Laugardagur 22.09.2012 - 19:05 - 3 ummæli

Ófundnu börnin

(Erindi á hugmyndaþingi Samfylkingarinnar um skóla og nemendur 22/9)

Ágætu tilheyrendur

Yfirskrift þessa stutta erindis er eins og gefur að skilja leikur að orðum. Vinnuheitið var týndu börnin en mér þótti ekki rétt að ganga út frá titli á erindi sem kallað væri týndu börnin vegna þess að við höfum ekki týnt börnum. Börn í feluleik eru til dæmis ekki týnd, það á bara eftir að finna þau. Sama á við að hluta til um þau börn sem ég vil gera að umtalsefni. Ég veit hvar þau eru og hver þau eru en gagnvart yfirvöldum;  þeim sem móta stefnuna og ráða ferðinni eru þau ófundin.

Stefnan er skóli án aðgreiningar og hver er kjarninn í skóla án aðgreiningar. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999 á bls. 14 segir svo:

Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu. Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt.

Nú spyr ég í fullri alvöru. Heldur einhver að þetta sé hægt? Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að þetta væri hægt? Það hefur verið gengið í það af miklum krafti að framkvæma stefnuna og smátt og smátt eru brestirnir að koma í ljós. Það er reyndar svo að skólastjórnendur og kennarar höfðu efasemdir strax í upphafi og hafa enn. (Ég verð þó að skjóta því hér inn að sama klausa í almennum hluta aðalnámskrár 2011 er orðfærri og gefur nýja möguleika en kjarninn sem snertir mitt erindi er hinn sami.)

Í framhaldi hefði mátt hugsa um að fylgja anda námskrárinnar fremur en að fylgja henni bókstaflega. Það er reyndar svo að Íslendingar eru almennt bókstafstrúar að því er varðar lög og reglugerðir. Ég hef til dæmis heyrt að það sé vandmál í íslensku dómskerfi að lögfræðingar og dómarar vinni út frá orðanna hljóðan í lögum frekar en tilgangi umræddra laga og sel ég það ekki dýrara en ég keypti.

Grunnskólakerfinu, svo ég tali nú bara um þann veruleika sem ég þekki var m.a. bylt með þeirri hugmyndafræði sem birtist í klausunni sem ég las upp og við þurfum ekki aðra byltingu í því kerfi alveg á næstunni. Það stendur yfir stöðug uppbyggileg þróun og hana þarf að styrkja með aukinni símenntun, endurmenntun, rannsóknum, mati og umræðu þeirra sem starfa í kerfinu og stjórna því. Það er jafnframt mikilvægt og kannski það mikilvægasta að mennta og fræða foreldra og gera þá að virkari þátttakendum í skólastarfinu. Það hefur setið í mér danskur sjónvarpsþáttur um skólamál sem ég sá fyrir allmörgum árum. Þetta var heimildarþáttur um ólíkar skólagerðir, stefnur og hugmyndafræði í grunnskólum í Danmörku. Hverjir voru helstu viðmælendurnir nema foreldrar barnanna sem sóttu skólana og héldu hugmyndafræði þeirra á lofti?  Þannig þyrfti þetta að vera á Íslandi. Ég viðurkenni fúslega að ekki er ég sérstaklega góður í þessu sem skólastjóri en ég veit að þetta er leiðin.

Við þurfum ekki að bylta kerfinu því að byltingin sem var gerð hefur skilað meiri árangri en ég þorði að vona á sínum tíma. Grunnskólarnir sem ég þekki til með sínu frábæra og fagfólki með kennarana í broddi fylkingar hafa náð tökum á fjölbreytileikanum. Regnboginn sjálfur á heima í kennslustofunum ef hver litur stendur fyrir sérstaka námshæfileika barnanna. Ég  mun víkja að undantekningunum.

Öll börn eiga rétt á því að menntast á árangursríkan hátt. Hvert einasta barn sem anda dregur býr við sérstakar námsgáfur og námshæfileika; það geta allir lært. Vandinn sem menn hafa ekki horft á er að sum börn þurfa sérstakar aðstæður til að læra, sum börn þurfa að vera í sérstökum hópum og með sérstaka kennara til að læra. Þegar ég segi læra þá á ég við félagslega vitund, almenna þekkingu, færni og ekki hvað síst að læra að þekkja sig sjálf; takmörk sín og getu.

Í umræðu um hugmyndafræði skólanna er mjög ríkjandi sú skoðun að það sé hægt að breyta skipulagi hins almenna grunnskóla þannig að hann geti sinnt öllum börnum eins og klausan góða gerir kröfu um, en það er ekki svo, því miður. Það þarf byltingu á hugarfari til að horfast í augu við þennan veruleika. Það geta ekki öll börn sótt hinn almenna grunnskóla.

Ég þekki sorgleg dæmi um börn með sértækar námsgáfur sem finna til minnimáttarkenndar og vanlíðunar í samanburði við skólasystkin af því að þau geta ekki fylgt meginstraumnum og þurfa annað námsefni. Það er oft  hægt að sinna grunnþörfum um fjölbreytt nám við hæfi en sjálfstraustið er ekki upp á marga fiska. Hvernig myndi okkur líða að ganga til starfa í 10 ár meðvituð um að vera ekki eins og hinir? Jón Margeir Sverrisson er gullverðlaunahafi frá Lundúnum, einstakur afreksmaður og í alla staði glæsilegur ungur maður. Þegar faðir hans var spurður í viðtali hvernig Jón Margeir hefði náð þessum árangri. Þá sagði faðir hans að Jón Margeir hefði í æsku haft lítið sjálfstraust og ekki talið sig geta neitt en fagfólkið sem tók á móti honum í Öskjuhlíðarskóla hefði hjálpað honum að fá trú á sjálfan sig. Ég ætla að leyfa mér að vitna í Sverri föður gullverðlaunahafans og heimsmeistarans.

„Það var á seinni stigum í leikskólanum. Þá gátum við valið um stuðning í venjulegum skóla, sérdeild í venjulegum skóla eða Öskjuhlíðarskóla. Við ákváðum að hann færi í Öskjuhlíðarskóla. Við sjáum ekki eftir því. Þar var hann fremstur meðal jafningja. Hann blómstraði,“ „Kennararnir hans fylgjast ennþá með honum. Skólinn er frábær. Með fullri virðingu þá hentar skóli án aðgreiningar ekki öllum. Þetta er flott orð en hentar ekki öllum. Mér finnst þetta spurningin um hvort barnið þitt er alltaf neðst eða hvort það er fremst meðal jafningja.“ (Fréttatíminn 7. september 2012)

Þetta er fyrsti hópurinn sem við eigum að finna og sinna.

Fyrir nokkrum árum var tekin sú ákvörðun á grundvelli stefnu um skóla án aðgreiningar að móttökudeildir skyldu lagðar niður. Móttökudeildir voru hugsaðar þannig að þar gætu erlendir nemendur lært grunnþætti í íslensku sem sínu öðru tungumáli, þannig að þeir hefðu eitthvert sjálfstraust þegar þeir tækju að fullu þátt í starfi skólans. Deildirnar voru lagðar niður í samræmi við bókstarfstrúna á skóla án aðgreiningar; að nemendur af erlendum uppruna gætu líka gengið í hann þar sem hann sinnti hvort er öllum eins og lög mæltu fyrir um. Það eru til rannsóknir sem sanna að það krefst sérfræðilegrar þekkingar að leggja grunn að öðru tungumáli hjá barni. Erlent barn sem kemur ósjálfbjarga í tungumál landsins inn í almennan bekk eða námshóp í grunnskóla með sem nemur einni kennslustund á viku til að læra íslensku, gerir það seint og illa. Á þeirri vegferð er sjálfsmynd barnsins brotin.

Þetta er annar hópurinn sem við eigum að finna og sinna.

Svo eru það börnin sem þurfa hátternismótun í stýrðum aðstæðum um lengri eða skemmri tíma. Það verða að vera næg úrræði og tækifæri til að bregðast hratt við, því hvert andartak er dýrmætt í ævi barns. Barn sem nær að viðhalda hátterni sem kemur í veg fyrir nám og eðlilega félagsmótun þannig að samfélag fullorðinsáranna sé því fullorðnu andstætt og framandi verður dýrt í öllum þeim myndum sem það hugtak nær yfir. Bæði einstaklingnum sjálfum, fjölskyldu hans og oft á tíðum samfélaginu.

Umrædd börn búa við óheppilega blöndu af skilgreindum frávikum sem gerir það að verkum að þau búa við stanslausa vanlíðan sem bitnar á öllum í umhverfi þeirra. Ég hef spurt fulltrúa heilbrigðisyfirvalda hvers vegna þau sinna börnunum ekki lengur en tekur að greina vanda þeirra. Svörin eru að það sé skólakerfið sem eigi að sinna þessum börnum. Grunnskólinn á að sinna börnum með félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag. Við búum við skóla án aðgreiningar.

Þetta var þriðji hópurinn sem við eigum að finna og sinna. Þessi síðasti hópur sem ég minnast hér á er stór eins og ástandið er núna í grunnskólunum að minnst kosti hér í Reykjavík. Kennarar eru ótrúlegir og þeir hafa sannað það en þeir geta ekki sinnt börnum sem þurfa sérfræðinga.

En hvað segja svo kennararnir um skóla án aðgreiningar?:

Í nýlegri könnun á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og félags grunnskólakennara liggja svör við mörgum mikilvægum spurningum um skólastarfið. Könnunin var gerð í kjölfar síðustu kjarasamninga og verkefni hennar var að gera athugun á hlutverki grunnskólakennara, innihaldi á starfi þeirra, breytingar sem orðið hafa á störfum þeirra og þróun skólastarfs almennt. Þessi könnun er mikilvægur þáttur í þeirri þróun – ekki byltingu – sem þarf að eiga sér stað á næstu árum. Ég ætla að víkja að tveimur spurningum sem snerta erindi mitt.

8. spurning er svona:

Hvert er viðhorf þitt til hugmyndafræðinnar á bak við skóla án aðgreiningar?

Niðurstaðan er þessi:

Mjög jákvæðir eru 7,9%

Jákvæðir eru 34,2%

Hvorki né eru 31,8%

Neikvæðir eru 21,7%

Mjög neikvæðir eru 4,4 %

 

Þeir sem eru jákvæðir eða mjög jákvæðir eru því 42,1% þeir sem eru neikvæðir eða mjög neikvæðir eru 26,1%. 31,8% taka ekki afstöðu.

Yfirvöldum og skólastjórnendum sem framkvæmdaaðilum stefnunnar hefur mistekist að sannfæra meginþorra kennara um mikilvægi þessarar hugmyndafræði. Á því eru að mínu viti tvær hliðar.  Annars vegar þarf að auka veg símenntunar og hins vegar þurfa yfirvöld að takast á við þá veikleika í kerfinu sem eru flestum skólastjórnendum og kennurum kunnir. Það er margt mjög áhugvert sem tengist svörum kennara við þessari spurningu en ég ætla ekki að eyða tíma í þær vangaveltur. Það er þó merkilegt að allra yngstu kennararnir og elstu kennararnir virðast vera jákvæðari gagnvart hugmyndafræðinni en kennarar á miðjum aldri.

9. spurning er svona:

Hvernig gengur að fara eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar?

Niðurstaðan er þessi:

Mjög vel segja 3%

Vel segja 30%

Hvorki né segja 37%

Illa segja 24%

Mjög illa segja 6%

Heildarniðurstaðan er sú að 33% segja að þetta gangi vel eða mjög vel. 37% taka ekki afstöðu og 30% segja að það gangi illa að fara eftir hugmyndafræðinni.

Niðurstaðan staðfestir enn og aftur mikilvægi þess að vinna að endurmenntun og símenntun kennara. Í tengslum við spurningu 8 kom í ljós að þeir sem vinna í teymum eru almennt jákvæðari gagnvart hugmyndafræðinni en þeir kennarar sem gera það ekki. Því er ljóst að breyttir starfshættir styðja við stefnuna en eru ekki lausn á öllum vanda hennar í framkvæmd.

Börnin eru ekki týnd en þau eru ófundin – finnum þau og leysum vanda þeirra.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (3)

  • Árni Páll Árnason

    Takk fyrir gott erindi sem vakti mikla athygli og umræður.

  • Haraldur Finnsson

    Frábært, Ásgeir !
    Það þarf kjark til að fara gegn reglustikuhugsun bókstafstrúarmanna sem alltof oft hafa fengið að ráða ferðinni í skólamálum. Þar hefur þrifist þöggun á afleiðingum þess að allir sem einn skuli fara eftir þröngt túlkuðum ákvæðum. Dæmi Jóns Margeirs er gott dæmi um nauðsynlegan sveigjanleika þar sem hagsmunir einstaklingsins eru hafðir að leiðarljósi. Svo er einmitt fjallað um sorglega andhverfu þess. Pilturinn sem fær ekki inngöngu í Klettaskóla þrátt fyrir eindregna ósk hans og foreldranna. Líðan hans og velferð er fórnað á altari bókstafsins.

  • Ásta Kristrún Ólafsdóttir

    Það gladdi mig mjög að lesa erindi þitt. Hafðu bestu þakkir fyrir!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur