Þriðjudagur 25.11.2014 - 20:35 - 1 ummæli

Tvö höfuð eitt hjarta

Tvíhöfði er sá sem er með tvö höfuð. Grín tvíeykið sem kallar sig „tvíhöfða“  eru tveir menn með sama grínið. Grín þeirra er samspil tveggja þar sem annar er stundum eins og talsmaður skynsemi á meðan hinn orðar það sem í hjartanu býr og lætur allt vaða. Þetta er góð aðferð til að sýna fleiri en eina hlið í gamanmálum.

Margskonar samspil m.a. í mönnum hefur þetta tvíeðli. Þannig á hver lifandi maður í stöðugri baráttu við sjálfan sig. Hver maður vill láta reglu og skynsemi ráða lífi sínu en tilfinningarnar og náttúran vilja taka völdin. Menn læra af þessari baráttu á milli andans og efnisins og þannig þroskast velflestir menn eftir því sem líður á ævina. Það er í þessari baráttu meðal annars sem aldnir eru vitrir og geta veitt hinum yngri leiðsögn. Þeir sem ná völdum yfir líkama sínum þeir eru farsælir og líka vegna þess að þeir hafa ekki bara skynsemi og reglu að leiðarljósi heldur hafa tilfinningarnar sem förunaut. Þeir gæta þess að láta tilfinningarnar ekki stjórna sér. Tilfinningarnar taka þátt í innra samtali í hverju því máli sem vinna þarf úr og þannig verða menn farsælir.

Við köllum menn hinna ýmsu starfsgreina fagmenn og við viljum að þeir kunni fag sitt vel. Við segjum að sá sem smíðar fallegan hlut sé góður smiður og það mun ekki hafa áhrif á fegurð hlutarins þó að smiðurinn sé leiðinlegur eða jafnvel siðlaus. Tannlæknir á nokkurn skyldleika við smiðinn því að hann er að hluta til handverksmaður sem vinnur að iðn sinni inn í höfði okkar. Það skiptir ekki máli þó að hann sé leiðinlegur en ef við fréttum að hann væri ofbeldisfullur þá myndum við hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til hans. Það er vegna þess að við gætum átt það á hættu að hann missti stjórn á sér í miðri aðgerð og réðist á okkur.

Læknar eru mikilvæg faggrein. Læknar eiga sér eið Hippokratesar sem er svona í nútímaútgáfu:

Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.

Þessi eiður á uppruna sinn frá því um 460 fyrir Krist og það þykir til marks um góða fagmennsku í dag ef fagstétt hefur komið sér upp slíku viðmiði um breytni. Þetta er siðaregla. Það er einnig til marks um þroska samfélags ef það heldur sínar siðareglur. Menn sletta stundum og kalla þetta „prinsipp“ sem er mikilvægt að hafa. Maður með gott siðvit segir ekki eitt í dag og annað á morgun nema að mjög góð rök liggi því til grundvallar.

Fagmennska lækna felst í því að þeir fylgi þessum fyrirmælum, þessari siðareglu, um hegðun sína og gjörðir. Læknir má ekki láta skoðun sína á lyndiseinkunn manns ráða því hvort að hann læknar hann.  Læknir þarf að gera meira en þetta. Læknirinn má ekki láta andlát eins sjúklings fá á sig persónulega því að slíkur læknir yrði ekki lengi starfhæfur. Læknirinn hefur skyldur við aðra dauðvona sjúklinga. Læknirinn verður að láta skynsemina ráða í þessu en verður ekki lengi læknir ef hann hefur ekki tilfinningarnar að förunaut. Fagmaðurinn, læknirinn lærir að hlusta á tilfinningar sínar án þess að láta þær bera sig ofurliði í starfi.

Svipaða hluti er hægt að segja um aðrar fagstéttir. Kennari sem tekur aðdróttanir eins nemanda persónulega og tekst á við hann í reiði er ekki starfi sínu vaxinn. Kennari sem lætur hóp nemenda gjalda fyrir gjörðir eins þeirra er ekki góður kennari. Í þessu má hann ekki láta tilfinningarnar ráða. Skynsemi og þekking ættu til dæmis að segja honum að barnið sem kemur illa fram getur búið við aðstæður sem hafa hindrað þroska þess og siðvit eða það býr við líkamlegar hamlanir sem stýra gjörðum þess. Kennari þarf að gæta þess að beita aga og reglu á sinn hóp en sá sem gerir það eingöngu verður strangur og vondur kennari en sá sem gerir það með tilfinningar sínar sem fylginaut hann verður farsæll. Börn átta sig fljótlega á þessu og tala um að bestu kennararnir séu strangir en góðir.

Þannig verður ekki annað sagt en að fagmaðurinn þurfi að láta sér vaxa tvö höfuð á líkama með eitt hjarta. Við treystum fagmanninum hvort sem hann er læknir eða kennari á meðan hann talar sem læknir eða kennari. Um leið og læknir fer að ræða við aðstandendur sjúklings á þeim nótum að hann sé nú svo þreyttur eða sjúklingurinn hafi verið svekkjandi eða leiðinlegur og því gangi illa með hann, vekur það ótta hjá aðstandendum. Ef kennarinn segir að barn fari í taugarnar á sér vekur það ótta hjá foreldrunum sem hætta að treysta kennaranum.

Embættismaður má ekki draga eigin persónu inn í svör við eðlilegum spurningum fréttamanns. Fréttamaðurinn, fagmaðurinn gegnir skyldum sínum sem fréttamaður og spyr þeirra spurninga sem honum finnst mikilvægt að fá svör við fyrir almenning, sem hann þjónar. Embættismaður og það hátt settur lögreglumaður á ekki að gera fréttamanninum upp að hann sé persónulega að níðast á sér. Embættismaður sannar ekki ágæti sitt í viðtali með vísun í flekklausan feril – hann getur aðeins hughreyst sjálfan sig með því. Lögreglustjóri á alls ekki að verja sig spurningum í réttarríki sem hann hefur tekið að sér að varðveita í starfi sínu. Í réttarríkinu, í lýðræðisríkinu eru spurningarnar vopn og verjur réttlætis og sannleika.

Það er ekki af ástæðulausu að gyðja réttlætis er með bundið fyrir augun því að ekki má hún berja ásjónu hins sakfellda augum því að þá gætu tilfinningarnar haft áhrif á niðurstöðu hennar. Hún hlustar á rök með og á móti og kveður upp dóm sinn.

Getur lögreglustjóri sem sækir rök í hjarta sitt stjórnað lögregluliði. Lögreglumenn verða að gæta þess öðrum fremur að láta tilfinningarnar ekki ráða. Lögregluliðið sem stóð vaktina í hruninu lét tilfinningarnar ekki ráða gerðum sínum. Við værum í vondum málum ef lögreglumenn tækju atlögur mótmælenda persónulega. Gerðu þeir það þá myndi reiðin taka völdin og reiður maður gerir mistök.

Embættismaðurinn, fagmaðurinn getur gert þau mistök að láta tilfinningarnar bera sig ofurliði. Venjulegir breyskir menn eiga auðvelt með að fyrirgefa slíkt því að hver og einn þekkir baráttuna úr eigin kroppi. Það er því miður þannig að embættismaðurinn, fagmaðurinn verður fyrst að átta sig á mistökum sínum því að einungis undir þeim kringumstæðum er hægt að fyrirgefa – þegar menn skilja að þeir hafi gert mistök.

Þegnarnir vilja að þeir sem eru settir yfir þá séu fagmenn og sem slíkir verða þeir því miður að láta sér vaxa tvö höfuð því að hlutverkin eru tvö. Annars vegar er maðurinn, faðirinn, móðirin og hins vegar er embættismaðurinn. Við teljum mikilvægt að þessum tveimur höfðum stjórni eitt gott hjarta.

Ef höfuðin tvö á embættismanninum eða stjórnmálamanninum rugla saman reitum sínum þá verða þegnarnir áhyggjufullir.

Ásgeir Beinteinsson

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Til að gera góða grein enn betri má bæta eftirfarandi við.

    Stjórnandi (t.d. í menntastofnun) sem leggur meira upp úr góðri tölfræði í erfiðum málum til að líta betur út gagnvart yfirboðara sínum og samfélaginu í stað þess að leita allra leiða til lausna er ekki starfi sínu vaxinn. Stjórnandinn verður að geta hafið sig yfir regluverkið og gripið inní með það eitt að finna farsæla lausn fyrir hlutaðeigendur. Sá stjórnandi sem er ósveigjanlegur og beitir eingöngu fyrir reglum við úrlausn, í stað þess að taka sér tilfinningar sínar sem fylginaut er ekki góður stjórnandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur