Mánudagur 19.11.2012 - 20:24 - FB ummæli ()

Að kjósa stríð

Eftirfarandi kemur fram í fréttum RÚV í dag;

Eli Yishai, innanríkisráðherra Ísraels, segir hins vegar í samtali við ísraelska dagblaðið Haaretz að endanlegur tilgangur hernaðaraðgerðanna sé að varpa svo mörgum sprengjum að Gaza svæðið færist aftur í miðaldir, eyðileggja þurfi allar grunnstoðir samfélags Palestínumanna, taka í sundur vegi og neita þeim um aðgang að vatni. Aðeins þá verði öryggi Ísraels tryggt næstu fjóra áratugina.”

Mann setur hljóðan. Grunnelement manneskjunnar er að leysa sín vandamál með friði og samvinnu þar sem gagnsemi þess að vera dýr sem lifir í hópum er nýtt til hins ýtrsata til að sem flestir njóti góðs. Til eru undantekningar. Þær hafa tilhneigingu til að mála hópa eða þjóðir sem ”öðruvísi” og þannig réttlæta ofsóknir á hendur þeim. Þar sem Palestínumenn hafa sínar skoðanir, kröfur og vilja ekki sættast á að vera með í ”geyminu”, þ.e. sitja, standa og deyja eins Ísraelum þóknast og þá er best að sprengja þá aftur til miðalda.

Þessi hegðun hefur og er algjörlega óásættanleg og við sem þjóð getum ekki staðið bara hjá og yppt öxlum. Við verðum að minnsta kosti að gera ekkert sem auðveldar Israelum við að sprengja fjölda manns aftur til miðalda, það er lágmarkskrafa.

Það getur ekki skipt neinu máli hvaða pólitískar skoðanir við höfum, það hlýtur að vera gegn lífsskoðun okkar allra að almenningur sé sprengdur í tætlur og því ættum við öll að sameinast í því að mótmæla þessu stríði. Ef nægjanlega margir friðelskandi einstaklingar um gjörvallan heiminn sameinast í kröfu sinni um friðsamlega lausn þá hljótum við að lokum að yfirgnæfa þá sem vilja stríð.

Ef beint lýðræði væri reglan væri sennilega ekki til neinn her.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.11.2012 - 17:04 - FB ummæli ()

Skuldirnar margfaldast, segir Mogginn

og ekki lýgur hann..

Stína kennari fór út í búð að loknum vinnudegi og reyndi að greiða fyrir mjólkina með vinnudegi sínum en það gekk ekki því hún hafði enga peninga. Það tók enginn hana trúanlega þegar hún sagðist hafa kennt krökkum allan daginn.

Ef skólinn og búðin væru öll tilveran gæti skólastjórinn prentað miða fyrir Stínu kennara sem hún gæti notað til að flytja verðmæti vinnu sinnar út í búð og þannig fengið mjólkina afgreidda. Þessir skólastjóramiðar eru í sjálfu sér algjörlega verðlausir, bara flutningsmiðill á verðmætum eða geymsla á verðmætum kennslunnar hennar Stínu. Ef stjórnvöld tækju við þessum skólastjóramiðum sem greiðslu fyrir skattgreiðslum erum við að tala um fyrirbærið peninga.

Kostnaður skólastjórans við skólastjóramiðana var einfaldur prentkostnaður.

Samkvæmt þeim lögum sem gilda má skólastjórinn ekki búa til peninga, það er fölsun og er mjög alvarlegt brot. Það eru bara bankar sem mega búa til peninga. Ríkið býr bara til seðla og mynt.

Skólastjórinn gat áður búið til skólastjóramiða upp á kennaralaun, 300.000 þúsund sem dæmi, og eingöngu á efniskostnaði. Í dag þarf hann fá peningana hjá bankanum. Hann verður að fá þá að láni og endurgreiða þá auk vaxta. Kallast í daglegu tali Ríkisvíxlar eða Ríkisskuldabréf. Núna er skólastjórinn í vanda, hann er skuldugur bankanum vegna peninganna sem hann þarf að afhenda Stínu til að Stína geti flutt verðmæti kennslu sinnar út í búð. Þess vegna sér hann sig knúinn til að leggja tekjuskatt á Stínu og hækka skólagjöldin til að geta borgað bankanum fyrir peninga sem hann tók þar að láni og bankinn bjó til úr engu.

Þar sem bankar búa til peninga sem skuld þá eykst skuldin stöðugt í þjóðfélaginu, hjá öllum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.11.2012 - 22:48 - FB ummæli ()

Afi og við

Afi hefði orðið 113 ára í þessum mánuði. Hans veröld var um margt öðruvisi en okkar. Hans kynslóð byggði upp þjóðfélagið og barðist fyrir betri kjörum verkamanna, félags- og heilbrigðiskerfi. Núna eru mörg lönd í Evrópu að brjóta þetta velferðarkerfi niður og við á Íslandi höfum einnig fengið að finna fyrir því. Allt er það gert til að bjarga einkabönkum.

Munurinn á okkur og kynslóð afa er að fyrir þeim var samstaða algjör nauðsyn. Kjörin voru mjög kröpp sem gerði það að verkum að menn voru síður að deila um smáatriði eða að tortryggja náungann í baráttunni.

Til að verjast þessum árásum fjármálavaldsins á kjör Evrópubúa er almenningur í Evrópu að sameinast. Unnið er að því víðsvegar um Evrópu að sameina mótstöðuna. Verkföll í suður Evrópu þann 14. nóvember voru fyrstu verkföll og aðgerðir sem voru samþætt um alla Evrópu. Mörg stéttarfélög og önnur samtök stóðu að þessum baráttudegi. Fleiri baráttudagar munu fylgja í kjölfarið. Það er vaxandi skilningur innan margra ólíkra hópa í Evrópu að leggja til hliðar ágreining til að ná meginmarkmiðum og stöðva alræðisstjórn fjármálavaldsins yfir kjörnum fulltrúm Evrópu.

Á Íslandi höfum við það ennþá of gott til þess að hafa náð þessum skilningi. Sundrung og eiginhagsmunir ráða enn of mikið för. Alveg eins og kynslóð afa varð að standa saman og koma sér upp úr skítnum þurfum við líka að standa saman og treysta hvert öðru í baráttunni. Þar sem skortur er á því verður árangurinn í samræmi við það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.11.2012 - 22:19 - FB ummæli ()

Landspítalinn og kreppan

Það var frétt sem stakk mig í dag. Hún fjallar um neikvæða afstöðu unglækna til Landspítalans sem vinnustaðar. Slæm starfsaðastaða í víðum skilningi, mikið álag og tímaleysi. Þessi niðurstaða á ekki að koma á óvart. Þegar hugsað er til þess að Landspítalinn hefur þurft að skera niður um 24% frá hruni er ekki sérkennilegt að eitthvað bresti. Að spítalinn er það sem hann er í dag er eingöngu frábæru starfsfólki hans að þakka.

Núna vinn ég í Svíþjóð og grískum læknum hefur fjölgað mikið þar síðustu árin. Þetta er vel menntað og harðduglegt fólk. Það hafði í hyggju að læra til sérfræðings í sínu eigin landi en vegna kreppunnar hefur það flúið slæm kjör í Grikklandi.

Bæði löndin hafa lent í bankakreppu og miklum niðurskurði, sýnu meir í Grikklandi, sem hefur skaðað verulega framtíð þessa unga fólks.

Sumir kenna um evru eða evruleysi, skattsvikum Grikkja, flatskjárkaupum Íslendinga, vinstri eða hægri pólitík, meðlimur í ESB eða ekki. Orsakir og afleiðingar kreppunnar í báðum löndum hafa í sjálfu sér ekki neitt með fyrrnefnd atriði að gera. Það sem bæði löndin og mörg önnur eiga sameiginlegt er að einkafyrirtæki fara í gjaldþrot og skaðinn er settur á herðar hins opinbera sem verður síðan að skera niður heilbrigðisþjónustu .

Um er að ræða margendurtekna sögu og lausnirnar þekktar. Þess vegna er ábyrgð okkar mikil að tileinka okkur þær lausnir. Til að svo verði verða allir sem vilja leysa vandann að sameinast og eina forsendan verður að vera framtíð barnanna okkar en ekki eigin frami.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.11.2012 - 00:53 - FB ummæli ()

Vinstri nýfrjálshygga

Álfheiður Ingadóttir segir um daginn að uppgjörinu við nýfrjálshyggjuna sé ekki lokið. Hér erum við Álfheiður sammála, tökum dæmi;

Frjálsir einkabankar fóru á hausinn og tapið sett á skattgreiðendur.

Hrægammasjóðir kaupa restina af gömlu bönkunum.

Hrægammasjóðum hleypt á íslensk heimili.

AGS fyrirskipar niðurskurð og aukna skuldsetningu almennings til bjargar fjármálafyritækjum.

Flekklaus samvinna við AGS.

Verðtryggingin ekki afnumin af samúð við fjármagnseigendur.

Íslenskum heimilum beint til dómstólanna til að leita réttar síns, öngvu réttlæti ávísað frá stjórnvöldum, frekar hið gagnstæða.

Árna Páls lögin í boði stjórnvalda að fyrirmælum AGS.

Ríkisstjórnin hlaupatík City of London í Icesave málinu.

Stjórnvöld halda hlífðarskildi yfir sterkustu stuðningsmönnum nýfrjálshyggjunnar á Íslandi þ.e. kvótagreifunum og neitar að svifta þá völdum.

Ýmislegt fleira mætti telja til en læt það eiga sig því annars mun Álfheiði örugglega ekki lítast á verkefnalistann fyrir næsta þing og draga framboð sitt til baka.

Þrátt fyrir það er hún velkominn upp á dekk að berjast fyrir almenning á Íslandi.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.10.2012 - 23:41 - FB ummæli ()

Hvert stefnum við

Það fjármálakerfi sem kom okkur í efnahagslegt hrun er fullreynt og virkar ekki. Það finnast engar lausnir fyrir almenning innan þess kerfis. Þess vegna finnur enginn sem hallar sér að því lausnir fyrir almenning. Það þorir enginn að breyta því og því höldum við áfram að vera hamstur á hjóli fyrir fjármálakerfið. Bankar og stórfyrirtæki nýta sér úrræðaleysi stjórnmálamanna og veita þeim leiðsögn sem endar alltaf með verri útkomu fyrir almenning. Sumir trúa því að þeir séu að gera rétt en aðrir fylgja með straumnum, enginn í raun slæm manneskja en grípa ranga leiðsögn í úrræðaleysi sínu.

Það gæti verið einfalt og þægilegt að lifa og hrærast í því kerfi sem er til staðar. Afleiðingin er áframhaldandi óánægja nema þeirra sem sitja efst í píramídanum. Ef það væri ekki fyrir ótímabæran dauða, fátækt og styrjaldir gæti manni kannski staðið á sama. Sennilega er það það sem veldur ónæði í hugum fólks í leit að betra kerfi.

Eitt af því sem rekur mann á fætur er skuldin. Skuldin rænir okkur tíma til að vera með okkur sjálfum og okkar nánustu. Það er skuldin sem veldur niðurskurði í velferðakerfi þjóða. Það er skuldin sem gerir fátækum ríkjum ókleift að næra börnin sín. Sigrað land skuldar hernámsliðinu líf sitt.

Skuldin eykst stöðugt og því þarf að beisla hana og í því felst stóra breytingin sem við verðum að framkvæma, ef við þorum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.10.2012 - 00:01 - FB ummæli ()

Gluggapóstur

Samkvæmt grein í Viðskiptablaðinu í gær er vá fyrir dyrum. Þrotabú gamla Glitnis og Kaupþings fara bráðum að fá greitt út sinn hlut. Ef þeir fá hann í erlendum gjaldeyri þá munu Íslendingar ekki eiga afgang fyrir annan rekstur. Auk þess mun íslenska krónan falla og það mun orsaka aukinn kostnað fyrir okkur innanlands og aukna verðbólgu. Ef þrotabúunum verður greitt út í íslenskum krónum þá verður mikil verðbólga af þeim sökum. Hagur þrotabúanna fer ekki saman við hag Íslands.

Það er í höndum Seðlabankans að gefa leyfi fyrir því að greiða út í erlendum gjaldeyri. Samkvæmt því er ábyrgð hans mikil og ekki hægt annað en að vonast til að hollusta hans sé öll með íslenskum almenningi en ekki fjármálavaldinu.

Vogunarsjóðir, lífeyrissjóðir, bankar og önnur fjármálaapparöt hafa haft mjög greiðan aðgang að buddu almennings hingað til með góðfúslegu leyfi íslenskra stjórnvalda. Það vekur vissan ugg í brjósti því af verkunum skulum við þekkja þá.

Það verður að bregðast við þessu ástandi. Gegnsæi er skilyrði. Ef við skattgreiðendur eigum að standa straum af hagnaði vogunarsjóða er það lágmark að við vitum fyrir hvern og fyrir hvað við eigum að greiða. Við viljum fá aðgang að upplýsingum þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun og neitað að greiða ef við metum það svo að það séu okkar hagsmunir.

Bara gluggapóstur frá ”Nígeríu” er ekki við hæfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.10.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Lengi skal manninn reyna

Mörður Árnason þingmaður segir frá því á bloggsíðu sinni að hann hafi komið fram með þingsályktunartillögu. Hún gengur út á það að hætta að greiða í lífeyrissjóðinn sinn og í staðinn borga niður lánin sín í allt að fimm ár. Hann segir að þetta sé svipað og að taka lán hjá sjálfum sér.

Hér er um að ræða algjöra uppgjöf gagnvart lánadrottnum. Hjá aðþrengdum lántakendum er séreignasparnaðurinn búinn og nú á að opna fyrir sjálfan grunnlífeyrinn. Það dugar ekki fjármálafyrirtækjum að íslenskir skattgreiðendur séu að styrkja einstaklinga til að greiða sínar húsnæðisskuldir með vaxtabótum heldur á nú að ganga í ævisparnaðinn líka.

Allt tal um það að allar skuldir skulu greiddar án tillits til aðstæðna er æði sérkennilegt. Þær skuldir sem ekki er hægt að greiða verða ekki greiddar, það er reglan. Það er hagfræði, innan þeirrar fræðigreinar er gert ráð fyrir því að sumar fjárfestingar skili ekki inn arði. Þeir sem segja að allar skuldir skuli greiddar eru að ræða málið út frá siðfræði eða trúarlegum skoðunum.

Þegar komminn í krataflokknum er orðinn sendill bankanna er orðið tímabært að hreinsa til innan þingsins.

Dögun, nýtt stjórnmálaafl sem ætlar að bjóða fram í næstu kosningum, hefur fullan hug á því að bjóða lántakendum upp á eitthvað annað en að ylja sér í smástund í hlandblautum skónum. Fyrsta mál í kjarnastefnu Dögunnar er að leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána.

Kjósendur eiga að minnsta kosti valmöguleika og vonandi verður þingstyrkur þeirra sem vilja breyta annar en hann er í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.10.2012 - 22:10 - FB ummæli ()

Hver á að semja stjórnarksrá

Það virðist sem að þeir sem mættu ekki í þjóðaratkvæaðagreiðsluna um væntanlega nýja stjórnarksrá séu orðinn hópur með sérþarfir. Hann fær mikla athygli hjá sumum og honum eru gerðar upp margvíslegar skoðanir og óunnin réttindi. Það er nú þannig að þeir sem mæta ekki í prófið hafa ekki áhrif á útkomuna. Sjálfur veit ég ekki hvers vegna nokkrum datt til hugar að mæta ekki, hógværð með ólíkindum.

Persónulega finnst mér að Alþingi Íslendinga eigi ekkert að skifta sér af stjórnarskránni. Ég sé stjórnarskrána sem verklagsreglur fyrir valdið samið af almenningi. Þess vegna ættu svör við spuringunum sex að ganga beint til stjórnlagaráðs en ekki Alþingis. Auk þess myndum við losna við alla þessa umræðu um hvað þingmönnum finnst um hitt og þetta í tengslum við atvkæðagreiðsluna. Það er kannski sjálfsögð kurteisi að leyfa skólanemum að hafa álit á skólareglum en engum skólameistara dettur til hugar að láta þá ráða reglunum. Það er almenningur sem á að semja stjórnarskrá til að takmarka vald þeirra sem valdið er falið tímabundið, valdið sem er í raun almennings.

Vegna smá misskilnings er Alþingi blandað inn í ferlið í dag.

Okkur væri öllum mikill greiði gerður að þingmenn gerðu sér grein fyrir því að aðkoma þeirra er meira byggð á misskilningi en þörf.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.10.2012 - 20:31 - FB ummæli ()

Hvað vegur þyngst á morgun

Ef kosningaþátttaka verður lítil á morgun þá erum við sem kjósum að taka ákvörðun fyrir allan hópinn. Án tillits til þess hversu lítil þátttakan verður er það meirihlutinn sem ræður og þar með er kosningin lýðræðisleg. Við fyrstu sýn ætti ég því að gleðjast yfir lítilli kosningaþátttöku því þar með er ég að ráða ferðinni, eða hvað?

Aftur á móti ef kosningaþátttakan verður lítil mun afleiðingin að öllum líkindum verða sú að frumvarp að nýrri stjórnarskrá verði ekki að raunveruleika í lok þingsins. Jafnvel í hvaða mynd sem er. Og jafnvel þó að nýja stjórnarskráin komist inn á næsta þing þá mun léleg kosningaþátttaka á morgun gera andstæðingum nýrrar stjórnarskrár, ef þeir ná völdum eftir næstu kosningar, auðveldara fyrir að koma henni fyrir kattarnef.

Þar með eru þeir sem sitja heima farnir að stjórna niðurstöðunni með því að veita andstæðingum nýrrar stjórnarskrár styrk. Mjög góð þátttaka á morgun mun auka verulega möguleika íslensku þjóðarinnar að skrifa nýja stjórnarskrá. Það yrði slæmt til frásagnar um víða veröld að lýðræðisást þjóðarinnar hefði falist í því að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu með þeim afleiðingum að styrkja málstað höfuðpaura andlýðræðisaflanna og á þann hátt koma öllu aftur í fyrra horf, þ.e. 2007.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur