Miðvikudagur 19.11.2014 - 19:18 - 7 ummæli

Mótmæla – dólgshætti?

Það er komin upp einkennileg staða í þessu landi. Fólk safnast saman á Austurvelli – þessum forna grasnytjareit og andans miðju til að mótmæla dólgshætti stjórnvalda. Ég minnist þess ekki áður að slíkt hafi verið í brennipunkti mótmæla. Dólg merkir orrusta og sá sem er dólgslegur er fruntalegur og uppivöðslusamur og slíkur maður er óvinveittur. Það er því mat mótmælenda að stjórnvöld séu óvinveitt þjóðinni. Miðað við það sem á gengur í stjórnun landsins og miðað við hegðun og framkomu þeirra einstaklinga sem mynda stjórnvaldið sýnist mér einmitt að hegðunin sé dólgsleg. Ég þarf ekki að tíunda dæmin, því þau eru hverjum manni augljós. Það er sem sagt verið að mótmæla stöðunni og það er eins og þeir sem ráða fyrir þessu landi kunni ekki mannganginn.

Ef við líkjum stjórnun landsins við skák og svo virðist að stjórnendurnir séu ekki klárir á mannganginum, hvað er þá til bragðs? Við þekkjum úr mannkynssögunni, að hinum og þessum stjórnmálamönnum og stundum rithöfundum hafi tekist að kenna hinn stjórnmálalega manngang og heimurinn orðið svolítið betri á eftir. Í dag finnst manni ýmislegt undarlegt sem fyrri tíma ráðamenn töldu rétt og höfðu að viðmiðum fyrir breytni sinni. Í barnaskap segir maður stundum að menn hafi verið svo vitlausir í gamla daga en vitum að hið siðaða samfélag var bara ekki komið lengra.

Mikið vildi ég að við ættum stjórnmálamann eða rithöfund sem næði inn að hjartarótum Íslendinga með þekkingu sem sýndi vanvisku stjórnvalda í þessu landi. Því að það er ótrúlega merkilegt hvað ráðherrann, svo eitt dæmi sé tekið út fyrir sviga, sem hefur brotið flest það  sem telst siðleg breytni og góð stjórnsýsla skuli eiga svo mikið fylgi meðal þjóðarinnar. Já, það er merkilegt hvað ráðherra innanríkismála nýtur mikils stuðnings í þessu landi en merkilegast þó að hann skuli njóta óskoraðs stuðnings stærsta stjórnmálaflokksins. Dapurleg staðreynd um íslensk stjórnmál og dapurleg staða.

Hvers vegna er þetta svona? Fjölmiðillinn sem fletti ofna af lögbrotinu á heiður skilinn fyrir og nú aðrir sem sýna dag hvern hvað íslensk stjórnsýsla er frumstæð og stutt á veg komin. Fjölmiðlar virðast máttlausir í hlutverkum sínum – það sýnir hið mikla fylgi við ráðherrann. Almannasjónvarpið, sem er áhrifaríkast, hefur ekki myndugleik til að greina atburðarrásina í sundur og sýna óhæfuna svo að alþýða manna átti sig á vanvirðunni og dólgshættinum. Almannaútvarpið reynir og gerir margt gott en almannasjónvarpið stundar míkrófónblaðamennsku. Fyrst er míkrófónn rekinn upp í einn og svo líður dagur og míkrófónninn er rekinn upp í annan – og líka afbrotamanninn. (Á miðöldum var mönnum refsað á torgum. Er það nú orðið verkefni almannasjónvarpsins í dag?)  Sannleikurinn er þess sem lék best við míkrófóninn. Allt snýst um að hafa eitthvað á dagskrá á hverjum degi, ekki inntakið, ekki niðurstaða rannsóknarinnar. Kannski er þetta vegna þess að almannasjónvarpið má ekki styggja valdhafana með alvöru greiningu og gagnrýni, því þá gæti farið illa fyrir einhverjum.

Ekki eru líkur á því að meðvituð og ábyrg grasrót þeirra stjórnmálaflokka sem stjórna þessu landi standi upp og segi að leikurinn sé tapaður hjá umræddum ráðherra. Nú eða í annarri þeirri skemmdarstarfsemi sem er í gangi. Þeir stjórnmálaflokkar sem stjórna landinu virðast ekki eiga meðvitaða og ábyrga grasrót. Hefur nokkur stjórnmálaflokkur í dag meðvitaða og ábyrga grasrót? Er grasrót stjórnmálaflokkanna ekki bara samansafn fylgifiska einstakra stjórnmálamanna og er það ekki þess vegna sem þeir geta hagað sér dólgslega.

Margir stjórnmálamenn eru eigið sköpunarverk. Stór hópur stjórnmálamanna kemst áfram í stjórnmálaflokkum vegna þess að þeir eru sjálfir sannfærðir um eigið ágæti og kaupa sér á einn eða annan hátt fylgi til að ná inn á lista til valda. Þeir eru ekki í forystu vegna þess að stór hópur í flokknum hafi valið þá vegna manngildis þeirra, visku eða heiðarleika. Þeir eru í forystu af því að þeim tókst betur en þeim næsta að afla fylgis við sína persónu, ekki hitt sem hún stendur fyrir. Slíkir sjálfskapaðir stjórnmálamenn verða hrokafullir og þeir haga sér dólgslega þegar vegið er að þeim og völdum þeirra sem þeir telja sig réttborna til.

Þeir eru svo sjálfskapaðir að það hefur enginn vald yfir þeim. Í dag er til dæmis enginn verkstjóri í ríkisstjórninni. Ráðherrann sem hefur brotið af sér á að ákveða sjálfur hvort hann hættir og er það augljóslega í samræmi við siðareglur sjálfskapaðra stjórnmálamanna.

Hvað er hægt að gera annað en að tromma á álgirðingar og hlusta á fólk tala uppi á vörubrettum fyrir framan Alþingishúsið?

Hversu langt duga fjesbækur og instagrömm og bloggfærslur í baráttunni við hrokafulla dólgastjórn sem hefur rúmt svigrúm til að taka allar þær almannastofnanir niður sem henni sýnist á þeim tíma sem hún hefur?

Eru það ekki mannréttindi að búa við hrokalausa valdstjórn? Eru það ekki mannréttindi að geta treyst þeim sem stjórna landinu? Er ekki til einhver stofnun í útlöndum sem við getum biðlað til? Hvað myndi Feneyjanefndin segja um ástandið? Getur ekki einhver málsmetandi einsaklingur lýst ástandinu og beðið nefndina að hafa skoðun á því?

Það verður enginn friður í þessu landi á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður á heimilum þessa lands á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður í sálum okkar á meðan staðan er eins og hún er.

Það þarf einhvern veginn að snúa taflinu við.

 

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (7)

  • Haukur Kristinsson

    Vel mælt, Ásgeir Beinteinsson.

    Hefur nokkur stjórnmálaflokkur í dag meðvitaða og ábyrga grasrót? Svarið er: Nei.
    .
    Er grasrót stjórnmálaflokkanna ekki bara samansafn fylgifiska einstakra stjórnmálamanna og er það ekki þess vegna sem þeir geta hagað sér dólgslega? Svarið er: Já.

    Heimska, hroki og hagsmunagæsla er baneitruð blanda sem einkennir stjórnsýslu silfurskeiðunganna Bjarna og Sigmundar Skítsama.

  • Haukur Hauksson

    Held að fáir eru sammála þessu.
    Þessi svokölluðu mótmæli fara ört fækkandi og núna eru nokkur hundruð hræður mættar með mismunandi boðskap.

  • Jens Ólafsson

    Einstaklega ómálefnaleg grein. Ekkert gagnrýnt málefnalega heldur uppfullt af skætingi í garð núverandi ríkisstjórnar:

    „Dólg merkir orrusta og sá sem er dólgslegur er fruntalegur og uppivöðslusamur og slíkur maður er óvinveittur. Það er því mat mótmælenda að stjórnvöld séu óvinveitt þjóðinni. Miðað við það sem á gengur í stjórnun landsins og miðað við hegðun og framkomu þeirra einstaklinga sem mynda stjórnvaldið sýnist mér einmitt að hegðunin sé dólgsleg. Ég þarf ekki að tíunda dæmin, því þau eru hverjum manni augljós.“ Nei, endilega ekki tíunda málefnaleg dæmi, þetta er „hverjum manni augljós“.

    „…sjálfskapaðir stjórnmálamenn verða hrokafullir“.

    „… hrokafulla dólgastjórn sem hefur rúmt svigrúm til að taka allar þær almannastofnanir niður sem henni sýnist á þeim tíma sem hún hefur…“

    „Eru það ekki mannréttindi að búa við hrokalausa valdstjórn?“

    „Það verður enginn friður í þessu landi á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður á heimilum þessa lands á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður í sálum okkar á meðan staðan er eins og hún er.“

    Hvaða staða? Sú staða að það sé við völd LÝÐRÆÐISLEGA kjörin ríkisstjórn sem hefur aðrar sýnir og áherslur en Samfylkingarmenn eins og Ásgeir?

    Við hægrimenn sættum okkur í 4 LÖNG ár við vinstristjórn, sem sveik kjósendur mun meira en allar aðrar (eða hvernig getur stjórnmálaflokkur verið á móti ESB aðild en samt sótt um aðild að ESB? Er það ekki stærstu svik flokka við kjósendur sína?). Við sættum okkur við hana því hún komst til valda eftir lýðræðislegar kosningar.

    Þið vinstri menn verða bara að fara að átta ykkur á að svona virkar lýðræðið og að halda því fram að ríkisstjórn sé hrokafull og dólgsleg eingöngu vegna þess að hún hefur aðrar áherslur og markmið en þið (sem ekki kusu hana), er einfaldlega tvískinningur og hræsni og einstaklega ómálefnaleg skrif.

  • Sammála síðasta ræðumanni. Þetta er froðugrein hjá þér Ásgeir.

    Þú kallar lýðræðislega kjörna stjórnmálamenn: „Sjálfskipaða“.
    Þú kallar þá sem eru á öndverðri skoðun og þú: „Dólgslega“ án þess að nefna nein dæmi um þannig hegðun.
    Þú ásakar ríkisstjórn landsins um að vera „án verkstjórnar“ vegna þess að hún vill ekki gera það sem þú vilt.
    Þú segist ekki þurfa að tíunda nein dæmi því þau séu „augljós.“

    Þú talar eins og þér hafi áskotnast hinn heilagi sannleikur á landsfundi Samfylkingarinnar og öðrum beri að fylgja kyndli þínum.

    0 í einkunn.

  • Haukur Kristinsson

    Fylgifiskarnir mættir.

  • Borgar Bui

    Þetta er að þróast í fasista þjóðfélag. Siðblindan, græðgin, pólitíska spillingin – allt þetta vellur nú upp á yfirborðið.

    Fjórflokkurinn er að eyðileggja landið. Sennilega er það von þeirra að við förum sem flest héðan svo þeir geti arðrænt auðlindir landsins í friði. Lá laun, þöggun, mannfyrirlitning og refsigleði, allt þetta stuðlar að því að við förum héðan.

    Segi bara eins og Styrmir – þetta er ógeðslegt þjóðfélag.

  • Enn einn vinstri penninn kominn á koppinn hjá Eyjunni og eins og þeim er einum lagið vantar ekkert uppá yfirlætið og dómhörkuna. Og það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Hann fordæmir grasrót stjórnarflokkanna fyrir að gagnrýna ekki það sem hann kallar: „skemmdarstarfsemi sem er í gangi hjá núverandi ríkisstjórn en er sjálfur haldinn alvarlegri pólitískri blindu og berlega skín í gegnum froðukennd skrif hans. Þar er hann á sama róli og listamennirnir sem fluttu lýðnum boðskap í síðustu mótmælum á Austurvelli þar sem yfirskriftin var samkvæmt herútboðinu ást og kærleikur en reyndin varð fúkyrðaflaumur og ofstæki í sinni verstu mynd og kom engum á óvart.
    Listaljóðskáldið virta og víðlesna, Bragi Páll átti sína frægðarstund með alla sína byltingaróra í anda Che Guevara og kópí peist rithöfundurinn Illugi Jökulsson lét ekki sitt eftir liggja og er hann með ofstækisfullum málflutningi kominn á þann vafasama stall að fáir nema kannski innvígðir vinstri menn telja hann marktækan í pólitískri umræðu. Það ásamt vafasömum ferli leigupennans hefur rýrt svo álit fólks á þeim manni, að á allt sem frá honum kemur á prenti er litið sem óráðshjal.
    Og pistlahöfundurinn Ásgeir fellur í þessa sömu gryfju. Verk vinstri, norrænu velferðarstjórnarinnar eru þeim gleymd. Milljarðar í einskisnýt gæluverkefni, velferðarmál skorin inn að beini og blóðugastur niðurskurðurinn til heilbrigðismála. Skjaldborgin sem aldrei varð og misheppnuð 110% leiðréttingarleiðin sem gagnaðist fyrst og fremst heimilum þar sem óvarlega var farið í fjárfestingum svo ekki sé minnst á stóralvarleg mistök við endurreisn bankakerfisins eftir hrun þar sem vogunarsjóðum var hyglað á kostnað almennings og eru ekki öll kurl komin þar til grafar. Ýmislegt er í farvatninu sem bendir til þess, að Landsdómur verði virkjaður í annað sinn og þeir farnir að svitna sem vöktu upp þann draug.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur