Föstudagur 29.6.2012 - 00:37 - FB ummæli ()

Gylfi og kreppulok…

Kreppan er búin sagði Gylfi, amen. Læknirinn fann púls og sagði hann lifir en tók ekki eftir járnbrautalestinni sem hafði nýlega ekið yfir sjúklininginn miðjann.

Ísland á ekki fyrir skuldum og er rekið á kredit. Gjaldeyrishöftin, snjóhengjan, fátæktin, nauðungaruppboðin, gjaldþrotin, þeir sem ekki borga eða geta ekki staðið í skilum, mataraðstoðin, atvinnuleysið, landflóttinn, eignaupptakan o.sv.fr..

Afskriftir hrunverja og arðgreiðslur elítunnar. Misskiptingin.

Hvar var kreppa, hvar er kreppa og hvert fór hún?

Skilin eru á milli almenings annars vegar og lánadrottna hins vegar og vina þeirra. Um víða veröld og líka á Íslandi eru lántakendur og venjulegur almenningur að skapa arð hinna með striti sínu. Átökin harðna eftir því sem græðgin verður taumlausari og ósvífnari. Mótmælendur mæta lögreglumönnum gráum fyrir járnum víðsvegar í Evrópu og Ameríku. Almenningur missir stöðugt trúnna á stofnunum lýðræðisins og mun á endanum taka til örþrifaráða. Hugsanlegt er að Tyrkir setji þriðju heimstyrjöldina í gang og þá gleymast svona smámunir eða þá að menn setjist bara niður og horfi á fótbolta í beinni.

En á Íslandi hefði Gylfi bara mátt senda tölvupóst til þeirra sem tilheyra 1% um að kreppan þeirra væri búin. Algjör óþarfi að vera segja okkur hinum að ránið á eigum okkar hefði lukkast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.6.2012 - 23:08 - FB ummæli ()

Björgun ESB…

Sá sem kaupir hlutabréf eða verðbréf ætlar sér að græða. Lánadrottnar sem kaupa ríkisskuldabréf ætla sér líka að græða. Samtímis vita allir kaupsýslumenn að þeir geta tapað fjármunum. Hér er því um að ræða spákaupmennsku, vogun vinnur vogun tapar, þ.e.a.s. spilavíti. Þegar maður var í ungtemplarareglunni forðum daga var slík hegðun talin óeðlileg og varhugaverð. Í dag er slík hegðun talin æskileg og því göfugri sem meira er grætt. Minna er rætt um þá sem skaffa gróðann.

Sök sér að menn séu eitthvað að prútta svona maður á mann. Það er öllu verra þegar heilar þjóðir eru lagðar í rúst með spákaupmennsku. Þannig er það í dag og er talið svo sjálfsagt að fréttastofur fjalla um það með gagnrýnislausum hætti og alls ekki reynt að greina orsök eða afleiðingar.

Ríkisstjórnir þurfa að fjármagna sig með ríkisskuldabréfum. Skatttekjur duga sjaldnast fyrir öllum útgjöldum ríkissins. Ríkisskuldarbréf eru lán. Ríki með evruna verða að fjármagna sig með ríkisskuldabréfum á almennum markaði. Ríkisstjórnir eru því háðar kröfum markaðarins.

Við höfum öll heyrt talað um að vextir á ríkisskuldabréfum Grikkja, Spánverja, Ítala séu að hækka. Þegar lánadrottnar, oft bankar, krefjast meira en 7% vaxta á ríkisskuldabréfum þá er það orðið of kostnaðarsamt fyrir ríkin að taka slík lán, þau ráða einfaldlega ekki við slíka vexti. Þá verða viðkomandi ríki að taka lán frá neyðarsjóði ESB/AGS/SBE. Þegar ríkisstjórninr taka lán í formi ríkisskuldabréfa fylgir bara sú kvöð að standa í skilum. Aftur á móti þá verða þjóðir sem fá lán úr neyðarsjóði þríeykisins ekki eingöngu að endurgreiða þau heldur verða þau að fylgja ströngum skilyrðum lánveitendanna. Þessi skilyrði fela í sér launalækkanir hjá almenningi, lækkun á ellilífeyri, niðurskurði á velferð og einkavæðingu. Afleiðingin er mikið atvinnuleysi og fjöldagjaldþrot þúsunda fyrirtækja. Það hefur síðan í för með sér að viðkomandi ríki hafa enn minni tekjur til að endurgreiða lánin. Síðan fylgir enn meiri niðurskurður o. sv. fr..

Afleiðingar þessara niðurskurðarstefnu mun valda því að almennir launamenn í viðkomandi ríkjum beygja sig í duftið og taka við hvaða vinnu sem er fyrir hvaða smánarlaun sem er, með skertum kjörum s.s. á hvíldartíma, sumarfríum, veikinda- og slysabóta eingöngu til að hafa ofaní sig og sína. Það er það sem leiðatogar heimsins kalla að auka samkeppnishæfni landa.

Það er það sem við hin köllum að dreifa fátækt um víða veröld.

Seðalbanki Evrópu má ekki lána þjóðríkjum evru-landanna peninga en hann lánar bönkum á 1,25 % vöxtum. Þessi hönnun á reglum Evrópusambandsins gefur einkabönkum alræðisvald yfir örlögum þjóðríkja. Ef Seðlababanki Evrópu hefði lánað þjóðríkjum á lágum vöxtum þá hefði engin krísa orðið í Grikklandi eða öðrum ríkjum. Þá hefði verið hægt að fjármagna ríkin og samtímis lagfæra það sem betur mætti fara. Einnig er það augljóst að völd einkabanka væru mjög lítil ef ekki væri fyrir þessa reglu hjá Evrópusambandinu. Þessi regla er hönnuð fyrir einkabanka og því augljóst að þeir hafa haft þar hönd í bagga. Þar sem þessari reglu er ekki breytt í dag gefur til kynna að einkabankar hafa öll völd við stefnumótun í þessum málum innan ESB. Ef Seðlabanki Evrópi gæti lánað beint til þjóðríkja yrði það almenningi til mikilla hagsbóta. Að sama skapi myndu völd einkabanka minnka. Þess vegna er augljóst að þeir sem stjórna ESB í dag eru undir hælnum á bönkunum og almenningur líður fyrir það. Er ekki kominn tími til að skapa bandalag sem þjónar þörfum almennings?

 

Article 123

 

1. Overdraft facilities or any other type of credit facility with the European Central Bank or with the central banks of the Member States (hereinafter referred to as ‘national central banks’) in favour of Union institutions, bodies, offices or agencies, central governments, regional, local or other public authorities, other bodies governed by public law, or public undertakings of Member States shall be prohibited, as shall the purchase directly from them by the European Central Bank or national central banks of debt instruments.2. Paragraph 1 shall not apply to publicly owned credit institutions which, in the context of the supply of reserves by central banks, shall be given the same treatment by national central banks and the European Central Bank as private credit institutions.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.6.2012 - 20:51 - FB ummæli ()

Evrópsk hugsjón og Grikkir

Grikkir ganga að kjörborðinu á sunnudaginn, 17. júní. Það er mikill kvíði tengdur niðurstöðum kosninganna. Þríeykið(ESB/AGS/SBE) óttast að ný ríkisstjórn í Grikklandi muni hafna þeirri leið sem þau hafa markað fyrir Grikki. Almenningur í Grikklandi er einnig kvíðinn því kjör hans hafa versnað mjög og eru líkleg til að versna. Ástæðan er sú að leið þríeykisins mun leiða til verri kjara. Ef almenningur kýs að hafna leið þríeykisins og tefla fram rétti sjálfstæðs þjóðríkis til að vernda þegna sína frekar en hagsmunum alþjóðafjármagnsins, þá liggur í loftinu að mjög hörð viðbrögð verða gegn slíkri stefnu. Þær stofnanir sem tala máli alþjóðafjármagnsins, ESB og AGS, hóta lítilli þjóð öllu illu ef ekki verður farið að vilja þeirra.

Það er ekki auðvelt fyrir kjósendur í Grikklandi að kjósa undir slíkum hótunum. Reyndar voru svipaðar hótanir settar fram í tenglsum við Icesave málið en munurinn er sá að við Íslendingar áttum þó til hnífs og skeiðar og gengum að heilbrigðis- og félagskefinu okkar nær ósködduðu. Það á ekki það sama við um Grikki því þar eru margir heimilslausir, svangir og eiga ekki tryggt skjól þegar heilsan brestur.

Vitandi að hluti skulda sem Grikkjum er ætlað að greiða eru ólöglegar, jafnvel til komnar með tilhlutan af mútufé þýskra fyrirtækja, skuldir sem komu til af spillingu, skuldir sem tengjast spákaupmennsku, skuldir sem hafa ekki nein bein tengsl við grískan efnahag eða uppbyggingu til hagsbótar fyrir grískan almenning, þá er það sérkennileg mannúð að telja sér trú um að ekkert sé sjálfsagðara en að grískur almenningur greiði þær þegjandi og hljóðalaust. Að réttlæta slíka skoðun með því að halda því fram að gríska þjóðin sé annars eða þriðja flokks þjóð og eigi ekkert betra skilið er ekkert annað en rasismi, kynþáttahyggja af verstu sort. Það er auk þess augljóst af umræðunni að klifað er á þessum frumstæðu hvötum og jákvæð svörun virðist ekki láta standa á sér hjá mörgum og jafnvel blaðamönnum/fréttastofum sem ættu að vera hafnir yfir slíkar vangaveltur. ”Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum” er setning sem vel á við í þessu samhengi.

Allir menn sem aðhyllast mannúð og réttlæti hljóta að velta því fyrir sér hvort að einhver óskilgreindur skuldapakki skuli greiða með öllum tiltækum ráðum án tillits til afleiðinga fyrir grískan almenning. Við Íslendingar höfnuðum þeirri röksemd í Icesave málinu. Sök Íslendinga var flatskjárkaup, sök Grikkja er af svipuðum toga en ekki er dregin fram sök lánadrottna sem er líka mikil.

Það er mikið í húfi á þjóðahátíðardegi okkar Íslendinga því ef Grikkir stöðva framgang kröfunnar um sjálfvirka greiðslu skattgreiðenda á skuldum banka þá er von fyrir þá Evrópu sem við þekkjum og teljum æskilega. Ef ekki mun Spánn-Ítalía-Frakkland og að lokum Þýskaland falla og Norðurlöndin með. Grikkir eru því ekki eingöngu að kjósa fyrir sig heldur allan almenning í Evrópu og að ”integration” geti orðið í Evrópu á forsendum almennings en ekki fjármagnsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.6.2012 - 19:46 - FB ummæli ()

Að berja höfðinu við ESB steininn – tímabundið…

Jóhanna forsætisráðherra hefur óbilandi trú á ESB og evrunni þrátt fyrir þau vandamál sem herja á lönd innan ESB. Bjartsýni er sjaldan löstur. Hún og trúsystkini hennar telja að ef íslenska krónan yrði fjarlægð og evran sett  í hennar stað þá myndi flest allt breytast til betri vegar.

Því miður þá er þetta merki um vanþekkingu á því sem er að gerast innan ESB. Það sem er að gerast er að ríkisstjórnir verða að fjármagna sig með lánum frá einkabönkum. Þær gera það með sölu ríkisskuldabréfa. Þar sem það verð, sem einkabankarnir krefjast fyrir að lána þjóðríkjum er orðið svo hátt, þá neyðast þau til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og systurfélaga hans, ESB og Seðlabanka Evrópu. Samkvæmt sáttmálum ESB þá má SBE ekki lána þjóðríkjum peninga. SBE má bara lána einkabönkum peninga. Þetta er meginvandmálið. Ef ríkin hefðu getað fjármagnað sig beint frá SBE með ódýrum lánum hefði verið hægur vandi að taka á vandamálunum með allt öðrum hætti og á betri veg fyrir allan almenning.

Það er augljóst að enginn vilji er innan ESB að breyta lánareglum SBE til hagsbótar fyrir almenning. Það sem stjórnendur ESB vilja er að leysa þennan tilbúna vanda með því að leggja miklar skuldir á herðar almennra skattgreiðenda. Skulda sem til er stofnað til að fjármagna einkabanka. Auk þess tala forystumenn innan ESB á þann hátt að það sé nánast holl lexía að fara í gegnum þær hörmungar sem almenningi er boðið upp á, s.s. atvinnuleysi, eignamissi og svæsinn niðurskurð á velferðakerfinu.

Annað sem einkennir kröfur forystumanna ESB er óskin um að almennir launamenn innan ESB verði samkeppnisfærir á markaði og er þá tekið mið af þeim sem minnst bera úr bítum. Krafan um launalækkanir og afnám réttinda er hávær og er ekkert annað en árás á kjör sem tók áratugi að byggja upp.

Forysta ESB er í vinnu hjá ríkasta 1%-inu og þess vegna er Evrópusambandinu beitt eins og hverju öðru verkfæri til að brjóta þann samfélagssáttmála sem er til staðar innan ESB. Ef fram heldur sem horfir, þegar Spánn, Ítalía, Frakkland og Þýskaland eru komin undir stjórn þríeykisins og allar sameiginlegar eigur þjóðríkjanna seldar á brunaútsölu  mun Norræna velferðamódelið verða minningar einar. Norður og vestur Evrópa er síðasta vígi þess samfélagssáttmála sem við höfum gengið að sem vísum en í dag er verið að leggja hann niður af fjármálaöflunum með aðstoð stofnana ESB

Að félagsmála-Jóhanna sé í krossferð með þríeykinu gegn almennningi í ESB er í raun stílbrot en lýsir því miður algjörri blindu á þann raunveruleika sem blasir við okkur. Ég vænti og bind vonir við að um tímabundið ástand sé að ræða hjá henni…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.6.2012 - 00:11 - FB ummæli ()

Hugsar Steingrímur um Grikki

Það birtist auglýsing sem skoraði á Steingrím að taka að sér efnahagsmál Grikkja. Þar sem Grikkir þjást töluvert meira en við Íslendingar fannst mér þessi auglýsing ekki beint viðeigandi. AGS hefur farið mildum höndum um okkur Íslendinga samanborði við aðrar þjóðir. Saga landanna í suðri er skelfileg og börnin sem Lagarde hafði svo mikla samúð með eiga bágt vegna skilyrða AGS um niðurskurð og einkavæðingu í viðkomandi löndum.

Þegar viljayfirlýsingar til AGS frá Íslandi eru bornar saman við; Lettland, Írland og Grikki er augljós munur. Aðgerðirnar eru mun harðari og miskunnalausari samanborið við Ísland. Það sem vekur athygli er að viljayfirlýsing er send annars vegar til AGS og hins vegar til ESB hjá þjóðum sem tengjast ESB. Það er greinilegur blæbrigðamunur á textunum og er hann öllu harðari og jafnvel niðurlægjandi textinn sem tilheyrir ESB hlutanum. Hlutverk Steingríms var því mun auðveldara en starfsbræðra hans í viðkomandi löndum. Reyndar stóð Steingrímur sig vel í viðskiptum sínum við AGS og eru þeir því ánægðir með hann. Þar er reyndar skýringin á því að hann sveik öll kosningalöforðin sín því stefna VG er ekki stefna AGS.

Það er mjög óeðlilegt að fjármálavaldið vilji setja þjóð í gjaldþrot eins og Grikki. Það er engin skynsemi í því að hækka vexti á ríkisskuldabréfum þangað til að þjóðin verði að leita ásjár AGS/ESB. Að síðan að innleiða stefnu niðurskurðar sem dýpkar kreppuna kórónar vitleysuna. Mun skynsamlegra hefði verið að Seðlabanki Evrópu hefði mátt lána aðildarþjóðunum beint og milliliðalaust og þannig komið í veg fyrir hrun Grikkja og annarra þjóða í Evrópu. Því miður er þessi möguleiki bannaður innan ESB, Seðlabankinn má bara lána til einkabanka og hefur gert það ótæpilega. Einkabankarnir lána síðan til þjóðríkjanna og það voru þeir sem hækkuðu vextina. Þess vegna er augljóst hverjir höfðu hönd í bagga með hönnun sáttmála Evrópusambandsins. Að venjulegir launmenn séu hrifnir af hundakúnstum fjármálavaldsins, sem stjórnar ESB, og styðji það án minnstu samúðar með starfsbræðrum sínum í Grikklandi er í sjálfu sér óskiljanlegt.

Hundurinn minn hugsar bara um mat og tíkur. Fjármálavaldið hugsar bara um gróða.

Kannski er þessi tafla um einkavæðingu sem Grikkir eiga að framkvæma ein af ástæðunum fyrir þeirri árás sem Grikkir verða fyrir af hálfu fjármálavaldsins.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.6.2012 - 22:35 - FB ummæli ()

Peningavaldið

Kreppan í dag snýst um skort á peningum. Það er nægjanlegt vinnuafl og meira að segja margir án atvinnu. Hráefni er yfirleitt ekki hindrun á framleiðslu. Tækni, kunnátta eða vélakostur er til staðar. Það sem skortir eru peningar. Það eina sem breytist í aðdraganda kreppu er minnkun á magni peninga. Árið 2008 var orðatiltækið að ”lánalínur þornuðu upp” einn algengasti frasinn og aðrir svipaðir sem lýsa vel þessum skorti á peningum.

Til að ríkisstjórnir geti framfleytt sér þurfa þær skatttekjur og síðan að auki lán frá bönkum eða öðrum lánadrottnum. Lánin kallast ríkisskuldabréf en eru bara venjuleg lán í sjálfu sér. Þessi lán og vaxtarbyrðin af þeim veldur því að ríkisstjórnir þurfa alltaf að taka meiri lán til að framfleyta sér.

Bankar búa til 97% af öllum peningum og bankar eru einkafyrirtæki. Allur peningur er búinn til sem skuld. Bönkum er í sjálfsvald sett hverjum þeir lána peninga(búa til peninga) og á hvaða kjörum. Þess vegna stjórna þeir ríkisstjórnum og okkur  vegna einkaleyfis síns á peningamyndun.

Eina leiðin fyrir okkur til að fá peninga er að taka þá að láni og þar með eykst skuldin því peningar eru búnir til sem skuld. Það ætti að vera nokkuð ljóst að það borgar sig ekki á neinn hátt fyrir almenning að eftirláta einkafyrirtækjum að framleiða peningana sem skuld, það er einfaldlega allt of dýrt fyrir okkur, við höfum ekki efni á því. Þar að auki skerðir það völd kjörinna fulltrúa okkar sem við kjósum til að stjórna. Þegar bankarnir krefjast hærri vaxta á ríkisskuldabréfum, t.d. til Grikkja þá setja þeir allt í uppnám og núna er röðin komin að Spánverjum. Ábyrgðin er einfaldlega of mikil til þess að við getum leyft duttlungum gróðahyggjunnar að framleiða peninga.

Hið opinbera getur ef það vill framleitt alla peninga án kostnaðar fyrir almenning. Það þarf bara að semja ný lög sem kveða svo á um. Þar sem bankarnir framleiða peninga sem skuld aukast skuldir okkar í sífellu. En ef við framleiddum þá án skuldsettningar myndi skuldabáknið minnka. Það heitir að fjármagnskostnaður færi nánast niður í núll. Þetta er raunhæf leið út úr bankakreppunni sem nú geysar. Auk þess myndi almenningur endurheimta valdið í samfélaginu því að sá sem fremleiðir peningana og stjórnar magni þeirra á hverjum tíma, hann stjórnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.5.2012 - 23:20 - FB ummæli ()

Heilagur andi og rauða spjaldið

Ég fór vestur á Hellisand í dag í fermingu. Ræða prestsins unga vakti með mér vangaveltur um hvar og hvernig okkur tókst að skola af okkur þeim gildum sem komu fram í ræðu hans. Guð gerði sáttmála við sína útvöldu þjóð og gaf henni boðorðin tíu. Ísrael í dag virðist geyma þau á mjög afviknum stað því þau virðast ekki móta stefnu þeirra gagnvart Palestínumönnum.

Reyndar á Guð ekki einn um sárt að binda þegar kemur að vanefndum á sáttmálum. Ég hitti nefnilega góðan og gegnan Sjálfstæðismann í veislunni. Hann benti mér á að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að það væri forgangsverkefni að afnema verðtrygginguna. Ekkert bólaði á slíku hjá þingflokki hans. Annað sem hann benti mér á var að á vegum Sjálfstæðisflokksins hefði það verið samþykkt í þrígang að ljúka aðildarviðræðum við ESB. Honum fannst þingmenn sínir ganga í berhögg við samþykkta stefnu flokksmanna.

Ég hlustaði á atkvæðagreiðsluna á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskránna. Ég tók eftir því að Eygló Harðrdóttir rökstuddi alltaf atkvæði sitt með vísun í stefnu og eða samþykktir Framsóknarflokksins. Mér fannst samt sem áður að oftast greiddi hún atkvæði á annan hátt en hinir Framsóknarmennirnir.

Nú ég þarf ekki að fjölyrða um stefnu Steingríms og Jóhönnu sem hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar þau voru sest í stólana.

Sjálfstæðismaðurinn fyrir vestan var kominn að þeirri niðurstöðu að litlu skipti hvað almennir flokksmenn ákveddu. Fjórflokkurinn á Alþingi virtist lifa sínu eigin lífi og algjörlega án tengsla við stefnur sínar eða hugsjónir. Það virðist eins og þingmenn fjórflokksins fyllist heilögum anda við að taka sæti á Alþingi og verði hreinlega uppnumdir, a.m.k. virðast þeir fá skoðanir sínar frá einhverjum æðri máttarvöldum, öðrum en flokksmönnum sínum.

Niðurstaða Sjálfstæðismannsins fyrir vestan er að í raun væri um einn þingflokk að ræða, ekki fjóra, sem skippt væri upp í fjórar deildir.

Hver er Guð þingmanna? Á hvaða hátt getum við veitt þingmönnum okkar aðhald eða gefið þeim rauða spjaldið þegar það á við?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.5.2012 - 12:40 - FB ummæli ()

Að míga í kross

31. maí ganga Írar að kjörborðinu í þjóðaratkvæðagreiðslu og kjósa um sáttmála sem snýr að stjórnun fjármála viðkomandi ríkja í ESB og kallast “fiscal treaty”. Gengur stundum undir nafninu skuldabremsan(debt brake) eða ”mutual suicide pact”(Joseph Stiglitz). Krugman segir; “This is, not to mince words(tala tæpitungulaust), just insane. …… Rather than admit that they’ve been wrong, European leaders seem determined to drive their economy – and their society – off a cliff. And the whole world will pay the price.”

Sáttmálinn var saminn með hagsmuni bankakerfisins að leiðarljósi. Ríkisstjórnum sem samþykkja hann er gert að kreista eins mikla fjármuni frá skattgreiðendum með niðurskurði og skattahækkunum til að borga inn í svarthol bankakerfisins. Sú skuldasúpa byggist mest á spilavítishegðun og mistökum bankakerfisins sem núna er verið að ríkisvæða um allt Evrópusambandssvæðið. Bankamenn voru orðnir leiðir á því að eltast við hverja ríkisstjórn fyrir sig eins og þeir hafa þurft að gera með Lettland, Írland og Grikkland. Nú vilja þeir fá þetta inn í lög viðkomandi ríkja og helst í stjórnarskrá þannig að þeir fái skattfé okkar sjálfvirkt ofaní kistur sínar.

Í sáttmálanum er tekið fram að aðgerðir komi til framkvæmda sjálfvirkt hjá viðkomandi ríkjum ef staða fjármála er á ákveðin hátt. Ef ekki er farið eftir sáttmálanum er kært til Evrópudómstólsins og síðan er hægt að beita ríkin fésektum. Hverjar þessar framkvæmdir eiga að verða gegn þjóðríkjunum er ekki vitað. Það sem er vitað er að  að framkvæmdavald ESB á að fá vald til að búa til reglurnar . Þess vegna mun framkvæmdavald ESB hafa völd til að breyta fjárlögum ríkja án þess að þurfa neina lýðræðislega meðferð í þingi viðkomandi ríkja. Þar með hefur framkvæmdavaldið fengið beinan aðgang að fullveldi ríkjanna því sá sem stjórnar fjárlögum stjórnar viðkomandi ríki. Slík tilhögun á sér hvergi stoð í lögum eða sáttmálum ESB. Auk þess ef ríkin streitast á móti þá eru fjársektir. Í sáttmálanum eru ekki nein ákvæði um uppsögn né hvernig eigi að koma slíku í framkvæmd. Þetta er ekki algengt í slíkum samningum og samkvæmt skilningi Vínarsáttmálans(Vienna Convention of the Law of Treaties) þá er slíkur samningur eilífur. Auk þess er tekið fram að ekki er hægt að stefna framkvæmdavaldi ESB fyrir dómstóla þegar kemur að framkvæmd þessa sáttmála. Ekkert stjórnvald(þing/dómstólar viðkomandi ríkja) getur komið í veg fyrir áætlanir þeirra, þeir eru orðnir ríki í ríkjunum.

Þetta er sem sagt samningur sem er saminn af nokkrum einstaklingum(framkvæmdavaldi ESB) án undangengins lýðræðislegs ferlis meðal almennings eða þjóðþinga viðkomandi ríkja eða Evrópuþingsins. Auk þess fylgir með að þau lönd sem ekki samþykkja sáttmálann og innleiða hann ekki í lög eða stjórnarskrá muni ekki fá neina styrki úr neyðarsjóðum ESB, sem er ekkert annað en fjárkúgun á lýðræðinu. Í raun hefur ESB tekið upp starfshætti AGS í megindráttum og þar að auki lögleitt þá til frambúðar.

Þrátt fyrir að ESB hafi lagt á sig mikla vinnu til að komast hjá afskiptum almennings með þjóðaratkvæðagreiðslum tókst írsku þjóðinni að fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þökk sé lögum og stjórnarskrá írska ríkisins. Þessa dagana er mikil barátta meðal grasrótarsamtaka um alla Evrópu til styrktar írskum nei sinnum því öllum finnst að Írar séu að kjósa fyrir alla Evrópu Valið getur varla talist réttlátt því þá eru Írar án allrar aðstoðar ESB ef þeir segja nei.

Þess vegna getur það verið mikilvægt hvernig stjórnarskrá við Íslendingar fáum að lokum. Sjáfstæðis- og Framsóknaflokkurinn míga núna utaní drög stjórnlagaráðs og þá er ekki ósennilegt að einhverjir ESB sinnar á þingi munu sjá sitt ofvæna og míga í kross með þeim þegar hugmyndir að stjórnarksrá gætu ógnað innleiðingu alls þess sem ESB hefur upp á að bjóða.

 

111 gr. nýrrar stjórnarskrár;

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

 

Þess vegna eru yfirgnæfandi líkur á því að við Íslendingar muni ekki fá nýja stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Það er þó von ef margir þingmenn sem komast á næsta þing og þeir sameinast um að semja nýja stjórnarksrá með góðum vörnum þannig að það séu ekki eingöngu Írar sem hafi þann valmöguleika á að hafna slíkum nauðarsamningum. Til að sópa slíkum fjölda inn á Alþingi Íslendinga í næstu kosningum þarf samstillt átak margra góðra manna og kvenna.

 

Merkel kanslari Þýskalands segir; “The debt brakes will be binding forever.  Never will you be able to change them through a parliamentary majority”

 

Fyrrverandi seðlabankastjóri Seðlabanka Evrópu segir þetta nokkuð vel í stuttu máli;

“Trichet has proposed what he calls ‘federation by exception,’ whereby if a country’s leaders or parliament ‘cannot implement sound budgetary policies,’ that country will be ‘taken into receivership’(Það að vera í skiptameðferð/gjaldþrotaskipti).”

Það er að segja ef við kjósum rangt þá verður lýðræðið barasta afnumið en ef almenningur á síðasta orðið gæti það orðið torsóttara.

Valdið er okkar ef við bara nýtum okkur það.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.5.2012 - 00:59 - FB ummæli ()

Catch-22

Öll þessi umræða undanfarna daga um drög að nýrri stjórnarskrá, þ.e. ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar Evrópusambandið hafa í raun verið mjög upplýsandi. Tilfinningin sem eftir situr er að almenningur verður að berjast með kjafti og klóm til að ný stjórnarskrá verði að raunveruleika. Hugsanlegt er að ný stjórnarskrá fæðist í þinginu að ári sem breytir ákkúrat engu eða styrki völd framkvæmdavaldsins frá því sem núna er.

Breytingartillaga Vigdísar um að bæta spurningunni um umsóknina að ESB við spurningarnar um stjórnarskrána var úrskurðuð af Landskjörnstjórn sem tæknilega ekki gerleg. Ekki ættu tvö óskild mál að vera í einni þjóðaratkvæðagreiðslu. Vigdís hafði all nokkra daga til að breyta breytingartillögu sinni. Hún hefði getað farið fram með spurninguna sem sérstaka spurningu sem hefði verið á sérstökum kjörseðli sem hefði verið settur ofaní sérstakan kjörkassa. Sá kjörkassi hefði geta verið frammi á sama degi og kosningin um stjórnarskrána og staðið við hliðina á þeim kjörkassa, í öllum kjördeildum landsins. Ef hún hefði gert þessa litlu breytingu þá hefði þjóðin getað tjáð sig um hvort umsóknarferlið við ESB tæki enda eða ekki strax næsta haust. Hvort þingið hefði tekið tillit til þessa er óvíst.

Hvers vegna hún brást væntingum ESB andstæðinga er mér hulin ráðgáta.

Ég er reyndar einn af þessum ESB andstæðingum, hef verið það s.l. 20 ár að minnsta kosti. Ég væri mjög sáttur ef hægt væri að stöðva umsóknarferlið sem fyrst, sérstaklega ef afstaðan væri afgerandi og við gætum lagt ESB þar með á hilluna og einbeitt okkar að nauðsynlegri málum.

Þrátt fyrir að ég hafi miklar áhyggjur af því að afsala meira af fullveldi okkar til Brussel þá hef ég bara ennþá meiri áhyggjur af algjörum skorti og skilningi íslenskrar valdastéttar á nauðsyn þess að henni ber að lúta þeim verklagsreglum sem almenningur vill við hafa gagnvart henni. Ef almenningur á Íslandi fær ekki aukin völd með nýrri stjórnaskrá þá mun fyrrnefnd valdastétt ekki bara fara með okkur til Brussel heldur í hverja þá vegferð sem henni þóknast í það og það skiptið.

Ef andstæðingar núvernadi ríkisstjórnar vilja kalla á samstöðu gegn henni, sem rík ástæða er til, þá er það óheppileg taktík að nota ESB umræðu sem er þekkt svo lengi sem elstu menn muna að veldur alltaf klofningi og sundrung. Farsælla er að leita að þeim málefnum sem sameinar okkur gegn ríkisstjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.5.2012 - 23:12 - FB ummæli ()

Á hverju ætlar kvótalaus þjóð að lifa

Á næstu dögum mun Alþingi fjalla um ”kvótafrumvörp” ríkisstjórnarinnar. Það virðist sem fáir átti sig á því að um er að ræða tvö frumvörp. Annað fjallar um hversu mikið handhafar kvótans á hverjum tíma eiga að greiða fyrir afnotin til eigandans, þ.e. þjóðarinnar. Sjónum almennings hefur verið beint að þessu frumvarpi til að umræðan verði minni um hitt frumvarpið. Seinna frumvrpið fjallar um stjórn fiskveiða, þ.e. hvernig kvótanum er útdeilt til handhafa kvótans á hverjum tíma.

Frumvarpið um stjórn fiskveiða er mun mikilvægara og ætti að vera mun meira í umræðunni. Áratugum saman hafa staðið deilur um stjórn fiskveiða. Úthlutunarreglur í núverandi kerfi hafa verið dæmdar af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem mannréttindarbrot. Þess vegna var eitt af kosningaloforðum núverandi ríkisstjórnaflokka að leiðrétta kerfið til að sanngirni og réttlæti rúmist innan þess. Í stuttu máli á að svíkja það(eins og öll…).

Í dag er kvóta úthlutað einu sinni á ári en í nýja frumvarpinu munu handhafar kvótans sitja að honum í 20 ár og hugsanlega lengur. Þar með mun smá saman kvótinn færast endanlega í hendur einkaaðila og að lokum munu handhafar kvótans verða þeir sömu og eigendur. Þá mun auðlindagjaldið fara í hring án viðkomu í ríkissjóði.

Að endingu munu viðkomandi einkaaðilar selja kvótann úr landi og þá verðum við leiguliðar einhverra stórfyrirtækja úti í heimi. Ekki að undra að Steingrímur sé í uppáhaldi í útlöndum.

Þeim Íslendingum sem stendur ekki á sama er bent á að fylgjast vel með umræðunni á Alþingi(bara til að geta fært til bókar hverjir veita fjármagninu brautargengi) og hitt að hægt er að skrá sig á undirskriftarlista til að krefjast þess að viðkomandi málefni fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Álit mannréttindarnefndar Sameinuðu þjóðanna 2007._split1

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur