Fimmtudagur 16.9.2010 - 13:59 - Lokað fyrir ummæli

Niðurskurður – og hvað svo?

„Niðurskurður er óumflýjanlegur, hann mun nema a.m.k. 20% af kostnaði opinberrar þjónustu, hann skal ekki vera flatur. “

Nokkurn veginn svona dreg ég saman málflutning stjórnvalda um staðreyndir þær sem blasa við í opinberum rekstri.  Þegar spurt er um stefnuna í rekstrinum, hvort sem er á samdráttarskeiðinu sjálfu eða að því loknu, hafa svörin oftast verið á þá leið, að vernda skuli velferðarþjónustu og leitast við að skerða þjónustu sem minnst þrátt fyrir samdrátt í kostnaði.  Nýlega lét nýr heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðherra, Guðbjartur Hannesson, þó hafa eftir sér viðhorf sem ég tel vera raunsætt; að ekki sé raunhæft að halda úti fullri þjónustu sem ekki eru efni til að greiða fyrir.

Verði raunin sú að minnka verði eða hætta þjónustu hins opinbera á tilteknum sviðum, hver á þá að taka ákvarðanir um slíkt? 

Í gær var haldinn morgunverðarfundur og málþing á vegum Fjármálaráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Capacent og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ undir yfirskriftinni „Niðurskurður og árangursríkar aðferðir í sparanaði í opinberum rekstri“.

Meðal annars var þar kynnt könnun sem Capacent gerði meðal forstöðumanna í þessum mánuði.  Í henni kom fram að meirihluti svarenda taldi að sparnaðarkrafa yfirstandandi árs myndi nást, en að minni bjartsýni ríkti um niðurskurð næsta árs.  Ég skil það sem svo að mat forstöðumanna að ekki verði hægt að skera meira niður (sem var svar 35,5% svarenda) þýði í raun að slíkt kalli á breytt umfang þjónustu.

Niðurskurður yfirstandandi árs virðist samkvæmt svörum forstöðumanna hafa verið að mestu leyti (um 70%) útfærður með „lítilli eða engri aðkomu fagráðuneyta“ og „leiðarljós aðhaldsaðgerða“ sem fjármálaráðherra gaf út sumarið 2009 höfðu þar í helmingi tilfella „lítil eða engin“ áhrif.   Reyndar gefa svör forstöðumanna til kynna að hingað til hafi þeim tekist bærilega að halda óbreyttri þjónustu, bæði hvað varðar umfang og gæði.

Sá árangur hefur náðst meðal annars með eftirfarandi aðgerðum:

86,6% stofnana hafa dregið úr endurmenntun og ferðum á ráðstefnur.

62,7% hafa lækkað eða fryst laun starfsfólks.

60% hafa fækkað starfsfólki.

Þessar aðferðir geta eflaust viðgengist til skamms tíma, en hvað verður um gæði þjónustu til lengri tíma þegar starfsfólk fær ekki endurmenntun, ekki er ráðið í stöður sem losna og launakjör rýrna stöðugt? 

Almennt var augljóst á erindum þeim sem flutt voru á morgunverðarfundinum og málþinginu í gær að jafnt forstöðumenn og starfsmenn stofnana hafa unnið ötullega að því að draga úr kostnaði hjá stofnunum ríkisins.  Þetta vita líka allir sem annað hvort veita eða nýta þjónustu hins opinbera, án þess að þurfa að hlýða á erindi um ólíkar útfærslur milli stofnana.

En hvað með 2011?  Þá virðist komið að þeim punkti þar sem taka þarf ákvarðanir um hverju skal haldið og hverju sleppt.

Má taka slíkar ákvarðanir með lítilli sem engri aðkomu stjórnvalda og fagráðuneyta? 

Er boðlegt að varpa slíkri ábyrgð yfir á forstöðumenn einstakra stofnana?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.9.2010 - 12:46 - Lokað fyrir ummæli

Til upprifjunar – hvar eru aðalatriðin?

Ja þetta þjóðfélag sem maður býr í og „umræðan“ sem kennd er við það!

Eftir að hafa umborið maaarga mánuði af hagfræði-jargoni þar sem fjölmiðlar matreiddu – að því er virðist ofan í almenning – alls kyns fróðleik um skuldatryggingarálag, punkta og lánalínur í stærðum sem flest okkar heyrðum varla nefndar á okkar skólagöngu (ég man að minnsta kosti ekki hvernig kubburinn var á litinn fyrir milljarð í „eining, tugur, hundrað“).  Umræðu sem öll var (og er enn) á þann veg – og er enn – að hver og einn veit best, sem er oft alveg öfugt við „bestið“ sem einhver annar veit.

Þá er okkur núna boðið upp á lagaflækjutal og -túlkun afturábak og áfram.  Hvaða ákvæði hvaða laga geti alls ekki staðist í nútímanum, hverjir hafi umboð til að dæma hvern, á kostnað hvers og hvenær.  Í mín eyru hljómar þetta svipað og þegar fótboltaáhugamenn deila um hvort dómarinn hafi verið hæfur, hafi dæmt rétt eða rangt og hvort mark eða vítaspyrna hafi átt að teljast með eða ekki með, sem oftast litast af því með hvoru liðinu maður heldur.  Og að mér læðist sá grunur að áhrif þessarar umræðu verði álíka mikil á gang mála og eftirá-skoðanir þeirra sem horfðu á fótboltann heiman úr stofu.

Ætlar einhver einhvers staðar að fara að koma sér að aðalatriðunum?

Eða kannski gera eitthvað í málunum?

Þessi umræða er eins og kapphlaup í sandi – frekar þreytandi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 12:25 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgð á risi lands

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bætti í morgun grein í ritröð sína um ástand þjóðarskútunnar og stefnu hennar í heimsins ólgusjó, undir fyrirsögninni „Landið tekur að rísa!“ (Fréttablaðið 25. ágúst 2010)

Það er ekki laust við að forystufólk Bandalags háskólamanna (BHM) taki til sín skilaboðin, sem birt eru í úrklippu á forsíðu blaðsins, þar sem fjallað er um mögulegt áframhald einhvers konar stöðugleikasáttmála: …“Ábyrgð þeirra sem skærust úr leik við núverandi aðstæður yrði mikil“.

Nú er BHM engan veginn svo sjálfhverft að halda að þessum orðum sé ekki beint til fleiri aðila og stærri, enda hefur bandalagið ekki sagt sig frá núverandi „sátt“, nokkuð sem bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa gert.

Hins vegar hefur BHM ítrekað ályktað og lýst því yfir að það geti ekki orðið aðili að framhaldi á stöðugleikasáttmála undir þeim kjaramálatengdu formerkjum sem þar gilda nú.

Besta vísbending um framtíðina er fortíðin 

Núverandi stöðugleikasáttmáli var markvisst og vísvitandi brotinn af hálfu ríkisstjórnarinnar sem stóð að gerð hans og undirritun.  Nú skal ég ekki tjá mig um skötusel eða aðrar sjávarskepnur fagrar eða ljótar, en hitt er alveg klárt, að ákvæði sáttmálans um réttindi launafólks til starfsendurhæfingar hafa verið þverbrotin.  Það brot hefur verið opinberlega viðurkennt og rökstutt af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar, meðal annars á fundi sem Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra átti með fulltrúum aðildarfélaga BHM.

Ýmis önnur fyrirheit sáttmálans, svo sem að forðast eftir mætti gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera, viðhalda atvinnustigi og annað minna áþreifanlegt hefur valdið vonbrigðum meðal þeirra hagsmunasamtaka sem undirrituðu hann.

Um hvað var þá sátt og hver  var stöðugleikinn?  Hvernig má treysta því að undirrituð sátt verði ekki rofin á ný?  Spyr sú sem ekki veit.

Ábyrgð gagnvart þjóðfélaginu

BHM hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum af kjörum háskólamenntaðra á vinnumarkaði, sinnuleysi um þeirra málefni og jöfnu og þéttu verðfalli menntunar þegar laun eru annars vegar.  BHM veit sem er að íslenskur vinnumarkaður þarf á háskólamenntuðu fólki að halda. 

Ungt vel menntað fólk er hreyfanlegt vinnuafl og kemur oft út á vinnumarkað skuldsett eftir námsárin og getur því ekki unað hvaða kjörum sem er.  Íslenskir háskólamenn eiga margir kost á störfum erlendis, sem veitir meðal annars tækifæri til tekjuöflunar í sterkari mynt en krónunni, nokkuð sem getur t.d. flýtt fyrir endurgreiðslu íslenskra námslána. 

Nýútskrifað háskólamenntað fólk í dag horfist sumt í augu við lægri laun eftir nám en fyrir og sú trú að menntun auki atvinnuöryggi á jafnframt undir högg að sækja.

Bandalagi háskólamanna ber að standa vörð um kjör félagsmanna sinna.  Í því felst meðal annars sú skylda að stuðla að því að menntun sé einhvers metin í atvinnulífinu og að það valdi ekki óbætanlegum búsifjum að afla sér þekkingar og færni.

Rétt er að taka fram BHM er ekki fulltrúi þess meinta vandræðafólks með háskólamenntun sem enn á rétt á hærri launum en Jóhanna Sigurðardóttir, svona til að fyrirbyggja þann misskilning að hér sé rætt um að viðhalda „ofurlaunum“. 

Launastefna stöðugleikasáttmála er með þeim hætti að BHM getur ekki staðið að framlengingu hennar.  Þess sjást nefnilega engin merki að betri tíð með blóm í haga taki við að loknum launaskerðingatíma stöðugleikasáttmálans.

Engin áætlun um endurheimt verðfellingar á menntun fæst rædd við viðsemjendur og því er ekki hægt að búast við að hlutur háskólamenntaðra launamanna verði réttur með virkum hætti fyrr þá helst ef skipt verður um gjaldmiðil.

Hvað fær landið til að rísa?

BHM metur það svo að betra sé að berjast fyrir hlut háskólamenntunar, sem nú um stundir er afar rýr, en að halda áfram með virkum hætti á braut þeirra skerðinga sem stöðugleikasáttmálinn hefur réttlætt.

Frekari aðild að stöðugleika sem keyptur er með auknum álögum á millitekjuhópa, launaskerðingum sama fólks og verðfellingu menntunar teljum við til lengri tíma íþyngja landinu frekar en hitt.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 24.8.2010 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Hinn árlegi haustpirringur skólaforeldris…

Á hverju hausti síðustu 6 ár þarf ég að anda djúpt og telja upp að tíu yfir hinu merkilega fyrirbæri sem eru innkaupalistar grunnskólabarna.  Þetta virðist einhvern veginn ekki venjast vel, heldur bara valda síauknum pirringi…

Hvers vegna í ósköpunum þarf hver einasta fjölskylda (lesist(oftast): mamma) að fara í leiðangur eftir plastvösum sem opnast að ofan, reikningsbókum með viðeigandi stórum rúðum, stílabókum í réttum litum og mismörgum þríhyrndum blýjöntum?

Svo ekki sé nú talað um lokuðu yddarana með tvenns konar gati?

Eða tímaritamöppu úr tré?

Ég hóf skólagöngu mína í Svíþjóð, þar sem öll börn fengu sínar skólanauðsynjar í skólanum, gerðu „lexíur“ í skólanum og geymdu síðan bækurnar og ritföngin í borðinu sínu.

Þegar ég kom heim í átta ára bekk og hóf að bera bækur, blýjanta og sísmitandi yddarana milli húsa, var tvísetningunni í skólanum kennt um, því ekki gátu jú tvö ólík börn geymt dótið sitt í einu og sama borðinu eða hvað?

Nú eru skólarnir einsettir, en áfram er strokleðra-, trélita- og skærasöfnun partur af haustverkunum, svona eins og hver önnur berjatínsla.

Mætti ekki bara hafa dall af blýjöntum í skólastofunni sem allir skila í eftir notkun?  Og yddara á kennaraborðinu?  Og væri ekki rakið að ljúka bara við „heimaskriftina“ í heilsdagsskólanum?

Og til hvers er verið að innleiða skólaföt til að fyrirbyggja samanburð á högum nemenda þegar þau spranga síðan um með Leiftur McQueen og Little Pet Shop á bakinu?

 Anda inn… Anda út…

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.8.2010 - 14:30 - Lokað fyrir ummæli

Notendamiðað skattkerfi

Tvennt er svolítið merkilegt ef maður pælir í því:

 Við Íslendingar erum annars vegar:

— afar tortryggnir út í skatta sem hið opinbera leggur á okkur og ákveður hvernig skuli varið.  Förum umsvifalaust í það að finna glufur og leiðir til að komast hjá því að borga sjálf alla þá skatta sem á okkur á að leggja, með þeim afleiðingum að innheimta þeirra verður óskilvirk og þá þarf að hækka.

— manna reiðubúnastir til að leggja fram upphæðir (að eigin vali) til góðra málefna ef um söfnun er að ræða.  Til dæmis fyrir hópa sjúklinga sem skattkerfið getur einhverra hluta vegna ekki allskostar annast…

Hvers vegna skyldum við frekar sætta okkur við að greiða fyrir plastpoka í búð undir þeim formerkjum að tekjum af þeirri sölu verði varið til að hjálpa tilteknum þjóðfélagshópum, en að uppfylla skattskyldu okkar sem á endanum ætti að lenda á svipuðum slóðum? 

Er það vegna þess að við getum sjálf valið hversu marga poka við kaupum og þannig hversu mikið við erum tilbúin að leggja af mörkum?

Það er ekki laust við að maður velti þessu fyrir sér um þessar mundir, þegar ljóst er að skattgreiðendur (þ.e. þeir sem raunverulega uppfylla skattskylduna) eiga upp til hópa að taka á sig verulega auknar byrðar til að ná endum saman í ríkiskassanum.  Auknar byrðar sem nota bene gætu verið mun minni ef allir færu eftir reglum og greiddu skattana sína eins og til er ætlast.

Kannski væri bara þægilegra fyrir alla aðila að opna styrktar-símalínur fyrir íslenska ríkið? 

Það mætti jafnvel bjóða upp á þrjár upphæðir.

Flokkar: Dægurmál
Efnisorð: ,

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur