 • Þú segir, Ásgeir, „Við höfum ólík viðhorf til drengja og stúlkna“ og virðist draga þá ályktun af þessum mun sem þú bendir á. (Nú veit ég ekki hvernig þú valdir spurningarnar sem þú kynnir svörin við, en látum það liggja milli hluta.)

  Ég skil hins vegar ekki af hverju þetta ætti að vera augljós niðurstaða. Gæti ekki verið að drengir og stúlkur hafi ólíka til að sækja í þá hluti sem þu dregur fram? Og gæti verið að það sé ekki endilega skaðlegt?

  Og, jafnvel þótt mismunurinn stafaði af því að drengir fengju síður en þeir þyrftu eða vildu þá athygli, umhyggju o.s.frv. sem hér er um rætt, hvernig er hægt að draga þá ályktun að við séum öll samsek? Ég sé ekkert í þeim gögnum sem þú birtir sem segir að allir foreldrar (eða hvaða „við“ þetta nú eru sem þú átt við) mismuni drengjum og stúlkum að þessu leyti.

 • Hér að ofan átti að standa: Getur ekki verið að drengir og stúlkur hafi ólíka þörf fyrir að sækja í þá hluti sem þú dregur fram? Og gæti verið að það sé ekki endilega skaðlegt?

 • Ásgeir Beinteinsson

  Takk fyrir viðbrögðin

  Það er hægt að sækja skýrsluna með krækjunni sem fylgir.

  Jú, drengir vilja eitthvað annað en stúlkur. Skaði er ekki hugtak sem ég vil nota í þessum hugleiðingum. Rannsóknir sýna að heilar drengja og stúlkna eða karla og kvenna eru ólíkir. Kenningar um uppruna manna og þróun þeirra gefa okkur vísbendingar um hvers vegna það er. Til dæmis eru tal og málstöðvar ólíkar.

  Rannsóknir og tilgátur eiga að minna okkur á að við þurfum að gera stúlkurnar öruggari með umhyggju okkar og drengina læsari með væntingum okkar. Hvers vegna líður stúlkum ekki eins vel og drengjum í skólanum, jafnvel þó að þær standi sig betur? Þær standa sig betur af því að við höfum meiri væntingar til þeirra og kannski er kvíði þeirra einmitt tengdur, á stundum, meiri væntingum. Drengirnir standa sig síður vegna þess að þeir hafa falska mynd af sér, væntingarnar eru minni en þeim líður betur af því að þeir halda að þeir séu bara í góðum málum.

  Munur á árangri drengja og stúlkna tengjast hvorutveggja þeim mun sem liggur í viðhorfi okkar og væntingum til þeirra sem er hluti af menningu okkar en líka í eðlislægum mun. Við getum örugglega bætt okkur í hinu fyrra en lítið gert í hinu síðara. Við megum ýta undir tiltekinn breytileika milli kynja því að hann er mikilvægur. Svo er lífsnauðsynlegt fyrir góða og eðlilega þróun samfélagsins að tryggja algjört jafnrétti og mun meiri áhrif kvenna á framvindu samfélagins. Samfélagið er alltof stýrt af karllægum áherslum.

  Ásgeir

  PS
  Drengirnir þurfa að kunna meira og geta lesið sér til gagns fyrr og stúlkunum verður að líða betur með það sem þær eru að gera. Ástæða þess að ég birti þessar niðurstöður var bara sú að ég vildi benda á hve umræðan var njörvuð og einskorðuð við eina vídd og eitt svar þ. e. grunnskólinn einn væri að bregðast drengjum.

 • Frikki Gunn.

  Málið er bara að kvenlæg gildi hafa verið allt of ráðandi í skólum landsins.

  Stúlkum er hampað á kostnað drengja á meðan þeir eru bældir niður og siðaðir til og kennt að lúffa fyrir stelpum.

  Það er mislukkuð jafnréttishugsjón sem veldur því að drengjum líður verr í skólum en stúlkum.

  Þessu þarf að breyta. Boys will be boys.

  Við breytum ekki eðli mannskeppnunar sem náttúran hefur skapa á milljónum ára.

  Það má enginn gera tilraunir með náttúruna, það endar alltaf með ósköpum.

 • Ásgeir Beinteinsson

  Sæll Frikki Gunn

  Það er sannleikskjarni í því sem þú segir en ég myndi ekki orða þetta svona. Ef starfshættir kvenna eru það sem þú kallar kvenlæg gildi þá eru þau góð og mega ráða í skólanum og helst í samfélaginu öllu. Við þurfum hins vegar fleiri karlmenn í stétt grunnskólakennara sem fyrirmyndir og til að tryggja mikilvægt jafnvægi. Konur þurfa að hafa meiri áhrif í samfélaginu en karlar í grunnskólanum. Við þurfum meira jafnvægi. Miðað við svör stúlknanna þá telja þær að þeim sé hrósað meira en drengjunum og drengjunum finnst að þeim sé hrósað minna en stúlkunum og það er ekki gott. Þetta verðum við að laga í grunnskólanum og þessi tilfinning þeirra er einnig hugsanleg skýring á því að drengjunum gengur ekki eins vel og stúlkunum með námið. Ég trúi því ekki að það sé hugsjón nokkurs manns, hvað þá jafnréttishugsjón að láta drengjum líða verr en stúlkum. Reyndar er það svo að drengjum líður betur en stúlkum þrátt fyrir slakara gengi en það er stúlkum sem virðist líða verr þrátt fyrir betra gengi. Já, það er rétt að við verðum að breyta þessu og kannski þurfum við og gera skólann drengjalegri. (Boys will be boys!) Og, nei við breytum ekki náttúrinni og eigum ekki að gera það við eigum að breyta viðhorfum og sú er baráttan með jafnréttisumræðunni. Jafnrétti er jafnrétti af því að það gengur í báðar áttir. Takk fyrir viðbrögðin.
  Ásgeir

 • Guðrún D.

  Hvað þýðir „Boys will be boys“?

 • Erna Magnúsdóttir

  Hmmm… mér fannst þessi spurning vera ágætis kontról:

  Hversu oft tala allir í fjölskyldunni þinni saman?

  (5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

  Stundum / oft

  73% drengir

  81% stúlkur

  Sem segir okkur líka að það er munur á því hvernig drengir og stúlkur svara þessari könnun. Því á meirihluta heimila held ég séu börn af báðum kynjum. Það sem strákum finnst vera „oft“ er líklega annað en það sem stúlkum finnst.

 • Frikki Gunn er með þetta.
  Væri ekki ráð að vinna að því að jafna kynjahlutfallið í kennarastétt! Setja kynjakvóta í kennaraskólann, annað eins hefur nú verið gert.

 • Egill Helgason

  Aðalbreytan í þessu eru tölvuleikir sem strákar iðka af miklu meira kappi en stelpur.

 • Ásgeir Beinteinsson

 • Ásgeir Beinteinsson

  Gæti verið.

 • Ásgeir Beinteinsson

  Ég veit það ekki.

  Strákar eru strákar. Ég held að fólk skreyti mál sitt með þessu til að vera fyndið með spaklegu ívafi. Þetta er oft sagt þegar strákar sýna „eðliseinkenni“ með framferði sínu. Ég ætla ekki að hætta mér út á þessa braut í skýringum.

 • Kynin hafa ólík eðliseinkenni.

  Vitum við það ekki öll?

  Hélt það.

  Hví skyldi Ásgeir Beinteinsson þá vera að ,,hætta sér út á braut“

  þegar hann nefnir alkunn sannindi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur