Föstudagur 25.10.2013 - 08:21 - Rita ummæli

Er gagn að góðri umræðu?

Er gagn að góðri umræðu?

Ráðstefna Samtakahópsins í Háskólanum í Reykjavík

24. október 2013

 

Ágætu ráðstefnugestir

 

Er gagn að góðri umræðu? Stundum þurfum við að svara einföldum og skýrum spurningum. Samtakahópurinn hefur stundað umræðu síðan 1998. Hópurinn var stofnaður að frumkvæði lögreglumanns sem kom til að ræða forvarnarmál og fleira í Austurbæjarskólanum það ár. Hann benti á að margar stofnanir og aðilar fjölluðu um hlutskipti barna og ungmenna á svæðinu en töluðu ekki saman. Hann var sannfærður um að ef þessir aðilar ræddu reglulega saman gætu þeir bætt ástandið. Þetta var ekki eini hópurinn sem varð til á þessum árum. Margir sambærilegir hópar urðu til um alla borg og áhugafélög um forvarnir og foreldrasamtökin gengu inn í þessa umræðu. Það varð vitundarvakning og umræða sem allir tóku þátt í. Hvers vegna gerðist þetta? Þetta gerðist annars vegar vegna ástandsins meðal unglinga á götum borgarinnar. Erlendir fjölmiðlamenn komu hingað á 10.  áratugnum til að kvikmynda hegðun barna á götunum, barna sem enn voru í grunnskóla. Það var ítrekað stríðsástand í Kringlunni vegna drykkjuláta barna sem luku samræmdum prófum í grunnskóla. Síðast ekki síst hafði fyrirtækið sem nú heitir Rannsóknir og greining fylgst með neyslu íslenskra ungmenna og 1998 höfðu 42% 10. bekkinga orðið ölvaðir í mánuðinum áður en könnunin var gerð, 23% reyktu daglega og 17% höfðu prófað hass. Tæplega 57% nemenda sem útskrifuðust 1999 höfðu orðið ölvaðir einhvern tíma um ævina.  Bæði þá og í dag erum við sammála um að þetta hefur verið skelfilegt ástand. Þessu hefur umræðan með stuðningi rannsókna breytt. Þetta segir okkur að það er gagn að góðri umræðu. Nú getum við hugsanlega hugað að öðrum víddum í hlutskipti barna og ungmenna. Ef til vill getum við lyft grettistaki eins og hér hefur verið gert – í annarri hegðun, í öðrum þáttum sem hafa áhrif á þroska, lífsgleði og framtíð barnanna okkar. Það er klárt að þeir aðilar sem skipta þar mestu máli eru foreldrar og þær þjóðfélagsstofnanir sem koma að uppeldi barna og ungmenna. Síðast en ekki síst skiptir síðan miklu málið að við rannsökum hlutskipti barnanna með því að spyrja þau. Okkar verkefni hér í dag er að reyna að átta okkur á því hvað við eigum að setja á oddinn, hverju eigum við að fylgjast með og  um hvað eigum við að spyrja.

 

Hver er mesta ógnin sem steðjar að ungu fólki í dag?

 

Já um hvað eigum við að spyrja og eigum við ef til vill að hætta að spyrja um eitthvað? Fer það ekki að verða móðgun að spyrja íslensk ungmenni á grunnskólastigi hvort þau reyki, drekki eða noti hass þegar aðeins örfá prósent gera það? Fer ekki einmitt að verða rými til að hyggja að öðrum þáttum? Auðvitað er umræðan um önnur atriði í gangi en fylgjumst við með ástandi og greinum við ástand með reglulegum rannsóknum á sama hátt? Spurningar til ungmenna um aðstæður þeirra eru einnig áhrifavaldar og beina vitund þeirra að því sem spurt er um. Eigum við ekki að fara að hætta þátttöku í verkefni Landlæknisembættisins reyklaus 7. og 8. bekkur? Er það ekki móðgun við 12 ára börn í dag að spyrja þau hvort að þau reyki? Gæti spurningin vakið hugmynd um að prófa?

 

Samtakahópurinn er mannaður fulltrúum frá Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Hlíðaskóla, frá Háteigskirkju og Hallgrímskirkju, frá lögreglunni og Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða. Auk þessara aðila starfa í hópnum Skátafélagið Landnemar, Íþróttafélagið Valur, Dansskóli Jóns Péturs og Köru og svo Frístundamiðstöðin Kampur.

 

Starfið var samfellt frá 1998 til 2003 en var endurvakið af Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða árið 2005 og hefur starfað síðan. Samtakahópurinn hefur staðið fyrir margvíslegum verkefnum en þó haft frístundakynningar í brennipunkti en umræðan innan hópsins og skoðanaskipti hafa styrkt meðlimi hans í störfum sínum í þágu barnanna. 19. október árið 2000 stóð samtakahópurinn fyrir málþingi sem við kölluðum Samtaka um siðferði og uppeldi og gaf út bækling með niðurstöðum og vangaveltum sem enn eru í fullu gildi. Niðurstöður ráðstefnunnar í dag verða einnig mikilvægt innlegg í forvarnarumræðuna.

 

Ég hef verið skólastjórnandi í Reykjavík síðan 1991 og ég hef reynt þessar miklu breytingar og veruleiki grunnskólanna hefur breyst til batnaðar – ekki bara varðandi forvarnarmál heldur einnig öll fagmennska skóla og stofnana. Stundum segja menn að heimurinn fari versnandi en í mínum heimi leikur skólinn stórt hlutverk og sá heimur er betri en hann var fyrir 20 árum. Ég trúi því að við getum öll orðið sammála um þetta og því eigum við að fagna. Við eigum að fagna því að við getum haft áhrif og sækja styrk í þann sannleika og vera bjartsýn á framtíðina því að hún er greinilega á valdi okkar ef við viljum.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigsskóla

 

 

Flokkar: Lífstíll · Menning og listir

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur