Föstudagur 07.12.2012 - 11:12 - Rita ummæli

NÝTT KORTATÍMABIL

Brátt eykst taktfastur gangurinn

í hljómkviðu fótatakanna

á glampandi steingólfum

með tinandi endurvarpi marglitra ljósanna

þar sem hamingjan er til sölu

í gjafaumbúðum.

Hljómstjórinn lyftir sprotanum

kreditkortinu og segir:

Það er komið nýtt kortatímabil.

 

Suðið og brestirnir

í nýjum og notuðum

vetrardekkjum syngja

eftirvæntingarsönginn

við klettabelti húsanna

á leið í söluhallir

hamingjunnar.

Það er komið nýtt kortatímabil.

 

Ljósunum fjölgar.

Ledperur, vírperur og gasperur

renna sér eins og slöngur

upp veggi, umhverfis stólpa,

tré, girðingar og hanga úti um allt.

Halda vöku fyrir húsráðendum

því gluggakistur húsanna loga.

Það gerir líka

nýja kortatímabilið.

 

Það er sóknarhugur.

Það er mikill hugur.

Hugur fullur af væntingum.

Samhugur og sérhugur

takast á í vitundinni.

Eigum við að elska alla

eða okkur sjálf eða bara börnin

eða einkum ömmu og afa.

Skilti slær upp í hugann

eins og í gömlum afgreiðslukassa

með bjölluhljómi:

Það er komið nýtt kortatímabil

 

Hjartað,

hjartað dælir lífi í allt

fyllir hverja titrandi frumu

af rauða næringarvökvanum

svo ganglimir geti fylgt taktinum

svo augun geti séð dýrðina

svo hugurinn nái utan um allt

skilji allt og geti allt og verði allt:

Eins og nýtt kortatímabil

 

Bara ef það væri alltaf

nýtt kortatímabil

þá væri ég hamingjusamur

með rauðar kinnar

og stóra ístru

í svörtum stígvélum

eins og kókjólasveinninn

með vasana fulla af kortum

og ekki jólakortum,

heldur greiðslukortum

á kafi í nýju kortatímabili.

Flokkar: Spaugilegt

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur