Laugardagur 21.1.2012 - 22:02 - FB ummæli ()

Sófinn og Búsáhaldarbyltingin

Að ræða um Nýtt Ísland þegar Búsáhaldarbyltingin er þriggja ára er nokkuð sorglegt. Við sem mættum á Austurvöll og á Opna Borgarafundi munum eftir spenningnum, ákafanum og vonunum. Nú átti að mala liðið. Eftir á að hyggja, þegar ég stóð svo til einn eftir á Austurvelli, þá var þetta allt saman hálfgert rugl. Við sem héldum áfram að mótmæala óréttlætinu vorum örfá. Hin voru sest í helgan stein. Þau höfðu fengið ríkisstjórnina sína. Það sem rak þau áfram í Búsáhaldarbyltingunni var voninn um sigur í kosningum, valdataka og ekki síst hatrið á Davíð Oddsyni. Þau náðu völdum og fengu vinstri ríkisstjórnina sína. Þrátt fyrir það er atvinnuleysi í hæstu hæðum, brottfluttir sjaldan fleiri, eigur fólks brenna upp og fólki er hent út af heimilum sínum svo bankinn fái veðið sitt. Áhugi Alþingis er lítill sem enginn á örlögum heimilanna. Mun frekar er karpað um aukaatriði og Stjórnarskránni okkar er stungið undir stól.
Það væri örugglega verra ef Sjálfstæðismenn stjórnuðu segja stjórnarliðar. Þetta hefðuð þið átt að vita þvi að allar bólur springa-og þar með játa stjórnarliðar trú kapitalsins. Ykkur var nær.
Er það virkilega nauðsynlegt að Sjálfstæðimenn komist aftur til valda til að sófakommarnir komi sér upp úr fleti sínu og geri almennilega byltingu? Að sitja á afturendanum og rökræða ágæti Alþjóðagjadeyrissjóðsins fyrir almenning á Íslandi svo að Steingrímur haldi völdum er einhver útópía sem ég hélt að ég myndi aldrei upplifa.
Jæja, þá er ég búinn að hella mér yfir kvíslingana úr Búsáhaldarbyltingunni. En meðal annarra orða það verður fundur í Háskólabíói mánudaginn 23. janúar kl. 20:00. Efni fudarins er Verðtryggingin og áhrif hennar á lánin okkar. Við munum öll eftir stemmingunni í Háskólabíói á Opnum Borgarafundum. Hver man ekki þegar Solla sagði „þið eruð ekki þjóðin“.
En man einhver eftir því að Steingrímur lofaði að afnema verðtrygginguna á einum slíkum fundi og fékk mikið lófaklapp fyrir. Hann er popúlisti af guðs náð. Ætlum við sem almenningur að láta blekkja okkur eina ferðina enn. Ætlum við ekki að kynna okkur málin, fræðast, spyrja spurninga og krefjast réttlætis???
Ef svo er þá er sófinn ekki valkostur!

 

FRAMSÖGUMENN Á FUNDINUM  23. jan.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Pallborðið verður tvískipt en þar verða eftirtaldir:

PALLBORÐ I

Karl Sigfússon, verkfræðingur og millistéttarauli
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt
Sverir Bollason, skipulagsverkfræðingur

PALLBORÐ II

Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi
Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður VR

Fundarstjóri: Rakel Sigurgeirsdóttir
Pallborðsstjóri: Eiríkur S. Svavarsson

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.1.2012 - 20:05 - FB ummæli ()

Að „dílíta“ Búsáhaldarbyltinguna

Það er með ólíkindum að menn geti rætt svona lengi og ítarlega um það hvort draga eigi ákæruna til baka á Geir Haarde. Þó málefnið sé athyglisvert ætti það frekar heima hjá háskólasamfélaginu. Ákvörðun hefur verið tekin um að ákæra Geir og þar við situr að mínu mati. Það er lang best fyrir Geir að málinu ljúki með dómi Landsdóms. Það eru allir sammála um að það sé ósanngjarnt að Geir sé einn ákærður og mun fleiri ættu að sitja með honum á bekknum. Koma tímar og koma ráð og því þurfum við að halda áfram með mál Geirs.
Allir vita líka að eiðsvarinn vitnisburður fyrir Landsdómi gæti orðið eldfimur. Margir vilja að slíkar vitnaleiðslur fari fram en mörgum er líka illa við þá tilhugsun og vilja koma í veg fyrir þær. Þess vegna vilja sumir svifta Geir möguleikanum á sýknu vegna eigin hagsmuna. Það er ekki umhyggja fyrir Geir heldur óttinn við að vitnaleiðslurnar muni skaða þá persónulega.
Ef Alþingi Íslendinga kemur núna í veg fyrir þær vitnaleiðslur þá hafa kjörnir fulltrúar almennings sameinast um að þagga niður spillingu og vanhæfni hins þrönga hóps sem fór og fer með völdin í landinu.
Ef slíkt gerist hefur Búsáhaldarbyltingin endanlega verið núlluð, „dílítuð“. Þar með hefur þessi litla krumpa sem Búsáhaldarbyltingin var á vammlausum ferli valdastéttarinnar á Íslandi verið þurrkuð út af harða diskinum. Þar með mun valdastéttin sitja eftir sigri hrósandi og halda áfram að sinna þörfum sínum og vina sinna. Þar með mun valdastéttinni hafa líka tekist að sannfæra Alþingismenn um að þeir sem ná áhrifum og völdum í þjóðfélaginu séu undanþegnir hefðbundnum lögmálum réttarríkissins.
Ef einhver er ósáttur þá er bara að efna til nýrrar Búsáhaldarbyltingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.1.2012 - 23:08 - FB ummæli ()

Skuldavandinn og „millistéttaraular“

Karl Sigfússon skrifar góða grein í Fréttablaðið 10. nóv s.l.. Hann kallar hana „ég er kúgaður millistéttarauli“. Þar lýsir hann tilveru sinni sem margir finna samsömun með því að meira en 7000 manns „læka“ hana. Hann lýsir baráttu sinni við bankahrun á Íslandi. Afleiðingar þess er minni kaupmáttur og aukin útgjöld. Fasteignin hans hefur lækkað að virði og lánin snarhækkað.

Það er hafið yfir allan vafa að hann og mjög margir aðrir sýndu ábyrga hegðun í viðskiptum sínum. Mannkynssagan kennir okkur einnig að það sem er að gerast á Íslandi er marg endurtekin saga.

Sú breyta sem skiptir máli og veldur bankakreppum er skortur á peningum. Það er aldrei skortur á mannafla, hráefni eða tækni. Bankar framleiða peninga og þess vegna er orsakanna að leita þar.

Á Íslandi og mörgum öðrum löndum kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til skjalanna. AGS bannaði heildstæða almenna lausn á skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja. Sjóðurinn taldi að ekkert fjárhagslegt svigrúm væri til staðar enda talar hann máli bankanna. Hann gaf fyrirmæli um einstaklingsmiðaða meðferð í dómsölum landsins. Lesa má um þetta í samstarfssamningum Íslands og AGS á heimasíðu sjóðsins. Þar kemur skýrt fram að sjóðurinn hefur algjört vald til að ákveða allt sem við kemur fjármálum Íslands. Sú stefna sem rekin hefur verið á Íslandi er ekki hugafóstur einhverra stjórnmálahreyfinga á Íslandi. Samstarf við sjóðinn byggist eingöngu á því að hér séu stjórnvöld sem eru reiðubúin til að fylgja fyrirmælum hans og núverandi ríkisstjórn tók auðsveip við því hlutverki.

AGS lagði megin áherslu á að endurreisa bankana og kostnaðurinn við þá endurreisn lendir á öxlum almennra lántakenda og það er sú staða sem Karl er að lýsa. Síðan er blóðugur hanaslagur á bak við tjöldin við að þóknast bönkunum til að fá sérmeðferð. Þar ræður klíkuskapur örlögum manna og í þann klúbb er Karli og fleirum ekki boðið .

Annað sem skiptir máli er að hluti þjóðarinnar skuldar ekki neitt og virðist reiðubúinn að horfa á eftir samlöndum sínum í skuldafenið. Auk þess eru stuðningmenn núverandi ríkisstjórnar reiðubúnir til að leita uppi hvaða skýringu sem er til að samþykkja með sjálfum sér að jöfnuður og réttlæti felist í stefnu AGS.

Sagan kennir okkur einnig að til að breyta þessu ástandi þarf róttækar aðgerðir. Sú alróttækasta er mikil og almenn hugafarsbreyting hjá almenningi. Almenningur verður að taka afstöðu og til þess þarf hann að kynna sér málin. Það flækir stöðuna á Íslandi að hluti þjóðarinnar hugsar mikið um að koma Íslandi inn í ESB og á meðan hugsa þeir ekkert róttækt því það gæti ógnað ESB aðild. Hvernig svo sem það fer allt saman þá kennir sagan okkur að þegar við erum orðin nægjanlega svöng þá verður bylting. Það sem er virðingaverðast við skrif Karls er að hann er að reyna að höfða til vel menntaðrar og læsrar þjóðar í þeirri von að hún skilji hvað er að gerast en æði ekki út á torg síðar meir banhungruð og brjáluð þegar ekkert er eftir. Þá breytist reyndar margt en of seint því þá eiga lánadrottnar allar eigur okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.1.2012 - 00:25 - FB ummæli ()

Inside Job og bónusinn

Það er smá titringur í pólitíkinni og spunameistararnir njóta sín með smá símtölum út og suður. Spunameistarapólitík hefur aldrei byggt neitt land upp og því er best að anda með nefinu og slaka á.

Myndin Inside Job sem var í RÚV í gærkveldi var mögnuð. Þrátt fyrir að ég hef grúskað mikið í kreppupólitík undanfarin ár þá virkaði myndin mjög sterkt á mig. Svo mjög að ég sofnaði ekki fyrr en um miðja nótt. Vald fjármálafyrirtækjanna er svo algjört að það setur að manni hroll. Sá hópur einstaklinga sem starfar innan þeirra og hagnast vel og vinna samhentir að því að ekkert ógni stöðu þeirra. Tengingin við kókaín fíknina innan heilans og peningaumsvifa var athyglisverð. Sjálfsagt er svipað svæði virkjað hjá sveitaómögum sem verða ráðherrar á Íslandi. Afleiðingin er frátenging raunveruleikaskyns og oftrú á eigin getu. Má sjálfsagt finna sjúkdómsgreininganúmer innan læknisfræðinnar sem passar.

Spurningin er hvort frasinn „skítlegt eðli“ sé ekki allt sem segja þarf.

Aftur að Inside Job. Vald fjármálafyrirtækjanna, bankanna, var augljóslega algjört. Bankarnir eru ríki í ríkinu og stjórna kjörnum fulltrúum okkar. Þess vegna er lýðræðið ekki lengur að virka. Bankarnir hafa aldrei verið kosnir til valda en stjórna þrátt fyrir það. Það vantar að einhver velti fyrir sér ástæðunni hvers vegna hafa bankarnir þessi völd. Ástæðan er sú að þeir búa til peningana fyrir okkur. Til að ríkissjóður fái peninga til að reka þjóðfélög þegar skatttekjur duga ekki þarf hann að fá peninga hjá bönkunum. Það gera ríkissjóðir með útgáfu ríkisskuldabréfa, þ.e. ríkið fær lán hjá bönkunum. Þar koma völd bankanna.

Smáspunameistarar íslenskrar pólitíkur sem rugga bátnum í dag sjá eflaust enga tenginu við Inside Job. Núverandi fjórflokkur hefur fylgt fjármálakerfinu, og öllu því sem því fylgir, að málum alla tíð. Hugsanlegt er að ný framboð eða sambræðingur annarra grasrótarafla krefjist siðvæðingar fjármálakerfisins. Slíka ógn þarf að kljúfa og kæfa í fæðingu.

Bónusinn til allra innblandaðra gæti minnkað….

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.1.2012 - 01:25 - FB ummæli ()

Árið er liðið og hver er árangurinn

Náttúruöflin minntu á sig víðs vegar um heim og mannskepnan reyndi að hemja þau eftir bestu getu. Þrátt fyrir nauðsyn þess finnst mörgum mun mikilvægara að nota stóran hluta af skatttekjum almennings í hergögn, stríð og að endurreisa fallna banka. Skuldin hefur farið um heiminn á liðnum áratugum og skilið eftir auðn og dauða. Þjóðir hafa reynt að losna við hlekki skuldarinnar en verið mætt af ofbeldi. Almenningur á Vesturlöndum hefur á undandörnum árum fengið forsmekkinn af afleiðingum skuldarinnar sem löndin í Suðri hafa búið við lengi.

Almenningur í Bandaríkjunum sem telur sig búa við afgerandi skiptingu valdsins fékk ný lög á árinu. Lög sem leyfa bandaríska hernum að handtaka hvern sem er hvenær sem er og halda viðkomandi án dóms og laga um óákveðinn tíma. Evrópubúar munu safna bankastjórum álfunnar saman í Brussel og þeir munu taka allar ákvarðanir um fjármál Evrópulandanna. Afnám lýðræðis og réttinda almennings helgast af nauðsyn þess að borga skuldir. Skuldin drepur mun fleiri en náttúruhamfarir gera, 24.000 börn deyja á dag fyrir fimm ára aldur, flest vegna fátæktar á Jörð sem hefur allt til alls öllum til handa.

Jörðin er svo rík af öllu sem við þurfum; við gætum bara rétt út höndina, við gætum grafið eftir vatni, við gætum sáð og uppskorið fæðu, byggt hús og allt annað. Flöskustúturinn á öllum slíkum framkvæmdum er skortur á peningum. Fyrst þarf peninga og síðan má framkvæma. Bankar sem eru einkafyrirtæki hafa einkaleyfi á því að búa til peningana fyrir almenning. Með því að stjórna magni peninga í umferð stjórna bankar framkvæmdum og þar með örlögum okkar. Þess vegna er peningavaldið fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar en er aldrei í framboði. Það stjórnar fulltrúum okkar í skjóli einkaleyfis síns á peningamyndun.

Það er engin stjórnmálahreyfing né stefna í sjónmáli sem hafnar þessum forgangi fjármagns fram yfir verðmætasköpun og á meðan mun skuldin vera fjötrar okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.12.2011 - 00:12 - FB ummæli ()

Merkel og vandi ESB

Í lok síðasta mánaðar áttu Þjóðverjar í vandræðum með að selja ríkisskuldabréf. Þeir seldu um helminginn af þeim skuldabréfum sem þeir ætluðu sér. Rætt var um misheppnað útboð. Afleiðingin varð hinn alkunni „titringur á mörkuðum“ og evran lét eitthvað undan. Menn óttuðust jafnvel að þýskaland væri að fara til fjandans. Tveim dögum seinna var ítalska ríkið með ríkisskuldaútboð og þau bréf runnu út eins og heitar lummur.

Bankarnir voru bara að láta Merkel vita hver ræður.

Ríkisstjórnir fjármagna útgjöld sín með sköttum og það sem upp á vantar er fjármagnað með sölu ríkisskuldabréfa. Flest öll ríki þurfa að gefa út ríkisskuldabréf til að endar nái saman.

Ríkisskuldabréf er skuldaviðurkenning. Ríkið lofar eiganda bréfsins að endurgreiða honum þá upphæð sem skráð er á bréfið. Merkel getur skrifað á ríkisskuldabréfið sitt milljón evrur og lofar að endurgreiða þær á 10 árum. Síðan kaupir einhver bréfið, oftast bankar, og afhenda Merkel milljón evrur og Merkel getur þá byggt skóla og sjúkrahús fyrir þýskan almenning.

Samkvæmt reglum ESB verður Merkel að fá peninga lánaða hjá bönkunum á þennen hátt, hún má ekki búa til peningana sjálf. Þess vegna stjórna bankarnir Merkel eins og öðrum skuldsettum aðilum.

Strax eftir hið misheppnaða útboð kom Merkel fram og lofaði öllu fögru til að friðþægja fjármálaveldið, hún skildi fyrr en skall í tönnum.

Það sem er merkilegast er að peningar eru bara verkfæri til að flytja verðmæti frá einum stað til annars. Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar. Bankar eru einkafyrirtæki. Bankar hafa aldrei verið kosnir til að stjórna örlögum okkar en þeir stjórna þeim fulltrúm sem við kjósum til þess. Þar að auki búa þeir til peningana úr engu.

Það sem er lang merkilegast er að við sættum okkur við þetta án nokkurrar umræðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.12.2011 - 01:11 - FB ummæli ()

Kosningar-æfingin skapar meistarann

Sennilega eiga flestir stjórnmálaflokkar sem nú sitja á Alþingi það sameiginlegt að álíta að kosningar séu af hinu illa. Allt skal gert til að koma í veg fyrir kosningar. Þær skapa óvissu og eru kostnaður fyrir samfélagið. Flokkar eru ekki reiðubúnir í kosningar fyrr en stjórnarskráin knýr þá til þess.

Þessi hugsun er líka ríkjandi þegar rætt er um þjóðaratkvæðagreiðslur því mótrökin eru stundum þau að ekki sé hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur í hverri viku um öll möguleg mál.

Það hvarflar að manni, þegar hlustað er á forystumenn í þjóðmálumræðunni, að meirihluti þjóðarinnar sé ekki hæfur til þessa að taka afstöðu til ýmissa álitamála. Að meirihluti þjóðarinnar sé svo heimskur að ekki sé þess virði að spyrja hann ráða. Þessar hugmyndir um vanhæfni almennings eru að sjálfsögðu runnar undan þeim sem höndla valdið á hverjum tíma. Almenningur hefur ekki lagt í vana sinn að gjaldfella eigin visku til þess eins að skapa lögmál valdaelítunni til framdráttar.

Þrátt fyrir það þá virðast margir telja að forðast eigi álit almennings með öllum tiltækum ráðum. Bent er á að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, verði að sjá til þess að framkvæmdavaldið hafi nægjanlegan meirihluta til að spýta yfir okkur lögum og reglum án hindrunar. Í því felist stöðugleiki og áframhaldandi hamingja almennings. Kosningar séu ávísun á óstöðugleika. Þess vegna verða allir að sýna ábyrgð og ekki sé stætt á því að standa við prinsipp ef þau verða þess valdandi að almenningur verði fyrir þeirri ógæfu að lenda í kosningum. Kosningum sem eru bara óstöðugleiki og ekki nokkrum manni til gagns, eða þannig sko.

Þess vegna finnst mér ábyrgð kjörinna fulltrúa vera umdeilanleg. Er hún einskorðuð við stöðugleika innan veggja Alþingis? Eða er hún á einhvern hátt tengd því valdi sem tilheyrir almenningi og er tímabundið fært í hendur fárra? Þar sem allar forsendur fyrir tilfærslu valds almennings til núverandi stjórnvalda eru brostnar er full þörf á nýju umboði.

Auk þess þegar haft er í huga að hreinsunarstarfið hófst í síðustu kosningum og það sér varla högg á vatni er augljóst að kosninga er þörf sem oftast. Helst einu sinni á ári að minnsta kosti. Öllum þeim sem vilja framgang raunverulegs lýðræðis ætti því að vera ljóst að því meiri æfing fyrir almenning því betra og er eina leiðin til að skapa meistarann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.12.2011 - 20:15 - FB ummæli ()

Samráðsfundur í Grasrótarmiðstöðinni

Á morgun mun Frjálslyndi flokkurinn halda samráðsfund en hann er haldinn á milli  Landsfunda sem eru annað hvert ár. Funurinn verður haldinn í nýju Grasrótarmiðstöðinni að Brautarholti 4 og hefst kl. 13:00.

Dagskráin er eftirfarandi;

Samráðsfundur Frjálslynda flokksins verður haldin laugardaginn þann 3. desember  nk og hefst fundurinn kl: 13, í Grasrótarmiðstöðinni að Brautarholti 4, Reykjavík.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

1. Setning , Sigurjón Þórðarson, formaður.

2. Styrmir Gunnarsson, þjóðfélagsrýnir og fyrrverandi ritstjóri.

3. Lýður Árnason, læknir og stjórnlagaráðsfulltrúi.

Starf vinnuhópa

a) Guðjón Arnar Kristjánsson, velferðar og tryggingamál.

b) Ásta Hafberg, lýðræði og stjórnsýsla.

c) Grétar Mar Jónsson, auðlindir  og sjávarútvegur.

d) Sigurjón Þórðarson,  landbúnaðar- og umhverfismál, samráð við aðra flokka og hreyfingar .

17:30 Samantekt vinnuhópa kynnt og umræður til 18:30.

Ef einhvern tíman hefur verið ástæða til að mæta og ræða málin þá er það núna. Ástandið á Íslandi er mjög sérkennilegt og óvenjulegt í alla staði. Bankahrun sem var orsakað af græðgi og fyrirhyggjuleysi lítils minnihluta landsmanna hefur valdið stórum hluta landsmanna miklu tjóni. Margir hafa misst heimili sín. Margir hafa misst fyrirtækin sín sem þeir hafa byggt upp með miklu striti áratugum saman. Margir hafa misst allar eigur sína og jafnvel heilsuna líka. Þúsundir Íslendinga hafa flúið land.

Velferðakerfið hefur verið skorið veruleg niður.

Lítil elíta hefur náð undir sig bankakerfi landsins og blóðmjólkar þjóðina miskunarlaust. Það er gert með fullu samþykki og blessun fyrstu vinstri stjórnar landsins sem hafði sterkan meirihluta á Íslandi. Henni var í lófa lagið að uppfylla kosningaloforðin en ákvað að gerast strengjabrúða bankavaldsins.

Bankakerfið nánast bannar kjörnum fulltrúm okkar að breyta kvótakerfinu vegna þess að þeir gætu skaðast efnahagslega. Ástæða þess er glæfralegar lánveitingar út á óveiddan fisk sem verður að flokkast sem hæpin veðsetning. Þar með eru veiðimennirnir orðnir skuldaþrælar bankakerfisins og arðurinn af auðlindinni okkar rennur því að stórum hluta inn í bankana. Að bankarnir setji eigin gróða fram yfir afnám mannréttindabrota kvótakerfisins er hugsanlega skiljanlegt en að þeir og LÍÚ samsteypan geti kúgað ráðherra til þess sama sínir svo ekki verður um villst að valdið er ekki hjá almenningi né kjörnum fulltrúum hans.

Þess vegna þurfum við nýja stjórnaskrá þar sem valdið er fært til almennings.

Fréttir frá Evrópu eru skelfilegar þessa dagana. Evran hangir á bláþræði og er þess valdandi að kjörnir fulltrúa Evrópuríkjanna sitja og standa eins og fjármálaelítan/bankarnir vilja. Nú skal sett á stofn yfirþjóðlegt fjármálvald í Brussel. Það mun ákveða fjárlög ríkjanna í ESB. Þar verður sett á oddinn að bæta bönkunum allt hugsanlegt tjón sem þeir verða fyrir án tillits til hversu heimskulega þeir hafa hagað sér. Þetta er svipað og að foreldrarnir afhendi unglingunum á heimilinu krítarkortin sín. Allt annað verður skorið niður eins og velferðin, atvinnuleysi mun verða landlægt og kaupið mun hrapa. Þar með verður öll heimsbyggðin að lokum orðin ein stór „sweatshop“.

Frjálslyndi flokkurinn barðist gegn skuldsetningu fyrir hrun en fékk aðhlátur að launum. Hann barðist fyrir nýrri stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslum til að færa valdið til almennings. Flokkurinn hefur alla tíð barist gegn verðtryggingunni. Auk þess hefur flokkurinn verði einna ötulasti talsmaður þess að hið illræmda kvótakerfi verði aflagt og mannréttindabrotum linni þar með á Íslandi. Flokkurinn hefur barist fyrir auðlindum í þjóðareigu og þess vegna ásamt mörgum öðrum ástæðum verið andsnúinn aðild að ESB.

Flokkurinn hefur aldrei fengið náð fyrir augum fjármálaelítunnar á Íslandi og þess vegna hefur starf hans einkennst af baráttu einstaklinga fyrir hugsjónum sínum. Fjórflokkurinn hefur lifað góðu lífi fjárhagslega vegna þess að hann hefur ekki skort fjármuni elítunnar. Enda virðast kosninglaoforð fjórflokksins eingöngu notuð í aðdraganda kosninga en ekki eftir þær.

Ég hvet alla hugsandi einstaklinga til að mæta og rökræða málin. Um kvöldið verður glögg og gleðskapur og aldrei að vita nema að menn verði eitthvað gleggri þegar degi tekur að halla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.11.2011 - 20:20 - FB ummæli ()

Hvers vegna skuldum við peninga

Einfalda svarið er að við tökum lán. Við tökum lán vegna þess að við höfum ekki nægjanleg verðmæti í augnablikinu. Þess vegna réttum við höndina inn í framtíðina og sækjum okkur verðmæti þaðan. Hluti af verðmætasköpun framtíðarinnar er því sett í pant og hún verður því minni þegar á henni þarf að halda.

Þar sem nánast allir skulda; einstaklingar, fyrirtæki og ríkissjóðir, er ljóst að núverandi verðmætaeign viðkomandi dugar ekki. Samkvæmt því lifa allir þessir aðilar um efni fram. Þess vegna er það borðleggjandi að minnka þarf kostnað.

Gáfulegast er að minnka þann kostnað sem hefur minnst almenn áhrif á viðkomandi. Einnig þann kostnað sem hægt er að minnka með einföldum aðgerðum frekar en sparðatíningi út um allt.

Peningar eru búnir til af einkabönkum og þeir hafa einkaleyfi á því. Til að fá peninga þurfum við að fá þá lánaða hjá bönkunum og síðan að endurgreiða þeim þá. Til þess að geta endurgreitt bönkunum fyrir lánið þurfum við að skapa verðmæti, þ.e. það sem sumir kalla að vinna. Sumir hafa reiknað það út að kostnaður þjóðfélaga vegna einkaleyfis bankanna á peningamyndun sé allt að 40%. Þar sem um 80% almennings ber þessa 40% byrði má draga þá ályktun að ef kostnaður vegna peningamyndunar yrði núllaður fyrir þennan hóp þyrftu viðkomandi einstaklingar að vinna 40% minna eða þá að taka minni lán.

Peningar voru stórkostleg uppgötvun á sínum tíma til að einfalda viðskipti með framleiðslu. Hægt var að geyma tímabundið verðmæti í peningum til að hægt væri að skiptast á vörum sem þegar var búið að framleiða. Bönkunum hefur tekist að snúa þessu við og núna þarf fyrst peninga áður en að framleiðslu kemur.

Þýskaland var að selja ríkisskuldabréf um daginn og það gekk ekki vel. Mörgum varð um og ó. Þýskaland er að reyna að verða sér út um peninga með því að selja ríkisskuldabréf. Það gengur þannig fyrir sig að fjármálaráðherra viðkomandi lands skrifar á pappír að hann lofi að endurgreiða þeim sem kaupir bréfið ákveðna upphæð, segjum 100 milljónir evra, auk vaxta. Þeir sem kaupa ríkisskuldabréf eru bankar. Þegar bankarnir hafa keypt ríkisskuldarbréfið þá búa bankarnir til peninga til samræmis við það. Þegar ríkisstjórnir hafa útvegað sér peninga á þennan hátt geta þær byggt skóla, sjúkrahús og slíka hluti.

Bankarnir búa að mestu til peninga úr engu. Þeir eru bara búnir til í tölvum. Þess vegna hafa bankarnir engan kostnað við kaup sín á ríkisskuldabréfum. Síðan þurfa skuldarar bankanna að vinna, framleiða til að endurgreiða bönkunum. Þess vegna er svo mikill auka kostnaður í þjóðfélaginu vegna einkaleyfis bankanna á framleiðslu peninga.

Bankarnir fá vexti ofaná lán sín á peningum sem þeir búa til úr engu. Framleiðslu sem þeir hafa einkaleyfi á að framleiða og allir verða að nota eins og vatn. Matsfyrirtækin sem allir vita að eru beint eða óbeint undir stjórn stóru bankanna skammta í raun bönkunum vaxtaprósentu. Ef land eða fyrirtæki er lækkað í mati þá þarf viðkomandi aðili að greiða hærri vexti. Á þann hátt aukast greiðslur til bankanna.

Þar sem bankarnir búa til peninga úr engu í tölvunum sínum er það með ólíkindum að fólk sé að velta fyrir sér einhverju öðru en þeirri staðreynd þegar kemur að bankastarfsemi. Hvaða máli skipta flókin hugtök um þessa starfsemi þegar við ættum að velta því fyrir okkur að bankar búa til vöru úr engu sem kostar þá ekki neitt og rukka til baka summuna sem er stimpluð á vöruna.

Fullvalda stjórnvöld í hverju landi fyrir sig geta og eiga að búa til sína peninga sjálf án nokkurs auka kostnaðar. Peningar eru bara verkfæri til að geyma þá verðmætasköpun sem við höfum þá þegar skapað. Ef þú sem verktaki grefur holu í jörðina þá er holan verðmætasköpun þín. Þú getur ekki tekið holuna þína út í Bónus og keypt fyrir hana mjólk og þess vegna þarft þú peninga. Peningarnir flytja verðmæti holunnar þinnar út í búð. Þegar peningarnir hafa flutt verðmætin þín og þú hefur fengið önnur verðmæti í staðinn þá hefur þú loksins fengið greitt fyrir holuna þína. Peningarnir voru bara millistig, flutningsmiðill. Verðmætin eru í holunni þinni og þeim vörum sem þú fékkst að lokum fyrir holuna þína. Þess vegna eru peningar í eðli sínu verðlausir.

Ef við viljum spara og minnka lántökur  þá er það fyrsta skrefið að taka einkaleyfið af bönkunum á því að búa til peninga okkar. Sú starfsemi er allt of valdamikil svo henni sé óhætt hjá einkafyrirtækjum. Eins og við höfum séð þá skapar einokun til peningamyndunar bönkunum slík völd að þeir stjórna löndum og heilu heimsálfunum. Er það þannig sem við viljum hafa það?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.11.2011 - 19:42 - FB ummæli ()

Hálsól ESB

Þetta bara gerðist, það er engum að kenna og við erum bara komin hingað. Ekkert við því að gera og best að halda áfram uppteknum hætti. Láta lítið fara fyrir sér og vona að maður sleppi þá með skrekkinn.

Það ætti flestum að vera ljóst að það er fátt sem bara gerist af sjálfu sér. Það þarf eitthvað meira til. Þegar kemur að efnahags- og peningamálum þá er það græðgi þeirra sem eru í betri aðstöðu til að sópa til sín sem mestan  auð sem ræður för. Vegna þess að þeir eru í valdaaðstöðu til að láta slíkt gerast fellur það vel að kalla þá auðvald. Vald þeirra byggist á því að skuldsetja okkur hin og telja okkur trú um að allar skuldir skuli endurgreiða hvað svo sem það kostar. Jafnvel skuldir sem við stofnuðum ekki til og eru því ekki okkar og eru því ólögvarðar skuldir.

Skuldir sem við tókum á okkur byggðu á ákveðinni framtíðarsýn um ákveðnar tekjur. Núna í kreppunni höfum við ekki möguleika á því að standa í skilum. Ástandið er sambærilegt við uppskerubrest. Áður fyrr gat lánadrottinn tekið jörðina, búfénaðinn og jafnvel eiginkonu bóndans upp í skuldina. Jafnvel þó að bóndinn hefði aldrei sett konuna sem pant upp í skuldina.

Sama er upp á teningnum í dag í Evrópu. Heilu Evrópulöndin eru undir stjórn lánadrottna heimsins með aðstoð AGS, ESB og Seðlabanka Evrópu. Þar er gömul vísa endurtekin sem löndin í suðri hafa þurft að botna endurtekið. Allt sem lánadrottnana þyrstir í er tekið upp í skuldir; landsvæði, auðlindir og ríkisfyrirtæki. Til að samfélög manna geti endurgreitt sem mest af skuldum eru skattar hækkaðir og allur kostnaður minnkaður með niðurskurði. Sem aukabónus tekst stórfyrirtækjum að lækka launakostnað sinn í leiðinni.

Andy Storey lýsir þessu vel í þessari grein um ástandið á Írlandi. Af frásögn hans og annarra og fleiri og fleiri er það ljóst að ESB gengur erinda lánadrottna gegn hagsmunum almennings í Evrópu. Þess vegna er það augljóst að ESB er hertekið af bankaelítunni og öðrum lánadrottnum. Svipað ástand er víða annar staðar s.s. á Íslandi og í Bandaríkjunum. Eins og Íslendingar fengu að finna fyrir við síðustu Alþingiskosningar þá skipti litlu að skipta um ríkisstjórnarflokka því áfram héldu lánadrottnar að stjórna og innheimta.

Meðan almenningur sættir sig við skuldina eins og hundur hálsólina mun ekkert breytast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur