Laugardagur 08.02.2014 - 12:55 - 2 ummæli

Tapið í PISA

Íslendingar töpuðu í PISA og enginn skilur neitt í neinu.  Yfirborðskennd umfjöllun fjölmiðla skilur þjóðina eftir vonsvikna með brotna sjálfsmynd um hæfni sína og hæfileika. Niðurstaða þjóðarinnar er rökrétt miðað við framsetninguna og umræðuna um að við Íslendingar séum bara svona heimskir – við kunnum ekki lexíurnar okkar. Hitt er svo verra að strákar virðast kunna minna en stúlkur.

Hvað er PISA? PISA er skammstöfun og stendur fyrir; Programme for International Student Assessment. Þetta er alþjóðlegt verkefni til að meta nemendur og er unnin af OECD sem er Efnahags og framfarastofnun Evrópu. (Allmörg ríki utan OECD taka þátt.) Rannsóknin var fyrst gerð árið 2000 og hefur síðan verið á þriggja ára fresti. Heimurinn er eitt markaðssvæði og þeir sem ráða ferðinni í heiminum vilja hafa tæki til að meta hæfni þeirra nemenda sem eru um það bil að sækja framhaldsskóla og háskóla. Það er litið svo á að menntunarstig og hæfni 15 ára nemenda geti spáð fyrir um velgengni þjóðar á alþjóðlegum efnahagsmarkaði – segi fyrir um samkeppnishæfni þjóðar. Það sem er slæmt við að ganga illa í PISA er að þjóðinni muni líklega ganga illa í því að keppa um peningana á hinum alþjóðlega markaði. Hin hliðin á því að ganga illa er að það særir stolt þjóðarinnar að „tapa“ í PISA eins og öðrum keppnum.

Það sem er óvenjulegt við þátttöku Íslands er að allir 15 ára nemendur taka þátt en í öllum öðrum þátttökulöndum tekur úrtak nemenda þátt. Þeir sem lenda í úrtakinu erlendis eru þá sérstakir og þá oft ekki margir í hverjum skóla. Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun þeirra sem leggja prófið fyrir á Íslandi á niðurstöðuna? Fyrir nokkrum árum uppgötvuðu menn að viðhorf unglinganna á Íslandi til PISA var neikvætt þannig að reynt var með ýmsum ráðum að „jassa“ þátttökuna upp. Það kann að skýra hvers vegna okkur gekk betur 2009 en 2006 svo dæmi sé tekið. Hvers vegna er ekki notuð sama aðferðarfræði við fyrirlögn hér, eins og erlendis? Jú menn vilja tryggja að niðurstöðurnar fyrir Ísland séu alveg öruggar. Þessi munur á aðferðarfræði kann þó að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Um það leyti sem fyrsta Pisakönnunin er gerð árið 2000 þá hefja íslensk yfirvöld innleiðingu á nýrri stefnu fyrir grunnmenntun í landinu. Það ár voru Íslendingar nokkuð sáttir við niðurstöðu landsins í könnuninni. Þessi stefna var rædd talsvert á síðari hluta tíunda áratugar tuttugustu aldar og átti rætur í samþykkt sem Ísland var aðili að sem er Salamanca yfirlýsingin (1994). Í inngangi segir svo: „VIÐ HÖFUM HUGFASTAR endurteknar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, síðast og eindregnast í Viðmiðunarreglum um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk, samþykktum árið 1993, þar sem lagt er að ríkjum heims að tryggja að skólaganga fatlaðra verði heildstæður þáttur í almenna menntakerfinu.“

Salamanca yfirlýsingin er síðan framkvæmd í stefnu sem kölluð hefur verið „skóli án aðgreiningar“. Um aldamótin er gerð viðamikil rannsókn  sérkennslu í Reykjavík og í framhaldi mótuð stefna og samfara henni eru nánast allar sérdeildir við grunnskólana í Reykjavík lagðar niður. Í sérdeildunum voru nemendur sem áttu erfitt uppdráttar í stórum námshópum og í erfiðleikum með einbeitingu og hegðun. Spyrja má hvort að þeir nemendur sem tilheyrðu deildunum hafi verið fatlaðir í merkingu Salamanca-yfirlýsingarinnar. Stefnan gengur í gildi snemma árs 2002. Það er þekkt úr fræðum breytingarstjórnunar að breytingar takist ekki nema að hópurinn sem tekur þátt geri sér grein fyrir þörfinni fyrir breytingunni. Viðhorf starfsfólks í skólunum var kannað á þessum tíma og í ljós kom að 60% hafði neikvætt viðhorf til stefnunnar. 25% leist vel á stefnuna. Strax á þeim fundi sem stefnan var kynnt lýstu skólastjórar áhyggjum af þeim nemendum sem tilheyrðu sérdeildunum. Skólastjórar í Reykjavík hafa ítrekað frá árinu 2002 lýst yfir áhyggjum sínum af stefnunni og sömu áhyggjur má sjá á prenti í viðauka 7 við stefnu fræðsluyfirvalda í Reykjavík frá árinu 2012; Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur – stefna skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Í viðauka 7 stendur:

Lausleg athugun okkar hefur leitt í ljós að skólastjórar í grunnskólum borgarinnar telja að þeim takist ekki að mæta þörfum um 92 nemenda með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir. Líðan þessara nemenda, samnemenda þeirra og líðan starfsfólks er okkur mikið áhyggjuefni. Helstu orsakir teljum við vera skort á úrræðum til skemmri og lengri tíma og skort á fjármagni í heimaskólunum.

Grunur skólastjóra er að þetta sé mun stærri hópur. Eins og áður segir höfðu skólastjórar ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af þessum nemendum í 10 ár. Einn nemandi með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir getur tekið heilan skóla í gíslingu. Í gíslingu merkir að skólastjórnandi verður eitt af úrræðunum fyrir barnið og gerir hann þá ekkert annað á meðan. Það merkir einnig að nemandinn svekkir skólasystkini sín þannig að þau eru vansæl – til dæmis vegna ljótra orða og hugmynda sem hann lætur frá sér fara í heyrandi hljóði, hann atyrðir og jafnvel ræðst á skólasystkini sín og starfsfólk.

Í febrúar 2012 kom út skýrsla á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara sem var könnun á kjörum og aðstæðum kennara. Svör kennara tala sínu máli um skóla án aðgreiningar: Hvert er viðhorf þitt til hugmyndafræðinnar á bakvið skóla á aðgreiningar. 7,9% voru mjög jákvæðir. 34,2% voru jákvæðir. Samtals teljast jákvæðir vera 42,1%. 26,1% eru neikvæðir eða mjög neikvæðir. 31,8% tóku ekki afstöðu. Hvernig gengur að fara eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar? 32.6% gengur vel eða mjög vel að fara eftir hugmyndafræðinni.

Skóli án aðgreiningar lítur svona út á gólfinu hjá kennaranum: 20 til 25 nemendur eru í bekknum og þroskamunur á milli nemenda getur verið tvö til fjögur ár. Einn nemandi býr við fötlun svo að hann fær stuðningsaðila allan daginn. (Þetta er undantekning.) Tveir til þrír nemendur búa við greindan athyglisbrest þannig að þeir geta ekki einbeitt sér. Finna þarf leiðir til að þeir haldi athygli sinni án þess að þeir trufli aðra. Einn nemandi talar ekki íslensku og heldur ekki tungumál sem kennarinn kann. Einn nemandi býr við geðröskun sem jafnvel ekki finnst skýring á og hefur því hvorki sérstakt fjármagn til stuðnings og ekki er annan stuðning að fá nema að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri eru reglulega kallaðir til. (Tími þeirra nýtist þá ekki í stjórnun og stefnumótun á meðan!) Oft þarf að fá foreldra á vettvang til að róa barnið og fara með það heim. Við þessar aðstæður fer mikil orka kennarans í að láta öllum líða vel og ná einhverjum framförum í námi og þroska. Rannsóknir sýna að íslenskum börnum líður vel í skólanum – það hefur því eitthvað tekist.

Það er ljóst að skóli án aðgreiningar snýst ekki um árangur í námi því að stefnan snýst fyrst og fremst um að í hverjum bekk sé fjölbreyttur hópur nemenda sem líður vel. Það er línulegt samhengi á milli innleiðingar skóla án aðgreiningar og stöðu okkar í PISA. Þá er auðvitað ekki undarlegt að við séum í hópi þeirra sem við viljum bera okkur saman við sem eru Norðurlöndin. Skóli án aðgreiningar fellur vel að hugmyndafræði hins svokallaða norræna samfélagsmódels. Það er hins vegar ljóst að yfirvöld þurfa að hlusta á kennara og skólastjórnendur og finna leiðir til að auka námsárangur í skóla án aðgreiningar. Íslenski

grunnskólinn býður upp á mjög fjölbreytt nám þar sem list- og verkgreinar eru í hávegum hafðar og það er fjölbreyttur nemendahópur sem nýtur hans. Grunnskólinn á Íslandi er góður en það má bæta námsárangur í samanburði við aðrar þjóðir. Það yrði best gert með því að hlusta á starfsfólk grunnskólanna, bæta endurmenntun, styrkja faglega kennsluráðgjöf og þróa sjálfsmat.

Ef sigur í „PISA-keppninni“ felur í sér að við þurfum að hafa okkar skóla eins og í Singapúr, sem er í öðru sæti, þá er sigur ekki eftirsóknarverður því að þá skóla hef ég séð með eigin augum.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigsskóla

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Haukur Kristinsson

    Nú hefur Ragnar Þór Pétursson kennari svarað þessum 1300 orða pistli Ásgeirs Beinteinssonsar með 1100 orða pistli.
    Væri ykkur kennurum ekki nær og meiri sómí fólgin í því að setjast niður og ræða kennsluhætti og skipulag skóla í bróðerni, í stað þess að rífast og þrasa með löngum blöggskrifum.
    Eða hefur þrasgjarni pólitíkusinn í ykkur báðum náð yfirtökum á kennaranum?
    „Wake up boys“. Sýnið nú að með menntum ykkar, hæfileikum og starfsvilja, séu þið kennarstarfinu vaxnir.

  • Kærar þakkir fyrir þennan þarfa og áhugaverða pistil.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur