Miðvikudagur 19.10.2011 - 20:39 - FB ummæli ()

Tómatsósa og Bankar

Það eru margir sem upplifa eða vita að bankakerfið stjórnar veröldinni. Þeim sem skynja þetta fer fjölgandi. Mótmæli víðsvegar um heiminn bera þess merki því að það eina sem þau öll hafa sameiginlegt er gagnrýnin á bankakerfið. Í Evrópu sjáum við gríðarlegan niðurskurð og væntanlega örbirgð. Stjórnvöld í viðkomandi löndum svara gagnrýni þegna sinna á þann hátt að þetta sé gert að kröfu lánadrottna. Annars fái ríkisstjórnir ekki frekari lán.

Það er því staðfest að þeir fulltrúar sem fólkið kaus sem valdhafa eru ekki valdhafar. Hitt er líka ljóst að fólkið kaus aldrei bankakerfið til að fara með valdið fyrir sig. Þess vegna er krafan um endurreisn lýðræðisins svo hávær um allar álfur.

Ef við breytum bankakerfinu í venjuleg fyrirtæki eins og dekkjaverkstæði eða blómabúð þá breytist margt. Slík fyrirtæki geta farið á hausinn í kyrrþey og lotið lögum löggjafans.

Þá væri lýðræðið endurreist því þá væru þeir sem við kjósum hrædd við okkur en ekki bankana. Ég veit ekki til þess að Steingrímur sé hræddur við dekkjaverkstæði en ég veit að hann er skíthræddur við banka og aðra lánadrottna.

Þar sem bankakerfið og fylgifiskar þess hugsa mest um skammtímagróða þá eru þeir í andstöðu við hið eðlilega gangverk náttúrunnar. Hraðamet í gróða krefst þess að auðlindir séu fullnýttar löngu áður en börnin okkar komast á legg. Þess vegna mun óskert valdastaða bankakerfisins ganga af jörðinni dauðri fyrr en varir.

Vald bankakerfisins er að það hefur einkaleyfi á því að framleiða peningana. Þess vegna verðum við að afnema einkaleyfi bankakerfisins til að framleiða peningana sem við notum. Megin ástæðan, fyrir utan að það skapar bönkunum óeðlilegt vald, er að bankarnir lána okkur peningana. Við það að þeir lána okkur peningana þá erum við komin í skuld við bankana. Þegar peningar eru búnir til sem skuld þá þurfa allir að vinna til að framfleyta sér og líka til að endurgreiða bönkunum fyrir lánið af peningunum. Þar með þurfum við að vinna tvöfalt.

Ef ríkið þarf peninga þá þarf það að taka þá að láni frá bönkum í formi ríkisskuldabréfa/víxla, þ.e. ríkið verður að skuldsetja sig. Bankinn býr til peningana fyrir ríkið og fær skuldaviðurkenninguna í staðinn. Síðan getur ríkið búið til skóla eða eitthvað annað.

Þessi sérstaða bankanna fram yfir blómabúðina skapar þeim völd. Þau völd eru svo afgerandi að þeir stjórna kjörnum fulltrúum um víða veröld. Utaná þessu valdi er síðan hirð annarra fjármála- og stórfyrirtækja sem blandast og tengjast því með margvíslegum hætti.

Peningar eru verkfæri alveg eins og hamar. Þú getur haft þínar skoðanir á því hvað hamar er en það er samt alltaf á endanum eingöngu siðferðileg ákvörðun hvort þú neglir nagla eða drepur mann með hamri. Þú getur því haft þínar skoðanir á því hvað peningar eru en það er líka alltaf siðferðileg ákvörðun hvernig þú vilt nota peninga.

Ef peningar eru framleiddir af almenningi þá er hægt að framleiða peninga ókeypis. Þá framleiðir almenningur fyrst verðmætin og fær síðan afnot af peningum án skuldsetningar til að flytja verðmætin í framleiðslunni frá einum stað til annars. Ef við framleiðum ekkert þá þurfum við enga peninga. Þess vegna er alltaf sköpun verðmæta fyrst og síðan framleiðsla peninga til flytja verðmætin til.

Ef peningar yrðu framleiddir í samræmi við framleiðsluna á verðmætum yrði engin kreppa því kreppan í dag skapast af skorti á peningum en ekki mannafla né hráefni. Ef framleiðslan er að grafa skurð þá er mjög erfitt að taka skurðinn með sér í Bónus til að kaupa mjólk. Þess vegna eru peningar bara verkfæri til að flytja verðmætin okkar frá einum stað til annars. Þess vegna eru peningar í sjálfu sér verðlausir.

Afleiðingin af peningaframleiðslu án skuldsettningar yrði sú að við gætum unnir helmingi minna með sömu lífsgæðum.

Afleiðingin af peningaframleiðslu án skuldsetningar yrði að ríkið þyrfti varla að leggja á neina beina skatta því þeir endurspegla kostnað ríkissins við lántöku á peningum frá bönkum.

Afleiðingin af endurreisn lýðræðisins yrði að markmið hins venjulega manns yrði stefna stjórnvalda, ekki stefna þeirra sem vilja hámarksgróða á sem skemmstum tíma.

Stefna hins venjulega manns er að lifa í friði og spekt. Koma börnum sínum á legg og varðveita náttúruna vegna barnanna. Samkeppni um lífsins gæði liggur ekki hjartanu næst hjá hinum venjulega manni heldur umhyggja. Að verða ríkasta líkið í garðinum er ekki keppikefli hins venjulega manns. Við lifum í hópum og því er heildarafkoma hópsins mikilvægust. Þeir sem elda stríð og ástunda samkeppni innan hópsins lifa skemur það hefur reynslan kennt okkur.

Samheldni, samhjálp og umhyggja er það sem heldur lífi í hópnum. Þess vegna er einkaleyfi bankakerfisins á valdinu til að framleiða peningan okkar stílbrot. Þeir eru eins og mávur sem hefur verið ataður tómatsósu. Hópurinn getur ekki tekið áhættuna af stílbrotum.

Því fyrr sem við sem hópur bregðumst við því minni skaði fyrir hópinn, en við munum bregðast við, það er bara spurning um hvenær.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.10.2011 - 20:59 - FB ummæli ()

15 Október eða hundur í bandi

Á morgun er mikilvægur dagur. Á morgun er 15 október. Á morgun hefur fjöldahreyfing um allann heim gefið þér möguleika á því að mótmæla. Þú getur mótmælt hvernig er komið fyrir þér. Það er minnihluti þjóðarinnar sem á fyrir skuldum og getur staðið í skilum. Enn minni hluti þjóðarinnar græðir á kreppunni. Ef þessir hópar eru sáttir við að hinir borgi brúsann fyrig þá sitja þeir heima.

Við hin mætum því við erum ekki sátt við að tapa aleigunni, ævistarfinu og heilsunni bara til þess að fámenn klíka hafi það gott. Að spilavítishegðun bankakerfisins sé færð yfir á almenning, skattgreiðendur, án minnstu mótstöðu er í hæsta máta óeðlilegt. Hvernig er hægt að sætta sig við að skuldir bankakerfisins séu okkar, skuldir sem við höfðum ekkert með að gera þegar til þeirra var stofnað. Skuldir sem við fengum enga bónus greiðslur fyrir að stofna. Skuldir sem við fáum í hausinn þegar það hentar bankakerfinu.

Við verðum að skilja hvers vegna kjörnir fulltrúar okkar fara að einu og öllu eftir fyrirmælum bankakerfisins. Hvers vegna eru kjörnir fulltrúar okkar ekki hræddir við okkur. Hvers vegna eru kjörnir fulltrúar okkar meira hrædddir við bankana? Hvers vegna upplifum við kjörna fulltrúa okkar sem millilið, valdið er bankakerfisins, það hefur alltaf síðasta orðið. Kjörnir fulltrúar okkar tilkynna okkur bara ákvörðun bankakerfisins að við skulum borga fyrir mistök bankanna.

Ef kjörnir fulltrúar okkar eru bara sendiboðar bankakerfisins er ekkert lýðræði. Við höfum ekki kosið neina bankastjóra. Þess vegna eru kosningar bara formsatriði. Það sannast best á reynslu okkar Íslendinga. Hverju lofaði ekki Steingrímur, hverjar eru efndirnar? Hann er bara vikapiltur bankakerfisins, það hefði ekki skipt neinu máli hvern við hefðum kosið.

Bankarnir eru einvaldar í dag, þeir stjórna!

Þú getur mótmælt stöðu þinni!

Þú getur mótmælt að lýðræðið er liði undir lok!

Þú getur krafist þess að lýðræðið verði endurreist!

Þú verður að skilja að vald bankanna er valdið til að framleiða peningana okkar. Ef einhver þarf pening, ríki, sveitafélög, fyrirtæki eða einstaklingar, þá verða þeir að fá þá hjá bönkunum. Til að almenningur fái aftur valdið þarf almenningur aftur að fá valdið til að búa til peningan sína á eigin forsendum. Þegar við höfum endurheimt valdið til að búa til peningana okkar þá er fyrst kominn timi til að ræða pólitík. Þangað til erum við hundur í bandi.

Mætum öll á Lækjartorg kl 15:00 á morgun, 15 okt 2011!!


Alþjóðleg yfirlýsing

15. október — Sameinumst í baráttunni fyrir hnattrænum breytingum

Tilkynning frá 15. októberhreyfingunni – Mótmæli gegn fjármálaveldi og alvöru lýðræðis krafist í 662 borgum í 79 löndum.

Sjá Facebook viðburð.

Sjá vefsíðu um viðburðinn á heimsvísu.

Hinn 15. október mun almenningur um heim allan fara út á götur og torg. Frá Ameríku til Asíu, frá Afríku til Evrópu rís fólk upp til að krefjast réttar síns og alvöru lýðræðis. Tími er kominn til að við sameinumst í friðsömum mótmælum um heim allan.

Núverandi valdhafar vinna einungis í þágu örfárra og hundsa bæði vilja meirihlutans og þann fórnarkostnað sem mannfólk og umhverfi verður að bera. Þetta er óþolandi staða sem verður að taka enda.

Við munum einum rómi gefa stjórnmálamönnunum, og fjármálaelítunni sem þeir þjóna, til kynna að það er okkar, fólksins, 99 prósentanna, að ákveða okkar eigin framtíð. Við erum ekki vörur í þeirra höndum til að höndla með, né heldur í höndum bankamannanna sem eru ekki fulltrúar okkar.

Hinn 15. október ætlum við að hittast á götum úti og hefja þær hnattrænu breytingar sem við viljum sjá. Við munum mótmæla friðsamlega, ræða saman og skipuleggja okkur þar til við náum þeim fram.

Tími er kominn til að sameinast. Tími er kominn fyrir þá að hlusta.

Almenningur um allan heim, rísum upp 15. október.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.10.2011 - 22:11 - FB ummæli ()

Að bjóða fram klofið og að Guð blessi Ísland

Ég er vantrúaður á það að Guð hafi frá upphafi kreppunnar farið í manngreinarálit. Það virðist sem stærsti hluti þjóðarinnar hafi borið skarðan hlut frá borði. Bankarnir hafa fengið allt sitt á silfurfati en almenningur étur það sem úti frýs. Það er sorgleg staðreynd að Steingrímur og Jóhanna hafi stuðlað að þessari misskiptingu og í staðinn hafa þau fengið að sitja á stólum sínum. Það versta er að þau virðast ekki átta sig á þessari skiptingu og telja alla þá sem hafa tapað aleigunni og eru að kvarta séu bara ósammvinnuþýðir og óþjóðlegir.

Guð blessi þjóðina sagði Geir eftir að Markaðurinn hafði steypt okkur til helvítis, sennilega soldið seint því spurningin er hversu innangengt er fyrir Guð þangað.

Steingrímur og Jóhanna hafa ekki sömu auðmýkt til að bera og Geir því þau telja sig í guða tölu. Þau eru óskeikul enda hafa lærifeður Geirs og Hannesar Hólmsteins frá Whasington gefið vinstri stjórninni okkar heiðursverðlaun nýfrjálshyggjuakademíunnar í AGS. Til að kórona klámið verður sérstök helgistund í boði arðræningjanna í Hörpunni þar sem strengjabrúðurnar Jóhanna og Steingrímur munu lofsyngja kvalara almennings á Íslandi.

Ef Einar Olgeirsson, Gvendur Jaki og Co munu ekki snúa sér við í gröfinni þá veit ég ekki hvað.

Það er að renna upp fyrir íslenskri þjóð að í kjölfar bankahrunsins hefur orðið gríðarleg eignartilfærsla, ekki bruni, því að viss hópur hefur hagnast verulega á kostnað hins. Þeir sem hafa orðið undir hafa engin tök á því að ná fram réttlæti nema með því að berja tunnur eða viðlíka. Um leið er blaðamannastéttin þess umkomin að tala niður kröfur almennings um réttlæti. Spurning er hvort fjórða valdið innan lýðræðsisskipulags hafi lotið jafn lágt og síðan á dögum Þriðja Ríkissins.

Almenningur hefur í sívaxandi mæli um allan heim gert sér grein fyrir því að bankarnir stjórna fulltrúum og þingmönnum almennings og hafa fjölmiðlana í vasanaum enda eiga fjármálaöflin fjölmiðlana. Almenningur hefur safnast saman á torgum borga og krafist breytinga. Þar sem almenningur hefur náð árangri hefur hann verið sameinaður en ekki sundraður, „that goes without saying“.

Mótmælendur Íslands njóta ekki þeirrar gæfu að vera sameinaðir en þess njóta núverandi valdhafar og munu gera það meðan svo er. Ýmis sérviska, draumórar og eiginhagsmunapot hefur séð til þess. Við getum tekið til okkar orðræðu setuliðs Wall Streets;

„Let me urge the occupiers to ignore the usual carping that besets powerful social movements in their earliest phases. Yes, you could be better organised, your demands more focused, your priorities clearer. All true, but in this moment, mostly irrelevant. Here is the key: if we want a mass and deep-rooted social movement of the left to re-emerge and transform the United States, we must welcome the many different streams, needs, desires, goals, energies and enthusiasms that inspire and sustain social movements. Now is the time to invite, welcome and gather them, in all their profusion and confusion.“ Richard Wolff

Í stuttu máli þurfum við að legga á hilluna rasisma gagnvart ólíkum skoðunum hvors annars og hafna eiginhagsmunapoti. Við verðum að sameinast eins og setulið ýmissa borga gera í dag. Við verðum að hafna sérvisku. Við verðum að hafa það að leiðarljósi að óvinur þinn er óvinur minn. Við verðum að skilja það að ef við bjóðum fram klofið þá þá mun fjórflokkurinn smeygja sér þar inn og sundra okkur.

Guðs blessun væri þá í því fólgin að grasrótin stæði vel saman, stæði staðföst í fæturna og án þess að bakka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.10.2011 - 19:11 - FB ummæli ()

Fréttatilkynning frá Tunnunum

Fréttatilkynning frá Tunnunum

Af gefnu tilefni viljum við taka það fram að tunnumótmælin, undir stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðið mánudagskvöld, voru ekki að undirlagi neins stjórnmálaafls og krafa þeirra snerist á engan hátt um nýjar kosningar.

Kröfur okkar komu skýrt fram á viðburðinum sem var stofnaður á Facebook, í fréttatilkynningum sem voru sendar á fjölmiðla og svo í bréfi sem var sent á alla þingmenn. Kröfur okkar snúast í stuttu máli um leiðréttingu á stöðu lántakenda, verulegar lýðræðisumbætur, uppgjöri gagnvart raunverulegum hrunvöldum og uppstokun á fjármálakerfinu.

Frá því í fyrra höfum við mælt með lýðræðislegri samvinnu til að vinna að lausnum þess samfélagsvanda sem núverandi stjórnarkreppa í landinu viðheldur. Við hörmum þau undanbrögð sem við höfum upplifað og horft upp á í samskiptum stjórnvalda við Hagsmunasamtök heimilanna.  Þessum augum lítum við þau viðbrögð forsætisráðuneytisins, við undirskriftarlistum Samtakanna, að kalla saman sama sérfræðingahóp og í kjölfar stóru tunnumótmælanna í fyrra. Við fordæmum þessi undanbrögð varðandi kröfur nær 35.000 Íslendinga ásamt því að hvorki Hagsmunasamtökin né Tunnurnar hafi verið höfð með í ráðum.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sem mynduðu kyrrláta en háværa samstöðu fyrir framan alþingishúsið síðastliðið mánudagskvöld um kröfur okkar um uppbyggingu samfélags sem gerir ráð fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla og viljum skora stjórnvöld að taka sig saman í andlitinu og fara að hlusta. Að öðrum kosti ætti stjórnmálastéttin öll að stíga hógvær til hliðar og gefa þjóðinni tækifæri til að skipa óflokksbundna sérfræðinga í bráðbirgða- og/eða verkefnisstjórn. Sú leið er fær undir þeirri stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson, fyrrverandi forseti, skapaði á sínum tíma með skipun utanþingsstjórnar.

————————————————————————————————————————-

Óneitanlega er viss gjá sem þarf að brúa, eða hvað?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.9.2011 - 01:46 - FB ummæli ()

Laugardagurinn okkar eða þeirra

Það eru áhyggjur vegna reiðinnar í samfélaginu og sumir vilja troða henni niður um einhverja trekt svo hún valdi sem minnstum skaða. Sömu aðilar sjá ekki orsakir reiðinnar heldur upplifa hana sem eitthvað sem skyggir á útsýnið úr fílabeinsturninum. Vandamálið við reiði almennings er ekki skortur á áfallahjálp. Flestir þeir sem eru reiðir eru vel þroskað og sjálfbjarga fólk sem veit ósköp vel hvernig á að sjá sér og sínum farborða. Almenningur hefur verið sviftur möguleikanum á að bjarga sér á eigin spýtur og þeir sem geta það ekki hafa verið sviftir öryggisneti samfélagsins. Hjálpastofnanir reyna að grípa þá sem eru í frjálsu falli.

Reiðin í dag er miklu frekar einkennandi fyrir dýr sem er lokað inní búri. Það getur ekki skilið hvers vegna það fær ekki að njóta alls þess sem er allt um kring um búrið.

Forseti Alþingis telur sennilega að dýrið í búrinu sofi út á laugardagsmorgnum.

Það sem almenningur sér er að bankarnir eru í gjörgæslu stjórnvalda. Bankarnir fá skotleyfi á almenning og síðan fá þeir að liggja á hræinu og sjúga blóðið úr honum í ró og næði. Almenningur skilur hvatir bankanna en vandamálið er að skilja hegðun stjórnvalda. Það er augljóst að stjórnvöld setja hag fjármagns ofar hag almennings. Almenningur upplifir að fjármagnið, bankarnir eigi alltaf síðasta orðið en ekki kjörnir fulltrúar okkar. Það er því augljóst að bankarnir, Wall Street stjórna kjörnum fulltrúm okkar. Þess vegna er málið að kjörnir fulltrúar okkar og framkvæmdarvaldið sé hræddara við okkur en við bankana.

Sonur minn sagði við mig, pabbi, ég skil bankana, ég skil Steingrím prinsipp lausan mann en ég skil ekki að þið sættið ykkur við þetta.

Þess vegna hlýtur krafa okkar á laugardaginn að vera að setja manngildið ofar fjármagni. Peningar eiga að vera verkfæri okkar en ekki þrælahaldarar.

Ok, ef við viljum breytingar þá er um að gera að krefjast breytinga okkur í hag fram yfir hag fjármagnsins og við þurfum að neyða okkar kjörnu fulltrúa til að fara að vilja okkar. Ef við sameinumst ekki um það er bara við okkur sjálf að sakast. Ef við getum ekki brotið odd af oflæti okkar og unnið með sem flestum og sameinast, óvinur þinn er óvinur minn, munum við ekki ná árngri.

Við skulum mæta á laugardaginn á Austurvöll og velta fyrir okkur hver er óvinur okkar. Við skulum sameinast gegn honum. Við skulum ekki velta fyrir okkur hoppikastala, tunnum, skemmtiatriðum eða einhverjum jólasveini sem við kunnum ekki við í hópnum. Við skulum ekki sundra okkur. Við verðum að sameinast til að öðlast styrk, ekki fyrir okkur heldur fyrir börnin okkar svo þau  búi áfram á landinu okkar. Einhver verður að heimsækja okkur á elliheimilið, eða hvað?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.9.2011 - 22:24 - FB ummæli ()

Ertu núll eða komma í bókhaldi bankanna

Bankarnir fengu lánin okkar á hálfvirði en rukka okkur í topp og ef við getum ekki borgað þá taka bankarnir eigurnar af okkur. Hagnaður bankanna eru tugir milljóna á dag. Bankarnir seldu okkur ólögleg lán sem þeir vissu að voru ólögleg. Það heitir að syndga upp á náðina og er eina syndin sem Guð almáttugur getur ekki fyrirgefið. Það gátu aftur á móti Hæstiréttur og framkvæmdavald Íslands og er það vegna þess að Ísland stjórnast af hefðum en ekki lögum.

Margir trúðu því að fyrsta stóra vinstri stjórnin á Íslandi myndi huga að lítilmagnanum en ekki bankakerfinu. Reynslan hefur sýnt okkur að ekkert breyttist til batnaðar og núverandi ríkisstjórn er jafn auðsveip bankakerfinu og aðrar, bæði hér og erlendis. Það er sameiginlegur raunveruleiki hjá mörgum þjóðum að það skiptir engu máli að kjósa sér nýja fulltrúa til að stjórna fyrir sig. Eftir sem áður er hagur banka og fjármagns hafður í fyrirrúmi.

Á Alþingi okkar sitja fulltrúarnir sem við kusum til að fara með valdið sem tilheyrir okkur. Framkvæmdavaldið-ríkisstjórnin eru afkvæmi þingsins. Þessir aðilar sem við kusum fyrir okkur er stjórnað af bönkunum en ekki okkur. Þeir eru strengjabrúður bankanna. Fulltrúarnir eru skíthræddir við bankana en ekki okkur vegna þess að bankarnir eru valdameiri en fulltrúarnir okkar sem hafa þó valdið okkar.

Hegðun stjórnvalda um allan heim er svo lýsandi fyrir þá staðreynd að bankar og fjármálaöflin stjórna en ekki kjörnir fulltrúar. Það endurspeglast líka í kröfum mótmælenda á fjölmörgum stöðum, krafan um aukið lýðræði, um aukna möguleika almennings til að stjórna en ekki vera meðhöndlaður sem hver önnur vara sem má versla með.

Á næstunni gefst Íslendingum kostur á að gefa til kynna hvort þeir eru sáttir við að vera verslunarvara bankanna, núll og kommur í bókahldi þeirra, eða hvort landsmenn telji sig eiga heimtingu á réttlæti. Mánudaginn 26. september verður klukkan 20 í Háskólabíó fundur um lánamálin. Lögbrotin sem fylgja þeim gjörningum eru svo ljósfælin að það eitt að fá einhvern, löglærðan eða ekki, til að tala máli lögbrjótanna hefur reynst nánast ógjörningur.

Það er lýðræðisleg skylda almennings að gefa til kynna með afgerandi hætti ef traðkað er á okkur. Með góðri fundarsókn komast skilaboðin til skila. Að sama skapi gefur fámenni valdhöfunum vissuna fyrir því að endanlegur sigur sé unnin.

Framtíðin er í höndum almennings sem þarf að gera sér grein fyrir því að valdið er hans og ákvörðunin líka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.9.2011 - 16:52 - FB ummæli ()

Hver veldur lýðræðinu

Það er ekki sjálfgefið að fólk taki sér tima til að safnast saman og mótmæla á opinberum vettvangi. Þrátt fyrir það hafa mótmæli verið stunduð um langan aldur þar sem því hefur verið komið við. Margir hópar víðsvegar um heiminn eru núna að stefna fólki saman til að mótmæla.

Óhugnalegar afleiðingar græðginnar blasa við. Gróði er eini löglegi samskiptamáti einstaklinga. Manneskjan er sem hlutur til sölu með verðmiða á sér. Ótakmarkað frelsi til að auðgast samtímis sem vasaþjófum eru settar þröngar skorður. Valdhafarnir eins og úr öðru sólkerfi þegar þeir tala. Fátækt og hungur í engum tengslum við birgðastöðu heimsins.

Almenningur hefur reynt það ítrekað að kjósa mismunandi pólitíska flokka án þess að mikið breytist. Alltaf virðast peningaöflin, gróðinn ráða öllu.

Þess vegna er það ekki sérkennilegt að margir þeirra sem mótmæla í dag eru að því vegna þess að þeir upplifa það svo sterkt að það er eitthvað mikið að, það er eitthvað mikið að því kerfi sem við búum við. Þess vegna fer fólk og mótmælir og krefst breytinga og vill taka fullann þátt í því að greina og leysa vandann. Þess vegna einkennast margar mótmælastöður af fundarhöldum þar sem almenningur í sameiningu reynir að leita lausna.

Þess vegna þurfa mótmæli ekki að vera skipulögð um einhverjar mjög þröngar ákveðnar kröfur. Mótmælafundur getur verið lifandi samkoma. Þar geta menn rökrætt í mörgum formum og komist að niðurstöðu. Þess fleiri sem koma að þeim ákvörðunum því betra.

Það sem hefur einkennt umræðuna á Vesturlöndum er að kjörninr fulltrúar almennings eru ofurseldir valdi bankakerfisins. Samtímis viðurkenna menn að sú staða hefur lengi verið hjá fátæku þjóðum heimsins og núna reyna Vesturlandabúar að læra af reynslu þeirra. Mikil umræða er um hvernig standi á því að bankar stjórni en ekki kjörnir fulltrúar og án tillits til þess hversu oft almenningur skiptir um fulltrúa.

Er það hugsanlegt að skynjun almennings um villuna í kerfinu okkar sé þessi að bankavaldið sé ofar löggjafarvaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Ef einkafyrirtæki stjórna grunnstoðum þess lýðræðiskerfis sem við höfum komið okkur upp þá búum við ekki við það lýðræðiskerfi sem við héldum.

Er það þá ekki góð hugmynd að safnast saman og ræða hvort og hvers vegna þetta er svona?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.9.2011 - 23:00 - FB ummæli ()

Chomsky og tjöld á Wall Street

Ég skrifaði færslu um skoðun Chomsky á stöðu lýðræðis í heiminum í dag og finnst mér hann komast vel að orði þegar hann segirBy shredding the remnants of political democracy, the financial institutions lay the basis for carrying the lethal process forward — as long as their victims are willing to suffer in silence“.

Þarna kristallast skoðun hans og margra annarra að fjármálaöflin séu að ganga að lýðræðinu dauðu og þau nái sínu fram vegna þess að almenningur stendur ekki upp og andmælir.

Almenningur á Íslandi orðar þetta þannig „að bankarnir ráði öllu“ og að „það þýðir ekkert að mótmæla“.

Skoðanakannanir víða um heim sýna að almenningur vill allt annað en valdhafarnir. Almenningur vill skera niður útgjöld til hermála en viðhalda eða auka útgjöld til velferðarmála. Oft er þessi skoðun almennings dæmd sem óábyrg eða draumsýn af hálfu valdhafanna. Þess vegna er augljós gjá á milli valdhafa og almennings víða um heim. Almenningur er auk þess meðvitaður um að fjármálstofnanir njóti það mikillar velvildar kjörinna fulltrúa að honum finnst sem fjármálaöflin stjórni en ekki kjörnir fulltrúar.

Víðs vegar um heiminn reyna hópar að sameina almenning í þeim tilgangi að endurreisa lýðræðið, að almenningur fái aftur það vald sem tilheyrir honum samkvæmt lýðræðinu.

Næstu helgi, þann 17. september, ætla bandarískur almenningur að tjalda á Wall Street og vera þar þangað til að Obama hlustar. Krafan er einföld, við erum 99 prósentin og viljum endurreisa lýðræðið.  Samtímis koma fréttir af öðrum viðburðum fyrir framan fleiri kauphallir í heiminum þennan sama 17. September. Í Washington D.C á Freedom Plaza ætlar annar hópur að setjast að eins lengi og hann getur frá og með 6. óktóber. Að lokum eru mjög margir hópar að skipuleggja mótmæli 15. október víðsvegar um heiminn.

Það er því augljóst að mörgum er nóg boðið og ætla ekki að taka örlögum sínum þegjandi og hljóðalaust. Öllum ætti að vera það ljóst að það er mjög óeðlilegt að allir þeir fjármunir sem almenningur skapar renni inn í bankana samtímis og kjör almennings fara stöðugt versnandi. Að kjörnir fulltrúar almennings séu þessu sammála sýnir glögglega að um mjög alvarlegan trúnaðarbrest er að ræða.

Að við kjósum okkur fulltrúa aftur og aftur, í öllum regnbogans litum, sem bankastofnanir segja síðan fyrir verkum er augljós merki þess að lýðræðið er hætt að virka.

Mjög mörgum á Íslandi finnst það ekki þjóna tilgangi að mótmæla því það verða engar breytingar í kjölfarið. Það kom mjög skýrt í ljós eftir mótmælin í október í fyrra þegar valdhafarnir sögðust ætla að minnka skuldir almennings en fengu ekki leyfi hjá bönkum og lífeyrissjóðunum. Þess vegna verða íslenskir mótmælendur einnig að taka upp egypsku aðferðina og hertaka torg með tjaldbúðum til langframa.

….. as long as their victims are willing to suffer in silence“.


Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.9.2011 - 22:39 - FB ummæli ()

Chomsky, rétthugsun og tjöld

,,Völdin hafa færst frá kjörnum fulltrúm og opinberum stjórnvöldum til fjármálafyrirtækja. Forríkir athafnamenn eru orðnir valdastétt sem öllu ræður og þeir sem stjórna eru forstjórar í bankaheiminum og fjárfestingarfyrirtækjum. Þessir ráðamenn eru tiltölulega fáir en þorri almennings er alþjóðlegt vinnuafl undir þeirra stjórn. Það er ekki hægt að tala um lýðræði þegar örfáir menn ráða yfir auðmagninu.”

Ég stel þessari tilvitnun frá Smuginni án leyfis en með þökkum. Málgang Steingríms lýsir í hnotskurn óafvitandi tilveru fyrrnefnds Steingríms.

Ef Noam Chomsky segir þetta þá er það sjálfsagt rétt enda hefur sjálfkjörin elíta landsins mætt í dag í Háskólabíó og hlustað á hann. Allir hafa kinkað kolli og sammælast um að öldungurinn sé voða bræt. Í raun er hann bara að segja það sem margir hafa sagt síendurtekið áratugum saman.

Mesta eign Íslendinga, fiskurinn, er undir yfirráðáum örfárra einstaklinga. Kvótaeigendur stjórna Mogganum og umræðunni og Sjálfstæðisflokkurinn er einkaverkfæri kvótaeigenda á pólitíska sviðinu. Auk þess eru lögfræðingar og hagfræðingar innan fræðasamfélagsins keyptir til að sinna skoðanamyndun í þágu kvótaeigenda. Völd kvótakerfisins yfir kjörnum fulltrúum okkar er það sem Chomsky er að lýsa og kemur fram í fyrrnefndri tilvitnun.

Vinstri sinnaðir einstaklingar og græningjar styðja auðvaldið í kvótavæðingunni sökum ótta síns við að síðasti fiskurinn verði veiddur. Ekkert er fjarri raunveruleikanum en sameinuð koma viðkomandi öfl í veg fyrir að skynsemin fái notið sín. Enn og aftur hefur Chomsky rétt fyrir sé og enn og aftur kinkar elítan kolli óafvitandi að hann er að tala um hana.

Kvótamálið er dæmi um völd fjármagnsins, auðvaldsins eða völd fárra yfir lýðræðinu. Skuldir og framferði bankanna á Íslandi í dag er einnig dæmi um völd fjármagnsins yfir lýðræðinu. Auk þess er Hæstiréttur Ísland undir hælnum, hann hefur samþykkt mannréttindabrot kvótalaganna og aflífun lántakenda á Íslandi.

Því er það ljóst að Chomsky hefur rétt fyrir sér og Ísland er gott dæmi um málflutning hans. Samtímis kinkar íslensk elíta kolli yfir máli hans, sama elíta og kemur í framkvæmd þeim raunveruleika sem hann lýsir.

Óréttlætið, svikin, misbeiting valds, mannréttindabrotin, kúgunin og falsið er öllum ljós ef viðkomandi nennir að bera sig eftir þeim. Samtímis sem íslensk alþýða verður fyrir slíkri kúgun, samtímis og elítan kinkar kolli yfir lýsingu Chomskis á kúgun hennar á almenningi, þá fer íslenskur almenningur í Kringluna og deyfir sársaukan með rápi. Ekki að undra að kúgarar íslenskar alþýðu upplifi hlutverk sitt létt og löðurmannlegt.

Ef einhverjum dettur í hug að sameina íslenska grasrót gegn fjármagninu eru alltaf einhverjir sem vilja eigna sér grarótina sér til framdráttar eða aðrir geta ekki setið við hliðina á einhverjum vegna þess að hann er svona eða hinseigin.

Ekki að undra að íslensk alþýða skellir sér bara í Kringluna.

Meðan Íslendingar sem telja sig hafa pólitíska rétthugsun átta sig ekki á því að við tilheyrum ÖLL þeim 99% sem ráðum engu og lútum stjórn þeirra 1% sem stjórna okkur í skjóli fjármagns þá er lítil von um breytingar til batnaðar. Þá munum við að lokum taka okkar pólitísku rétthugsun með okkur í gröfina engum til gagns nema okkar eigin egói.

Pólitískir rétthugsuðir sem vilja að alþýðan hætti að rápa um Kringluna verða þá að sameinast. Krafan verður að vera að 99% ráði en ekki 1 prósentin. Til þess að það gerist þarf byltingu. Þessir bræt rétthugsuðir sem hafa lesið og pælt svo mikið hafa þá ábyrgð að leiða þá byltingu. Reyndar er uppskriftin svo einföld að ekki þarf neinar háskólagráður né rétthugsun.

Við tökum völdin frá elítunni og það er hægt að gera með friðsamlegum hætti. Við tjöldum á Austurvelli lengi og vel og í nægjanlega fjölmennum hópum þangað til að elítan sér sitt ofvæna og gefst upp. Við erum í raun bara að krefjast þess að valdið okkar sé hjá okkur.

Í raun er um tvennt að ræða, tjöld og þolinmæði, ekki er það mikið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.8.2011 - 20:06 - FB ummæli ()

Vilji er allt sem þarf

„Sá vægir sem vitið hefur meira“.
Upp á síðkastið hef ég velt því fyrir mér hvaða vitleysingur sagði þetta fyrst. Öll lífsreynsla mannsins mælir gegn þessu. Tilvist dýra er í hróplegu ósamræmi við þessa fullyrðingu. Án þess að ég viti hverjir það eru sem barið hafa þetta inn í hausinn á okkur þá tel ég lang sennilegast að um sé að ræða þá sem nenna ekki að berja á minnimáttar og vonast til að þeir gefist strax upp.
Í dag gerðist merkilegur atburður. Heimavarnaliðinu tókst að koma útburði í hámæli með því að þvælast fyrir valdhöfunum.Hópur ungra og vaskra lögreglumanna og kvenna tókst með fjölmennu og samhentu átaki að fleygja miðaldar körlum og kerlingum ofan af þremur tröppum. Fyrr gat sýslumaðurinn ekki brotið sér leið inná heimili fjölskyldunnar.
Nú veit ég ekkert um hagi þessarar fjölskyldu en tel þó að þjóðarbúinu sé það hagstæðara að viðkomandi ali manninn á sínu heimili og komi börnum sínum á legg. Þannig verða þau góðir og gildir skattgreiðendur. Bankinn er sjálf sagt ekki að velta því fyrir sér og fullur af réttlætiskennd vill hann fá skuld sína greidda, hvað sem það kostar. Jafnvel þó að hann hafi svindlað upp skuldina og þar að auki oft með ólögmætum lánum að mati Hæstaréttar Íslands.
Hvers vegna dregur lögreglan ekki bankamenn af stalli sínum og snýr upp á handleggin á þeim?
Jú, vegna þess að það eru bankarnir, lánastofnanir og aðrir valdhafar sem stjórna og þeir gera það í krafti vald síns. Þau eru sterkari og almenningur er minnimáttar.
Þess vegna er vandamálið einfalt, almenningur þarf að vera sterkari en núverandi valdhafar og þar með stjórnar almenningur og þá mun lögreglan snúa upp á handleggina á banksterunum.
Til þess að almenningur verði sterkai en núverandi valdhafar þarf almenningur að sameinast því sameinuð erum við ósigrandi. Sundruð getum við alveg eins verið á útsölu í Kringlunni. Síðan verðum við að gera valdhöfunum tilboð að hætti Guðföðursins, „make him an offer he can‘t refus“
Við verðum að sameinast og gera eitthvað sem veldur því að farið sé að vilja okkar en ekki bankanna. Ef við viljum einhverjar breytingar á framtíð okkar þá gætum við sest að á Austurvelli í stórum hópum og búið þar í tjaldbúðum. Ef við erum nógu mörg og í nægjanlega langan tíma þá kollvörpum við kerfinu. Þar með verðum við valdhafarnir með öllum þeim skyldum sem því kann að fylgja, og kostum.
Þess vegna er ekki við nokkurn annan að sakast en okkur sjálf að ástandið er eins og það er. Ekki er hægt að agnúast út í bankana fyrir að vilja græða á tá og fingri, sérstaklega ekki þegar lögreglan og ríkisstjórnin aðstoðar þá á kostnað skattgreiðenda.
Það erum við sem breytum þessu, það gerir það enginn fyrir okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur