„Niðurskurður er óumflýjanlegur, hann mun nema a.m.k. 20% af kostnaði opinberrar þjónustu, hann skal ekki vera flatur. “
Nokkurn veginn svona dreg ég saman málflutning stjórnvalda um staðreyndir þær sem blasa við í opinberum rekstri. Þegar spurt er um stefnuna í rekstrinum, hvort sem er á samdráttarskeiðinu sjálfu eða að því loknu, hafa svörin oftast verið á þá leið, að vernda skuli velferðarþjónustu og leitast við að skerða þjónustu sem minnst þrátt fyrir samdrátt í kostnaði. Nýlega lét nýr heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðherra, Guðbjartur Hannesson, þó hafa eftir sér viðhorf sem ég tel vera raunsætt; að ekki sé raunhæft að halda úti fullri þjónustu sem ekki eru efni til að greiða fyrir.
Verði raunin sú að minnka verði eða hætta þjónustu hins opinbera á tilteknum sviðum, hver á þá að taka ákvarðanir um slíkt?
Í gær var haldinn morgunverðarfundur og málþing á vegum Fjármálaráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Capacent og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ undir yfirskriftinni „Niðurskurður og árangursríkar aðferðir í sparanaði í opinberum rekstri“.
Meðal annars var þar kynnt könnun sem Capacent gerði meðal forstöðumanna í þessum mánuði. Í henni kom fram að meirihluti svarenda taldi að sparnaðarkrafa yfirstandandi árs myndi nást, en að minni bjartsýni ríkti um niðurskurð næsta árs. Ég skil það sem svo að mat forstöðumanna að ekki verði hægt að skera meira niður (sem var svar 35,5% svarenda) þýði í raun að slíkt kalli á breytt umfang þjónustu.
Niðurskurður yfirstandandi árs virðist samkvæmt svörum forstöðumanna hafa verið að mestu leyti (um 70%) útfærður með „lítilli eða engri aðkomu fagráðuneyta“ og „leiðarljós aðhaldsaðgerða“ sem fjármálaráðherra gaf út sumarið 2009 höfðu þar í helmingi tilfella „lítil eða engin“ áhrif. Reyndar gefa svör forstöðumanna til kynna að hingað til hafi þeim tekist bærilega að halda óbreyttri þjónustu, bæði hvað varðar umfang og gæði.
Sá árangur hefur náðst meðal annars með eftirfarandi aðgerðum:
86,6% stofnana hafa dregið úr endurmenntun og ferðum á ráðstefnur.
62,7% hafa lækkað eða fryst laun starfsfólks.
60% hafa fækkað starfsfólki.
Þessar aðferðir geta eflaust viðgengist til skamms tíma, en hvað verður um gæði þjónustu til lengri tíma þegar starfsfólk fær ekki endurmenntun, ekki er ráðið í stöður sem losna og launakjör rýrna stöðugt?
Almennt var augljóst á erindum þeim sem flutt voru á morgunverðarfundinum og málþinginu í gær að jafnt forstöðumenn og starfsmenn stofnana hafa unnið ötullega að því að draga úr kostnaði hjá stofnunum ríkisins. Þetta vita líka allir sem annað hvort veita eða nýta þjónustu hins opinbera, án þess að þurfa að hlýða á erindi um ólíkar útfærslur milli stofnana.
En hvað með 2011? Þá virðist komið að þeim punkti þar sem taka þarf ákvarðanir um hverju skal haldið og hverju sleppt.
Má taka slíkar ákvarðanir með lítilli sem engri aðkomu stjórnvalda og fagráðuneyta?
Er boðlegt að varpa slíkri ábyrgð yfir á forstöðumenn einstakra stofnana?