Laugardagur 21.01.2012 - 18:10 - 4 ummæli

SVOKALLAÐ, SELTSEM, ALLSKONAR OG ÆRA

Í svokölluðu landi býr svokölluð þjóð með svokallaðan forseta og þar situr svokallað þing og er nefnt Alþingi og heitir það frá fornu fari.
Í þessu svokallaða landi gerist allskonar og margt er seltsem hitt og þetta. Í þessu svokallaða landi varð svokallað hrun en það er svokallað vegna þess að ótrúlega margir vildu eiga allskonar. Þá réði ríki og hafði mannaforráð maður sem trúði því heitt og innilega að innsta eðli hins svokallaða lands ætti að vera kaup og sala, verslun og viðskipti með allskonar. Hvað svo ramt að þessari trú hans, fylgisveina og meyja að einmitt, allskonar var til sölu. Eitt var það í þessu landi sem líka var til sölu en er óvíða til sölu í svo miklu mæli, á byggðu bóli um heimsbyggðina og það er æra. Æru þiggja menn að hluta í vöggugjöf með menningu sinni og uppeldi, taka hana svo og þroska til fullorðinsára. Æran er óaðskiljanleg frá heiðarleika og mannkostum, felur þessa eiginleika í sér og gefur henni merkingu. Ærusalan var svo mikil að stór hópur manna er nú nánast ærulaus en þeir hinir sömu voru sáttir við hlutskipti sitt vegna þessa að þeir fenga aura í stað ærunnar og undu glaðir við sitt. Flestir hinna ærulausu eru nú auralausir líka eða að verða það með framgangi svokallaðra skiptastjórna sem setnar eru af svokölluðum lögfræðingum. Hinir ærulausu eru bæði fyrrverandi fyrirmenn og núverandi fyrirmenn og því vont að margir þeirra skuli enn vera fyrirmenn og fyrirmyndir þegar hið svokallaða land er að reyna að snúa vegferð sinni frá hinu svokallaða hruni. Svo er það að sumir hinna ærulausu seldu æru sína gegn samgangi og samvistum við ærlausa og fengu enga peninga fyrir en eru nú bara ærulausir og eiga enga ærulausa vini þar sem þeir eru eins og áður sagði auralausir og láta ekki sjá sig meðal manna.
Þá er að víkja aftur að þeim er réð fyrir ríki í þessu svokallaða landi þar sem allskonar var til sölu. Í þessu títtnefnda svokallaða landi er til fólk sem vill láta umræddan fyrirmann svara fyrir þau ósköp sem gerðu menn ærulausa og sem ekki má gleyma marga æruríka auralausa, þó að þeir hefðu ekkert til saka unnið. Í fjölda tilfella skaddaðist tilfinning margra fyrir heiðarleika. Traust þvarr í þessu svokallaða landi sem er þess vegna í hugum margra einmitt orðið svokallað. Í gær tókst söfnuði hinna ærulausu að koma málum svo fyrir að ekki mun reyna á hvort að sá sem réð fyrir ósköpunum í hinu svokallaða landi fái að leggja æru sínu, heiðarleika og mannkosti í dóm fyrir opnum tjöldum. Þykir undirrituðum það miður og sérstaklega í ljósi þess að sá sem fyrir ríkinu réð telur sig alsaklausan og með óskerta æru. Merkilegt að hann skuli ekki vera tilbúin að takast á við saksóknara sinn og láta sannleikann og rökin tryggja æru sína.
Það er sjálfsagt eftir bókinni í hinu svokallaða landi þar sem hægt er að fá seltsem salt, seltsem brjóst og seltsem áburð og seltsem eftirlit að þar skuli einnig vera til seltsem æra já og að allskonar sé í lagi.
Ásgeir Beinteinsson
PS
Ég er samt bjartsýnn á framtíðina.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

  • LOL Góður pistill en ég óttast að þetta sé upphafið af endalokunum. Hvað sem það nú þýðir?

  • Ásdís Jónsdóttir

    Fínn pistill, takk fyrir,

  • Trausti Þórðarson

    Hvers vegna ertu bjartsýnn á framtíðina?

  • Ásgeir Beinteinsson

    Takk fyrir spurninguna Trausti

    Ég er skólastjóri í grunnskóla og starfa með ungu fólki á hverjum degi. Ég sé bjarta framtíð í þeim. Þau 59 ár sem ég hef lifað hafa kennt mér að heimur fari batnandi þrátt fyrir allt. Við lifum erfiða tíma og það er ekki undarlegt að sitthvað fari úrskeiðis. Það sem gerir mig sérstaklega bjartsýnan er þó virkni almennings og ábyrgð almennings sem vill ekki láta hvað sem er yfir sig ganga. Fólkið í landinu fékk miður góða stjórnmálamenn yfir sig af því að alþýðan var ekki á varðbergi og uggði ekki að sér og treysti of mikið. Hóflegt vantraust og gagnrýni er af hinu góða. Hvorutveggja eigum við eftir að beisla og það mun enn taka nokkur ár. Þetta tvennt eykur mér bjartsýni; unga fólkið og meiri stjórnmálaleg vitund almennings. Bjartsýni mín fælir mig ekki frá því að sjá samfélagsveruleikann í hnotskurn.

    Takk fyrir að spyrja,

    Ásgeir

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur