Sunnudagur 10.3.2013 - 14:36 - FB ummæli ()

Okkur kemur ekki við hvað Davíð gerir við milljarðana sína

____________________________________________________________________________________

Kariusogbaktus

 

Við megum ekki vita hvað Geir sagði við Davíð. Eða hvað Davíð sagði við Geir. Við vitum að það var eitthvað um 80 milljarða lán en það kemur okkur ekki við. Þetta voru sko peningar Seðlabankans en ekki okkar. Davíð er líka búinn að útskýra fyrir okkur að þetta símtal hafi ekki verið neitt merkilegt og fyrst Davíð segir það sjálfur þá getum við andað léttar. Ég meina það var hann sjálfur sem lánaði helling af peningum. Sem hann átti en ekki við. Eða sko sem Seðlabankinn hans átti og þar með hann sjálfur. Einhvernveginn svoleiðis.

Geir sagði ekkert merkilegt við Davíð. Davíð sagði ekkert merkilegt við Geir. Þetta samtal þeirra var svo ómerkilegt að við megum ekki fá aðgang að því. Við megum bara fá aðgang að merkilegum upplýsingum, ekki ómerkilegum. Það hefur Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfest. Segir Davíð. Og það er ákvörðun Seðlabankans að veita ekki þessar upplýsingar, Davíð og Geir hafa ekkert um það að segja. Segir Davíð.

Að vísu kom fram hér að Seðlabankinn vildi upplýsa um málið. En hérna að hann hafi enn ekki gert það og að skýringin sé líklega sú að vegna persónuverndarsjónarmiða þurfi leyfi frá Geir. Sem Davíð segir að hafi ekki verið spurður. Auðvitað getur vel verið að þeir vinirnir hafi nefnt einkamál sín í framhjáhlaupi.

Ég finn ekki úrskurð Upplýsinganefndar. Getur einhver sagt mér hvar hann er að finna? Mig langar nefnilega svo að sjá rökstuðninginn. Hér eru upplýsingalögin. Samkvæmt þeim ætti að vera lítið mál að klippa út þau atriði sem snúa að persónuvernd. Nema auðvitað að það stefni öryggi landsins í hættu að almenningur fái upplýsingar um það hvernig það kom til að Davíð og Geir lánuðu Kappa Fling Fling 80 milljarða.

 

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur
Efnisorð:

Miðvikudagur 6.3.2013 - 22:27 - FB ummæli ()

Frumvarp til útlendingalaga verður að fara í gegn – gestapistill frá No Borders

 

Fyrir Alþingi liggur nú nýtt frumvarp til laga um málefni útlendinga.

Með tilliti til þess hvernig þessi málaflokkur hefur verið meðhöndlaður í gegnum tíðina teljum við frumvarpið vera stórt skref í rétta átt. Enn frekari úrbóta er þó þörf eins og reifað er í kröfum No Borders.

 

Meðferð flóttamanna á Íslandi

Þvert á ákvæði Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna eru flóttamenn eru oftar en ekki fangelsaðir við komuna til landsins. Eftir það lifa þeir í langtíma óvissu um það hvort og hvenær hælisumsókn þeirra verði tekin til meðferðar. Biðtíminn er sjaldan skemmri en ár og oft bíða menn árum saman eftir svari. Svo virðist sem stofnanir ríkisvaldsins geti auðveldlega leikið sér með líf þeirra og velferð rétt eins og um sé að ræða hluti en ekki mannverur. Íslendingum ber ekki aðeins siðferðileg skylda til að sýna flóttafólki meiri virðingu og tillitssemi heldur höfum við einnig skuldbundið okkur til þess með aðild okkar að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, þar á meðal flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Það er í besta falli tvískinnungur af ríkisvaldinu að opna landamæri eftir hentugleikum, svo sem til þess að flytja inn ódýrt vinnuafl, en ætla svo að þvo hendur sínar af flóttamannavandanum. Þá er óviðunandi að brotið sé gegn réttindum hælisleitenda í skjóli Dyflinnarreglugerðarinnar. Mörg dæmi eru um illa ígrundaða úrskurði af hálfu Útlendingastofnunar, margir úrskurðir gefa ástæðu til að draga fagleg vinnubrögð í efa og dæmi eru um að úrskurðir beri merki um hreina og klára geðþóttaákvörðun.

Kröfur No Borders

Þann 26. febrúar heimsóttu um 20 hælisleitendur ásamt liðsmönnum No Borders Útlendingastofnun, Innanríkisráðuneytið og Alþþingi, til að lýsa kröfum sínum. Við kynntum innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, kröfurnar, bæði munnlega og með afhendingu undirskriftalista. Undirskriftasöfnunin stendur enn en á þessum tíma höfðu 251 undirskriftir safnast.

Kröfur okkar eru í stuttu máli eftirfarandi:

  1. Biðtími eftir afgreiðslu hælisumsókna verði styttur í samræmi við leiðbeiningar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
  2. Afgreiðsluferill hælisumsókna verði opinn og gegnsær.
  3. Þegar í stað verði hætt að senda hælisleitendur burt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
  4. Stjórnvöld virði tilmæli Flóttamannasamningsins um að flóttamönnum verði ekki refsað fyrir að framvísa fölskum skilríkjum.

Nánari skýringar má sjá hér.

Við leitum stuðnings almennings

Þótt margt megi betur fara er mikilvægt að frumvapið verði samþykkt. Við höfum áhyggjur af því að ekki náist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok. Hælisleitendur eiga sér ekki talsmenn innan stofnana samfélagsins. Við leitum því liðsinnis almennings, biðjum alla sem styðja málstað flóttamanna að vekja athygli á frumvarpinu og hinni brýnu nauðsyn á afgerandi umbótum í málum flóttamanna á Íslandi.

Meðal þess sem hinn almenni borgari getur gert er að undirrita undirskriftalistann og dreifa honum, dreifa féttatilkynningunni um kröfur okkar,  myndskeiðinu hér að neðan og öðru efni frá No Borders, skrifa þingmönnum, skrifa blaðagreinar og dreifa greinum og öðru efni sem er til þess fallið að auka meðvitund almennings.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur · Gestapistlar · Lög og réttur
Efnisorð:

Sunnudagur 3.3.2013 - 11:51 - FB ummæli ()

Fébætur í stað fangavistar

Þann 13. febrúar sl bárust fréttir af því að hersveitir Nató hefðu drepið 10 óbreytta borgara í Afghanistan, þar af 5 börn. Núna í síðustu viku féllu svo tvö smábörn sem voru álitin hryðjuverkamenn.

Nató tekur að sjálfsögðu „fulla ábyrgð“ á þessum drápum og ætlar að greiða fjölskyldum barnanna bætur. Þannig tekur maður fulla ábyrð á manndrápum. Mikið hljóta nú foreldrar barnanna að gleðjast þegar þeir fá pening og allt. Hvar væri þetta fólk ef það hefði ekki Nató til að styðja sig og styrkja?

Það er mikill tvískinnungur af fólki sem refsar almennum borgurum harðlega fyrir manndráp að tilheyra samtökum sem axla slíka ábyrgð með því að reiða fram fé. Ef Íslendingar ætla að vera sjálfum sér samkvæmir hljóta þeir að bjóða þeim sem verða náunga sínum að bana að taka fulla ábyrgð á því með því að greiða fjölskyldu hins látna fébætur.

Nú eða þá segja skilið við samtök sem líta á það sem ásættanleg vinnubrögð að drepa sakleysingja og borga svo bara.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Föstudagur 1.3.2013 - 13:59 - FB ummæli ()

Jæja Vigdís – byrjum á Dyflinnarreglunni

Vigdís Hauksdóttir heldur áfram að opinbera kjánaskap sinn í útvarpsviðtali um afstöðu hennar til flóttamanna.  Bullið í henni er efni í heila pistlaröð. Byrjum á þeirri vondu réttlætingu fyrir mannvonsku sem í daglegu tali er kölluð Dyflinnarreglan.

Ekki skylda heldur heimild

Vigdís staðhæfir að samkvæmt Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins beri Íslendingum að vísa flóttamönnum til annara Evrópulanda. Þetta er ósatt. Dyflinnarákvæðið heimilar ríkinu að endursenda flóttamanns til þess lands þar sem hann sótti fyrst um hæli. Það er engin skylda og aðrar þjóðir tækju því fegins hendi ef Íslendingar dröttuðust til að taka þátt í því að leysa flóttamannavandann.

Markmið Dyflinnarreglugerðarinnar

Samkvæmt Dyflinnarreglunni svonefndu er það ríki ábyrgt fyrir afgreiðslu hælisumsóknar sem fyrst fær hana til meðferðar. Reglunni er ekki ætlað að velta vandanum yfir á fáar þjóðir og firra aðrar ábyrgð. Markmiðið er að taka af vafa um það hver bæri ábyrgð á hælisumsókn. Bæði til að tryggja rétt flóttamannsins og til að hindra að sama fólkið sæki um hæli á mörgum stöðum í senn og lágmarka þannig álagið á kerfinu í hverju landi.

Þar sem ekkert beint flug er til Íslands frá Asíu og Afríku, sækir enginn um hæli á Íslandi nema stoppa annarsstaðar fyrst. Ef Dyflinnarákvæðið er túlkað á þann hátt sem Vigdís Hauksdóttir og fleiri stjórnmálamenn gera þurfa Íslendingar aldrei að taka við flóttamanni. Heldur Vigdís að hugmyndin með Dyflinnarreglugerðinni hafi verið sú að gera Íslendinga að ábygðarlausum dekurbörnum í samfélagi þjóðanna? Mannréttindadómstóll Evrópu lítur allavega ekki svo á.

Túlkun Mannréttindadómstólsins

Dyflinnarreglugerðin segir ekki að ríki sé óheimilt að taka hælisumsókn til meðferðar ef flóttamaðurinn á óafgreidda umsókn annarsstaðar. Íslendingar geta vel skuldbundið sig til að taka við ábyrgð hælisumsóknar og reyndar höfum við verið skikkuð til þess að hætta að endursenda flóttamenn til Grikklands með stefnumarkandi dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli afghansks hælisleitanda gegn Belgíu og Grikklandi. Í þessari reifun dómsins segir:

Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.

Það er skömm að því að Íslendingar þurfi skilaboð dómstóla til að axla ábyrgð. Dómurinn sýnir þó svo ekki verður um villst að það er gróf rangtúlkun á Dyflinnarreglugerðinni þegar yfirvöld þykjast ekki mega afgreiða hælisumsóknir.

Hættið að misnota Dyflinnarákvæðið

Landfræðileg staða Íslands býður upp á misnotkun á Dyflinnarákvæðinu og það hafa íslensk yfirvöld nýtt sér blygðunarlaust til þess að firra sig samfélagslegri ábyrgð.

Þótt hælisumsóknum hafi fjölgað á Íslandi er hlutfall þeirra miðað við íbúafjölda þó ennþá mun lægra en gerist í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Við höfum þegar fengið gula spjaldið með dómnum gegn Grikklandi og Belgíu og ef flóttamaður sem Íslendingar hafa vísað brott færi í mál gegn íslenska ríkinu eru góðar líkur á að hann myndi vinna það mál. Vigdís Hauksdóttir og aðrir þingmenn ættu því frekar að sjá sóma sinn í því að stuðla að því að Íslendingar taki við sanngjörnum hluta ábyrgðarinnar en að bíða eftir flengingu frá Mannréttindadómstól Evrópu.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 28.2.2013 - 09:44 - FB ummæli ()

Ráðherraefnið og flóttamenn

Fyrir hönd félags áhugafólks um málefni flóttamanna (áður birt í DV)


Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram á alþingi fyrirspurn um málefni flóttamanna.

Fyrirspurnin lýsir áhyggjum af meintri eftirsókn flóttamanna eftir óverðskulduðu hæli á Íslandi ásamt þeirri hugmynd að flóttamenn séu öðrum glæphneigðari. Þingmaðurinn spyr hvort komi til greina að láta menn sem reyna að flýja land ganga með ökklabönd.

Laumufarþegar eru ekki umfangsmikið vandamál á Íslandi en þessar áhyggjur virðast spretta af máli ungmenna sem ítrekað hafa reynt að komast úr landi. Tveggja manna af þeim hundruðum sem sótt hafa um hæli á Íslandi á umliðnum árum og flestir verið sendir á áframhaldandi vergang.

Félag áhugafólks um málefni flóttamanna beinir eftirfarandi spurningum til Vigdísar:

  1. Veit þingmaðurinn hversu margir þeirra flóttamanna sem lent hafa á Íslandi á síðustu árum hugðust ekki að sækja um hæli á Íslandi heldur voru stöðvaðir á leið til Ameríku?
  2. Veit þingmaðurinn að flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir menn hafi rétt til að flýja ofsóknir enda þótt þeir þurfi að ferðast ólöglega og nota fölsuð skilríki?
  1. Hvað hefur þingmaðurinn fyrir sér í því að flóttamenn líti á Ísland sem „stökkpall“ til annarra landa? Hvernig virkar eyríki sem “stökkpallur” og hversu margir flóttamenn hafa notað Ísland sem „stökkpall“?
  1. Telur þingmaðurinn að ef Íslendingur ferðast með lest erlendis, án þess að kaupa farmiða, væri eðlilegt að hann yrði látinn bera ökklaband eða er það eingöngu fólk sem býr við ofsóknir og örbirgð sem verðskuldar slíka meðferð?

Ef fyrirspurn Vigdísar kæmi frá leikmanni væri hún hlægileg. En Vigdís er ekki leikmaður heldur ráðherraefni Framsóknarflokksins. Fólk, sem í örvæntingu reynir að flýja margra ára bið eftir afgreiðslu, vill ráðherraefnið beita sömu meðferð og víða er notuð til að fylgjast með dæmdum barnaníðingum. Nær væri alþingismönnum að hvetja innanríkisráðherra til að afleggja misnotkun á Dyflinnarákvæði flóttamannasamningins, veita fleiri flóttamönnum hæli og bjóða þeim sem vilja komast til annarra landa aðstoð til að koma hælisumsóknum á framfæri við þarlend yfirvöld.

Sá heimóttarháttur og fordómar sem afhjúpast í fyrirspurn Vigdísar á sér fáar hliðstæður meðal vestrænna stjórnmálamanna. Helst eru viðhorf hennar sambærileg við afstöðu forhertustu Færeyinga til samkynhneigðra. Sömu viðhorf einkenna Sverigedemokraterna, Dansk folkeparti og British National Party; flokka sem sækja fylgi sitt til nýnasistahreyfinga.

Félag áhugafólks um málefni flóttamanna hvetur Vigdísi Hauksdóttur til að endurskoða afstöðu sína og lýsir hryggð sinni yfir því að á alþingi Íslendinga þrífist meiri áhyggjur af meintri glæpahneigð hælisleitenda en þeim aðstæðum sem stökkva fólki á flótta frá fjölskyldu sinni og föðurlandi.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 27.2.2013 - 11:42 - FB ummæli ()

Góð þjónusta hjá DV

Það hefur marga kosti að halda úti bloggi. Maður mótar sína eigin ritstjórnarstefnu, skrifar um það sem manni bara sýnist og þarf ekki að hafa áhyggjur af orðafjölda. En stundum skiptir máli að ná til stærri lesendahóps en fastagesta á blogginu og þá getur verið hentugt að biðja blöðin að birta grein. Oftast gera þau það en maður getur þó ekki vænst þess að aðsendar greinar séu settar í forgang. 

Þegar þessi dæmalausa fyrirspurn  kom fram á alþingi, fannst félagi áhugafólks um málefni flóttamanna rétt að bregðast við. Ég tók að mér að skrifa stutta grein fyrir félagið og bað um að fá hana birta í Fréttablaðinu (af því að það er víðlesið). Því var vel tekið. Síðast þegar ég bað þennan sama miðil að birta grein fyrir mig liðu fimm vikur frá því að ég sendi hana inn og þar til hún var birt. Það var í kringum stjórnlagaráðskosningarnar og óvenju margir sem vildu koma skrifum sínum að. Þetta hefur því líkast til verið einstakt. Ég átti von á að þetta svar til Vigdísar yrði birt strax enda vakti fyrirspurnin töluverð viðbrögð en í gær voru liðnir 8 dagar frá því að ég sendi hana inn og málið náttúrulega löngu dottið úr umræðunni. 

Mér eru málefni flóttamanna hugleikin og finnst nauðsynlegt að svara Vigdísi þótt seint sé en Fréttablaðið gat ekki gefið mér upplýsingar um það hvaða dag greinin yrði birt. Í gær afþakkaði ég því birtinguna og ákvað að leita til annars dagblaðs. Ég hafði samband við DV og þar á bæ brugðust menn skjótt við; greinin birtist strax í dag í umræðuhluta blaðsins á bls. 14.

Ég reikna með að þetta sé einstakt. Auðvitað hlýtur DV oftast að þurfa lengri tíma til að púsla blaðinu saman en þetta var allavega mjög jákvæð reynsla fyrir mig svo takk DV, ég mun snúa mér til ykkar næst þegar mér finnst nauðsynlegt að skrif mín birtist í prentmiðli.

 

 

Flokkar: Fjölmiðlar
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 26.2.2013 - 12:16 - FB ummæli ()

Þarf ríkissaksóknari að sæta ábyrgð?

Árlega fær lögreglan 175 hleranaheimildir. Það merkir ný hlerunarheimild næstum því annan hvern dag. Heimildir hafa gilt í allt að 110 daga. Hversu lengi ætli hleranaheimildir gildi að meðaltali? Hversu margir hlerunardagar eru þetta samanlagt?

Ekkert eftirlit

Enn veit almenningur ekkert hvort eftirlit með hlerunum er yfirhöfuð viðhaft. Ríkissaksóknari getur engu svarað og vísar á einhverja aðra en nú er allavega staðfest að þeir sem sæta hlerunum geta ekki reiknað með að vera látnir vita af því síðar. Lögreglunni tekst sko ekki að hafa uppi á þeim! Halda yfirvöld að almennir borgarar séu kjagandi bjánakeppir? Viljiði plís bjóða upp á aðeins metnaðarfyllri afsökun næst.

Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á ríkissaksóknara. Kannaði innanríkisráðherra hvernig staðið er að eftirliti með hlerunum áður en hann hóf að boða fagnaðarerindi sitt um forvirkar rannsóknarheimilidir? Hafi hann gert það þá hefur hann þagað yfir niðurstöðunni. Það var Bjarni Ben sem sá til þess að draga þetta hneyksli upp á yfirborðið. Maður hefði kannski frekar búist við því að meintir vinstri menn létu sig þessi mál varða.

Vald án ábyrgðar

Á sumum stöðum í Ísrael er herinn með bunka af undirrituðum tálmunarheimildum í bílunum. Þegar hermönnum dettur í hug að loka einhverju svæði, þarf ekkert að hafa samband við yfirmenn, heldur má draga fram dagsetningarstimpil og reka svo bréfið upp í nefið á þeim sem vill komast leiðar sinnar. Þetta mætti kalla forvirkar tálmunarheimilidir.

Þetta fyrirkomulag er viðhaft vegna þess að yfirmenn treysta sínu fólki til að taka ákvarðanir um tálmanir og þetta sparar tíma og umstang. Þetta hljómar kannski ekki eins og mikil breyting því lokunarheimild fæst oftast hvort sem er. Málið er að þegar búið að flytja valdið frá þeim sem ber ábyrgðina og yfir til einhvers sem aldrei mun þurfa að sæta ábyrgð, eru lítil takmörk fyrir því á hversu heimskulegum forsendum mönnum dettur í hug að loka vegum. Menn hika við að hringja í yfirmann og segja „hér er  maður sem fer í taugarnar á mér og mig langar að bögga hann. Geturðu útbúið heimilid til að loka veginum og sent bíl til mín með hana í hvelli?“ Það er hinsvegar auðvelt að stimpla blað og skálda svo upp skýringu eftir á ef þess gerist þörf.

Hver mun bera ábyrgð á forvirkum njósnaheimildum?

Munu forvirkar rannsóknarheimilidir virka á sama hátt? Verður valdið fært frá þeim sem ber ábyrgð til einhvers sem þarf ekki að óttast afleiðingar gjörða sinna?

Rök Ögmundar fyrir því að ekki þurfi að óttast misnotkun á forvirkum njósnaheimildum eru þau að eftirlit muni koma í veg fyrir það. En væri ekki rétt að koma fyrst á eftirliti með þeim heimildum sem þegar eru til staðar?

Ríkissaksóknari veit bara ekkert í sinn haus. Hvað ætlar innanríkisráðuneytið að gera í því? Verður ríkissaksóknari látinn sæta ábyrgð? Ég ætla rétt að vona að íslenskir blaðamenn krefji innanríkisráðherra svara við þeirri spurningu. Ég vona jafnframt að þeir hafi rænu á því að spyrja hvar ábyrgðin muni liggja þegar  forvirkar njósnaheimildir verði misnotaðar og hvernig nákvæmlega menn verði látnir axla þá ábyrgð.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lög og réttur · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Sunnudagur 24.2.2013 - 03:00 - FB ummæli ()

Örlög kvenna, val karla

Ég á vin sem langaði að verða kvikmyndagerðarmaður. Þegar hann var ungur var kvikmyndagerð ekki kennd á Íslandi. Hann átti lítil börn en enga peninga og var ekki áhættusækinn. Hann vissi að líkurnar á því að hann slægi í gegn voru takmarkaðar og komst að þeirri niðurstöðu að það þjónaði hagsmunum fjölskyldunnar betur að hann veldi sér annan starfsferil. Kannski hefði hann reynt að hasla sér völl á sviði kvikmyndagerðar ef hann hefði átt sæg vina í kvikmyndabransanum en hann tilheyrði engri klíku.

Hann hefur ennþá brennandi áhuga á kvikmyndum. Hann hefur gert nokkrar stuttmyndir fyrir vini og vandamenn en verk hans eru ekki sýnd í kvikmyndahúsum. Hann hefur aldrei reynt að finna sökudólg, hann mat það sjálfur svo að gallarnir vægju þyngra en kostirnir.

Sennilega eru hundruð karla í svipaðri stöðu. Ég hef þó ekki heyrt neinn tala um að kvikmyndaklíkan eða hið opinbera eigi að bregðast við fjarveru skynsamra karla frá kvikmyndaheiminum.

Ábyrgð karla

Þegar karlmaður gefur draum um starf í kvikmyndabransanum upp á bátinn er það val. Þegar kona gerir það sama á það sér dramatískari skýringar. Hvað á þetta að þýða? er spurt en hnussinu er ekki beint að vali kvenna heldur að karlaklíkunni sem hafnar konum.

Kvikmyndasjóður mismunar ekki konum, umsóknarhlutfall kvenna er hinsvegar lágt. Í Kvikmyndaskólanum eru fáar konur í framleiðslu- og leikstjórnarnámi. Áhuginn virðist því minni meðal kvenna. Umræðan einkennist þó af því viðhorfi að karlar séu ábyrgir fyrir dræmri aðsókn kvenna að kvikmyndaheiminum. Iðnaðurinn hafi bundist samtökum gegn konum. Fáar stúlkur velja námskeið í kvikmyndagerð og þar með búum við í hræðilegri drengjaveröld.  Við afhendingu Edduverðlaunanna mótmæla konur ekki áhugaleysi kvenna heldur ofríki karla.

Kannski er langsótt að ásaka karla þegar konur sækja ekki um styrki en það er allavega hægt að skamma þá fyrir að skapa ekki störf fyrir konur. Anna Theódóra bendir á að fáir handritshöfunda síðustu 10 ára séu konur. Að vísu eru 5 þeirra 11 mynda sem byggja á skáldsögum gerðar eftir bókum kvenna. Þau handrit eru yfirleitt unnin af höfundum bókanna í samstarfi við aðra. Um 30% útgefinna skáldsagna eru eftir konur svo ekki hallar á konur þar sem skáldverk eru grunnur að kvikmyndahandriti.

Þegar ekki er byggt á bók er sjaldan sótt til kvenna. Skýringin hlýtur að vera sú að konur sem vilja skrifa kvikmyndahandrit séu sniðgengnar vegna karlrembu framleiðenda. Má þá vel líta fram hjá því að konur eru minna en hálfdrættingar á við karla í flestum tegundum skrifa og hlutfall kvenna í handritagerð og leikstjórn í Kvikmyndaskólanum bendir til takmarkaðs áhuga kvenna á handritagerð.

Anna Theódóra bendir á að konur séu körlum líklegri til að ráða konur til starfa. Er þá lausnin sú að fleiri konur gefi sig í kvikmyndframleiðslu? Sú uppástunga fær dræmar undirtektir. Kannski er auðveldara að lesa körlum pistilinn en að fjármagna kvikmynd?

Gefa, veita, styðja, hvetja, breyta

Ég hef spurt hvernig eigi að rétta kynjahallann ef ekki með frumkvæði frá konum. Svörin eru á þá leið að þar sem konur treysti sér ekki í samkeppnina í því karlveldi sem kvikmyndaheimurinn er þurfi að gefa þeim tækifæri, opna þeim leiðir, veita þeim stuðning, hvetja þær sérstaklega. Á facebook kom fram hugleiðing um hvort kvikmyndakarlar, sem geta unnið við erfiðar aðstæður, séu tilbúnir til að breyta störfunum til að hleypa fleirum að, bæði konum og körlum.

Jafnvel þeir sem eru vel tengdir þurfa að berjast og betla, sanna sig og selja til að fá styrki til kvikmyndagerðar. Ólíklegt finnst mér að þeir sem búnir eru að hasla sér völl með sleitulausu streði, fara á hausinn og standa upp aftur, séu til í að breyta starfsumhverfi sínu til þess eins að hleypa keppinautum að. Ef marka má málflutning þeirra sem kvarta undan karlveldinu í kvikmyndaheiminum þurfa konur ekki bara styrki til láta drauma sína rætast, þær þurfa líka sérstaka hvatningu til þess að bera sig eftir björginni. Það hljóta að vera sannkallaðir draumakeppinautar hvers kapítalista. Skiljið þið hvað ég á við?

Hvað er til ráða?

Kvikmyndaframleiðendur gera myndir um karla og velja sjaldan konur til handritsgerðar. Það er bara staðreynd. Þegar ég spyr hvort eigi að rétta það með því að setja listamönnum reglur um efnistök og val á samstarfsfólki, kannast enginn við að telja það tæka lausn. Hver á þá að gefa konum tækifæri?

Ein lausnin er sú að fleiri konur fari út í kvikmyndagerð. En hver ætlar að sannfæra varkárar konur um að það sé eitthvert vit í því þegar búið er að meta fyrirhöfnina, álagið og hættuna á gjaldþroti og höfnun?

Sjálfsagt mætti laða konur og óbrjálaða karla að kvikmyndagerð með mannúðlegra vinnulagi. Vinna frá 9-5, aðeins í heimabyggð og gefa frí vegna foreldrafunda. Það hefði hentað vini mínum á meðan börnin hans voru lítil. En ef það er lausnin, getur þá verið að vandamálið sé fremur kapítalismi en karlremba? Eða er þetta tvennt óaðgreinanlegt? Mér sýnist það stundum.

Af hverju gera þeir ekki myndir um konur?

Ég skil að karlmenn hneigist til að ráða sína líka til starfa. Mér finnst dularfyllra hversvegna þeir gera ekki myndir um konur. Karlar skrifa um konur. Myndlistamenn nota konur sem myndefni. Af hverju gera karlar ekki alveg eins kvikmyndir um konur?

Ég spurði þennan áhugasama vin minn sem enn í dag ver nánast öllum sínum frítíma í að horfa á kvikmyndir, greina þær og ræða. Svar hans var þetta:

Til eru margar frábærar kvikmyndir um konur. Myndir sem kvikmyndanördar meta mikils en ná sjaldan vinsældum. Konur sýna lítinn áhuga á kvikmyndum og taka ekki þátt í umræðum um þær. Ef þú skoðar imdb.com sérðu að m.a.s. kvennamyndir fá fleiri einkunnagjafir frá körlum en konum. Ef staðan er eins á Íslandi og annarsstaðar; að myndir um konur seljist ekki og konur sýni ekki áhuga á kvikmyndum, af hverju ættu framleiðendur þá að taka slíka áhættu?

Er það kannski málið? Þurfum við konur að taka einhverja ábyrgð sjálfar? Ég játa; ég þekki ekki kvikmyndir Kenji MizoguchiMax OphülsCarls Theodor Dreyer, Pedro Almodóvar, Sofiu Coppola eða Michaels Haneke. „Réttupphend“ sem þekkir þessa leikstjóra.

Vel má vera að íslenska kvikmyndalíkan sé gegnsýrð af kvenfyrirlitningu og fullkomlega áhugalaus um sögur kvenna og sjónarhorn. En hér er listi sem gefur smá vísbendingu um það hvað áhorfendur vilja. Er hugsanlegt að kröfur markaðarins spili eitthvað inn í efnisval? Ættum við kannski að sýna myndum um líf kvenna áhuga áður en við fussum yfir því að íslenskir kvikmyndaframleiðendur vanræki konur?

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Menning og listir
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 20.2.2013 - 21:32 - FB ummæli ()

Staðgöngumæðrun, heilaspuni og rannsóknir

Þann 30. 01.2012 birti ég pistil sem ég finn mig knúna til að endurbirta í tilefni frétta af nýjustu árás dólgafeminista á kvenfrelsi.

 

Staðgöngumæðrun, heilaspuni og rannsóknir

 

Enda þótt konur lifi að jafnaði lengur en karlar, lendi síður í slysum og séu líklegri til að leita aðstoðar ef þær lenda í aðstæðum sem þær ráða ekki við, álíta margir, bæði karlar og konur, að okkur konum sé alls ekki treystandi til að taka ákvarðanir sem varða líf okkar og líkama.

Nýlega samþykkti Alþingi þingsályktun um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun. Mér finnst út af fyrir sig merkileg hugmynd að það þurfi sérstök lög sem leyfa konum að ganga með börn fyrir aðra, ég hefði haldið að við réðum því bara án sérstakrar blessunar yfirvaldsins. Ég fellst þó á að þar sem reynsla annarra þjóða sýnir að það hvernig staðið er að staðgöngumæðrun ræður úrslitum um ánægju allra aðila, sé svosem ágætt að marka einhverja stefnu um það hvernig best sé að gera hlutina.

 

Rökin gegn staðgöngumæðrun

Sumir þeirra sem berjast gegn staðgöngumæðrun, telja sig ekki þurfa nein rök önnur en sína eigin sannleikni. Þetta er fólk, sem í fullvissu um að það sé siðferðilega yfir aðra hafið,  teflir fram rökleysum sem eiga að þagga niður í andmælandanum með því að sýna fram á lélegt siðferði hans og/eða skilningsleysi á hugtökum sem tengjast siðferði.

 

Mannréttindarökvillan

Eitt dæmi um sannleiknirök er mannréttindavillan. Málið er þá tengt við mannréttindi í því skyni að annaðhvort ýkja mikilvægi þess eða sýna fram á að krafan eigi ekki rétt á sér. Þegar staðgöngumæðrun er til umræðu birtist þessi villa iðulega í eftirfarandi staðhæfingu:

Það eru ekki mannréttindi að fjölga sér. Fólk sem getur ekki eignast börn, getur bara ættleitt.

Jájá, það er alveg hreint laukrétt að það eru ekki mannréttindi að fjölga sér. Það er hinsvegar út í hött að ekkert eigi rétt á sér nema það sem fellur undir mannréttindahugtakið. Ef út í það er farið er æxlun heldur ekki mannréttindi þeirra sem geta eignast börn hjálparlaust. Samt dettur fáum í hug að banna fólki að eignast sín eigin börn á meðan enn eru börn í veröldinni sem vantar heimili. Þetta eru því ekki tæk rök gegn frelsi annarra til að eignast börn með hjálp konu sem er að sönnu reiðubúin til að veita þá hjálp.

Hlutgervingarrökvillan

Önnur sannleiknirök sem maður sér oft í þessari umræðu er hlutgervingarvillan. Þjónustuhlutverk er þá tengt lítilsvirðingu, í því skyni að telja viðmælandanum trú um að það sé misneyting að þiggja ákveðnar tegundir þjónustu, einkum þar sem kynferði skiptir máli. Dæmi um þetta er frekar þreytt stef af umræðuþráðum netmiðlanna;

– Það er siðferðilega rangt að nota konu sem útungunarvél og hýsil fyrir barn annarra.

Sjálfri finnst mér frekar dapurlegt að sjá barnfyrirlitninguna sem opinberast í því að tala um móðurlíf sem hýsil, rétt eins og fóstrið sé einhver óværa. Ég kýs að tala um að staðgöngumæður fóstri ófædd börn annarra, enda líta þær svo á sjálfar sem og foreldrarnir sem ætla svo að sinna uppeldishlutverkinu. Hlutgervingin hér er ekki af hálfu þeirra sem vilja fóstra ófædd börn eða fá aðra konu til að fóstra barn fyrir sig, heldur af hálfu þeirra sem tala um þær konur sem hýsla eða útungunarvélar.

Flestir tefla þó fram vitrænni ummælum í bland við þessi frekjurök. Sumir óttast að staðgöngumæðrun opni leið fyrir barnasölu. Margir að með einkavæðingu kvenlíkamans, þ.e. með því að taka yfirráðarétt hans úr höndum yfirvalda og færa hann til þeirra sem búa í hverjum líkama fyrir sig, aukist hættan á því að við, hinar fávísu og undirokuðu konur, förum okkur að voða og að aðrir þvingi okkur og misnoti.

 

Andstæðingar staðgöngumæðrunar halda m.a. á lofti eftirfarandi staðhæfingum:

  • Engin kona gengur með barn og lætur það frá sér ótilneydd.
  • Þær konur sem segjast gera þetta af fúsum og frjálsum vilja eru raunverulega að þessu vegna fjárhagslegrar neyðar og/eða utanaðkomandi þrýstings.
  • Staðgöngumóðirin er alltaf í veikari félagsstöðu en þeir sem þiggja þjónustu hennar og þar með getur hún ekki sagt nei.
  • Fólk mun nýta sér erfiða stöðu innflytjendakvenna frá fátækum ríkjum og láta þær ganga með börn fyrir sig.
  • Iðulega koma upp deilur vegna þess að staðgöngumóðirin tengist barninu tilfinningalega og vill ekki láta það frá sér.
  • Ef barnið reynist fatlað eða veikt, er hætta á að foreldrarnir vilji það ekki og staðgöngumóðirin sitji uppi með það.
  • Staðgöngumæður glíma við langvarandi sorg og þunglyndi eftir að hafa verið neyddar til að láta frá sér barn. Sumar jafna sig aldrei.
  • Það er ekki hægt að kalla það upplýst samþykki þegar kona ákveður að ganga með barn fyrir annað fólk, af því að hormónastarfsemin breytist á meðgöngunni og konan getur því ekki sagt um það fyrirfram hvort hún mun bindast barninu tilfinningaböndum.

Ég hef ekki heyrt það í umræðunni á Íslandi en í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur eftirfarandi líka verið haldið fram:

  • Konur sem geta hugsað sér að ganga með börn og láta þau frá sér eru kaldlyndar og varasamt að treysta því að þær standi við gerða samninga.
  • Þar sem tilgangur staðgöngumóðurinnar er sá að græða peninga, er hætta á að henni sé skítsama um fóstrið og að hegðun hennar á meðgöngutímanum sé til þess fallin að skaða það.
  • Möguleikinn á því að fá aðra konu til að sjá um meðgöngu og fæðingu, verður til þess að yfirstéttarkonur munu nýta sér þjónustu lágstéttarkvenna enda þótt þær séu færar um að eignast börn sjálfar, rétt eins og þær kaupa af þeim heimilisþrif og fótsnyrtingu.

Indlandstengingin

Ég get alveg skilið þessar áhyggjur. Sumt af því sem andstæðingar staðgöngumæðrunar óttast, á við í mjög fátækum ríkjum. Löndum eins og Indlandi, þar sem kvennakúgun er mikil og barnasala og þrælahald viðgengst án teljandi afskipta yfirvalda. Enda þótt þingsályktunartillagan snúi aðeins að staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni, telja sumir að þar með sé verið að búa til umhverfi sem leggur blessun sína yfir viðskipti með konur og börn. Þannig að já, ég skil það.


  

Önnur myndin sýnir ástættanlegt kvennastarf, hin nokkurskonar ánauð

Það sem ég skil ekki er að fólk sem hefur áhyggjur af þessu, skuli ekki skoða þau gögn sem til eru og draga ályktun út frá þeim. Ég skil heldur ekki vinsældir þessarar Indlandstengingar. Engum heilvita manni dettur í hug að bera Ísland saman við Indland, þegar taka á afstöðu til ættleiðinga. Á Indlandi tíðkast barnasala, það merkir ekki að ættleiðingar á Íslandi hafi leitt til slíkra viðskipta. Indland er heldur ekki það land sem við lítum til þegar við ræðum líffæragjöf því jafnvel þótt líffærasala blómstri á Indlandi, fer engum sögum af því að hún tíðkist á Norðurlöndum.

Það sama má segja um staðgöngumæðrun. Indland er hreinlega ekki sambærilegt við Ísland. Ekkert af því sem hefur verið nefnt sem rök gegn staðgöngumæðrun, kemur heim og saman við neina þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á staðgöngumæðrun í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem er nú öllu nærtækara að bera okkur saman við.


En hvað segja gögnin?

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér rannsóknir á staðgöngumæðrun á Vesturlöndum, geta sparað sér mikinn tíma með því að lesa ritgerð Karen Busby og Denaley Vun; ”Revisiting The Handmaid’s Tale: Feminist Theory Meets Empirical Research on Surrogate Mothers.” Þetta er úttekt á 37 rannsóknum á staðgöngumæðrum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada sem unnar hafa verið á síðustu fjórum áratugum.

Ég er nú búin að lesa þessa ritgerð vandlega. Ég átti von á því að hugmyndir andstæðinga staðgöngumæðrunar um kúgun og hörmungar væru stórlega ýktar. Ég reiknaði fastlega með því að sumar “rannsóknir” kynjafræðinga á staðgöngumæðrun væru vafasöm vísindi. Ég átti þó ekki von á því að nánast allt sem andstæðingar staðgöngumæðrunar hafa haldið fram, væri hreinn og klár heilaspuni. Svo er þó helst að sjá því helstu niðurstöður eru þessar:

Staðgöngumæðrun er ekki þrælahald:

  • Engar vísbendingar hafa fundist um að staðgöngumæður séu þvingaðar til meðgöngu, hvorki beint né óbeint. Flestar þeirra taka það upp hjá sjálfum sér að bjóða sig fram.
  • Ekkert bendir til þess að þriðjaheimskonur séu gerðar út til meðgöngu fyrir aðra.
  • Sjaldgæft er að staðgöngumæður séu í slæmri félagslegri aðstöðu, flestar þeirra eru um þrítugt, hvítar, kristnar, giftar eða í sambúð, eiga börn fyrir og hafa þokkalegar tekjur. Í Bretlandi er lítil menntun staðgöngumæðra algeng en í Bandaríkjunum hafa flestar staðgöngumæður þokkalega menntun. Flestar umboðsskrifstofur ráða ekki konur í slæmri félagslegri stöðu og setja það sem skilyrði að konan hafi fætt barn áður.
  • Flestar staðgöngumæður eru yngri, hafa minni menntun og lægri tekjur en foreldrarnir sem kaupa þjónustu þeirra en fá eða nokkur dæmi eru um að þessi munur á félagsstöðu hafi valdið vandræðum.
  • Engin dæmi hafa fundist um að konur sem geta átt börn sjálfar, nýti sér þjónustu staðgöngumæðra.

Staðgöngumæður eru einfærar um að taka ákvörðun

  • Mjög lágt hlutfall staðgöngumæðra sér eftir ákvörðuninni.  Ef konur sjá eftir því að hafa gerst staðgöngumæður, gefa þær skýringar á borð við að þær hafi gengið í gegnum erfiða meðgöngu eða fæðingu eða átt slæm samskipti við foreldrana, en mjög sjaldan þá að aðskilnaðurinn við barnið sé svo erfiður.
  • Margar konur ganga með börn fyrir aðra oftar en einu sinni.

Deilur um rétt til barnsins og ábyrgð á því eru sjaldgæfar

  • Mjög sjaldgæft er að staðgöngumóðir sé treg til að láta barn frá sér.
  • Dæmi eru um að alvarlegir sjúkdómar foreldra (ekki barnsins) og önnur ófyrirséð áföll verði til þess að foreldrar fái bakþanka en það er sjaldgæft. Engin dæmi fundust um að foreldrar höfnuðu barninu af því að það væri “gallað”.
  • Sjaldgæft er að deilur eða óánægja komi upp milli staðgöngumæðra og foreldra. Í þeim fáu tilvikum sem það gerist er skýringin langoftast sú að hlutirnir voru ekki ræddir nógu vel í upphafi og síðar kom í ljós að væntingar fólksins fóru ekki saman.
  • Langoftast eru samskipti staðgöngumæðra og foreldranna góð og allir aðilar ánægðir með samstarfið, einkum þegar milligönguaðilar hvetja til mikilla og  hreinskilnislegra samskipta.

Staðgöngumæður eru ekki gallaðir karakterar

  • Peningaþóknun er aldrei eina ástæðan og mjög sjaldan meginástæðan fyrir því að konur gerast staðgöngumæður. Flestar þeirra fara út í þetta af sömu ástæðu og fólk fer í hjúkrun eða hjálparstarf; þær líta svo á að þær séu að sinna mikilvægri samfélagsþjónustu sem gefi þeim gildi sem manneskjum. Sumar njóta þess að vera óléttar en hafa ekki áhuga á að ala upp fleiri börn.
  • Ekkert bendir til þess að staðgöngumæður séu skeytingarlausar um heilbrigt líferni á meðgöngunni.
  • Staðgöngumæður eru hvorki kaldlyndar né undirgefnar en þær eiga ýmis önnur persónueinkenni sameiginleg. Þær eru að jafnaði greindari, sjálfstæðari og  frjálslyndari en meðalkonan. Þær vita hvað þær eru að gera og tengjast fóstrinu ekki samskonar tilfinningaböndum og þeim börnum sem þær hafa eignast með því markmiði að ala þau upp sjálfar.


Skoðið þetta sjálf

Ég hvet þá sem óttast að lög um staðgöngumæðrun hafi í för með sér kvennakúgun og kynþáttamismunun til að lesa ritgerðina.

Og fyrir alla muni hafið í huga að “rannsóknir” sem gerðar eru í nafni feminisma, fara þannig fram að fyrst er sett fram tilgáta sem byggir á þeirri hugmynd að konur séu alltaf í veikri stöðu, ófærar um að taka eigin ákvarðanir og í stöðugri hættu á að vera undirokaðar, kvaldar og seldar, og svo eru einstaklingar og tilvik sem styðja tilgátuna handvalin og alhæft út frá þeim. Þessháttar vinnubrögð heita kynjafræði en ekki vísindi.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 20.2.2013 - 13:43 - FB ummæli ()

Trúnaðarmál

Ég játa. Mér varð það á að hlæja þegar ég sá þetta.

En þetta er ekki fyndið og glottið breyttist í grettu þegar ég hugsaði um það hverskonar upplýsingar þeir sem ekki kunna á facebook gætu óvart sett á opinn vegg. Ég get hlegið að þessu af því að þarna kom ekkert fram sem hefði rústað lífi neins þótt það færi á flakk en þetta hefði getað verið viðkvæmt einkamál. Upplýsingar sem snerta börn eða aðra sem eru sérlega viðkvæmir. Hjónarifrildi. Erótískir órar. Dánartilkynning.

Internetið er frábært en kunnáttuleysi getur verið stórhættulegt. Þessvegna ætti maður aldrei að segja neitt á netinu sem maður ætlar ekki að segja mömmu sinni, löggunni og skattinum og allra síst ef maður vill ekki að fólk fái fréttirnar í gegnum facebook eða aðra fjölmiðla.

Við getum brosað að þeim sem skilja ekki muninn á einkaskilaboðum og opnum vegg á facebook. Við sem þykjumst kunna á tölvupóst og samskiptamiðla teljum að það hljóti að vera óhætt að ræða trúnaðarmál í einkapósti. Og það ætti líka að vera það. Staðreyndin er þó sú að maður getur aldrei verið fullkomlega viss um að það sem maður gerir á netinu komi ekki fyrir augu annarra en maður ætlast til, sama hversu vel maður treystir viðtakandanum. Þess eru nefnilega dæmi að sjálft yfirvaldið brjótist inn í einkapóst.

Það getur verið neyðarlegt, jafnvel hræðilegt að verða það á að birta trúnaðarmál á opnum vegg. Ennþá hræðilegra þætti mér þó að komast að því að einhver hefði lesið allan minn tölvupóst og einkaskilaboð, skoðað myndirnar mínar og önnur skjöl; ekki af því að ég sjálf hefði farið óvarlega eða ekki vitað hvað ég var að gera, heldur af því að einhver stofnun hefði fengið formlegt leyfi til þess, í nafni almannaöryggis, að rannsaka einkalíf mitt. Við getum tekið ábyrgð á okkar eigin mistökum, hlegið að þeim eða nagað okkur í handabökin, lært af þeim eða stútað okkur. En við getum ekki tryggt okkur gegn njósnum yfirvalda. Ef við viljum vera viss um að trúnaðarmál komi ekki fyrir annarra sjónir en til er ætlast, er eina örugga leiðin sú að hvísla þeim í eyra viðtakandans.

Nú er árið 2013. Við erum ekkert að fara að boða til leynifundar í hvert sinn sem við viljum að eitthvað fari leynt. Við munum, gegn betri vitund, halda áfram að ræða trúnaðarmál í gegnum internetið. Við munum líka um ókomna tíð búa við hættuna á því að það sem við gerum á internetinu sé yfirvöldum sýnilegt. Þessvegna er pírataframboðið nauðsynlegt.

Ég er ekki búin að gera upp við mig hvort ég muni styðja Pírata eða Dögun. Þetta væri ekki vandamál ef einstaklingskjör væri í boði en það hentar víst ekki hagsmunum fjórflokksins svo við sem viljum bæði Dögun og Pírata á þing, neyðumst til að velja á milli. Mér finnst grátlegt að þessir hópar skuli ekki ætla að vinna saman og er enn ekki búin að átta mig á því hvaða málefnaágreiningur stendur í vegi fyrir því. Ég á þó ekki von á því að það sé trúnaðarmál svo getur einhver upplýst mig um það hvaða viðhorf það eru hjá þessum tveimur hópum sem eiga ekki samleið?

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics